Blik 1965/Blik 25 ára
Hér fá Eyjabúar og aðrir vinir Bliks 25. árgang þess í hendur.
Þegar ég hugleiði allt það starf, sem það kostar og hefur kostað að skrifa og gefa út þetta rit um aldarfjórðungsskeið, þá er mér ríkast í huga samstarf mitt og minna kæru nemenda. Án þeirra starfs- og fórnarvilja, góðvilja og áhuga hefði mér ekki tekizt að vinna þetta verk eins og það hefur verið unnið í hjáverkum með öllum þeim skyldustörfum, sem á starfskrafta mína hafa kallað um langt skeið. Nemendur mínir voru reiðubúnir að létta mér störfin, þegar ég kvakaði. Þeir skrifuðu í ritið, útveguðu drjúgan hluta af auglýsingunum, seldu ritið um allan bæ ókeypis og innheimtu auglýsingareikningana. Mér finnst samstarf
okkar að útgáfu Bliks vera táknrænt um svo margt annað, sem við unnum að saman, t.d. söfnunarstarfið, lagfæringu lóðar í kringum skólahúsið og þó fyrst og fremst samstarfið í kennslutímunum. Eru nokkur undur, þótt ég spyrji stundum sjálfan mig: Hefur nokkur skólamaður á Íslandi nokkru sinni átt yfirleitt betri nemendur en ég?
Ég minnist þess, að eitt sinn dreifðu 80 nemendur Bliki um allan bæ. Eftir
2 1/2 stund höfðu þeir selt 700 eintök af ritinu. Það svarar til þess, að í Reykjavík seldust um 12.000 eintök á svo stuttum tíma. Ég býst við, að þess séu engin dæmi. En ekki nóg með þetta. Nemendur mínir fórnuðu með mér peningum til útgáfu ritsins. Þegar harðnaði í ári fyrir því, gjörðum við með okkur þær reglur, að 20% af tekjum nemendafélagsins ár hvert af skemmtunum í skólanum skyldi renna í útgáfusjóð Bliks. Þetta fjárframlag reyndist stundum öryggið mikla og hjálparhellan, jafnframt því, að allt starf að ritinu hefur verið unnið ókeypis. Aldrei hefur einn eyrir úr skólasjóði runnið til styrktar útgáfunni öll þessi ár. Að sjálfsögðu hefur skólasjóður greitt prentun á skólaskýrslu, og þá klippt og skorið í réttum hlutföllum við
prentunarkostnað að öðru leyti á efni ritsins. Þannig greiddi bæjarsjóður einnig prentun á sögu Bókasafnsins, sem birtist í ritinu 1963.
Ég minnist skólanefndarfundar að Breiðabliki. Þá starfaði skólinn þar. Ég mæltist til þess, að skólasjóður yrði látinn styrkja útgáfu Bliks um 300 krónur — segi og skrifa þrjú hundruð krónur. Sú málaleitun mín hlaut þrefalda neitun, og mér var synjað um bókun á neituninni. Eftir það afréð ég að krjúpa ekki oftar að fótskör þessara meistara — foringja fólksins og menningarvita — um útgáfu Bliks míns. Og ekki vildi ég fyrir nokkurn mun hafa orðið án þess að sitja slíka skólanefndarfundi, þegar meinfýsinn nálúsarhátturinn kúrði undir fundarborðinu og illkvittinn ókindarskapurinn sveif yfir því og kvað stundum við í fundarstofunni. Þá hló mér hugur í brjósti, staðráðinn í að hafa skaðsamlegar samþykktir til hindrunar uppeldis- og skólastarfi að engu, en vinna því meira sjálfur. Þetta var áður en Einar læknir og Torfi bæjarfógeti tóku forustuna í skólanefnd Gagnfræðaskólans. Þökk sé þeim.
Í desember s.l. gat ég ekki staðizt mátið lengur eða haldið gáskanum í skefjum. Ég skrifaði því bæjarstjórn svohljóðandi bréf:
Vestmannaeyjum, 15. des. 1964.
Fyrir áeggjan fjölda bæjarbúa er nú verið að prenta 25. árgang af Bliki, sem verður árbók Vestmannaeyja að þessu sinni. Aðalgrein ritsins verður 2. kafli af Leiklistarsögu Vestmannaeyja, sem Árni Árnason, símritari, skrifaði fyrir atbeina bæjarsjóðs, nokkru áður en hann lézt. Bæjarsjóður mun hafa greitt honum ritlaun. Þar sem margar myndir fylgja þessari ritgerð og prentverk allt kostar orðið offjár, þá leyfi ég mér að mælast til þess, að bæjarstjórn áætli kr. 25.000,00 framlag til ritsins á næstu fjárhagsáætlun, svo að féð komi til greiðslu á næsta ári. Útgáfa ritsins að þessu sinni mun kosta töluvert á annað hundrað þúsundir króna.
- Virðingarfyllst.
Og viti menn: Bæjarstjórn samþykkti einróma að veita úr bæjarsjóði kr. 25.000,00 til útgáfu á ársriti Gagnfrœðaskólans.
Þar lék hin háa bæjarstjórn illa á mig! Með þessu orðalagi gátu þeir hindrað það, að Blik mitt eða ársrit Vestmannaeyja nyti styrksins. Auðvitað get ég ekki gefið út ársrit Gagnfræðaskólans, þar sem ég er ekki við hann riðinn lengur og ekki sinnt framréttri starfshönd minni um samvinnu að útgáfunni.
Ég leyfi mér að óska Eyjólfi skólastjóra til hamingju með þá rausn og þann sanna góðvilja, er starf hans og hann sjálfur nýtur persónulega hjá bæjarstjórn í heild. Ég efast ekki um, að hann rísi undir öllu þessu meðlæti og gefi nú út myndarlegt skólarit næstu 25 árin. Mér er það verulegt gleðiefni, að ég skyldi verða þess valdandi, að hinn nýi skólastjóri hlaut þennan bæjarstyrk til útgáfunnar á ársritinu. Það er vissulega mikil hvatning til dáða að finna sig ljósmegin í lífinu, — en víst er um það, að sterk bein þarf til að bera meðlætið og góðu dagana.
Útgáfusjóður Bliks er í mínum vörzlum. Honum skila ég ekki nema til ritsins — til greiðslu á hallanum af útgáfu þess. Hrökkvi hann ekki til, greiði ég sjálfur það sem á vantar. Blik stendur ávallt vel í skilum.
Gagnfræðaskólanum sem ríkis- og bæjarstofnun kemur útgáfusjóðurinn ekkert við. Hann er ávöxtur þrotlauss
fórnarstarfs nemenda minna og mín, — sem þar höfum fórnað vinnu og fjármunum bæjarfélaginu til nokkurs sóma, eftir því sem ýmsir telja, bæði hér í bæ og utan hans. Fyrir þær fórnir bæjarbúum til velþóknunar og dálítillar fræðslu um átthagana, hefur nú bæjarstjórn látið í ljós viðurkenningu sína, þó framlagið mætti ekki koma Bliki mínu í vil.
„Og þú líka, sonur minn Brútus,“ sagði hann. Og þið líka, vinir mínir í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Samt kemur Blik mitt út einu sinni enn.