Blik 1963/Lífskjör þurrabúðarmanns í Eyjum um aldamótin 1900, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÁRNI ÁRNASON, SÍMRITARI:


Lífskjör þurrabúðarmanns
í Eyjum um aldamótin 1900
(síðari hluti)


Meðan húsbóndinn borðaði, virti ég fyrir mér eldhúsið. Það var sérlega hreinlegt og þokkalegt, en mjög fátæklegt. Undir glugganum var áðurnefnt borð. Öðrum megin við það var koffort en hinum megin kassi. Var hvort tveggja notað sem sæti og auðvitað geymsla. Í einu horni eldhússins var lítill skápur og í honum fimm bollapör og fleira smálegt. Á veggnum var tvíraða diskagrind og í henni 6 matardiskar. Eldavél var þarna, ketill og kaffikanna hjá eldavélinni, lítill trékassi fyrir ýmiss konar rusl til eldiviðar, og hjá honum vængjasófl. Ofan á skápnum, sem konan tók viðbitsskálina úr, stóðu 2 pottar misjafnlega stórir. Er þá upptalin búslóð þessa tómthúsmannsheimilis í Eyjum. Þannig mun og hafa verið á flestum heimilum nema hjá efnaðri mönnum t.d. bændum. Þar var búslóðin eitthvað fjölbreyttari.
Ég gef mig nú á tal við húsbóndann og spyr, hvernig afkoman sé hjá honum.
„O, það gengur nú á ýmsu, því að lífsbaráttan er hörð hér,“ svarar hann. „Það má þykja gott, ef hægt er að halda í horfinu. Oft skulda ég dálítið, en svo legg ég inn í reikninginn minn allt, sem ég afla af fiski, þegar ég hef þurrkað hann. Þá kvitta ég reikninginn a.m.k. í bili. Það er sjaldnast um mikla inneign í verzluninni að ræða. Því er nú verr.“
„Hvernig er atvinnu þinni háttað svona að öllu jöfnu?“ spurði ég.
„Atvinna mín er ekki margbreytileg, vinur minn. Ég ræ alltaf á vertíðinni og auk þess á vorin fram að lundatíma. Vorið er mér oft drjúgt, einkum síðan farið var að nota fiskilínuna. En maður verður oft að leggja hart að sér, ef tíðin er góð. Stundum eru farnir 2 og 3 róðrar án þess að sofna dúr, jafnvel án þess að fá tíma til að gleypa í sig einhvern matarbita. En þá aflar maður líka vel, svo að þreytan og erfiðið gleymist.“
,,En fuglaveiðarnar, gefa þær ekki nokkuð í aðra hönd?“
„Jú, jú, blessaður vertu. Lundaveiði hef ég stundað í úteyjum í mörg sumur og þá 4 til 5 vikur í senn. Hluturinn hefur oftast orðið frá 20 til 35 kippur yfir veiðitímabilið, en í hverri lundakippu eru 100 fuglar.

„Gömlu góðu áraskipin munu brátt hverfa, en stærri
fiskibátar koma til sögunnar, knúnir fram af nýrri orku.“

Konan mín hefur reytt allan fuglinn til heimilisnota eða vöruskipta við meginlandið. Það er mikill styrkur hvað matvæli snertir. Einnig fæ ég þó nokkuð af fýl. Hann er allra bezta búsílag, sérstaklega vegna feitarinnar, sem notuð er til viðbits. Smjör sér maður sjaldan, og þó að við fáum eitthvað af því frá landi, er það ekki til þess að bruðla með daglega. Nei, vissulega ekki. Okkur þykir gott að grípa til þess um jólin og við önnur sérstök tækifæri. — Eftir fýlaferðirnar og fram á haustið stunda ég oftast sjóinn. Það er þó mjög stopult vegna veðurfarsins og auk þess fremur lítil aflabrögð um þann tíma. Það er þess vegna ekki mikið upp úr því að hafa, en ekkert annað er að starfa, svo að maður verður að reyna að róa. Landvinna er engin eða sama og engin. Helzt er vinnu að fá við að brjóta upp grjót, sem notað er til byggingar húsa eða við að leggja þerrireiti. Einnig vinn ég við að afgreiða vöruskipin. En sem sagt, það er mjög sjaldan að slíka vinnu sé að fá.“
„Hvað er borgað fyrir tímann, þegar þessi vinna býðst, og er þá sama kaup fyrir t.d. grjótvinnu og við skipaafgreiðsluna?“
„Þegar um vinnu í landi er að ræða, eru greiddir 20 aurar um tímann, en greiðslan er öll í milliskrift í verzlununum. Peninga fær maður aldrei eða mjög sjaldan. Vinna manna í milli er greidd með ýmislegu, sem að gagni kennir, svo sem mat, fötum o.fl. en helzt aldrei í peningum. Menn hafa lítið af þeim milli handa. Fyrir grjótvinnu er ekki meira kaup en aðra vinnu.“
„En vetrarmánuðina nóvember, desember og janúar, er þá ekkert hægt að vinna, sem til búdrýginda getur talizt?“ spurðí ég.
„Nei, nei, blessaður vertu. Þá er ekkert hægt að gera eða réttara sagt, ekkert hægt að fá að gera. Maður bara slæpist. Þá safnast vitanlega skuldir hjá okkur, þar sem innleggið frá hinum mánuðunum hrekkur ekki til, fyrir lífsnauðsynjum þann tíma, sem ekkert er að gera annað en slæpast.“
„Þetta hlýtur að vera hörð lífsbarátta hjá ykkur Eyjaskeggjum,“ mælti ég. Mér varð hugsað til þeirra mörgu, sem voru enn verr settir en þessi iðjumaður, sem notaði hverja stund til starfa og lét ekki iðjuleysið leiða sig út í hinar hættulegu búðarstöður, þar sem vínið var selt í snafsatali, og búðin notuð sem samkomustaður fjölmargra þorpsbúa, er ekkert höfðu að starfa.
„Ójá,“ mælti hann og dæsti við, „það er barátta upp á líf og dauða, liggur mér við að segja. En það skal ég segja þér, að þó erfitt sé að lifa núna og lífsbaráttan mjög hörð, þá er hún ekkert, — hreinasti barnaleikur samanborið við það, sem áður var, t.d. áður en farið var að nota línuna við fiskveiðarnar. Þá náðist oft ekki hundraðshlutur til skipta yfir vertíðina. Þá var líf almennings erfitt, og má segja, að þá sypu margir dauðann úr skel. Og enn þá er þetta mjög erfitt, — mjög erfitt. En spá mín er sú, að þetta lagist og líf hér batni að mun í framtíðinni. Ég er viss um, að íbúa Eyjanna bíða betri og bjartari tímar.“
„Já, það skulum við vona,“ mælti ég, „hér þarf líka margt að breytast til batnaðar, svo að lífvænlegt geti kallazt fyrir allan almenning.“

ctr

Tómthús kringum aldamótin, aðeins eitt herbergi og
eldhús. Þótti allgott hús á sínum tíma.
Stendur enn og nefnt „Nýjahús“.
Þarna bjó Ísleifur Jónsson, formaður.

„Það lagast, ungi maður, og það eftir nokkur ár. Trúðu mér, að koma mun sú tíð, að eyjan okkar verður rík aftur og forðabúr landsins hvað afla snertir. Gömlu góðu áraskipin okkar munu brátt hverfa, en stærri og öruggari fiskibátar koma til sögunnar, knúnir fram af hinni nýju orku, sem óðfluga grípur um sig í útlöndunum. Hér mun rísa upp menntað fólk og velmegandi, sem verða mun landi sínu til sóma. Þá vildi ég mega lifa og vera ungur maður í broddi fylkingar viðreisnarmanna. Jæja, vinur sæll, nú skulum við fá okkur molasopa og skála fyrir framtíð Eyjanna. Þær eru yndisfagurt framtíðarland og Eyjaskeggjar harðfrískt dugnaðarfólk, menntaþyrst og iðjusamt. Hinar komandi kynslóðir munu taka við starfi þessara framfaramanna, viðhalda því og endurbæta eftir því, sem þróun og tækni skapast og berst hingað til Eyja. Það gerir hún ábyggilega og Eyjamenn munu þá fljótir að átta sig og ávaxta þannig pund forfeðra sinna:

„Þroskaglæður Eyja arfs
öðrum gæði tryggja.
Gegnum æðar orku og starfs
allir þræðir liggja. ...“

Jæja, vinur sæll, hér er nú kaffisopinn kominn á borðið nýlagaður. Gjörðu svo vel. Kristín mín býr til gott kaffi, ljómandi gott. Hún er snillingur í því eins og öllu öðru, blessuð konan mín.“
Þessi framsýni þurrabúðarmaður varð sannspár um framfarir í Eyjum. Skömmu eftir þetta fór að ljóma ljós af nýjum degi t.d. í húsabyggingum. Eftir vertíðina 1900—1901 voru byggð hin nýju og á þess tíma mælikvarða stóru tómthús. Þau höfðu 400 ferfaðma lóð, sem gaf ágætt rými fyrir stóra kartöflugarða og þerrireit auk nokkurs túnbletts. Skömmu síðar losnuðu menn úr viðjum einokunarverzlunarinnar, er innanhéraðskaupmenn brutu fyrstu hlekki þeirrar sterku og aldagömlu haftakeðju. Hin nýja orka, sem að spá umgetins þurrabúðarmanns mundi útrýma áraskipunum, barst hingað skömmu síðar og olli stórstígum framförum á sviði fiskveiða, svo að velmegun manna jókst með ári hverju. Þótt um tómthúsmenn væri að ræða, urðu þeir margir og vel flestir meir en sjálfbjarga, eignuðust báta eða hluti í þeim, góð og björt hýbýli, sem byggð voru eingöngu úr timbri og járni með hlaðinni og steinlímdri grjóthleðslu að undirstöðu. Það voru stór framfaraspor.
Fyrstu stóru tómthúsin, sem þannig voru byggð, voru öll við Kirkjuveginn: Völlur, Grund, Dalur, Hvammur, Ás og Holt. — Öll byggð um sama leyti.

Grund.



Meðfylgjandi mynd sýnir þurrabúðarhúsið Grund. Það var byggt 1900-1901. Myndin sýnir hvernig húsið leit út 1921, þá lítið breytt frá fyrstu tíð.




Á Velli bjó Lárus Halldórsson, kv. Elsu Ólafsdóttur frá London.
Á Grund bjó fyrrnefndur Árni Árnason frá Vilborgarstöðum, kv. Jóhönnu Lárusdóttur.
Í Dal bjó fyrst Árni Sigurðsson, kv. Guðrúnu Bergsteinsdóttur, er var systir Ingibjargar í Dal.
Í Hvammi bjó Ágúst Gíslason, kv. Guðrúnu Þorsteinsdóttur læknis Jónssonar.
Í Ási bjó Stefán Gíslason, kv. Sigríði Jónsdóttur frá Mandal.
Í Holti bjó Vigfús Jónsson, kv. Guðleifu Guðmundsdóttur frá Vesturhúsum.
Sem fyrr getur voru þessi fyrstu stóru tómthús byggð um sama leyti eða á árunum 1900 til 1902. Lóðir þeirra voru allar jafnstórar eða 400 ferfaðmar, nema lóð Vallar. Síðan voru svo byggð tómthúsin Hlíð af Gísla Geirmundssyni, með sömu lóðarstærð, Ásgarður, af Árna Filippussyni, Hlíðarendi af Snorra Tómassyni, skósmið, o.fl. um líkt leyti.
Sem fyrr getur sýnir meðfylgjandi mynd húsið Grund eins og það var 1921. Er það þá lítið breytt frá fyrstu gerð nema hvað fyrst var inngangur móti norðri. Þar var lítil forstofa, en úr henni gengið inn í stofu, beztu stofu, til hægri, en í svefnherbergi til vinstri. Þessi inngangur var aflagður um 1905. Húsið þótti stórt og vandað, þegar það var byggt, og vel þokkalegt. Það hafði 3 herbergi auk eldhúss, kjallara til geymslu, ris lítið og ávallt notað sem matvælageymsla, en uppgangur þangað var úr eldhúsinu með lausum stiga. Þá var inngangur á suðurhlið og þar lítil forstofa, sem síðar var aflögð og eldhúsið stækkað. Húsið var timburhús, járnklætt utan, en járn aðeins á rimlum á þakinu. Þá var ekki timbur á sperrum og pappalagt undir járn á þaki, eins og síðar tíðkaðist. Stærð hússins var 11x8 álnir. Eitt herbergið var fyrir vermenn, sérstklega fyrir Eyjamenn, er bjuggu t.d. fyrir ofan Hraun. Voru t.d. Norðurgarðsbræður þar nokkrar vertíðir, þareð langt þótti þá að fara upp fyrir Hraun og stunda þaðan sjóróðra.
Í lóðinni voru 2 allstórir kartöflugarðar, þerrireitur fyrir um 1.500 fiska og lítill túnblettur. Kjallarinn var fyrst ekki innréttaður, en notaður sem matvælageymsla fyrir fuglakjötskagga, sela- og hnísukjöt, sem mikið var notað á heimilinu, nýtt og saltað, og þótti ávallt herramannsmatur. Lítið var um kindakjöt, en þó hafði Árni ávallt nokkrar kindur heimilinu til búdrýginda. Hagagöngu hafði hann á heimalandi frá Búastöðum o.fl. og í úteyjum, t.d. Suðurey. Hey var mikið fengið af fastalandinu, en þó heyjaði Árni oft í Suðurey og Heimakletti handa kindum sínum. Flestar kindur mun hann hafa átt 10-12, og hafði þær í útikofa, sem byggður var vestan undir dálítilli hæð, er var milli kartöflugarðanna, en þeir voru báðir austan við húsið. Lóðartakmörkin voru, að vestan Kirkjuvegurinn, að sunnan lóð Árna í Dal, að austan tún Sigurðar hreppstjóra á Heiði og að norðan tún Lárusar Halldórssonar, er hafði tún allstórt á vegum tengdaföður síns, Ólafs í London Magnússonar.
Atvinna nefndra þurrabúðarmanna varð allmisjöfn. Lárus fékk lóð tengdaföður síns, þ.e. tún við Kirkjuveg og síðar annað tún austur á Kirkjubæ. Lárus byggði sitt hús, Völl, við Kirkjuveginn, norðan við Grund. Á.Á. varð sjómaður, eignaðist aðeins þriggja manna far, „Bravo“, með öðrum manni, þ.e. Guðmundi Ástgeirssyni í Litlabæ. Varð „Bravo“ mesta happafleyta og færði mikla björg í þurrabúðarheimilið að Grund. Árni var mikill fuglaveiðimaður og bjargmaður ágætur. Hann lagði t.d. fyrstur veginn á Bládranginn 1898, snaraði þar þá 2.100 svartfugla, seig fyrstur Hábrandinn, sitt versta og hæsta sig, að því er hann hermir sjálfur í minnispistlum sínum. Hann var og ágætis skytta og skaut oft mjög mikið af hnísu og sel, stundum fullfermi á bátinn. Árni Sigurðsson frá Steinsstöðum byggði Dal fyrir sunnan Grund. Árni sá var sonur Sigurðar bónda á Steinsstöðum og konu hans Magrétar Sæmundsdóttur. Hann var kvæntur Guðrúnu Bergsteinsdóttur, og var hún systir Kristólínu konu Sveins P. Schevings, sem síðast bjó að Hjalla, og Ingibjargar konu Magnúsar Þórðarsonar síðar formanns hér. Keypti hann húsið Dal af Árna Sigurðssyni, er Árni flutti til Ameríku rétt upp úr aldamótunum. Ágúst Gíslason byggði Hvamm, næsta hús þá fyrir sunnan Dal. Hann var kvæntur Guðrúnu Þorsteinsdóttur læknis Jónssonar. Þar fyrir sunnan byggði svo Stefán Gíslason frá Jónshúsi kaupm. Stefánssonar, en syðstur varð Vigfús Jónsson frá Túni, kvæntur Guðleifu Guðmundsdóttur frá Vesturhúsum Þórarinssonar. Það hús hét Holt. Ágúst Gíslason varð útgerðarm., formaður, framkvæmdastjóri í „Guano“, fiskikaupmaður o.fl. — Stefán í Ási varð formaður og útgerðarmaður, en formaður aðeins stuttan tíma. — Síðar varð hann kaupmaður, bakari mikill og góður bjargmaður og lundaveiðimaður með ágætum, hafði um skeið gúmmískóviðgerðarverkstæði o.fl. Síðast seldi hann Ás og flutti í nýbýli, sem hann byggði nyrzt og neðst í Stórhöfða og kallaði að Sigríðarstöðum. Þar rak hann um tíma greiðasölu, sem gafst þó ekki vel. Verzlunina Boston rak hann um það leyti, og var Gísli sonur hans fyrir henni. Stefán lézt að Sigríðarstöðum. Vigfús Jónsson varð formaður, útgerðarmaður, bjargveiðimaður ágætur og lundaveiðimaður mjög góður. Síðar varð hann og fiskimatsmaður vel látinn í því vandasama starfi.
Varðandi Árna á Grund mætti geta þess, að hann fór til USA 1890, en kom heim aftur 1898 vegna ásóknar fólks hans um að hann tæki mormonatrú, sem hann gat ekki fengið sig til að aðhyllast á neinn hátt.
Á heimili þurrabúðarmanna var bæði mataræði og mörg tilhögun í daglegu lífi, og þá sérstaklega um jólin, á annan hátt en á heimili jarðabænda eða annarra efnaðra íbúa Eyjanna. Þurrabúðarmenn voru flestir um aldamótin fátækir og höfðu ekki margar tegundir matar að velja úr á jólaborðið. Þó var ávallt reynt að breyta eitthvað til, gera heimilisfólkinu þessa hátíð sem allra skemmtilegasta og bezta á allan hátt.
Hjá foreldrum mínum að Grund var mest notað fuglakjöt til matar um jólin og áraskiptin. Faðir minn átti þó lengstum eitthvað af fé, svo að við höfðum lítils háttar af kindakjöti, en mest þó af fuglakjöti. Lunda, fýl, súlu og svartfugli höfðum við mikið af, þareð faðir minn stundaði mjög fuglaveiðar í úteyjum að sumrinu til, og þess utan vetrarfýlaveiði, eftir því sem aðstæður leyfðu. Í kjallara húss okkar var kaggi fyrir hverja tegund fuglakjöts og stórar tunnur með söltuðu hnísu- og selakjöti. Það reyndist okkur systkinunum hin mesta kjarnfæða og þótti okkur sérstaklega hnísukjötið afbragðs gott. Oft voru og súrsuð hnísubægsli á borðum. Það var lostæti mikið og eftirsótt.
En fyrir jólin fór faðir minn með byssu sína og skaut þá oftast nægilegt af skarfi, lóm eða öndum, sem svo var haft á hátíðaborðið, steiktir fuglar, oftast fylltir upp með sveskjum og öðru góðgæti. Var hefðbundin venja að hafa steikta fugla á aðfangadagskvöld. Á jóladag var svo kjötsúpa, eða steik af feitu úteyjafé. En sparlega var farið með kindakjötið, því að ekki var mikið um það hjá okkur frekar en öðrum þurrabúðarmönnum. Þar af leiðandi var fuglakjötið, og svo hnísu- og selakjötið aðal kjötmeti okkar heima. Fisk höfðum við ætíð nógan, þareð faðir minn reri hjá ýmsum fiskisælum formönnum og átti auk þess, sem áður segir, árabátinn „Bravo“, sem oft færði mikla björg í bú. Fiskikró átti hann, næstu kró ofan við prestskróna, austan megin neðst við Formannabraut, sem nú er. Þar var saltaður trosfiskur og geymdur.
Í sambandi við fuglakjötmeti okkar vil ég geta hér atviks frá heimili mínu. Sem skytta þurfti faðir minn ávallt að eiga góða skothunda. Hann átti þá líka marga góða, sannkallaða stólpagripi, sem sóttu dauðskotna fugla og voru ekki lengi að sækja þá með kröftugu sundi, jafnvel þótt þeir oft þyrftu að leggja til sunds út í brim og boðaföll.
Eitt sinn áttum við stóran og mjög fallegan skothund, kolsvartan og snögghærðan, sem nefndur var „Nice“ eftir hundi, sem faðir minn hafði átt í Ameríku, meðan hann dvaldist þar. Hundur þessi var mjög vel vaninn til þess að gera ýmislegt, sterkur og áræðinn. Hann var stór vexti, meinlaus mjög en þurfti mikið fæði. Má og segja, að hann væri stríðalinn. Ekki var óvanalegt, að ég legði við hann beizli úr snæri og fengi mér útreiðartúr á „Nice“ út um allt Vellistún. Honum var ekki mikið fyrir að bera mig.
Það mun hafa verið 1918 eða 1919, að faðir minn vann að venju í „Gúanó“. „Nice“ var fljótt vaninn á það að bera matarkörfu föður míns inn eftir. Fyrst var hann í fylgd með okkur krökkunum, en síðar fór hann þessar ferðir inn í Gúanó einn og færði pabba matinn. Var til þess notuð karfa lokuð vel og hafði langt handarhald. „Nice“ var ekki lengi í þessum ferðum. Hljóp í spretti með körfuna inn eftir, beið meðan pabbi borðaði og gekk frá ílátunum aftur í körfuna, en síðan tók „Nice“ við körfunni og þaut með hana heim. Engum þýddi að reyna að ná körfunni af „Nice“, þ.e. engum ókunnum. Þá urraði hann hressilega og jafnvel reiddi upp löppina til aðvörunar. Þegar heim kom, lagði hann körfuna á tröppurnar, tók með sterkum kjaftinum í hurðarhúninn og opnaði án nokkurrar fyrirhafnar og kom svo inn og skilaði körfunni með kurt og pí. Þá fékk hann mat sinn og naut hans í ró og næði. Allt át hann, svo sem kjöt og fisk, brauð og grauta alls konar, en heldur var honum illa við dósarjóma, þótt þynntur væri með vatni.
Alla seli og fugla, sem faðir minn skaut við Heimaey, sótti „Nice“ og var þá oft ekki vandur að veðri, en sótti sterklega sundið. Oft komst hann í krappan dans við brimið, en hann sigraðist á öllum erfiðleikum og gafst aldrei upp. Ég þarf ekki að taka það fram, að „Nice“ var okkur öllum mjög kær vinur, fylgispakur og meinlaus við menn og skepnur.
Svo var það á gamlársdagsmorgun, að faðir minn fór snemma inn á Eiði í leit að skarfi eða lóm, sem vantaði til viðbótar kvöldmatnum, steikinni. Þegar skotbjart var orðið, skaut faðir minn fallegan skarf suður af Almenningnum. „Nice“, sem legið hafði rólegur og beðið þess, að skotið ryði af, var ekki lengi að kasta sér til sunds, er skothvellurinn kvað við. Hann litaðist jafnframt um og kom strax auga á hinn dauðskotna fugl. Með föstum og sterklegum sundtökum bar „Nice“ fljótt að, náði fuglinum og kom svo með hann, lagði hann við fætur húsbónda síns og hristi sig síðan duglega til þess að losna við sjóbleytuna úr fallegum, svörtum, snöggum feldi sínum. Svo hljóp hann fram og til baka nokkrum sinnum til að hita sér, kom síðan til pabba, hné þegar niður og var þá dauður. Blessuð skepnan, fallegi, góði „Nice“. Faðir minn sótti strax mann og grófu þeir svo hundinn undir Hlíðarbrekkum.
Þegar svo faðir minn kom heim, sagði hann okkur þessa harmafregn. Varð það til þess, að allir hættu við að fara í kirkju um kvöldið, sem þó var harla óvenjulegt á heimili okkar. Var það hvort tveggja, að faðir minn og systir voru í söngflokknum og svo var líka gamlárskvöld. Nei, það var óvenjulegt. En það var eins og við hefðum misst mann úr heimilinu, svo kær var þessi blessuð skepna okkur öllum. Hann hafði oft orðið til þess að færa okkur björg í bú með þreki sínu og áræði, ekki sízt á borð hátíðakvölda t.d. gamlárskvölds. Annars er hætt við, að stundum hefði orðið minna á borðum í fátæku þurrabúðarheimili okkar.
Sem áður var á minnzt, reri faðir minn á vertíðum á mótorbátunum, eftir að þeir komu og áður en hann fór að vinna í „Gúanó“, en þar vann hann, meðan verksmiðjan starfaði og heilsa hans leyfði. Síðasta vinnuár hans þar var 1923. Hann reri hjá Guðjóni á Sandfelli, Friðrik Svipmundssyni o.fl. Hlutur hans var oft allgóður yfir vetrarvertíðina. Hann reri með þeim kjörum að hafa bjóð og fékk það, sem á það kom. Var hann oftar heppinn, svo að við höfðum stóran fiskstakk að þurrka á stakkstæðinu, sem var heima við bæjardyrnar. Þegar þeirri þurrkun lauk, var gjarna tekinn fiskur af t.d. Gísla J. Johnsen og þurrkað fyrir hann „tveir gangar“ á stakkstæðið. Það gaf allvel í aðra hönd. Á vorin, sumrin og fram á haust reri faðir minn svo á bát sínum, sem hann átti í sameign við Guðm. Ástgeirsson í Litlabæ, — reru þeir oftast báðir eða einhver þriðji maður og öfluðu vel. Þá var hann og mikið með Friðriki Svipmundssyni og Þorsteini í Laufási og fengu þeir oft góðan afla, bæði fisk, seli og hnísur, jafnvel fullfermi bátsins af hnísu. Það gaf góða björg í búið. Síðari árin var faðir minn heilsutæpur og gat lítt unnið. Hann var að venju ráðinn í „Gúanó“ 1924, en síðla árs 1923 lagðist hann og lézt 19. janúar 1924.
Eftir það bjó móðir mín með okkur börnunum að Grund og var ýmislegt unnið til framdráttar fjölskyldunni; eins og gengur.
Allt gekk það þolanlega og varð margt okkur til góðs og sæmilegrar afkomu. —
Þótt um þurrabúðarmannsheimili væri að ræða, var þar töluverður undirbúningur um jólin, ef þess voru nokkur ráð. Ég hygg líka, að húsbændurnir hafi lagt mjög mikið að sér til þess að gera sem mestan dagamun. Sá mismunur frá daglegu lífi fór þó vitanlega mjög misjafnlega fram og var af mismunandi framlagi þurrabúðarmannsins til heimilis síns. En allt fór það að sjálfsögðu eftir efnum og aðstæðum og jafnvel eftir því, hvað kaupmaðurinn vildi af hendi láta til hvers einstaks, lán út á væntanlegt innlegg.
Eins og á heimili bóndans þurftu allir á heimili þurrabúðarmannsins að fá einhverja jólagjöf, eftir því sem hagur stóð til og húsbændurnir álitu, að mundi gleðja mest fólk sitt, börn og annað heimafólk. Börnin fengu nýja skó eða sokka, ef til vill einhverja flík til utan eða innan klæðnaðar. Flest af slíkum jólagjöfum var unnið á heimilinu af húsmóðurinni, prjónað, ofið eða saumað. Ef efnahagurinn leyfði, var eitthvað smálegt haft með þessu t.d. vasahnífur, vasaklútur, hettuklútur, herðahyrna, greiða og spegill, svuntuefni, inn- eða útlent. Allar vöktu gjafirnar gleði og ánægju meðal heimilisfólksins, þótt ekki væru þær stórar eða dýrar. Kröfurnar voru ekki miklar þá, en ánægjan sízt minni en nú. — Húsmóðirin hafði meir en nóg að gera síðustu dagana fyrir jólin. Allt þurfti að hreinsa, úti og inni við og gera sem bjartast yfir öllu. Hvergi mátti finna óhreinan blett. Öll ljós voru tekin í notkun, sem til voru á heimilinu, allir lampar hreinsaðir og hver krókur og kimi upplýstur eftir beztu getu. Alls staðar þurfti að loga ljós. Gólfin voru öll sandskúruð, svo að þau voru drifhvít, öll áhöld hreinsuð og fægð eftir beztu getu, hver pottur, kanna, ketill og panna.
Í eldhúsinu var nóg að starfa, elda hangikjötið, ef því var til að dreifa, baka brauð og kökur og sjóða annan kjötmat. Hver reyndi að létta undir með húsbændunum, sem mest og bezt. Er líða tók á eftirmiðdaginn, urðu allir að þvo sér, fara í hrein föt. Börnin voru klippt, kembd og þvegin. Húsbóndinn klippti hár sitt og skegg, og húsmóðirin snyrti sig sem bezt. Þegar svo liðið var fram að kirkjutíma, aftansöngnum, gátu húsbændurnir gengið út og sagt að fornum sið: „Komi, hver sem koma vill, fari hver sem fara vill mér og mínum að meinalausu.“ Nokkrir höfðu þennan sið, en varla gat hann kallazt algengur í Eyjum um þessar mundir.
Um einokunarkaupmennina var annars allmikið kveðið þótt nú sé það flest gleymt. Allir kannast við söguna um kaupmanninn, sem hafði áður verið beykir. Hann neitaði einum viðskiptamanna sinna um tindaefni í hrífu, sennilega brúnspón. Þá kvað maðurinn:

Bryde heitir beykirinn,
bölvað níðið synda,
í hann skríði andskotinn
og úr honum smíði tinda.

Eina vísu hefi ég heyrt er hljóðaði svona (er um einokunarkaupmenn):

„Þeir hafa sjaldan af þjóðinni tár
þerrað á erfiðum dögum,
en veitt henni oftlega svíðandi sár
og sorfið að vænlegum högum.
Okurs og kúgunar ræktað hér rót
risið mót frelsi og stjórnmálabót.“

Þegar verið var að byggja Austurbúðina var kveðið um Bryde kaupmann:

„Allir, sem vettlingi valda
vinna hjá Bryde í dag.
Með okri mun erfiðið gjalda,
á þessu hefur hann lag.“
S.S.

Verzlun hér var mjög slæm, en þó versnaði hún þegar Bryde var orðinn einn um hituna. Hafði hann alla sína hentugsemi, hafði t.d. búðina aðeins opna tvo tíma á dag í skammdeginu og hélzt það ástand um alllangan tíma. En svo varð óánægja manna loks það mikil, að hann neyddist til að breyta þessu. Líklega hefur helzt valdið þeirri breytingu, að hann var farinn að verða hræddur um samkeppni á verzlunarsviðinu. Varð það til mikilla bóta, er fleiri verzlanir skutu upp kollinum. Meðan Bryde var hér einvaldur, sáust helzt aldrei peningar. Kvað svo rammt að því, að menn fengu tæpast fyrir jarðarafgjaldinu, sem þó varð ekki hjá komizt að greiða í peningum. Dugði ekki til, þótt menn ættu meira og minna inni í verzlun hans. Þeir urðu að knékrjúpa fyrir honum til þess að særa út þessar upphæðir. Í þann tíma var hið þekkta milliskrifta- og ávísanafyrirkomulag í algleymingi. Þareð jarðarbændum gekk svona illa að fá peninga í verzluninni af inneign sinni, getur hver hugsað sér, hvernig fátækum þurrabúðarmanni hefur gengið að fá út peninga, þó að þeir ættu þá inni. Nei, þeir áttu ekki upp á háborðið hjá verzlunarstjóranum. Var þess vegna engin furða, þótt stöku sinnum syði upp úr og til illinda drægi, með ljótum kveðskap og jafnvel áflogum. Ávísanirnar voru eini gjaldmiðillinn. Á þeim stóð t.d.: „Gegn þessari ávísun greiðir Garðverzlun svo og svo háa upphæð, (sem svo var færð út á seðilinn) í vörum.“ Illa var oft farið með þessar ávísanir þannig að reynt var að breyta tölunni, sem á þeim stóð t.d. að breyta 1 í 7 eða bæta núlli aftan við. Líklega hefur þetta stundum heppnazt, þareð ekki voru þessir ávísanaseðlar í tvíriti og því erfitt að sannprófa, þótt eitthvað hefði verið fiktað við hina upprunalegu tölu ávísunarinnar. Seðlarnir voru oft illa skrifaðir og þvældust fljótt, þareð þeir voru oftast fyrir innlegg á fiski eða lifur. En sem sagt, svo sauð alveg upp úr með ástand þetta. Það var, þegar Bryde ætlaði að þvinga alla til að leggja inn í verzlunina fiskinn blautan upp úr sjónum og neitaði um salt í fiskinn. Þetta komst þó ekki í framkvæmd, þareð þá hófst almenn mótspyrna undir stjórn hinna mætu manna Sigurðar hreppstjóra, Gísla Stefánssonar og Guðmundar Þórarinssonar á Vesturhúsum. Hófu þeir samtök, söfnuðu saman fiski í fiskikró Gísla Stefánssonar. Máttu allir vera með í þessu, sem það vildu. Þó nokkuð safnaðist af fiski eða um 100 skpd. Fiskur þessi var svo seldur verzluninni Edinborg í Reykjavík, og var skip sent þaðan til þess að sækja fiskinn. Fiskurinn var borgaður í beinhörðum peningum og kom maður með skipinu með tvær töskur fullar af peningum, gulli og silfri, og borgaði hverjum eftir aflainnleggi hans. Má því segja, að með þessu fengi Bryde fyrsta kjaftshöggið fyrir einokun sína og illa framkomu við Eyjamenn. Eflaust hafa þarna átt hlut að máli nokkrir þurrabúðarmenn, sem máske í fyrsta sinni hafa séð slíka peninga í þessum átökum almennings gagnvart Bryda, sem hér hafði verið einvaldur um nokkurt skeið. En Bryde fékk fleiri slíkar aðgerðir almennings, sem bar loks algeran sigur af hólmi er hin innlenda verzlun hófst í Eyjum.
Það var þess vegna engin furða, þótt einstaklingar sendu Bryde harðorðar eða jafnvel ljótar vísur. Framkoma hans og einstakra verzlunarstjóra hafði ekki verið svo góð í garð almennings. Má því með sanni segja, eins og hér að framan segir, að þeir hafi með

„Okurs og kúgunar ræktar hér rót,
risið mót frelsi og stjórnmálabót.“


Til baka