Blik 1963/Kennaratal: Högni Sigurðsson, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1963ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


KENNARATAL
frá 1904-1937


Högni Sigurðsson,
barnakennari í Vestmannaeyjum
1904-1908.


(F. 23. sept. 1874, d. 14. maí 1961)


Högni Sigurðsson, kennari.

Árið 1824 flytja til Vestmannaeyja örsnauð hjón frá Velli í Rangárvallasýslu. Þau heita Gísli Andrésson og Sigríður Guðmundsdóttir. Þau eiga tvö börn, sem þau koma með til Eyja, Andrés 3 ára og Margréti 2 ára. Í fyrstu gerast hjón þessi vinnuhjú í Miðhúsum.
Í Eyjum vex hjónunum fiskur um hrygg, áræði og efni. Þau kaupa brátt tómthúsið Kokkhús, sem svo var kallað á danska vísu.
Árið 1833 missti Gísli Andrésson, tómthúsmaður í Kokkhúsi, konu sína. Gott fólk og líknsamt tók þá Margréti litlu Gísladóttur til fósturs (sjá Blik 1962, bls. 227), en þeir feðgar, Gísli og Andrés, dveljast framvegis í Kokkhúsi tveir einir næstu þrjú árin.
Gísli Andrésson var fæddur að Bakkavöllum í Hvolhreppi 1791, að öllum líkindum, hæglátur maður og heiðarlegur, greindur og bókhneigður. Þeir feðgar þarna í Kokkhúsi öfluðu sér bóka eftir föngum og lásu. Að vísu var þá ekki um auðugan garð að gresja í þeim efnum.
Vorið 1835 var Sigurður beykir Jónatansson, húsmaður á Vesturhúsum, aðal- „tunnugjarðaslagarinn“ við hina dönsku selstöðuverzlun í Vestmannaeyjum. Vinnukonu hafði hann klófest sér, roskna og ráðsetta. Sú hét Þórelfa Kortsdóttir¹ og var frá Ærlæk í Holtum. Þórelfa var geðug stúlka og aðlaðandi, þokkarík og þekkileg og vel að sér á þá tíðar vísu.
Þegar Þórelfa hafði fengið nægju sína af vistinni hjá Sigurði beyki, réðst hún vinnukona til Gísla Andréssonar í Kokkhúsi, þar sem ekkert var vinnuaflið á kvenhöndina. Það var vorið 1836.
Þórelfu geðjaðist vel að þessum hægláta og fróðleiksfúsa tómthúsmanni, þótt hann væri 13 árum eldri en hún. Og Gísli Andrésson var síður en svo fráhverfur vinnukonunni sinni, svo að saman dró með þeim. Þau giftust á jólaföstu sama árið og Þórelfa réðst til hans, 1836, svo að þau gætu notið hveitibrauðsdaganna í nægð og næði um jólin og fram yfir áramót, áður en vertíðarannir hæfust.

Árið 1837 voru Ofanleitisprestakall og Kirkjubæjarprestakall sameinuð í eitt, Vestmannaeyjaprestakall. Um leið var afráðið að sóknarpresturinn sæti að Ofanleiti og hefði jarðirnar þar til afnota og nytja, 4 jarðir, alls 30,2 hundruð að dýrleika.
Þegar svo var komið hlutu Kirkjubæjajarðirnar þrjár, sem presturinn þar hafði haft til ábúðar, að losna úr ábúð og leigjast leikmönnum. Þessar þrjár jarðir voru alls 18,7 hundruð að dýrleika.
Séra Páll Jónsson (skáldi), sem prestur var á Kirkjubæ, þegar sameiningin átti sér stað, sat þar þrjú ár eftir það eða til ársins 1810. Þá fluttust prestshjónin burt frá Kirkjubæ og Gísli Andrésson tómthúsmaður í Kokkhúsi fékk lausa ábúð á einni jörðinni, sem séra Páll hafði nytjað.
Enginn fékk fasta ábúð á þessum þrem jörðum prestssetursins, ef vera kynni, að Kirkjan þyrfti á þeim að halda í sína þágu, sem og var ekki langt undan.
¹ Ætt Þórelfu Kortsdóttur, ömmu Högna Sigurðssonar, eða móðurætt hans:

I.

1. Þórelfa.
2. Kort Þorsteinsson, hóndi í Árbæ í Holtum (1830). Kona hans var Þorgerður Hannesdóttir (II).
3. Þorsteinn Kortsson, hreppstj., Árbæ (1791). K.h.: Elín Grímsdóttir (III).
4. Kort Magnússon, lögsagnari á Árbæ (1743). K.h.: Solveig Gísladóttir, prests (IV).
5. Magnús Kortsson, lögréttum. á Árbæ (1697). K.h.: Þuríður Magnúsdóttir, sýslum. (V).
6. Kort Þormóðsson, lögsagnari í Skógum (1661). K.h.: Þórunn Hákonardóttir, sýslum. (VI).
7. Þormóður Kortsson, bóndi í Skógum (1633).
8. Kort Lýðsson, kaupm., síðar í Skógum (1582).

II.

2. Hannes Hannesson, bóndi í Lambafelli (1787).
3. Hannes Höskuldsson á Hörgslandi á Síðu (1746).
4. Höskuldur Hannesson, Hlíð undir Eyjafjöllum (f. 1707).
5. Hannes Höskuldsson, s. st. (d.† 1668).
6. Höskuldur Hannesson á Lambafelli († 1632). Hannes faðir Höskulds var af enskri ætt og bjó á Lambafelli (f. 1600).

III.

2. Grímur Jónsson, lögréttum. á Reyðarvatni (1749). K.h.: Guðfinna Ísleifsdóttir Þórðarsonar.
3. Jón Guðmundsson, lögréttum. á Rauðalæk († 1720). K.h.: Guðrún Pálsdóttir frá Teigi.
4. Guðmundur Guðmundsson, prestur í Fljótshlíð (1698).

IV.

2. Gísli Bárðarson, prestur á Stórólfshvoli († 1714). K.h.: Þuríður Árnadóttir frá Heylæk.
3. Bárður Gíslason, sýslum. í Vatnsdal í Fljótshlíð († 1670). K.h.: Sesselja Skúladóttir Einarssonar. Kona Skúla var Steinunn Guðbrandsdóttir biskups Þorlákssonar.

V.

2. Magnús Þorsteinsson, sýslum. í Árbæ (1657). K.h.: Guðrún Teitsdóttir frá Holtastöðum. Faðir Teits á Holtastöðum var séra Björn Jónsson biskups Arasonar, officialis á Melstað.
3. Þorsteinn Magnússon, sýslumaður í Skaftafellssýslu (1631). K.h.: Guðríður yngri Árnadóttir í Holti.
4. Magnús Árnason í Stóradal í Eyjafirði (1600).
5. Árni Pétursson á Staðarhóli (1571). (Staðarhólsætt).
6. Pétur Loptsson, lögréttum. á Staðarhóli (1547).
7. Loptur Ormsson, s.st. (1504).
8. Ornmr Loptsson, hirðstjóri, s.st.
9. Loptur Guttormsson ríki.

VI.

2. Hákon Björnsson, sýslum. að Nesi í Gullbringusýslu (1643). K.h.: Solveig Jónsdóttir sýslum. í Eyjafirði Marteinssonar biskups Einarssonar prests Snorrasonar (Ölduhryggjarskálds).
3. Björn Gíslason, officialis að Saurbæ í Eyjafirði (1582). K.h.: Málfríður Torfadóttir prests Jónssonar í Saurbæ.
4. Gísli Hákonarson, bóndi á Hafgrímsstöðum (1552).
5. Hákon Hallsson í Vindheimum á Þelamörk (1400).
6. Hallur Finnbogason, Ási í Kelduhverfi.
Helztu heimildir: Sýslumannaævir og Sig. Jónsson, ættfræðingur.

Árið, sem þau hjón Gísli og Þórelfa fluttust úr Kokkhúsi að Kirkjubæ, ól hún manni sínum meybarn. Séra Jón Austmann jós það vatni og skírði það Þorgerði. Hún fæddist 16. ágúst 1840.
Fleiri höfðu í hyggju en Gísli Andrésson að klófesta prestsjörð á Kirkjubæ til frambúðar. Í því skyni byggði vinur hans, Andrés Sigurðsson, sér íbúðarkofa á Kirkjubæ og kallaði Prunkinborg. Það tómthús hefur líklega verið byggt 1845. Eftir 6 ár eða svo var nafni þessa tómthúss breytt í Móhús.
Gísli Andrésson fór að dæmi vinar síns og byggði sér kofa til íbúðar suður af Kirkjubæjarþyrpingunni. Það kallaði hann í Görðum. Það var tómthús, byggt 1853. Þá hafði breyting orðið á högum Gísla Andréssonar og þeirra hjóna. Þau höfðu misst jörðina úr ábúð til hins nýja aðstoðaprests séra Jóns Austmanns, séra Brynjólfs Jónssonar. Það voru þeim hjónum mikil vonbrigði. Andrés Sigurðsson í Móhúsum varð fyrir sömu vonbrigðunum.
Árið 1855, á Þorláksmessu, lézt Gísli Andrésson, tómthúsmaður í Görðum. Eftir fráfall hans bjuggu þær mæðgur, Þórelfa og Þorgerður, áfram í Görðum og önnuðust m.a. bú séra Brynjólfs Jónssonar, sem sjálfur bjó í Nöjsomhed í námunda við höfnina, þótt hann nytjaði allar þrjár prestsjarðirnar á Kirkjubæ.
Þegar séra Brynjólfur var skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjum 1860, settust prestshjónin að á Ofanleiti og fengu jarðirnar þar til ábúðar. Þá leigðu þau frá sér jarðirnar þrjár á Kirkjubæ. Hlaut þá Þórelfa ekkja Kortsdóttir ábúð á einni jörðinni. Þá hættu þær mæðgur að vera tómthúsfólk í Görðum. Þá var Þorgerður Gísladóttir tvítug að aldri. Hún var glæsilegur kvenkostur og hafði í vöggugjöf hlotið yndisþokka móður sinnar, dug og táp, enda biðu hennar þau örlög, sem beygja flesta.

Árið 1857 kemur til Eyja 21 árs gamall piltur, Magnús Diðriksson að nafni, og settist að í Stakkagerði hjá bróður sínum Árna bónda og formanni og konu hans Ásdísi Jónsdóttur.
Magnús Diðriksson var efnispiltur, eins og hann átti kyn til, og gerðist háseti á Gideon, sem Árni bróðir hans var formaður fyrir. Er Magnús tók að kynnast fólki í Eyjum, varð hann heillaður af yndisþokka heimasætunnar í Görðum. Vorið 1862 réðst hann þangað vinnumaður í því skyni að vinna hjarta Þorgerðar Gísladóttur. Þetta tókst honum. Þau bundust hjúskaparheitum. Eftir nokkurra mánaða samveru fór heimasætan í Görðum ekki ein saman. Hún fæddi sveinbarn 18. febrúar 1863. Sá hlaut skírn og nafnið Guðmundur.
Mánuður leið frá fæðingu Guðmundar Magnússonar.
Þilskipið „Hansína“ lagði úr höfn í Vestmannaeyjum 20. marz 1863 með 7 menn innanborðs. Til þess spurðist aldrei framar. Einn af hásetunum var Magnús Diðriksson, vinnumaður í Görðum, barnsfaðir og unnusti Þorgerðar Gísladóttur. Hann var 27 ára, er hann fórst. — Harmur og varanlegt sár búið viðkvæmu sálarlífi konu í broddi lífsins.
Fjögur ár liðu. Þau árin dveljast þær mæðgur einar í Görðum með drenginn sinn Guðmund Magnússon.
Vorið 1867 ræðst Snjólfur Þorsteinsson frá Hildisey í Landeyjum vinnumaður að Görðum til Þórelfu ekkju. Hann er 21 árs að aldri, atorkusamur og duglegur. Þau verða brátt ásthrifin hvort af öðru, Þorgerður og Snjólfur, og heitbindast. Annað kallar fremur að en hjónavígsla, og eftir stutta samveru er hún vanfær af völdum Snjólfs. Enn vantaði tvo mánuði á árið eftir komu hans að Görðum, er Þorgerður fæddi honum son. Hann hlaut nafn Magnúsar, fyrri unnusta Þorgerðar.
Allt lék í lyndi í Görðum, enda þótt prestur krotaði hjá sér tvö legorðsbrot á reikning Þorgerðar Gísladóttur og léti Snjólf hljóta helming sakar á við hana í þeim efnum. Þorgerður og Snjólfur hugðu til hjúskapar, en hjónavígslan dróst á langinn.
Vertíðin 1869 hófst. Snjólfur hafði ráðið sig háseta á vertíðarskipið Blíð, hjá Jóni hafnsögumanni Jónssyni. Þeir voru 16 á. Öll sú skipshöfn fórst í útilegunni miklu 26. febrúar 1869. Þar missti Þorgerður Gísladóttir annan unnusta sinn og barnsföður í sjóinn.
Þórelfa Kortsdóttir í Görðum lézt 1870. Þá stóð Þorgerður ein eftir með tvo sonu sína á framfæri, Guðmund 8 ára og Magnús tveggja ára. Og enn átti lífið eftir að reyna á hjartataugar þessarar konu, sem nú stóð á þrítugu. Þann 1. des. 1871 andaðist yngri sonur hennar, Magnús, úr „barnaveikindum“. Þá var Guðmundur sonur hennar einn eftir hjá henni. Hann dvaldist síðan hjá móður sinni fram á þroskaár eða til 27 ára aldurs.
Svo sem fyrr getur, höfðu þær mæðgur í Görðum ábúð á einni prestsjörðinni á Kirkjubæ, sem nú voru kallaðar „lensjarðir“, eftir að séra Brynjólfur settist að á Ofanleiti og leigði þær öðrum sér til tekna.
Það var næstum ógerningur einsetukonu að nytja jörð nema að hafa vinnumann, sem vann að slætti á sumrum og fuglatekju, en dró svo úr sjó björg í bú á vetrarvertíðum. Einusetukona, þótt jörð hefði til ábúðar, gat ekki notfært sér að neinu ráði ínytjar og hlunnindi jarðarinnar. Það fékk Þorgerður Gísladóttir að reyna árin 1869-1872, eftir að Snjólfur unnusti hennar drukknaði. Þess vegna var það, að hún réð til sín vinnumann vorið 1872. Hann hét Sigurður Sigurfinnsson bónda í Yzta-Bæli undir Eyjafjöllum Runólfssonar. Hinn síðast nefndi var kunnur bóndi og skáld á Skaganesi í Mýrdal. Sigurður vinnumaður í Görðum var á 21. ári, f. 6. nóv. 1851, er hann réðst til ársdvalar að Görðum, eða 11 árum yngri en húsmóðirin, harðsnúinn dugnaðarmaður, lagtækur og framsækinn, sem lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna, nema þá ef vera kynni yndisþokka og kynþokka húsmóðurinnar, sem enn bar glampa í augum og ljúflegt látbragð með sér, þrátt fyrir allar raunirnar og reynsluna á stuttri ævi. Hann varð verulega ásthrifinn af henni óg hún lét tilleiðast, þó að viðkvæmustu ástarkenndir hennar hefðu þegar misst broddinn og beðið hnekki.
Þau Þorgerður Gísladóttir og Sigurður Sigurfinnsson giftust 16. okt. 1875. Þá var sonur, sem þau höfðu eignazt, rúmlega ársgamall. Faðirinn hafði fengið að ráða nafni hans og lét skíra hann Högna, eftir séra Högna Sigurðssyni presti á Breiðabólstað í Fljótshlið, en Sigurður var af honum kominn í 5. lið.
Högni litli í Görðum fæddist 23. sept. 1874.
Sigurður Sigurfinnsson var atorkumaður mikill, sem vildi drýgja dáðir til sjós og lands.
Kofarnir í Görðum voru að falli komnir. Þar vildi hann ekki byggja upp aftur, enda undir hælinn lagt um jarðnæðið á Kirkjubæ, þar sem jörðin var í lausri leigu, leigð frá ári til árs af ástæðum, sem áður greinir. Þannig hvarf tómthúsið Garðar af yfirborði jarðar 1875.
Árið, sem þau giftust, Sigurður og Þorgerður (1875), keyptu þau tómthúsið Kokkhús, þar sem foreldrar Þorgerðar höfðu áður búið, og hófu þaðan mikinn atvinnurekstur til sjós og lands.
Högni sonur þeirra ólst þar upp hjá þeim og vandist allri þeirri vinnu, sem féll til og kallaði að hverju sinni, eins og þá var háttum hagað.
Sigurður Sigurfinnsson undi illa nafninu á tómthúsi sínu, — fannst það smæðarlegt og niðurlægjandi. Það minnti hann á danska undirokun og baunskan yfirgang, sem hann hataði, því að Sigurður var þjóðrækinn maður, er vildi Ísland frjálst sem fyrst, vildi danskt vald úr vegi, vildi vinna þjóð og landi allt, sem hann vann, beint og óbeint.
Í þeim anda ól hann upp Högna son sinn, sem ávallt var þjóðrækinn þegn, unnandi íslenzku frelsi á öllum sviðum, íslenzkum þjóðháttum, íslenzkri tungu. Lengi eimdi eftir með mörgum Íslendingum sú þjóðfrelsisþrá, sem lifnaði og glæddist á þjóðhátíðarsumrinu 1874.
Svo var um Sigurð Sigurfinnsson. Hana erfði margur íslenzkur sonur af föður.
Árið 1877 kastaði Sigurður Kokkhúsnafninu af tómthúsi sínu og gaf því nafnið Boston. Tómthúsin París og London voru þá fyrir í Eyjum. Slík nöfn stórra borga voru þá í tízku þar og þóttu stækka eilítið hinar smáu og lélegu vistarverur tómthúsanna. Boston stóð, þar sem Fífilgata 2 stendur nú.
Í Boston ólst Högni Sigurðsson upp til 19 ára aldurs. Móðir hans kenndi honum að lesa, og faðir hans að draga til stafs og reikna. Hann var allæs 8 ára gamall, sem var næsta óvenjulegt þá. Á þroskaaldri hafði hann eignazt frábæra rithönd. Hana lærði hann mest og bezt í barnaskóla byggðarlagsins hjá eina kennaranum þar á þeim árum, Árna Filippussyni.
Árið 1879, 25. júlí, fæddist hjónunum í Boston annað barnið. Það var stúlka, sem var skírð Hildur Sigríður. Þá höfðu þau eignazt óskabörnin. En samt gekk ekki allt að óskum í hjónabandinu. Það var kalt og þar ríkti tilfinnanlegur skortur á tillitssemi. Þessi andi í æskuheimili Högna hafði varanleg áhrif á sálarlíf hans, sem unni heitt báðum foreldrum sínum og mat þá mikils. Hann gerðist innhverfur, dulur, fáskiptinn og þögull, þó að hann hafi að líkindum aldrei gert sér fyllilega grein fyrir því sjálfur.
Hildur, systir Högna, lézt hálfs fimmta árs, 18. des. 1883.
Í júnímánuði 1884 náði Sigurður Sigurfinnsson marki, sem hann hafði lengi haft í huga: Hann fékk þá byggingu fyrir einni jörðinni á Vilborgarstöðum. Þá var Högni sonur hans á 10. ári. Nú hófst landbúskapur hjá þeim hjónum jafnframt útgerð. Högni vandist vinnu við báða atvinnuvegina, og fetaði hann síðan í fótspor föður síns um rekstur bús og útgerðar, þá tímar liðu. Öll uppvaxtarárin frá 13 ára aldri stundaði Högni meira og minna eggjatekju og bjargveiðiskap og þótti slyngur bjargveiðimaður milli fermingar og tvítugs.
Hjá Högna Sigurðssyni komu snemma í ljós miklar námsgáfur og sterk námfýsi, enda munu foreldrar hans hafa fyrirhugað honum langskólanám, þegar hann var á bernskuskeiði. Á æskuárum hans létu þeir embættismann í Eyjum kenna honum frumdrög að latnesku máli í því skyni að létta honum nám í Lærða skólanum síðar. En í þann skóla fór Högni aldrei.
Hann var snemma látinn stunda sjómennsku á sumrum og líkindi eru til þess, að Sigurður faðir hans hafi haft hann með sér um tíma á þilskipi sínu, sem hét Skeið. Sjómennskuna stundaði Högni síðustu árin, áður en hann fór að heiman til framhaldsnáms.
Haustið 1893 hleypti Högni heimdraganum. Þá hóf hann nám í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Þá var hann 19 ára gamall. Hann lauk þar gagnfræðaprófi eftir tveggja vetra nám og kennaraprófi á sama tíma. Í skólanum bjó hann í heimavist. Milli skólavetra mun Högni hafa stundað sjó á skútu frá Faxaflóa og aflað sér þannig námsfjár.
Árið eftir að Högni fór að heiman til skólanáms, eða 1894, rifu foreldrar hans tómthús sitt Boston til grunna og byggðu það upp aftur nokkrum metrum norðar en áður. Þeir hlóðu hið nýja tómthús upp úr höggnu móbergi, svo sem Bryde kaupm. lét gera, er hann byggði verzlunarhús sitt í Eyjum 1880, og svo Vestmannaeyjahreppur, er hann byggði fyrsta barnaskólahúsið 1883.
Þetta nýja tómthús sitt kölluðu hjónin Dalbæ. Það hús stendur enn við Vestmannabraut (nr. 7).
Meðan á þessum byggingarframkvæmdum stóð munu hjónin Sigurður og Þorgerður hafa fengið inni í Kornhól.
Svo sem mörgum er kunnugt, þá var Sigurður útgerðarmaður í Dalbæ upphafsmaður eða frumkvöðull að almennri sundkennslu í Eyjum. Það var árið 1891. Þá var Sigurður formaður bjargráðanefndarinnar svokölluðu. Hún skyldi vinna að öryggismálum og björgunarmálum sjómanna sérstaklega og svo bjargveiðimanna.
Eitt af bjargráðum hennar var það, að uppvaxandi kynslóð á hverjum tíma í Eyjum skyldi læra sund.
Auðvitað hafði Sigurður faðir Högna mikinn áhuga á því, að sonur hans lærði vel að synda, yrði leikinn í þeirri íþrótt. Svo varð það líka.
Einng var Högni Sigurðsson glímumaður góður á yngri árum og fimleikamaður ágætur.
Með alla þá þjálfun og kunnáttu frá æskuskeiði sínu hóf hann nám í Flensborgarskólanum.
Skólabróðir Högna frá þessum árum er enn á lífi.
Hann minnist samvista þeirra í skólanum og Högna með þessum orðum:
Högni var „þrekvaxinn, hár, prúðmannlegur og alvörugefinn.“ Hann þótti bera af öðrum piltum í skólanum um vöxt og afl og líkamsorku og fágaða framkomu, enda var hann eldri þar en flestir aðrir sveinar. Högni var dulur og hæglátur og gaf sig lítið að ærslum og gleðilátum skólafélaganna, segir þessi aldraði skólabróðir hans. Svo glíminn var Högni Sigurðsson, segir hann, að engir stóðu honum snúning í skólanum nema tveir skólapiltar. Högni lagði alla þar nema þá Tómas Snorrason og Jón Bergmann. Tómas og Jón voru afburðamenn í íslenzkri glímu, en Högni reyndist þeim fremri í fimleikum.
Í Flensborgarskólanum var Högni látinn kenna skólabræðrum sínum sundtökin. Ekkert var vatnið til að synda í og sjórinn þótti of kaldur. Sundtökin lærðu þeir á „þurru landi“. Hengdar voru upp eins konar rólur í fimleikasalnum. Það voru strigagjarðir, sem piltar hengu láréttir í — ein undir brjósti, önnur undir kvið og svo gjarðir um hvort læri. Dingluðu piltar þannig í rólunum og lærðu sundtökin hjá Högna, sem kenndi þeim af lifandi áhuga að beita rétt orku sinni á sundi.
Piltar höfðu mikla ánægju af sundkennslu Högna, þótt hún færi þannig fram, og hafa eflaust margir hverjir æft sundtökin síðar í vatni eða sjó.
Sumarið 1894, milli námsvetranna í Flensborgarskóla, stundaði Högni sjóróðra á Suðurnesjum.
Að námi loknu í Flensborg (1895) fluttist Högni Sigurðsson austur að Nesi í Norðfirði og settist þar að. Þar stundaði hann barnakennslu á vetrum en sjó aðra tíma ársins. Þar var hann um skeið formaður á árabáti og aflaði vel.
Högni var söngvinn og söngelskur og tók þátt í sönglífi í Eyjum á uppvaxtarárum sínum.
Á Nesi í Norðfirði kenndi hann nemendum sínum m.a. söng að sögn aldraðra manna þar.

síðari hluti