Blik 1962/Sexæringurinn Hannibal og skipshöfn

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1962SEXÆRINGURINN HANNIBAL OG SKIPSHÖFNctr


Mennirnir eru þessir (f.v.): Ólafur Diðrik Sigurðsson, Strönd, Arnbjörn Ögmundsson, Prestshúsum, Guðjón Eyjólfsson, Kirkjubæ, sem sést naumast á myndinni. Ögmundur Ögmundsson, Landakoti, Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum.
Við birtum þessa mynd m.a. til þess að minna á og fræða um almenna staðreynd í atvinnulífi Eyjabúa, þar til vélbátaútvegurinn hefst 1906. Magnús Guðmundsson, bóndi á Vesturhúsum, var á síðustu tímum opnu vertíðarskipanna formaður á stærsta skipinu í Vestmannaeyjahöfn, Ingólfi.
Á vorin og sumrin stundaði hann sjóinn á Hannibal, nema þá lundaveiðitímann. Við vitum með vissu, að hann réri á Hannibal 10 vor- og sumarvertíðir. Eftir að línan var tekin í notkun 1897, veiddist mjög mikið af löngu á grunnmiðunum við Eyjar og var sjósókn stunduð af kappi.
Með Magnúsi réru mörg vor og sumur fastir hásetar á vetrarvertíðarskipinu Gideon með Hannesi Jónssyni.
Á þjóðhátíð Vestmannaeyja 1901 var háður kappróður á feræringum yfir höfnina. Þá vann þessi skipshöfn á Hannibal kappróðurinn.
Á Þorra (9. febr.) 1895 hvolfdi Hannibal á Leiðinni og drukknuðu þá tveir menn af bátnum, Lárus Jónsson, bóndi og hreppstjóri á Búastöðum, og Bjarni Jónsson. Kristján Ingimundarson, Klöpp, og skipshöfn hans björguðu þá 5 mönnum af bátnum.
Mynd þessi, sem hér birtist af Hannibal, er tekin eftir mynd, sem Jórunn Hannesdóttir, ekkja Magnúsar Guðmundssonar á Vesturhúsum, hefur gefið Byggðasafni Vestmannaeyja.