Blik 1960/Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



Sigurður Sigurfinnsson
hreppstjóri


Einn af stofnendum Ísfélags Vestmannaeyja var Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson. Sigurður var einn af allra mestu framtaks- og framfaramönnum í Vestmannaeyjum á sinni tíð. Árið 1893 stofnaði hann Framfarafélag Vestmannaeyja. Hann var formaður þess og ritari, þar til það hætti störfum 1914.
Framfarafélag Vestmannaeyja undir forustu Sigurðar Sigurfinnssonar kom mörgu góðu til leiðar í kauptúninu í Vestmannaeyjum. Það hvatti með ýmsum ráðum Eyjabændur til aukinnar jarðræktar. Það keypti fyrstu skilvinduna, sem kom til Eyja, keypti fyrstu handvagnana og leigði félagsmönnum o.fl. Um áhrif Framfarafélagsins og starf Sigurðar Sigurfinnssonar í formannssæti þess gefur að lesa í Bliki 1953, þar sem rakin er saga félagsins, birt lög þess og skýrt frá áhugamálum.

ctr

Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson og k.h. Guðríður
Jónsdóttir og synir þeirra:
Frá vinstri: Einar hraðfrystihúsaeigandi
í Reykjavík og Baldur bifreiðastjóri hér í bæ.

Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson hafði um sína daga í Eyjum mörgum störfum að sinna. Hann var bóndi og einn af mestu jarðræktarmönnum Eyjanna á sinni tið. Aðeins Sigurður í Nýborg stóð Sigurði hreppstjóra framar í jarðrækt. Jafnframt búskapnum stundaði Sigurður útgerð og var sjálfur skipstjóri á skipum sínum um árabil. Um tíma átti hann þilfarsskip, sem hét Skeið. Sjálfur var hann skipstjóri á skipi þessu.
Með sanni má fullyrða, að Sigurður Sigurfinnsson var smiður af guðs náð. Fátt sannar það betur en skipasmíðar hans. Hann hafði aldrei lært til smíða og naumast nokkru sinni kynnzt skipasmíðum. Veturinn 1888—1889 tók hann sjálfur sundur þilfarsskipið sitt Skeið og stækkaði það um 9 smálestir. Þótti það með afbrigðum vel gert af ólærðum manni og með þeim fábreytilegu og lélegu tækjum, sem þá voru kunn og handbær. Sýslunefnd Vestmannaeyja getur þessa framtaks í fundargjörð eitt sinn og dáist að framtaki þessu. Fyrir það og allt framtak Sigurðar Sigurfinnssonar til eflingar búskap í Eyjum samþykkti sýslunefndin þá að verðlauna hann með því að veita honum það fé, sem hið opinbera sendi hingað árið 1889 til eflingar búnaði í sveitarfélaginu. Það voru 30 krónur og voru miklir peningar þá, því að það svaraði til andvirðis 180—190 klukkustunda vinnu.
Árið 1895, er Lárus Jónsson hreppstjóri og bóndi á Búastöðum drukknaði, var Sigurður Sigurfinnsson skipaður hreppstjóri í hans stað. Það var hann til dauðadags 1916.
Sigurður Sigurfinnsson var kosinn í hreppsnefnd Vestmannaeyja árið 1901. Þá hafði Þorsteinn læknir Jónsson annazt oddvitastörf sveitarfélagsins milli 30 og 40 ár. Nú dró hann sig út úr því starfi. Var þá Sigurður Sigurfinnsson gerður að oddvita í hreppnum.
Sigurður Sigurfinnsson var skeleggasti baráttumaður og frumkvöðull í bindindismálum Eyjabúa um langt árabil eftir að séra Brynjólfur Jónsson féll frá.
Nokkru fyrir aldamót kjöru Eyjamenn sér svo kallaðaða bjargráðanefnd. Verkefni hennar var að efla fræðslu um slysavarnir og björgunarmál. Sigurður Sigurfinnsson var kosinn formaður þessarar nefndar. Þannig atvikaðist það, að Sigurður verður frumkvöðull að sundkennslu hér í Eyjum. Hann beitti sér fyrir því, að sýslusjóður styrkti þá starfsemi árlega í mörg ár, venjulega með 20 kr., og kom það svo í hlut Sigurðar Sigurfinnssonar að útvega sundkennara. Einnig gekkst Sigurður fyrir því, að landssjóður greiddi til sundkennslunnar aðra eins upphæð og sýslusjóður.
Þá skal því sízt gleymt, að Sigurður hreppstjóri beitti sér fyrstur manna í Eyjum fyrir því að hafa hönd í hári erlendra veiðiþjófa við Eyjar. Hann færði þá til hafnar og lét sekta. Það var lífshættulegt framtak á opnu skipi og síðar smáum vélbát.
Um sína daga var Sigurður Sigurfinnsson einn af kunnustu hagyrðingum Vestmannaeyja og í raun fyrsti „blaðamaður“ í Eyjum, með því að hann sendi á prent árlega og oft á ári fréttapistla úr sveitarfélaginu. Þeir eru ómetanlegar heimildir um aflabrögð, búskap og margt fleira varðandi afkomu og atvinnulíf Eyjabúa fyrir og um aldamótin síðustu.
Það er m.a. ástæðan fyrir því, að Sigurðar Sigurfinnssonar er minnzt hér að þessu sinni, að hann vakti fyrstur manna í Vestmannaeyjum máls á því að þar væri aðkallandi nauðsyn að byggja íshús. (Sjá 1. kafla af sögu Ísfélags Vestmannaeyja hér í ritinu).
Sumarið 1905 fór Sigurður Sigurfinnsson til Noregs ásamt Símoni Egilssyni í Miðey í Eyjum. Festu þeir þar kaup á 10 smálesta seglbát (Samanber bréf S.S. hér á eftir) og sigldu honum til Friðrikshafnar í Danmörku, þar sem sett var vél í bátinn. Seint í ágústmánuði var báturinn tilbúinn til Íslandsferðar. Um þessa sögulegu ferð þeirra félaga til Íslands skrifaði Sigurður Sigurfinnsson sjálfur, og er siglingasaga þeirra félaga birt í Óðni 1906.
Hér birtir Blik það helzta úr henni.
Sigurður Sigurfinnsson skipstjóri segir sjálfur svo frá:
„Á leiðinni var vöktum skipt þannig, að ekki svaf nema einn í einu 4 tíma, ef hann þá gat sofnað, og hlutum við því, hver um sig, að „vera uppi“ 8 tíma í einu. Enga nótt svaf ég á leiðinni, því að ég var þá alltaf uppi, og svo 8 tíma um miðjan daginn, en oftast sofnaði ég kvölds og morgna. Óþægilegt þótti mér að eiga við „kort“ og reikning á hnjánum á gólfinu, stundum alvotur af sjó, eða þá af svita vegna hita frá vélinni. Ég hafði að sönnu „oktant“ með mér en gat ekki mælt sólarhæð, því að oftast voru „sólarlitlir dagar“, enda gerði það ekkert. Ég hefi oft áður verið miklu lengur á sjó án þess að sjá land og þó eigi villzt, t.d. 1887 frá byrjun september til 8. okt.
Mótvindi höfðum við frá Friðrikshöfn til Jótlandsskaga. Allsterkan austanvind frá því miðja vegu milli Skagans og Mandals og alla leið norður fyrir Björgvin, svo að við urðum að sigla með tvírifuðu stórsegli og tvírifaðri stagfokku. Vélina notuðum við í logni milli Noregs og Setlandseyja, 30 tíma samfleytt.
Hér um bil 16 mílur norðaustur af Færeyjum, fengum við mótvind, vestanvind allsnarpan í rúma tvo sólarhringa (31. ágúst og 1. sept), og rak okkur þá í 10 tíma.
4 sept. kl. 5 um morguninn vorum við hér um bil 24 mílur frá Austurhorni. Var þá bjart veður og stinningskaldi við norður. En kl. 6 um kvöldið var hann orðinn svo hvass á norðaustan með úrferð, að við urðum að sigla með þrírifuðu stórsegli og tvírifaðri stagfokku.
Klukkan 8 um kvöldið vorum við komnir á móts við Ingólfshöfða. Um nóttina sigldum við með tvírifaðri stagfokku aðeins. Var þá rétt nefnt óveður og veltibrim. Kl. 3 um nóttina 5. sept. vorum við út af Kúðafljóti. Lygndi þá nokkra klukkutíma, en hvessti svo aftur af sömu átt.
Inn á Vestmannaeyjahöfn komum við kl. 6 um kvöldið (5. sept.) eftir nokkra bið austan við Eyjarnar til þess að hásjávað yrði.
Báturinn fór oft 7—9 mílur á vökunni, en vont var stundum að stýra honum, miklu verra en þilskipi. Einna aðgæzluverðast fannst mér það á heimleiðinni, að hann hafði sama sem ekkert skjólþil, svo að ætíð varð að gæta varúðar til þess að hrökkva ekki út.
Báturinn er 36,5 fet á lengd, 12,5 á breidd og 6 fet á dýpt (mun vera um 10 smálestir nettó). Sannfærður er ég um, að þessu líkir bátar eru vænlegri til aflabragða og áreiðanlegri fyrir líftóruna en opnu manndrápsbollarnir, sem vaninn, heimskan og þekkingarleysið eru búin að negla íslenzka og færeyiska sjómenn við hverja öldina eftir aðra.“
Undir þessa skoðun Sigurðar Sigurfinnssonar á hinum nýju vélknúnu farartækjum vildu þó ekki allir sjómann taka þá. Einn af kunnustu formönnum og aflamönnum í Þorlákshöfn á síðari hluta 19. aldar skrifar í minningarnar sínar eftir aldamót nokkur íhreytuorð til hinna nýju fiskifleytna þjóðarinnar, vélbátanna: ,,Nú er orðið of erfitt að leggja út ár, nú verður olían að gera ganginn að öllu leyti, og hún kostar peninga, en er ekki gefins afl eins og vindurinn. Á þennan hátt glatast öll þau manndómsverðmæti, sem gamla sjómennskan þroskaði áður. Og því miður er það komið í ljós, að lífi manna er ekki að öllu betur borgið á þessum mótorpungum, en áður var, og jafnvel miður, því að þessu öllu virðist fylgja meiri gáski og glannaskapur en áður, og öll aðgæzla og ábyrgðartilfinning formanna jafnvel að hverfa.“
Þetta voru orð gamla og reynda sjómannsins, Jóns Jónssonar frá Hlíðarenda. Sagan endurtekur sig. Heimur fer svo oft versnandi í augum okkar, þegar við eldumst og gerum okkur ekki grein fyrir því, að tímarnir breytast og mennirnir með, a.m.k. þeir, sem ekki verða að einskonar andlegum steingjörvingum þegar á unga aldri. Þannig er venjulega varið hinum þungu og oft ósanngjörnu dómum, sem aldraða kynslóðin kveður upp um æskulýðinn hverju sinni, svo að nefnt sé eitt dæmi, þar sem þessi saga endurtekur sig svo að segja daglega.

Mér eru engar heimildir kunnar um það, að fyrr hafi Íslendingar siglt litlum vélbáti heim til Fróns yfir hina djúpu Atlantsála frá öðrum löndum. Álykta ég þess vegna, að þessi sigling Sigurðar Sigurfinnssonar og Símonar Egilssonar hafi verið sú fyrsta sinnar tegundar með þessari þjóð.
Framtakið var afrek, sem fáir hefðu þá haft kjark og dugnað til að inna af hendi nema afburðamenn eins og Sigurður Sigurfinnsson, eins og allt var þá í hendur búið sjófarendum, siglingatæki og tök, vélar og voðir. Siglingafræði mun Sigurður Sigurfinnsson hafa lært af sjálfum sér við lestur bóka á því sviði. Hann var afbragðs sjómaður, gætinn og hugrakkur, og hin mesta aflakló.
Sigurður Sigurfinnsson var fæddur 6. nóv. 1851 að Yztabæliskoti undir Eyjafjöllum, sonur Sigurfinns bónda þar og í Yztabæli Runólfssonar. Kona Sigurfinns bónda og móðir Sigurðar var Helga Jónsdóttir bónda að Brekkum í Holtum Jónssonar.
Sigurður Sigurfinnsson fluttist til Vestmannaeyja 1872. Þar giftist hann Þorgerði Gísladóttur frá Görðum. Þau skildu.
Síðari kona Sigurðar var Guðríður Jónsdóttir frá Káragerði í Landeyjum. Sigurður Sigurfinnsson dó 8. sept 1916.

Þ.Þ.V.