Blik 1959/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, I. kafli, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


I. kafli
Fyrsti barnaskóli á Íslandi
1745-1766
(III. hluti)


Enn var um þetta skólamál sem að klappa á bergið. Engu varð um þokað til að skapa skólanum örugga framtíð með hæfu kennaraliði og vissri fjárhagsiegri afkomu. Illæri héldu áfram að sverfa að hag Eyjaskeggja. Vitað er það, segir M. Gíslason, amtmaður, að þrír bændur í Eyjum af hverjum fjórum, eru ánauðugir skuldaþrælar einokunarkaupmannsins. Þeir og fólk þeirra etur hans brauð, eins og amtmaður kemst að orði með lítilsvirðingu. Hvað þá um tómthúsmennina, sem enga landbúnaðarframleiðslu höfðu, engar nytjar í Úteyjum, hvorki eggjatekju né fugl, og engan reka eða sáralítinn? Ofan á skuldanauðina og hina sáru fátækt bættist nú það, að ginklofinn gerðist æ skæðari ár frá ári og deyddi árlega í vaxandi mæli börnin nýfædd. Þrátt fyrir allt þetta hélt barnaskólinn áfram að starfa í Eyjum. Nathanael Gissurarson meðhjálpari og bóndi lét hvergi bugast. Fórnarlund hans átti sér lítil takmörk. Hún var honum meðfædd og eiginleg. Vissulega hefur hann trúað því, að hann færði hér fórn til sáluhjálpar sjálfum sér, starf hans væri guði í alla staði mjög velþóknanlegt. Hér lyfti hin einlæga guðstrú undir hornið með honum, þessum hógværa, siðláta og seiglundaða bóndamanni með prestablóð í æðum langt aftan úr ættum. Og guðstrúin hans sem fjölda annarra flutti hér vissulega fjöll. Það var sálarlegt og líkamlegt þrekvirki að halda barnaskóla ár eftir ár, á annan tug ára, í hjáverkum sínum við lítil eða engin laun, litlar þakkir eða engar, ef til vill aðeins kröfur og önugleika aðstandenda barnanna en látlausan átroðning á eigið heimili.
Á sama tíma heldur Finnur biskup Jónsson áfram að starfa fyrir framtíð skólans. Hann svarar amtmanni með bréfi dags. 20. jan. 1758. Í bréfi þessu leitast hann við að leiðrétta ýmiskonar misskilning um hugsjónina, sem læðzt hafði inn í meðvitund amtmanns.
Hér verður aðeins birt lauslega efni bréfsins fært til nútíðarmáls.
Biskup talar við amtmann ýmist í þriðju eða annarri persónu.

20. jan. 1758.
,,Á síðastliðnu sumri fékk ég bréf frá hans ættgöfgi, dags. 20. ágúst, varðandi reglugerð prestanna í Vestmannaeyjum um stofnun barnaskóla. Ég tilkynnti prestunum efni bréfsins. Síðan hefi ég hvorki fengið bréf frá þeim eða svar, ef til vill vegna þess, að þeir örvænta um árangur af málaleitan sinni. Ég gat heldur ekki í það sinn skrifað þeim svo ýtarlega, sem ég óskaði, sökum þess, að ég hafði þá ekki reglugerðina hjá mér, heldur var hún, að ég ætla, hjá hans hágöfgi, því að mér hefur hún ekki borizt í hendur, síðan ég sendi yður hana, göfugi herra, með bréfi mínu dags. 25. júlí. Ef ég skyldi eitthvað geta gert þessu máli til framdráttar, vildi ég mega biðja um að fá reglugerðina endursenda. Þegar ég hefi fengið hana aftur, mun ég gera allt, sem ég get þessu mikilvæga og nauðsynlega skólamáli til gengis. En því miður uggir mig, að árangurinn verði harla lítill vegna ókunnugleika míns í Eyjum og fjarlægðar frá þeim. Því að hver sá, sem semja vill drög að tillögum í svo mikilsverðu máli, verður að þekkja vel staðhætti og kringumstæður á staðnum og dveljast þar, svo að hann geti vegið og metið hvert atriði, leitað ráða og orðið þess þannig áskynja, hvar slaka skal á klónni og hve rökfastur eða vanhugsaður mótblástur andstæðinganna er.
Annars hygg ég það kleift að tryggja skólanum framtíð.
Í fyrsta lagi vegna þess, að hér er ekki stofnað til neins skriftar- eða barnaskóla, sem óvíða eru nema í stórborgum og kaupstöðum, heldur er um að ræða lítinn kristinfræðiskóla, sem samrýmist þörfum Vestmannaeyja, þar sem börnunum er aðeins kennt að lesa á bók, kennd kristinfræði og þá barnaspurningar. Engin þörf er á stórri byggingu til þess, heldur aðeins venjulegri og þægilegri baðstofu.
Í öðru lagi: Slíkur kristinfræðiskóli hefur verið starfræktur í Eyjum undanfarin 13—14 ár, eða skólamynd, þar sem vel læs og fróður almúgamaður hefur veitt skólanum forstöðu með góðum árangri. Prestarnir óska að gera þennan skóla fullkomnari og tryggja honum framtíð.
Í þriðja lagi: Ég held, að það sé engin ástæða til að kvíða fyrir því, að örðugt verði að fá þangað stúdent til að kenna kristinfræðin, því að það úir og grúir í Stiftinu af latínulærðum mönnum, sem hvergi þykjast hafa höfði sínu að að halla og hljóta því annað hvort að betla eða verða að erfiða sér brauð. Þeir verða því fegnir hverri vistráðningu, sem þeim býðst, svo að hér er hvorki þörf á að bjóða há laun né kosta miklu til lífsviðurværis. Hve margur presturinn hefur nú ekki meira en 12—14 ríkisdala laun til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni á og verður því að erfiða með embættisstörfunum bæði til sjós og lands, þegar svo ber undir. Þetta er enginn ógerningur fyrir prest, því þá kristinfræðikennara eða stúdent? Sannarlega álít ég, að hann geti heyjað fyrir kú sinni á sumardegi og líka róið til fiskjar, þó að hann hafi þessa kristindómskennslu á hendi.
Ef ég man rétt um reglugerðina, þá veldur eitt atriði þar varðandi einokunarkaupmanninn mestum erfiðleikum, en meðan ég hefi ekki reglugerðina í hendinni, get ég ekkert að þessu unnið.“

Amtmaður mun nú ekki hafa látið það úr hömlu dragast fyrir sér að endursenda biskupi reglugerðina.
Þá skrifar biskup enn prestunum í Vestmannaeyjum 26. apríl 1758. Hefur hann þá fengið afdráttarlaust álit amtmanns á skólastofnuninni.

Hér birtist bréf biskups til prestanna fært til nútíðarmáls.

„Hina mjög þegnlegu reglugerð ykkar um stofnun barnaskóla í Vestmannaeyjum sendi ég í hitteðfyrra með áliti mínu um hana. Í fyrra sumar sendi ég amtmanninum aftur álit mitt. Þar eð honum fannst þetta tómt kák, sem ekki yrði framkvæmt eða stofnað til, sendi hann ekkert álit út í fyrra sumar. Við höfum svo til þessa skipzt á bréfum um þetta. Af því að ég hefi ætíð stutt ykkar málstað og það verið sannfæring mín, að þetta væri kleift, þá komst þetta svo langt um síðir, að hann sendi mér nú fyrir stuttu þessa reglugerð með ábendingu um, að ég endursemdi nokkur atriði hennar, sem honum fundust helzt óhæfileg. Að því gjörðu heitir hann áliti sínu. Nú hefi ég gjört þetta að hans áeggjan og sendi ykkur þetta uppkast hér með til yfirvegunar og undirskriftar, ef þið fallist á það. Þið megið þarna taka af og bæta við, eftir því sem ykkur þóknast, því að ég hefi ekki gjört þetta með það í huga að setja ykkur eða nokkrum öðrum einhver lög, heldur hefi ég notað það úr ykkar reglugerð, sem mér sýnist rétt og gott, en bætt þar við nokkru, sem virtist betur fara og allir aðilar gætu sætt sig við. En líki hvorki ykkur né öðrum, sem hlut eiga að máli, neitt af þessu, þá er mér hið sama. Gjörið í því það, sem Guð og góð samvizka ykkar býður og vill. Þið hafið það í skauti ykkar, hvort þið sýnið þetta fleiri mönnum. Ef þið væruð vissir um samþykki umboðsmannsins, þá væri mikið í mun að fá hana skriflega, en ef þið eruð fyrirfram vissir um einhverja andúð þar, þá er ekki vert að ómaka sig til að seilast eftir henni, heldur láta vera sem komið er og reyna, hvernig fara vill.
Þegar þið hafið lagfært þetta og samþykkt, endurskrifað og undirritað, ef það verður þá nokkurn tíma, þá sendið mér það aftur í tvíriti, og því betra er það sem fyrr er gjört.
Mér væri það hjartans ánægja, ef þetta næði fram að ganga, ekki aðeins vegna þess gagns, sem Vestmannaeyingar kynnu að hljóta af því, heldur allra mest vegna hins, að ég sé hilla undir slíka barnaskóla víða annars staðar á landinu, komist þessi skóli á stofn hjá ykkur, og yrðu þá gagnsmunirnir af þessu starfi alveg yfirfljótanlegir.“

Fátt sýnir betur en niðurlag bréfsins, hversu góður Íslendingur og þjóðhollur biskup Finnur Jónsson var. Hér var unnið að hugsjón, sem varðaði velferð allrar þjóðarinnar. Biskup skyldi manna bezt, að fáfræði hennar og hrakandi menning var þjóðinni sárasta fátæktin, sem hlyti að enda með tortímingu, ef eigi yrði þar bót á ráðin og það hið allra fyrsta. Erlend reynsla hafði þegar sannað það, að skólar og fátt annað en aukin fræðslustarfsemi megnaði þar úr að bæta. Bókvitið yrði sett í askana, hvað svo sem almenningsálitið segði.
Ekki létu Eyjaprestar á sér standa að sníða agnúana af reglugerðaruppkastinu; ef það mætti þá njóta náðar hjá valdsmönnum. Síðan var það endursent biskupi.
Biskup skrifar nú enn amtmanni 27. júlí 1758 og sendir uppkast að reglugerðinni með bréfi sínu. Hann getur þess, að í „stiftkistunni“ sé frumrit að reglugerð skólans frá árinu 1745. Hafi þá fyrrverandi umboðsmaður konungs í Vestmannaeyjum, Von Eynen, heitið 4 marka framlagi árlega til skólans, og vilji eftirmaður hans nú standa við það loforð. Sömu upphæð lofi prestarnir úr eigin vasa og hreppsstjórarnir úr fátækrasjóði, eða 4 mörkum samtals. — Þessi fyrsta reglugerð barnaskólans virðist nú töpuð.
Þessu bréfi biskups virðist amtmaður aldrei hafa svarað og lagðist hann alveg á málið. En biskup var ekki af baki dottinn. Þegar hann tók að örvænta um svar frá amtmanni, skrifaði hann sjálfu kirkjuráðinu í Kaupmannahöfn, 13. ágúst 1758, og beindi orðum sínum til sjálfs einvaldsherrans, konungsins.
Þetta markverða bréf biskups hefi ég þýtt vegna þess, hversu þar er skýrt nákvæmlega frá þeim ákvæðum, sem biskup og Eyjaprestar höfðu að lokum komið sér saman um að standa skyldu í reglugerðinni, og hverju að skyldi stefnt í skólastarfinu.
Hér er svo bréfið í samfelldri heild:

Árið 1758.

Frumatriði um stofnun barnaskóla í Vestmannaeyjum.

Voldugi einvaldur.
Allra mildasti erfðakonungur og
herra.

Eins og guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg, þannig er og öll þekking á Guði þarfleg og alveg óhjákvæmileg til þess að öðlast guðhræðslu, því að enginn getur í sannleika elskað, tilbiðið og óttast það, sem hann þekkir ekki. Þess vegna er það, að hinn eini góði Guð, sem vill, að allir menn verði sælir og játist sannleikanum, hefur ekki einvörðungu ráðlagt oss, heldur einnig boðið, að rannsaka skuli ritningarnar, því að þær eru það, sem vitna um Hann og veita oss sanna þekkingu á Honum. Þessum náðarsamlegu ráðum og boðum Guðs verður því betur framfylgt og eftir þeim lifað, því meir sem Hann lætur hina dyggu þjóna sína og ríkisstjórnendur hér á jörðu, vora allra mildustu konunga og valdsherra, koma á fót ýmsum markverðum stofnunum til þess að kenna æskulýðnum Guðsorð, svo að hann megi öðlast tímanlega og eilífa sælu. Meðal þeirra helztu eru skólastofnanir til handa fátækum börnum.
Og þar sem vér höfum frétt, að hinar ágætustu stofnanir þeirrar tegundar hafi borið ríkulegan ávöxt og af þeim orðið mikið gagn í löndum og héruðum vors allra mildasta erfðaherra og konungs, og það væri hinn miskunnsamasti vilji hans konuglegu hátignar, að slíkir barnaskólar skyldu einnig settir á stofn hér á Íslandi, ef þess væri kostur, þá gáfu hinir allra auðsveipnustu, fátæku þjónar og prestar hans konunglegu tignar í Vestmannaeyjum oss ei þegar til kynna þennan vilja og þessa mjög lofsamlegu fyrirætlan hans hágöfgi.
Vér höfðum því eigi hugleitt ráð og leiðir til að stofna þennan litla barnaskóla í Vestmannaeyjum í samræmi við hina mikilsverðu og alvarlegu hvatningu og áminningu frá vorum háu, andlegu yfirvöldum.
Enda þótt skólamál þetta væri í fyrstu mjög erfitt viðfangs sökum fátæktar fólksins og hinna bágu kringumstæðna þess, þá var þó lagður hornsteinn að stofnun þessari árið 1745. Og þar sem reynslan hefur sannað, að þessi starfsemi er gerleg, þá var stofnunin endurbætt áríð 1750, eins og hjálagt skjal mætti allra mildilegast leiða í ljós.
Þar sem nú þessi stofnun, eða réttara sagt tilraun eða upphaf að barnaskóla, hversu litilmótlegur sem hann annars er, hefur þegar á byrjunarstigi komið að miklum notum við að kenna upphafsatriði kristindómsins, þá ber manni að hugsa ráð, ekki eingöngu til að halda honum við, heldur og til að auka hann og fullkomna, sem þó naumast er að vænta, þar sem tilvera hans byggist eingöngu á:
a) Samtökum núlifandi fólks og loforðum, svo að hætta er á, að stofnunin hætti starfi og hverfi gjörsamlega, þegar stuðningsmaður deyr, og maður kemur manns í stað, sem ekki telur sér hagkvæmt að styrkja stofnunina.
b) Ennþá hefur ekki fengizt duglegur og vel reyndur kristinfræðikennari. Þar hefur orðið að notast við óskólagenginn en þó siðlátan bónda, sem hvorki hefur haft nægan tíma til þess verks sökum sinna daglegu starfa né býr yfir nægri þekkingu og hæfni, sem til þessa krefst.
Í nafni Guðs gerumst vér því svo djarfir í allri auðmýkt vorri, að koma fram fyrir hin heilögu augu yðar hátignar, ekki einvörðungu til þess að fá haldið við virðingu og valdi þessarar mjög svo nauðsynlegu stofnunar, heldur einnig og auk þess til að fullkomna hana og tryggja framtíð hennar, sem er hin þegnlegasta og velmeinta hugmynd vor og bón, svo að yðar hátign mætti allra mildilegast þóknast að skipa svo fyrir og bjóða, að hér í Vestmannaeyjum verði stofnaður barnaskóli með eftirfarandi réttindum og skilyrðum, sem vér álítum með fyllstu auðsveipni vera hin hagkvæmustu og hentugustu Eyjabúum og bezt sniðin eftir staðháttum þar:
1) Á hentugum stað í Vestmannaeyjum, sem prófasturinn skal velja að ráði sóknarprestanna og umboðsmannsins og fá vald yfir, skal byggja hús í samræmi við landshætti og staðhætti í Vestmannaeyjum, sem síðan skal vera barnaskólahús, og skulu allir íbúar Eyjanna undantekningarlaust leggja sitt til í andvirði byggingarinnar eftir efnum og ástæðum, og skulu þeir prófasturinn, prestarnir og umboðsmaðurinn stjórna þessum framkvæmdum.
2) Starfsár þessa barnaskóla skal að jafnaði vera frá 29. ágúst til jafn lengdar næsta ár.
Skulu þá allar breytingar, sem ár hvert geta átt sér stað, afráðnar, og bætt úr óreglu, sem stundum getur komið fyrir. Umboðsmanninum og prestunum ber að hafa eftirlit með því, að starfið í barnaskólanum fari fram með siðsemi og reglusemi, svo sem tök eru á. En skyldi eitthvað það koma fyrir, sem þeir geta ekki bætt úr, skal tilkynna það prófastinum eða biskupnum.
3) Skálholtsbiskup skal skipa heiðvirðan stúdent, sem hann telur hæfan og duglegan, til að vera kristinfræðikennara og skólameistara í Vestmannaeyjum. Þessi skólameistari skal taka við embættinu við upphaf skólaárs og þjóna því í 3 ár. Að þeim árum liðnum getur hann sagt af sér embættinu. Skal hann þá njóta forréttinda umfram aðra óreynda stúdenta, sem burt skráðir eru frá Skálholtsskóla, og heiðraður með betur launuðu embætti, ef hann æskir þess.
Óski skólameistari að hverfa frá starfi sínu, skulu prestarnir í Vestmannaeyjum tilkynna það undir eins biskupi, sem þá þegar skipar annan í hans stað.
4) Hann skal ekki aðeins kenna börnunum fræði Lúthers með hinum allra minnstu skýringum, sem samþykktar eru og fyrirskipaðar með þeim hætti og þeirri aðferð, sem náðarsamlegast er boðið um undirbúning kristindómsfræðslunnar. Þar skal snemma byrja að læra nauðsynlegar bænir og sálma eftir því sem hægt er og án allrar vanrækslu, og fara þar að ráðum og boðum prestanna.
Samfara kristindómskennslunni skal kenna börnunum snemma að lesa á bók og áminna þau um guðsótta og góða siði. Hvern dag skal hann hefja yfirheyrslur sínar í skólanum og enda með bæn og söng.
5) Kennslan skal fram fara síðari hluta hvers helgidags, meðan dagur er langur og ástæður leyfa, svo að meðhjálpararnir hafi tíma til að mæta í skólanum. Þess utan skulu börnin mæta daglega í skólanum kl. 9 að morgni að sumrinu og kl. 10 að vetrinum. Þau skulu dveljast þar svo lengi fram eftir degi, sem nauðsyn þykir til, að undanteknum þeim dögum á vertíð, er skólameistarinn rær á sjó til fiskjar með öðrum, eða aðrar óviðráðanlegar hindranir hefta starfið.
6) Með liti til þeirra tækifæra, sem bjóðast í Eyjum, sem vel má nota án þess að um verulega vanrækslu í kennslustörfum sé um að ræða, þá ber að leyfa skólameistara á vertíðum og oftar að róa til fiskjar með öðrum, en stunda skal hann starf sitt af því meiri kostgæfni og iðni aðra daga og tíma.
Einu sinni á ári skal hann hafa leyfi til að ferðast til meginlandsins, en vera þó ekki lengur að heiman en einn mánuð nema lögleg forföll hindri, og skulu þá prestarnir til skiptis starfa í hans stað á meðan, eftir því sem þeir mega því við koma.
7) Allt fólk í Vestmannaeyjum, sem hefur börn á framfæri og getur ekki sjálft kennt þeim, svo að viðhlítandi sé að áliti prófasts og prestanna, en ekki þess sjálfs, ber skylda til að láta börnin ganga í þennan skóla og hefja skólagönguna, þegar prestarnir tilkynna það. Sé það vanrækt, skulu aðstandendur barnanna greiða skólameistara fyrir vanrækslu hvers barns jafnmikið og þótt barnið hefði notið kennslunnar og skal sýslumaður eða hreppstjóri innheimta gjaldið.
8) Prestarnir tilnefna árlega fátæku börnin, sem ganga skulu í skólann, en hreppstjórarnir og sýslumaðurinn skulu alvarlega áminna foreldrana og aðra ráðamenn barnanna að láta þau stunda skólann af iðni og vanrækja hann í engu, heldur nota sér þessa mjög þörfu fræðslu.
Vanræki foreldrar eða aðrir ráðamenn barnanna að ástæðulausu að láta þau koma daglega í skólann, þegar þeim ber að gera það, eða láta þau koma þangað allt of seint, skulu þeir greiða skólameistaranum einn fisk fyrir hvern tíma, sem þannig er vanræktur. Sýslumaður og hreppstjórarnir skulu innheimta þessar sektir.
9) Skólameistarinn skal umgangast börnin siðlega og hlýlega og þó alltaf með tilhlýðilegri alvörugefni. Hann skal einnig hafa vald til að refsa þeim með vendi fyrir óvarkárni þeirra og vanrækslu að læra lexíur sínar svo og aðrar misgerðir, gjörðar af ráðnum hug.
10) Allir, sem hlut eiga að máli, skulu gæta þess, að börnin fari ekki í skólann eða frá honum í allt of slæmu veðri. Verði börnin vegna óveðurs, sjúkleika eða af öðrum ástæðum að gista hjá skólameistara, þá ber honum að veita þeim allan beina. Bjargálna foreldrar greiða sjálfir beinann fyrir börn sín, en hreppstjórarnir greiða honum sanngjarna borgun úr fátækrasjóði fyrir sveitarbörnin.
11) Skólameistara ber stundum að spyrja börnin opinberlega í kirkjunni og æfa sig í ræðuhöldum í prédikunarstólnum. Hann skal á allan hátt standa þannig í starfi sínu, eins og hans konunglega hátign hafði allra náðarsamlegast fyrirskipað og boðið klausturdjáknunum og aðstoðarprestunum (elemosynariis) í prestaköllunum og samrýmist staðháttum og krafizt verður af embætti hans, eins og málefni standa til.
12) Hann skal bera tilhlýðilega virðingu fyrir prestunum og öðrum valdamönnum í Vestmannaeyjum og meta þá og hafa samráð við prestana um allt það, sem erfiðleikum veldur í starfinu, en fara ekki að öllu leyti að sínum geðþótta og vilja.
13) Umboðsmanninum í Vestmannaeyjum ber að sjá skólameistara fyrir ódýru leiguherbergi, ef hann óskar þess, eða gistingu á hentugum stað. Þá skal hann framar öðrum fá bújörð með venjulegu afgjaldi, ef hann krefst þess.
14) Samkvæmt þeim samningi, sem gjörður var í Vestmannaeyjum 16. ágúst 1750, skal umboðmaðurinn þar greiða skólameistara árlega 4 mörk. Sömu upphæð skal hann fá frá hvorum presti og úr fátækrasjóði eða 4 mörk í peningum. Þá skulu bjargálna foreldrar greiða honum fyrir hvert barn sitt, sem hann kennir, 4 mörk. Þar að auki skal hann fá daglega einn meðal fisk með sporði og haus af hverju fiskiskipi, þegar það fær einn í hlut, hvort sem það er á vertíð eða utan hennar, heimaskip eða af landi. Fiskinn skal afhenda honum undireins. Einnig skal skólameistari fá við vertíðarlok einn fisk af hverjum vertíðarhlut þar í Eyjum, og skal það ganga jafnt yfir alla, hverju nafni, sem hluturinn nefnist, og hvernig sem hann er myndaður, án undantekningar.
15) Veiti Guð svo ríkulega blessun eitt ár eða annað, að tekjur skólameistara fari fram úr 16 ríkisdölum að verðgildi, skulu umboðsmaðurinn og prestarnir geyma það í peningum, sem umfram er 16 ríkisdali innsiglað þar til harðnar í ári, og afhenda það þá aftur skólameistara eftir þörfum hans og ástæðum, þegar þeir telja honum koma það bezt.
16) Umboðsmaðurinn og prestarnir skulu halda þar til gerða bók yfir greiðslur þær, sem skólameistari fær frá almenningi og hér um ræðir, hvort sem það er andvirði fisks eða aðrar vörur, og einnig allt annað, sem honum greiðist, svo sem sektir, gjafir af frjálsum vilja, og hverju nafni, sem það annars nefnist. Þeir skulu halda sína bókina hver, þar sem tekjur þessar færast, og skal reikningur þessi gerast upp og undirritast 29. ágúst ár hvert. Þá skulu umræddir trúnaðarmenn greiða skólameistara í síðasta lagi kaup hans að fullu og réttlátlega.
17) (í bréfi biskups ber þessi grein líka töluna 16, sem er bersýnilega skakkt). Þegar kristinfræðikennarinn eða skólameistarinn hefur starfað í Vestmannaeyjum 3 ár, getur hann, ef hann æskir þess, fengið lausn frá embætti. Svo fremi sem prófasturinn gefur honum góðan vitnisburð, og biskup álítur hann þá nægilega duglegan, má veita honum miðlungs prestakall, þegar það losnar, eins og djáknum á klaustrunum, og enginn maklegri sækir um það.
18) (17. grein hjá biskupi). Undir eins og skólameistaraembættið í Vestmannaeyjum losnar, hvort sem það á sér stað við dauða kristinfræðikennarans eða á annan hátt, skulu prestarnir tilkynna það biskupi, sem skipar þá hið bráðasta annan hæfan mann í embættið ****.
****Samkv. bréfabók Finns biskups Jónssonar í Biskupsskjalasafni A IV.23, bls. 188-193.

Svo leið tíminn, og biskup beið svars við hinu langa bréfi sínu.
Snemma vors árið eftir hafði biskupi ekki enn borizt svar við bréfinu.
Það vor, 27. apríl 1759, skrifar hann prestunum í Vestmannaeyjum. Þar segir hann sér það kært „að þið eruð ei barnaskólastiftunar aldeilis afhuga. Kannske Guð gefi einhver þægileg tíðindi með skipunum.“
En þessi „þægilegu tíðindi“ til framdráttar og öryggis fyrsta barnaskóla, sem stofnaður var á Íslandi, bárust aldrei, hvorki biskupi eða prestunum.
Reglugerðin fékkst aldrei staðfest.
Enda þótt biskup beygði sig þannig í duftið og skriði undir skegg sjálfum konunginum í von um, að skólahugsjónin hlyti velvild hans og staðfestu, þá hlaut hún enga náð fyrir hinum ,,heilögu augum hans konunglegu hátignar“.
Þrátt fyrir það héldu Eyjabúar áfram rekstri barnaskólans. Flest árin munu nemendur hafa verið innan við tíu talsins, enda fór fólki stöðugt fækkandi í Vestmannaeyjum alla 18. öldina eins og fyrr er greint.
Veturinn 1757—1758 var hringjarinn við Landakirkju, Bjarni Magnússon bóndi í Norðurgarði, aðalkennari skólans, skólameistari. Sumarið 1758 í júlímánuði visíteraði prófastur Eyjarnar. Þá lætur hann í ljós ánægju sína yfir skólastarfi Bjarna bónda og bókar þetta m.a.:
„Æruprýddur klukkarinn, Bjarni Magnússon fær góðan vitnisburð hjá sóknarherrunum, að hann uppfræði sveitarbörnin sem mögulegt er eftir hans standi, og ber hans starf góðan ávöxt í því, að þau læri á bók og utan bókar.“
Bjarni Magnússon var annar aðalkennari skólans eða skólameistari. Bæði á undan honum og eftir hafði Nathanael Gissurarson bóndi hönd í bagga um rekstur skólans og var skólameistari að minnsta kosti árin 1758—1766. Hann var þriðji aðalkennarinn.
Veturinn 1760—1761 gengu 5 sveitarbörn í skólann, en þess utan komu bjargálna foreldrar börnum sínum í skólann til náms í lestri og góðum siðum, því að Nathanael Gissurarson gerði sér mjög far um að siða börnin og kenna þeim háttprýði. Sjálfur var hann fyrirmynd annarra manna um grandvara framkomu til orðs og æðis, guðhræðslu og heiðarleik. Prófasturinn er ávallt hinn ánægðasti í alla staði með skólastarf hans og nemendur hans voru til fyrirmyndar.
Árið 1766 vísíteraði prófastur Vestmannaeyjar í júlímánuði um sumarið. Eins og jafnan áður spurðist hann fyrir um rekstur barnaskólans í Eyjum, „hvar til var svarað, að hann sé í sama valeur (þ.e. gildi) og hingað til hefur verið, og sá frómi, háaldraði heiðursmann Nathanael Gissurarson sé ennþá við það verk með guðhræðslu og kostgæfni.“
Þegar hér er komið sögu, er Nathanael Gissurarson orðinn 66 ára gamall, og brestur nú heimildir um rekstur skólans næstu árin, ef hann þá hefir rekinn verið.
Hvergi virðist finnanleg vísítasíubók Rangárþingaprófastsdæmis árin 1767—1774, eða um 7 ára skeið. Á þessum árum deyr Nathanael Gissurarson að bezt verður vitað og leggst þá fyrsti barnaskóli á Íslandi niður með öllu, enda hafði hann lengst af verið hugsjóna- og fórnarstarf nokkurra manna, — lengst af eins manns, Nathanaels Gissurarsonar.
Eftir að barnaskólinn í Vestmannaeyjum lagðist niður, kvartar prófastur yfir lélegri kunnáttu barna og unglinga þar og báglegu siðferði.

Svo sem áður er á drepið, þá dóu æ fleiri nýfædd börn í Eyjum úr ginklofanum eftir því sem á 18. öldina leið. Það var því orðið fáum börnum að kenna þar síðustu áratugi aldarinnar. Eftirfarandi skýrsla veitir nokkra hugmynd um það.

SKÝRSLA um fædd börn og fermd í Vestmannaeyjum árin 1785-1805 og hverjir kenndu þeim undir fermingu, eftir að barnaskólinn lagðist niður.

Ár Fædd Fermd Undirbúningur
1785 2 Foreldrar og
kristinfræði
kennari
1788 4? 6 Foreldrar og
húsbændur
1787 8 6 sama
1788 13 (7 d. úr
ginklofa,
1 úr skyrbjúg)
5 sama
1789 12 (5 d. úr ginklofa) 9 sama
1790 9 (6 d. úr ginklofa,
1 d. úr skyrbjúg)
6 sama
1791 14 (8 d. úr ginklofa) 7 Foreldrar
1792 15 (9 d. úr ginklofa) Ekkert
1793 11 3 Foreldrar og
húsbændur
1794 12 7 Prestar,
foreldrar og
húsbændur
1795 8 Ekkert
1796 8 Ekkert
1797 7 Ekkert
1798 12 2 15 ára drengur,
19 ára stúlka
1799 9 Ekkert
1800 8 2 Húsbændur,
foreldrar,
prestur
1801 9 Ekkert
1802 7 3 Húsbændur og
foreldrar
1803 16 Ekkert
1804 8 7
1805 10 1 (danskt barn)

Séra Guðmundur Högnason andaðist 6. febr. 1795 og var þá 82 ára. Hafði hann verið prestur að Kirkjubæ í 52 ár. Séra Guðmundur Högnason var heilsuveill nokkur síðustu árin, sem hann lifði.
Séra Benedikt Jónsson andaðist að Ofanleiti 1781, 77 ára að aldri.

Þorsteinn Þ. Víglundsson

Til baka