Blik 1959/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, I. kafli, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


I. kafli
Fyrsti barnaskóli á Íslandi
1745-1766
(II. hluti)


Séra Illugi Jónsson Ólafssonar prests að Fellsmúla fékk Ofanleiti síðast á árinu 1733. Hann fluttist til Eyja í júní 1734 og var þar prestur í rétt 10 ár. Hann lenti í illskeyttu karpi við sóknarfólk sitt í Eyjum og þó sérstaklega aðkomna vertíðarmenn. Hann virðist hafa orðið að láta í minni pokann í þeim átökum, kærði til biskups, gerði einskonar kaupkröfur, hlaut áminningu hans, sem síðan varð orsök lítilsvirðingar og jafnvel spotts í hans garð í Eyjum. Séra Illugi hafði af þessum sökum lítinn hug á framfaramálum Eyjabúa og batnandi hag, en hugði á brottflutning þaðan svo fljótt sem verða mátti. Hann fékk veitingu fyrir Ólafsvöllum 15. júlí 1745 og flutti þá þegar úr Eyjum, eftir því sem bezt verður vitað.
Séra Illugi Jónsson mun því engan þátt hafa átt í stofnun barnaskólans þar haustið 1745.
Að sjálfsögðu var það séra Guðmundur Högnason að Kirkjubæ, sem beitti sér fyrir stofnun barnaskólans. Hann hafði þá verið prestur í Vestmannaeyjum á þriðja ár og gerðist þar þegar áhrifamaður, sem Eyjabúum féll vel við og mátu mikils sökum alúðlegrar framkomu, mikilla gáfna og ríkrar samúðar með fólkinu í hinum bágu kjörum þess. Persónuleiki prestsins veitti honum aðstöðu til áhrifa á megandi menn í Eyjum. Þess þurfti líka skólahugsjónin vissulega við.
Síðari hluta sumars 1745 fluttist Grímur Bessason til Vestmannaeyja. Hann hafði þá í ágústmánuði vígzt til Ofanleitis.
Eins og áður greinir, hafði honum gefizt kostur á að kynnast og hlusta á séra Harboe á prestafundum hans að Vallanesi sumarið áður. Ólíklegt er það, að séra Grímur hafi farið ósnortinn af þeim fundum eða nokkur sæmilegur prestur, þar sem útlendingurinn talaði af mikilli velvild til þjóðarinnar og af brennandi hug á velferðarmálum hennar um fræðslu alla og menningu.
Þegar þeir hittust svo, Eyjaprestarnir, sumarið eða haustið 1745, báðir brennandi í andanum, tóku þeir að bera saman ráð sín. Hvað var hægt að gera fyrir vannærðu og veikluðu sveitarbörnin í Eyjum, sem enga aðstöðu höfðu til að læra lestur og kristindóm? Þau voru ótrúlega mikill hluti af barnahópnum. Hörgulsjúkdómarnir þjáðu ekki síður börnin en fullorðna fólkið. Sjálfir vildu prestarnir gjarnan mega og geta fórnað þessum börnum fæði, klæði og starfsorku, kenna þeim lestur og skrift og svo auðvitað kristin fræðin, sem þeim bar skylda til öðrum þræði. Sjálfir voru þeir bláfátækir, og það var séra Guðmundur Högnason alla sína preststíð.
Prestarnir afréðu að leita hjálpar og aðstoðar þeirra fáu bænda í Eyjum, er nokkurs voru megnugir, svo og umboðsmanns konungs. Hugsjónin skyldi í framkvæmd. Brátt tóku þeir að semja reglugerð fyrir hinn væntanlega barnaskóla. Hún virðist fyrir löngu töpuð.
Síðar í bréfum sínum um skólann töldu prestarnir sig hafa verið hvatta af valdamönnum til þess að stofna hann. Hverjir munu þeir valdamenn hafa verið? Það leikur naumast á tveim tungum. Séra Harboe mun hafa hvatt prestana yfirleitt til þess að hefjast handa og efna til skólahalds í landinu. Hvatningu þessa mun svo séra Grímur Bessason hafa flutt séra Guðmundi, er hann fluttist til Eyja sumarið 1745, hafi ekki séra Ludvig Harboe sjálfur skrifað séra Guðmundi, svarað skýrslu hans þar með og hvatt hann persónulega til skólastofnunarinnar.
Um þessar mundir bjó á Búastöðum í Eyjum bóndi sá er Filippus hét Eyjólfsson. Hann mun hafa verið fæddur 1718 og því 27 ára, þegar hér er komið sögu. Filippus varð hreppstjóri í Vestmannaeyjum 1756. Hann var góðum gáfum gæddur og vel að sér eftir því sem þá tíðkaðist um óskólagengna menn. Hjá honum fengu prestarnir góðar undirtektir. Hann vildi gjarnan fórna þessari merku þjóðþrifahugsjón bæði starfsorku og fé eftir getu. Bær hans á Búastöðum mun þá hafa verið einn hinn veglegasti í Eyjum.
Eftir því sem bezt verður séð af mjög takmörkuðum heimildum, er það í fæstum orðum sagt, að Filippus bóndi gerðist aðalkennari hins nýja barnaskóla og tók börnin heim til sín til kennslu. Hann var kallaður skólameistari.
En hér þurfti fleiru úr að bæta en fáfræðinni einni. Fyrst og fremst þurfti að seðja börnin og klæða og veita þeim nægan hita. Síðan kenna þeim dyggðina að lesa og svo kristindóminn auðvitað. Allt skyldi þetta gert í hjáverkum, því að Filippus bóndi þurfti auðvitað að stunda bú sitt eftir sem áður og svo sjó flesta tíma ársins. Þegar tök voru á, þess á milli skyldi hann kenna börnunum. Þetta sannast oss seinna í bréfi Finns biskups, er hér birtist síðar.
Vandinn mesti var að tryggja skólanum fjárhagslega afkomu, því að einhverja greiðslu varð skólameistarinn að fá fyrir allt, er hann lét skólastarfseminni í té. Það varð að samkomulagi málsmetandi manna í Eyjum og umboðsmanns konungs, að umboðsmaðurinn skyldi leggja skólanum árlega til 4 mörk, gegn því, að prestarnir sjálfir legðu til samans önnur 4 mörk og hreppstjórarnir þriðju 4 mörkin úr fátækrasjóði. Þannig skyldi skólinn rekinn með 12 marka framlagi. Eitthvað getur hafa verið treyst á gjafir eða frjáls framlög nokkurra einstaklinga til skólans t.d. í fiski, þegar vel aflaðist.
Næstu þrjú árin hélt svo Filippus Eyjólfsson bóndi skólann að Búastöðum. Hann gat sér gott orð í starfinu og lengi minntust menn þess í Eyjum. Þegar Filippus dó 20. okt. 1791, eða 43 árum eftir að hann hætti skólastarfinu, getur prestur þess í kirkjubókinni: „... bóndi og hreppstjóri fyrr meir á eynni, samt (þ.e. einnig) barnaskólameistari.“
Á þeim árum, sem Filippus Eyjólfsson var aðalkennari barnaskólans, var prófastur hinn ánægðasti með kristindómsfræðsluna í Eyjum. Árið 1747, 13. júlí, vísiterar prófastur Eyjarnar. Þá lét hann bóka þetta m.a.: ,,Því næst var ungdómurinn yfirheyrður og fannst hann vel og guðrækilega uppfræddur í sínum kristindómi.“ Sumarið eftir (1748) er hann einnig hinn ánægðasti með uppfræðingu barnanna í Eyjum. Þá segir hann: „... barnalærdómnum er vel fram fylgt.“
Sumarið 1748 hvarf góður starfskraftur úr Eyjum, þar sem var sér Grímur Bessason að Ofanleiti. Hugur hans leitaði æskustöðvanna á Austurlandi eða nágrennis þeirra, og fékk hann veitingu fyrir Ási í Fellum haustið 1747 og fluttist sem sé þangað sumarið eftir. Það ár lagðist niður barnaskólahald í Eyjum um skeið eða um tveggja ára bil. Þessi þrjú ár hafði Filippus bóndi fórnað skólanum meira af tíma og efnum en hann hafði raunar haft tök á. Hvert hlé frá daglegu striti og hverja hvíldarstund hafði hann notað til að fræða börnin og hjálpa þeim.
Þegar svo prófastur vísiterar Vestmannaeyjar sumarið 1749, kemur annað hljóð í strokk hans. Þá hafði skólinn ekki starfað undanfarið ár. Þá mætir hann almennum kvörtunum Eyjabúa yfir þessari miklu afturför, sem orðin var, með því að ekki reyndust ráð að reka skólann sökum örbirgðar á öllum sviðum í hreppnum. Þessari almennu umkvörtun Eyjabúa svarar Sigurður Jónsson, prófastur, á þessa lund: „Um fátækt þeirra barna, sem eru á uppfræðingaraldri er kvartað, hvar til prófasturinn svarar, að hann geti þar ei við ráðið. Leggur til, að þeir, sem nokkur ráð og efni hafa, vilji af guðlegri meðaumkun taka sig saman og haldast í hendur og gefa einn fisk eða fiskvirði þeim til uppfræðingar. Það kynni að draga sig saman og með tíðinni að verða þeim til einhvers góðs. Sér (hann) enga líklegri til að sjá fyrir þessu en æruverðuga sóknarherrana (þ.e. prestana), sem mikið kost gæfnir finnast í því sem öðru verki sinnar köllunar ...“ Þrátt fyrir þessa eggjan prófasts, sáu prestarnir sér ekki fært að stofna til skólahalds í Eyjum haustið 1749 og leysa þannig úr vandræðum Eyjabúa um lestrarkunnáttu barnanna og kristindómsfræðslu.
Sumarið 1748 fluttist séra Benedikt Jónsson frá Sólheimaþingum til Ofanleitis. Hafði hann fengið veitingu fyrir því árið áður. Séra Benedikt Jónsson var prestur lærður vel, skáld gott, gestrisinn glaðværðarmaður og oft hrókur alls fagnaðar. Séra Jón Steingrímsson getur hans vel og nokkuð ýtarlega. En fátækur var séra Benedikt og tekjurýr eins og séra Guðmundur embættisbróðir hans á Kirkjubæ. Það var til séra Benedikts ekkert síður en til séra Guðmundar, sem prófastur beindi eggjunarorðum sínum við vísitasíuna sumarið 1749.
Sumarið 1750 er svo aftur hafizt handa um að endurreisa barnaskólann. Það sumar, 16. ágúst, undirrituðu málsmetandi menn í Vestmannaeyjum samning innbyrðis og við umboðsmanninn þar sem m.a. var afráðið, hvernig fá skyldi afl þeirra hluta, sem framkvæma skyldi, þ.e. afla fjár til skólarekstursins. Skyldi umboðsmaður konungs leggja fram árlega úr eigin vasa 4 mörk til skólans eins og áður, og prestarnir og fátækrasjóður til samans annað eins. Þá skyldu og þeir foreldrar, sem einhvers voru megnugir fjárhagslega, greiða fyrir hvert barn sitt 4 mörk í kennslugjald. Síðast skyldi svo leggja skatt á hvern róður, þegar einn fiskur eða meira gæfist í hlut. Fleiri tekjuliði var gert ráð fyrir að skólinn hefði. (Sjá bréf Finns biskups Jónssonar hér síðar). Sniðið á rekstri skólans mun hafa verið svipað og áður. Reksturinn var fyrst og fremst grundvallaður á fórnarlund nokkurra einstaklinga, þrátt fyrir þessa tekjuliði, sem flestir voru háðir veðrabrigðum atvinnulífsins, afla úr sjó.
Nú gerast fleiri bændur en áður styrktarmenn og starfsmenn skólans. Má þar nefna Guðmund Eyjólfsson, kóngssmið og bónda í Þórlaugargerði, þann, er síðar setti þakið á hina nýju steinkirkju Eyjabúa, núverandi Landakirkju. Þá ber að nefna Guðmund Pálsson, bónda í Norðurgarði. Síðast en ekki sízt voru það meðhjálpararnir Bjarni Magnússon, bóndi í Norðurgarði og Nathanael Gissurarson bóndi að Vilborgarstöðum, sem báru hitann og þungann af kennslustarfinu. Sérstaklega hinn síðarnefndi.
Við vísitasíu prófasts 27. júlí 1758 getur hann þess, að „æru prýddur klukkarinn (þ.e. hringjarinn) Bjarni Magnússon fær góðan vitnisburð hjá sóknarherrunum að hann uppfræði sveitarbörnin eftir hans standi.“ Svo verður það skilið, að þá hafi Bjarni bóndi Magnússon kennt sveitarbörnunum í Eyjum veturinn 1757—1758 og frætt þau eftir því sem vonir gátu staðið til um óskólagenginn mann, óbreyttan bónda.
Nathanael Gissurarson var sá maðurinn, sem lengst starfaði við skólann eða samtals á annan áratug. Hann fórnaði honum öllum tíma, sem hann mátti missa frá daglegum önnum og lífsbaráttu, enda verður ekki annað séð en að skólinn leggist með öllu niður, þegar hann fellur frá. Hann var þriðji aðalkennari skólans á eftir þeim Filippusi Eyjólfssyni og Bjarna Magnússyni.
Nathanael Gissurarson var fæddur að Ofanleiti um 1700. Hann var sonur séra Gissurar sóknarprests að Ofanleiti Péturssonar prests að Ofanleiti Gissurarsonar. Séra Gissur Pétursson skrifaði hina kunnu og merku Vestmannaeyjalýsingu, svo sem vitað er.
Móðir Nathanaels var Helga Þórðardóttir prests á Þingvöllum Þorleifssonar. Hún var seinni kona séra Gissurar. Nathanael var aldrei settur til mennta, en mun hafa notið kennslu föður síns heima á Ofanleiti, þar til hann dó (1713). Ef til vill hefur fráfall föðurins árið áður en Nathanael var fermdur valdið því, að hann var ekki sendur í skóla, því að efni prestshjónanna munu hafa verið mjög af skornum skammti, þegar sér Gissur féll frá, svo sem algengast var um Vestmannaeyjapresta.
Það átti sér þá stað, að prestarnir kenndu börnum sínum allt að 5 ár fyrir fermingu, svo að prestabörnin voru oft æði vel að sér, þegar út í lífið var lagt, ef gáfuð voru. Svo mun það og hafa verið um Nathanael Gissurarson, sem var kominn af miklum gáfuættum. Nefna má það, að séra Þórður móðurfaðir hans var bróðursonur Brynjólfs Sveinssonar biskups og lærði sjálfur hjá þeim frænda sínum.
Í júnímánuði 1751 vísiterar prófastur í Vestmannaeyjum. Þá lét hann skrá þetta í bók sína: „... Eftir þetta aðspurði prófasturinn æruverðuga sóknarherrana, hvílíkan ávöxt sá nýrestitueraði (þ.e. endurreisti) barnaskóli færði hvar til þeir báðir sameiginlega svöruðu, að þeir fyndu af honum mikinn og góðan ávöxt í barnanna uppfræðingu.“
Nú taka við hörð ár og hallæri. Prestarnir sjá sitt óvænna um framlag sitt til skólans. Það þyngist æ á fátækrasjóði vegna aukinnar eymdar almennings. Fiskileysi veldur því, að lítill sem enginn fiskur er afhentur til reksturs skólanum.
Árið 1753 er fiskafli alls staðar bágborinn mest sökum gæftaleysis.
Árið 1754 er fiskafli hinn aumasti allsstaðar.
1755 er öll nýting slæm sökum votviðra. Mikið fiskleysi allstaðar bæði á vetrarvertíð og vorvertíð. Skemmdist þá bæði hey og fiskur. Um haustið í október tók þá líka Katla að gjósa, og héldust þau gos í 10 mán. (Sjá annála og svo Árferði á Ísl. í þúsund ár eftir Þ.Th.).
Um þessi ár segir Jón biskup Helgason í Kristnisögu sinni:
„... árin 1750—1757 var mesta hallæri um land allt og bjargræðisskortur. Féllu menn þá þúsundum saman úr vesöld og hungri, eftir að sjálfur lífsbjargarstofninn, hinn lifandi peningur, var fallinn.“
Nú voru góð ráð dýr til bjargar barnaskólanum í Vestmannaeyjum. Prestarnir endursömdu nú ýtarlega reglugerð fyrir skólann, þar sem byggt var á þeirri reynslu um rekstur hans og fjáröflun, er þegar var fengin. Sú var nú ætlunin að fá til liðs við sig opinber öfl til að reka skólann, fá fé til hans úr hirzlu konungs, og skapa skólanum þannig með konunglegum lagaboðum eða tilskipunum örugga framtíð.
Prestarnir gripu þess vegna til þess ráðs að skrifa Finni biskupi Jónssyni í Skálholti, sem þeir vissu bæði þjóðrækinn og duglegan, áhugasaman og fylginn sér, og óska aðstoðar hans gagnvart konungsvaldinu.
Snemma vors 1756, þegar hafís lá við Vestmannaeyjar og vetrarvertíðin hafði enn brugðizt að mestu leyti, skrifuðu prestarnir biskupi. Þeir sendu honum nú uppkast að stofnskrá eða reglugerð fyrir skólann og sögðu honum í fáum orðum frá starfsemi skólans þau 11 ár, sem liðin voru frá stofnun hans.
Nú er sem Finnur biskup kippist við. Þarna sér hann bjarma fyrir nýjum degi í íslenzku þjóðlífi. Barnaskólar í hverri sýslu, já, jafnvel hverjum hreppi. Það hafði verið hugsjón Jóns biskups Árnasonar, og þeirri hugsjón óskaði nú Finnur biskup að fórna tíma og orku.
Nú hefjast miklar bréfaskriftir um málið, og berst Finnur biskup eins og berserkur fyrir skólahugsjóninni. Hann svarar fljótlega Vestmannaeyjaprestum með bréfi dagsettu 26. maí 1756. Efnislega óska ég að birta það hér og þó nokkuð fært til nútíðarmáls.

„Yðar heiðraða bréf dags. 27. apríl hefi ég lesið með mikilli ánægju, svo og guðrækilegt uppkast að reglugerð fyrir barnaskóla í Vestmannaeyjum. Satt að segja hefi ég ekkert að þessu að finna eða út á það að setja, heldur finnst mér það allt gott og lofsamlegt. Það er þess vert, að það verði allra mildilegast sent hans konunglegu hátign til staðfestingar, og skal ég gera allt, sem ég get til þess, að skólinn verði styrktur fjárhagslega. En ég held, að málið verði að undirbúast á þennan hátt:
1) Uppkast þetta verður að skrifa á dönsku, skrifa það skýrri hendi og í umsóknarformi. Síðan skrifið þið undir það.
2) Síðan skal prófasturinn lesa það yfir og skrifa með því ýtarlega greinargerð.
Gerð skal grein fyrir því, hvað Hörmangarafél. (Companíið) og aðrir farmenn hafi gefið skólanum árlega eða lagt honum til, og skulu þar orðuð á hinn allra auðsveipnasta hátt tilmæli um, að það framlag mætti haldast. „Þó verður það svo nett í stíl að setjast, að það góða companí ekki styggjast þurfi af neinni sjálfskylduheimtan.“ (Svo orðar biskup það).
4) Eitt er það, sem mér er ekki alveg ljóst, hvað þið eigið við, þar sem þið ræðið um vissar tekjur í bréfi ykkar fengið með síðasta pósti, dags. 26. maí. Ef þið eigið við jarðeignir, þá er uggvænt, að það verði að litlu liði, því að það mun eiga langan aldur, að skólinn verði svo efnum búinn, að hann geti keypt svo gagnlegar jarðir í nánd við Vestmannaeyjar, að stórt muni um afgjöld þeirra. Að fjarliggjandi jörðum er ekkert gagn. Að sönnu hafna ég ekki öldungis þessari hugmynd ykkar, en vil biðja ykkur að skýra betur fyrir mér, hvað þið eigið við.
Þetta svar sendi ég ykkur nú undir eins, svo að ég geti fengið svar ykkar, áður en alþingi hefst eða á þingi.
Ég vildi óska, að þið fengjuð með skipunum geðfellt og gott svar varðandi stofnskrána, sem þið senduð í fyrra sumar. Berist mér það, skal ég senda það strax prófastinum.“

Á þessu bréfi er svo að skilja, að prestarnir hafi sent danska valdinu við Eyrarsund bréf árið áður (1755) og uppkastið af stofnskránni eða reglugerðinni. Ef til vill liggur það bréf í skjalasöfnum í Kaupmannahöfn. Mér er að minnsta kosti ekki kunnugt um það hérlendis.
Haustið 1756 tilkynnir biskup prestunum í Vestmannaeyjum, að hann sendi þeim 10 ríkisdali af þeim 200 ríkisdölum, sem „hans hátign“ hafi sent til þess að úthluta fátækustu prestaköllunum. Tuttugasta hlutann af því fé fengu sem sé Vestmannaeyingar. Eins og áður greinir, hafði gos úr Kötlu staðið þá um 10 mánaða skeið, fiskleysi verið afskaplegt undanfarin ár og Hörmangarafélagið illræmda hlunnfarið þjóðina um 13 ára skeið. Ef til vill hafa prestarnir samt notað einhvern hluta af þessum 10 ríkisdölum til reksturs barnaskólanum og biskup einmitt ætlazt til þess.
Haustið 1756 (16. sept.) skrifar biskup síðan hinu konunglega eftirliti kirkjumálanna í Danmörku. Í því bréfi segir hann, að starfsalvara prestanna í Vestmannaeyjum og ást þeirra á og virðing fyrir nafni Guðs og sáluhjálp safnaðanna hafi knúið þá fyrir nokkrum árum til þess að stofna barnaskóla þar í Eyjum. Nú óttist þeir, að stofnun þessi, sem þeir hafi komið á legg með miklum erfiðsmunum, breytist mjög eða leggist alveg niður eftir þeirra dag, og muni það valda þverrandi þekkingu á guðsorði í umræddum eyjum. Þessi ótti hefir nú knúið þá í allri auðmýkt sinni til þess að semja hjálagða reglugerð, sem er mjög blátt áfram að orðfæri og hugsun. En sökum þess að peningarnir eru voldugt afl þeirra hluta, sem gera skal, ekki aðeins fyrir íbúa Vestmannaeyja heldur og fyrir seinni tíma kynslóðir, sem kynnu að vilja fara að fordæmi yðar og koma á fót slíkum stofnunum, þá hefi ég ekki viljað neita eða afsala mér að mæla með þessari reglugerð, sem í auðmýkt er orðuð og ég sendi yður hér með. Ég bið hið háa ráðuneyti í allri auðsveipni minni að þekkjast þessa hugsjón og leggja þannig sitt til, að hún megi hljóta náð og komast til framkvæmda *** .
*** Samkvæmt bréfabók Finns biskups Jónssonar í Biskupsskjalasafni A, IV, 23, bls. 107.

Biskup mun aldrei hafa fengið svar við málaleitan þessari. En áfram héldu Eyjabúar rekstri hins fyrsta barnaskóla. Fyrstu 10 árin olli bókaskorturinn miklum erfiðleikum við lestrarkennsluna. Lítið hafði rætzt úr honum, þó að Eyjaprestar sendu kvörtun til séra Harboes haustið 1744, eins og áður er drepið á. En nú vildi þar til nýtt happ. Árið 1756 gaf danski kaupmaðurinn frá Habro, Laurids Christensen Stistrup, 600 Biblíur og 1700 Nýjatestamenti til Íslands og fengu Eyjabúar sinn hlut af þeirri gjöf. Bækur þessar voru notaðar í barnaskólanum og léttu mjög lestrar- og kristinfræðikennsluna ****.
Þegar biskup var tekinn að örvænta um svar frá hinu háa danska valdi, skrifaði hann amtmanni. Það bréf er dagsett 25. júlí 1757. Þar mælir hann fastlega með því, að Vestmannaeyingar fái fastan kennara við skólann.
Amtmaðurinn, hinn hái embættis- og mektarmaður konungsvaldsins, Magnús Gíslason á Leirá, svarar biskupi með bréfi dags. 20. ágúst sama ár og skrifar á dönsku. Ég hefi ráðizt í að þýða þetta bréf, þar sem mér finnst efni þess mjög markvert og sögulegt. Milli línanna gefst að lesa ýmislegt um efnahag Eyjabúa og menningu, áhugaleysi amtmans á framfaramálum þjóðarinnar í heild, vangaveltum hans og víli. Þar fer biskup auðsjáanlega í geitarhús til að leita ullar. Og hér kemur svo bréfið:

Hágöfugi og háttvirti herra biskup.
Ég viðurkenni eins og þér í yðar háttvirta bréfi í fyrra til Yfirkirkjumálaráðuneytisins, að framtak prestanna í Vestmannaeyjum að vilja stofna barnaskóla þar miðar að því að efla kristindóminn, og ber því hinu opinbera að styrkja það og framkvæma.
Einn er háskinn við ráðningu þessa fasta kennara: Þegar eitthvað óvenjulegt er hafið eða innleitt hér á landi, þótt það miði fram til velfarnaðar fólkinu, þá rís gegn því svo megn andúð, já, alveg ótrúlegur mótblástur, að það er mjög afsakanlegt, þó að maður vilji gera ýmsar varúðarráðstafanir, þegar maður byggir upp slíkar stofnanir með öllu, sem þeim fylgir, svo að öfund og fjandskapur megni ekki að koma þeim fyrir kattarnef. Þess vegna sé ég ástæður til að biðja yður, háæruverðugi herra, um skýringu varðandi eftirfarandi atriði í heiðruðu bréfi yðar dags. 15. júlí:
1) Hefur nú þegar verið byggt nokkuð skólahús í Vestmannaeyjum? Ef ekki, þá mun einokunarkaupmaðurinn (Forpakteren) án efa skorast undan öllum útgjöldum, sem einokunarsamningurinn (oktrojet) skyldar hann ekki til.
Slík hús með innbúnaði til að læra þar að lesa og skrifa kosta þó 30—40 ríkisdali.
Með venjuleg bæjarhús í huga, sem líklega eru ekki stærri í Vestmannaeyjum en í öðrum verstöðvum á meginlandinu, þá kemur vart til greina að samþykkja byggingu slíks húss nema það standi við prestssetrið.
2) Ég lít á sjóð þann, sem laun skólameistara skulu greiðast úr, mjög ótryggan, ef skólameistari á sjálfur að innheimta féð í hann hjá húsbændum eða feðrum barnanna. Það er nokkuð almenn vitneskja, að þrír bændur af hverjum fjórum í Vestmannaeyjum eta ekki sitt eigið brauð heldur einokunarkaupmannsins. Þeir eru svo djúpt sokknir í skuldafenið við einokunarverzlunina, að skuldir erfast mann fram af manni innan fjölskyldnanna. Þarfnist þeir einhvers til þess að kaupa fyrir lífsnauðsynjar frá meginlandinu eða tæki til fiskveiða, verða þeir að fá það lánað í hinum svo kallaða Danska garði. Með tilliti til þess arna mundi það mjög nauðsynlegt, að skólameistari gæti hvert ár fengið laun sín greidd hjá fulltrúa einokunarkaupmannsins, helminginn fyrirfram og hinn helminginn, þegar árið er liðið og launin að öllu fallin í gjalddaga, en síðan færi fulltrúinn launin greiðendum til skuldar.
3) Prestarnir vilja víst, samkvæmt 1. grein, að stúdent verði gerður að skólameistara og rói þó til fiskjar alla vertíðina samkvæmt 9. grein. Það finnst mér fráleitt. Sá, sem stundar sjó, verður, þegar ekki gefur, að hirða um framleiðslu sína og þurrka, ekki sízt í Vestmannaeyjum. Hvenær á hann þá að kenna? Líklega í skammdeginu, tímann fyrir vertíð. Á þeim tíma dags geta börnin ekki farið í skólann fyrr en klukkan 11 og þaðan aftur klukkan 2. Geti þau ekki haft nesti með sér í körfu á handleggnum, eins og erlendis er siður, verða þau að vera heima á venjulegum morgunverðartíma. Bezti tími ársins, þegar dagar eru langir, notast þannig ekki börnunum, þegar á sjó gefur.
Eitt af tvennu kemur hér til greina:
a) Velja hæfan mann fæddan í Eyjum eða í Rangárvallasýslu. Sá hinn sami getur komizt af með lægri laun og jafnframt stundað landbúnað og sjósókn. Þá getur hann einnig hvatt æskulýðinn í Eyjum til að læra skrift og annað, sem horfir til menningar og krefjast verður af þessu kennaraembætti, í von um, að geta þar síðar fengið mann til þess að taka við embættinu, þegar það losnar.
b) Ef stúdent yrði hinsvegar ráðinn í starfið, þá á að láta hann stunda það stöðugt án þess að sækja sjó eða stunda önnur framleiðslustörf.
4) Samkvæmt 8. grein eiga börnin að koma í skólann kl. 9 að morgni. Það er ógerningur frá Allraheilagramessu til Kyndilmessu (1. nóv.—2. febr.). Á þeim tíma geta þau ekki komið í skólann fyrr en klukkan 11. Einnig skyldi taka það fram, hvenær þau ættu að fara heim.
5) Þau frjálsu samskot eða gjafir, sem gert er ráð fyrir í 21. grein, ættu að greiðast árlega í sjóð hjá fulltrúa einokunarkaupmannsins.
Ef það skyldi þóknast yður, háæruverðugi herra, að íhuga þetta nánar og gjöra sjálfur uppkast að áætlun um slíkan barnaskóla í tilefni af tillögum prestanna, sem ég álít gallaðar, þá mundi koma glögglega í ljós, hvað fyrir yður vakir. Ef valinn yrði stúdent í skólameistaraembættið, væri það mjög nauðsynlegt, að hann kenndi drengjunum skrift og reikning.
Það er mér heiður að vera framvegis með allri virðingu skuldbundinn þjónn yðar, háæruverðugi herra.

Leirá, 20. ágúst 1757
Magnús Gíslason
amtmaður.

**** Laurids Christensen Stistrup var fæddur í Ullits í Danmörku í nóvember 1692. Faðir hans var sóknarprestur og prófastur. Um nokkurt skeið rak Laurids Stristrup verzlun í Habro, og græddist honum þá mikið fé. Hann varð fyrir trúarlegri vakningu.
Með því að þeim hjónum varð ekki barna auðið, afréðu þau að gefa mikinn hluta auðæfa sinna og stofna með þeim sérstakan sjóð. Vöxtum af honum skyldi varið til kaupa á Biblíum, sem gefa skyldi alþýðu manna í Danmörku og Noregi, svo og þeim Slésvíkurbúum, sem mæltu á danska tungu.
Eftir fráfall konu sinnar, fluttist Stistrup til Kaupmannahafnar. Enn græddist honum fé. Afréð hann þá (1755—1756 ) að gefa Íslendingum 600 Biblíur og 1700 Nýjatestamenti. Allar líkur benda til þess, að hér sé um biblíuútgáfu Vajsenhuss að ræða frá árinu 1747 og útgáfu á Nýjatestamentinu 1750.
Vajsenhuss var munaðarleysingjahæli í Kaupmannahöfn. Þetta orð var sameiginlegt nafn á munaðarleysingjahælum í ýmsum löndum Evrópu á 16. og 17. öld.
Í Kaupmannahöfn voru munaðarleysingjar m.a. látnir vinna að því í einskonar atvinnubótavinnu að prenta Biblíur á íslenzku, Nýjatestamenti og spurningakver. Og hafði munaðarleysingjahælið tekjur af því starfi.

III. hluti

Til baka