Blik 1959/Björgunin við Eldey 1939

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1959



Björgunin við Eldey 1939




VON, VE 279.
Vélbátur þessi var keyptur frá Noregi til Eyja 1928, smíðaður úr furu í Noregi. Eigendur: Vigfús Jónsson, útvegsbóndi í Holti við Ásaveg, og synir hans Gumundur og Jón. Gumundur var skipstjóri á Von í 17 ár eða til ársins 1945. Þá seldu þeir Von austur til Norðfjarðar. Kaupandi var Svavar Víglundsson, útgerðarmaður í Neskaupstað. Von VE 279 hafði reynzt fyrri eigendum sínum hin mesta happafleyta og þannig reyndist hún einnig hinum nýja eiganda. Hún „fœddi af sér“ Von II. í Keflavík.
Von VE 279 stóð nokkur ár uppi í fjöru í Neskaupstað og mun hafa verið rifin þar. Von VE 279 var um 25 smálestir að stœrð.


Guðmundur skipstjóri Vigfússon, (sjá Blik 1958)

Við hina framanrituðu ágætu grein eftir Þorstein Einarsson, íþróttafulltrúa, um síðustu Eldeyjarför langar mig til að bæta nokkrum sögulegum staðreyndum og fróðleiksmolum.
Þessir menn fóru Eldeyjarförina 1939:
1. GuðmundurVigfússon, skipstjóri og útgerðarmaður, frá Holti.
2. Jón Vigfússon, vélstjóri og útgerðarmaður, bróðir Guðmundar skipstjóra,
3. Ragnar Þorvaldsson frá Hvammi, stýrimaður á bátnum,
4. Guðlaugur Halldórsson, skipstjóri og útgerðarmaður, Brekastíg 1,
5. Guðjón Jónsson, skipstjóri og útgerðarmaður, frá Hlíðardal.
6. Hjálmar Jónsson frá Dölum, kunnur bjargveiðimaður,
7. Kristmundur bóndi Sæmundsson í Draumbæ,
8. Kristinn Aðalsteinsson, bóndi í Norðurgarði hinum vestari.
9. Þorgrímur Guðmundsson, verkamaður, Vesturvegi 18,
10. Guðmundur Guðjónsson, verkstjóri frá Oddsstöðum,
11. Gísli Fr. Johnsen, ljósmyndari, Faxastíg 4,
12. Ágúst Guðjónsson, matsveinn,
13. Árni J. Johnsen, fyrrv. bóndi og kaupmaður.

Árni J. Johnsen, f. í Vestmannaeyjum 13. okt. 1892. Hóf sundnám á 7. ári hjá Gísla J. Johnsen, bróður sínum, sem hér kenndi þá sund. Árni fullnumaði sig í sundíþróttinni hjá Björgúlfi Ólafssyni, lœkni, sem hér var sundkennari um skeið. Einnig iðkaði Árni sund í Danmörku, er hann stundaði þar verzlunarskólanám. Á sumrin 1913 og 1914 kenndi Árni sund í Ljótarstaðavatni í Landeyjum. Hafði hann þar 50—60 nemendur. — Árni J. Johnsen hefir bjargað 7 mönnum frá drukknun ýmist við bryggju hér, úti á Vík við skip eða við Eiðið. Um fermingu hóf Árni að stunda sjó hér á árabáti og síðan vélbáti (1908).

Þessir menn höfðu verið ráðnir til uppgöngu á eyna:
Hjálmar, Kristmundur, Guðmundur Guðjónsson, Kristinn, Þorgrímur, Guðjón og Gísli Fr., sem fékk að vera með í förinni til ljósmyndatöku á eigin vegum.
Þeir stigu á steðja eyjarinnar eins og af lágu þrepi á annað. Af steðjanum tekur við flái, sem liggur upp að standberginu.
Að gömlum Eyjasið gjörðu fjallamennirnir bæn sína við bergið, áður en uppgangan hófst. Hjálmar Jónsson, sem taldist fararstjóri upp á eyna, mælir í heyranda hljóði:
„Biðjum nú allir almáttugan og eilífan guð að vera með okkur í Jesú nafni.“
Þá varð þögn um stund. Hver þeirra bað fyrir sig og notaði sína eigin bæn. Eftir drykklanga stund mælir Hjálmar:
„Förum síðan okkar leið í ótta drottins. Guð almáttugur leggi sína vernd og blessun yfir okkur á sjó og landi þennan dag í Jesú nafni. Amen.“ Síðan signa þeir sig, fjallamennirnir.

Hjálmar Jónsson frá Dölum. „Af lunda ertu kominn og að steik skaltu verða.“

Hjálmar Jónsson réðist fyrstur til uppgöngu á eyna. Léttilega handlangaði Hjalli sig upp festina, þurra og hæfilega gilda til að halda um. Annar endinn á 60 metra löngum kaðli var bundinn um mitti hans. Þegar upp fyrir standbergið kemur, liggur festin á höllu berginu.
Síðan handlanga þeir sig hver af öðrum upp festina án stuðnings af bandi, og standa allir von bráðar á brún eyjarinnar. Eftir litla hvíld hefst veiðin.
Guðmundur Guðjónsson var sá, sem „gefið var niður í bergið“ til þess að bera orð á milli bátsverja og veiðimanna.
Ferðin niður bergið gekk seint, en örugglega og slysalaust eins og segir í grein Þorsteins Einarssonar. Síðastur fór Hjalli niður, handfastur og ótrauður, þótt bandlaus væri, og skeikaði hvergi. Á fláanum við rætur bergsins var nú staldrað við og biðið fallaskiptanna.
Síðan hófst björgunin. Vélbáturinn hélt sig svo nærri steðjanum sem vogað var. Jón vélstjóri gætti hans og dældi olíu í sjóinn. Annar endi kaðalsins var bundinn um bergkoll á fláanum, og skyldi kaðallinn þannig vera til öryggis og stuðnings bjargveiðimönnunum fram á steðjann.
Björgunarstarfið á skjöktbátnum önnuðust þessir menn:
Árni J. Johnsen, sem var foringi fararinnar og stjórnaði björguninni; Guðmundur skipstjóri; Ragnar stýrimaður; Guðlaugur; Guðjón og Ágúst.
Bátsmenn ræddu mjög um það, hvort ekki væri fífldirfska að reyna að nálgast bergið og gera tilraun til að bjarga mönnunum, svo óskaplegt sem brimið var orðið og steðjinn áveðurs. Það gat hæglega leitt af sér dauða þeirra allra, þar sem vonlaust var að bjarga bjargveiðimönnunum, ef árabátnum hvolfdi við steðjann.
Loks afréðu bátsmenn að taka á sig sundbelti og freista björgunarinnar. Árni J. Johnsen afréð þó að vera beltislaus. Hann treysti á sundmátt sinn og kunnáttu, ef illa tækist til. Fjórir mannanna voru undir árum. Stafni skjöktbátsins var snúið að berginu. Þar hafði Árni látið setja haug af súlum, sem mönnunum var ætlað að stökkva á ofan af steðjanum. Guðmundur skipstjóri stóð í skut og hellti olíu í sjóinn.
Sogin við steðjann voru ógurleg svo að munaði fleiri mannhæðum.
Loks kom lag. Þá þutu bjargveiðimennirnir fram á steðjann og báturinn lagði að.
Á því andartaki, er báturinn nam staðar á öldutoppnum við steðjann, hlupu fjórir bjargveiðimannanna niður í súlnabynginn í skutnum. Þeim var borgið.
Nú kom til mála, hvort allir skyldu þegar teknir í bátinn, heldur beðið annars lags og fækkað mönnum í bátnum á meðan. Það aftók Árni J. Johnsen með öllu. Lagið skyldi notað til hins ýtrasta og heimtaði hann hina þrjá, er eftir voru í bátinn. Ef til vill ekki eftir öðru lagi að bíða. — Því var hlýtt samstundis Síðastur kastaði Hjalli sér fram af steðjanum, brosandi og öruggur, svo sem eins og engin sérstök hætta væri á ferðum. Hann hafði aðstoðað alla hina bjargveiðimennina fram á steðjann, stutt þá og hvatt. Á niðurleiðinni hafði Hjalli einnig gert sitt til að halda ódeigum hug þeirra og kjarki með gamansemi og hnyttni og karlmennskuhug. Smávægileg meiðsl urðu á einum bjargveiðimannanna, er hann stökk niður í bátinn. Í sömu andránni, er hann hóf sig á loft, sogaðist báturinn niður með berginu svo snögglega, að maðurinn náði ekki bátnum fyrr en í öldudal. Þá geigaði stökkið og skall maðurinn á borðstokk bátsins.
Ekki var skjöktbáturinn fyrr kominn svo sem steinkast frá berginu, er ólag reið að. Brátt var steðjinn og bergfláinn allur á kafi í ólgandi brimróti, svo að enginn mannlegur máttur hefði megnað að halda þar lífi.
Björgunin við Eldey árið 1939 er afrek, sem að ýmsu leyti jafnast á við hina frægu björgun við Látrabjarg. Fimm menn lögðu sig í bráða lífshættu til að bjarga lífi sjö manna. Hér réði mestu um giftusöm leikslok óbilandi kjarkur og æðruleysi, hyggjuvit og æfing í bjargferðum frá blautu barnsbeini við brim og boðaföll við steðja Úteyja Vestmannaeyja.
Alltof lengi hafa Eyjabúar látið björgunarafrek þetta liggja í þagnargildi.

Þ.Þ.V.