Blik 1958/Engilbert Gíslason áttræður
Á s.l. hausti varð einn af gagnmerkustu borgurum þessa bæjar áttræður. Það er Engilbert Gíslason málarameistari. Með föndri sínu við listmálningu í tómstundum sínum tel ég Engilbert hafa unnið menningarsögu og atvinnusögu Eyjanna svo mikið gagn, að það sæmi vel ársriti Gagnfræðaskólans að geyma nokkur orð um þennan ágæta borgara áttræðan, og fer
það vel saman við markmið ritsins.
Engilbert Gíslason er fæddur hér í Eyjum 12. október 1877, sonur Gísla Engilbertssonar verzlunarstjóra við Tangaverzlun og konu hans Ragnhildar Þórarinsdóttur.
Gísli verzlunarstjóri var ættaður frá Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum. Hann fluttist til Eyja 1862. Ragnhildur, móðir Engilberts Gíslasonar, var ættuð frá Neðra-Dal undir Eyjafjöllum.
Engilbert Gíslason ólst hér upp og vann að verzlunarstörfum fram undir tvítugs aldur. Um tíma var hann heilsulítill á þessu aldursskeiði, en náði aftur fullri heilsu eftir 4 ára veikindi. Var þá afráðið með foreldrum hans, að þessi sonur þeirra skyldi fá að læra það, sem hugur hans stundaði á og stefndi til, en það var málaraiðn.
Í ættum Engilberts Gíslasonar mun listfengi hafa verið ríkur þáttur í gáfnafari. T.d. var faðir hans listfengur og föndraði við útskurð og lögun mynda í tómstundum sínum.
MYNDIN TIL VINSTRI:
Fögruvellir í Eyjum. — „Gamli og nýi tíminn“ hlið við hlið. Sigurður Vigfússon (Siggi Fúsa) á gamals aldri fyrir framan bæ sinn Fögruvelli. — Myndin er tekin af einu málverki Engilberts Gíslasonar.
Sumarið 1899 sigldi Engilbert Gíslason til Kaupmannahafnar til þess að hefja þar iðnnámið. Hann sigldi með norsku gufuskipi, sem hét Mors og var í förum fyrir Bryde stórkaupmann (selstöðukaupmann), sem rak verzlun í Reykjavík, Borgarnesi, Vík í Mýrdal og hér í Eyjum. Engilbert kom til Hafnar 13. ágúst og hóf málaranámið 10 dögum síðar hjá fyrirtækinu Chr. Berg og Sön. Guðfinna systir Engilberts var þá búsett í Kaupmannahöfn. Þar var þá einnig Einar Jónsson myndhöggvari. Þau voru kunnug, og hafði Einar Jónsson útvegað Engilbert Gíslasyni námsvist fyrir orð Guðfinnu systur hans. Engilbert féll vistin vel hjá þeim dönsku og dvaldist þar við námið í 3 ár, eða til ársins 1902, er hann lauk námi. Eftir það vann hann hjá meisturum sínum og húsbændum í eitt ár.
Kaup það, sem Engilbert Gíslason fékk, er hann hóf iðnnámið, nam 8 krónum á viku. Síðan skyldi kaupið hækka eftir því sem meistararnir afréðu sjálfir. Þriðja árið nam það 16 krónum á viku. Daglegur vinnutími var frá 7—7 og þar af tvær stundir til matar eða 10 vinnustundir á dag.
Af kaupi þessu varð Engilbert að greiða fæði, húsnæði og aðrar nauðþurftir. Miðdegisverður kostaði almennt 50 aura og allt dagfæðið eina krónu. En með því að Engilbert keypti sér einvörðungu miðdegisverð, en hafði svokallaðan skrínumat að öðru leyti, hrökk kaupið nokkurn veginn fyrir brýnustu nauðþurftum.
Meðan Engilbert Gíslason dvaldist í Kaupmannahöfn notaði hann tómstundir sínar m.a. til þess að skoða listasöfnin þar í borg. Hefir hann sjálfsagt síðar á lífsleið sinni notið góðs af þeim heimsóknum sínum í listasöfnin.
Vorið 1903 kom maður nokkur frá Akureyri til Kaupmannahafnar. Hann vildi ráða Engilbert Gíslason til þess m.a. að mála kirkjuna á Grund í Eyjafirði. Þetta ár hafði Landakirkja verið endurbætt og stóð svo til að mála hana. Boðum og beiðni hafði verið komið til Engilberts, að hann kæmi heim og málaði
Landakirkju. Hann kaus heldur að fara heim til Eyja og starfa þar. Þar var honum einnig boðið hærra kaup en í Eyjafirði, eða 50 aura á tímann, en aðeins 15 aura fyrir norðan. Í Eyjum bjuggu líka vinir Engilberts og kunningjar og þetta allt réð ákvörðun hans um að hverfa aftur heim til Eyja. Hann dvaldist svo hér fram á vorið 1904. Hafði hann þá lokið við að mála innan kirkjuna. Þetta ár fluttist hann síðan til Reykjavíkur og dvaldist þar við málarastörf í 6 ár. Árið 1910 fluttist hann til Eyja aftur og hefir búið og starfað hér alla tíð síðan.
Snemma hneigðist hugur Engilberts Gíslasonar að listum og meðferð lita. Málaralistin varð hugðarmál hans. Þegar á æskuskeiði hans veitti fólk því athygli, hversu listfengi hans var áberandi. Nokkrir útlendingar, sem komu þá hingað til Eyja, urðu þessa líka áskynja af tilviljun. Þeir sendu svo þessum íslenzka drenghnokka málaraliti. Það voru fyrstu litirnir, sem hann eignaðist. Þá var Engilbert Gíslason 12 ára gamall. Aldrei gafst honum þó kostur á að læra málaralist. En náttúran hefir reynzt honum sem svo mörgum öðrum náminu ríkari.
MYNDIN TIL VINSTRI:
Myndin er tekin af málverki eftir Engilbert Gíslason. Hún sýnir þröngt króasund í námunda við höfnina.
Á árum sínum erlendis heillaðist Engilbert Gíslason m.a. af náttúrufegurð og varð náttúruunnandi og skoðari, eins og svo margir listhneigðir menn gæddir listagáfu. Eins og ég gat um, leitaðist hann þá við, er hann gat því við komið, að skoða málverkasöfn og öðlast skilning á listaverkum þar. Engilbert Gíslason hefir sagt frá því á prenti, að eiginlega hafi hann aldrei haft ánægju af lífsstarfi sínu, málaraiðninni, þó að hann hafi reynt að inna þau störf af hendi af trúmennsku. Ríkasti þátturinn í hneigðum hans mun hafa verið málaralistin, þó að hann lærði aldrei þá listgrein, og svo teikning. Á árum sínum í Kaupmannahöfn átti hann þess kost að stunda betur og læra meir teikningu en hann gerði og tregar hann þá vanrækslu sína alla tíð, og skilur þó reyndar ekki sjálfur ástæðuna fyrir þeirri vanrækslu sinni, eins og hann hafði þá gaman af teikningu, en hyggur helzt, að vinnuþreyta hafi hér mestu valdið um, sem sé hinn langi vinnutími við málaraiðnina. Með þessari viðurkenningu sinni um vanræksluna í æsku, hvetur Engilbert raunar æskulýð Eyjanna til að glæða með ástundun þann neista, sem liggur innst, og megnar síðar að kveikja til manntaks og dáða, þegar þroskinn vex og orkan eflist.
Myndin er tekin af einu kunnasta málverki Engilberts Gíslasonar og byggist á frásögn Tyrkjaránssögu um konuna, sem tók jóðsótt á flótta undan rœningjunum og lagðist fyrir við stóran hraungrýtisstein suður af kaupstaðnum.
Heitir steinninn síðan Sœngurkonusteinn.
Listmálarinn lœtur skugga sorgar og hörmunga grúfa yfir byggðinni. Á Löndum sést loga í rústum Landakirkju. „Tyrkinn“ kemur auga á konuna og fœr með henni meðaumkun eftir því sem Tyrkjaránssaga hermir. Það táknar listmálarinn með því að láta rœningjann stíga öðrum fæti úr skugganum í ljósið. Ljósið fellur einnig á hönd miskunnarinnar.
Tæpast munu um það skiptar skoðanir, að sá þátturinn í starfi Engilberts Gíslasonar, sem lengst mun geyma nafn hans hér í Eyjum, er málaralistin, þó að hann vilji ætíð sjálfur gera sem minnst úr því verki sínu. Málverk hans mörg bera því ótvírætt vitni, hversu þessi listagáfa er rík í honum. Með málverkum sínum mörgum og þeim gáfum og þekkingu, sem málverk hans bera vott um, hefir hann unnið menningarsögu og atvinnusögu Eyjanna mjög mikilvægt gagn. Þar á ég fyrst og fremst við málverk hans af ýmsu hér, sem einkenndi gamla tímann, atvinnulífið og atvinnuhættina.
Kona Engilberts Gíslasonar er Guðrún Sigurðardóttir frá Borg á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu, hin mesta myndar- og gæðakona. Þau giftust 1914. Þeim hefir orðið 7 barna auðið og eru 4 þeirra á lífi. Þrjú eru búsett hér í bæ, svo sem kunnugt er, en eitt býr í Reykjavík.
Blik birtir að þessu sinni 3 myndir af málverkum eftir Engilbert Gíslason.