Blik 1956/Vestmannaeyjahöfn, myndir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1956



Vestmannaeyjahöfn



Yzt á myndinni sjást hafnargarðarnir, sem byggðir voru á árunum 1914-1922, — Hringskersgarður til hægri (syðri garðurinn), Hörgeyrargarður til vinstri, byggður á Hörgaeyri, er um getur í grein séra Jes A. Gíslasonar hér í ritinu.
Lengst til vinstri á myndinni sést Eiðið (Þrælaeiði). Syðst á því sést „bólverkið“, sem einnig er getið um í grein séra Jes. Þar í námunda, nær klettinum, mun kirkjugarður Eyjabúa hafa verið að fornu, enda hafnarvogurinn (Höfnin, Botninn) þá miklum mun minni en hann hefur verið nú um aldir.
Næst a myndinni er bátakvíin í Friðarhöfn. Austan við hana er Friðarhafnarbryggjan. Við hana stendur Vinnslustöð Vestmannaeyja. Við bryggjuna liggja tveir „Fossar“ til að taka útflutningsafurðir.
Austan við Friðarhafnarbryggjuna sér á enda Básaskersbryggjunnar.







Austur af Básaskersbryggjunni er hin nýja bryggja, Nausthamarsbryggjan, sem sést á myndinni á bls. 85 (hér til vinstri). — Í krikanum innan við hana sést Bæjarbryggjan gamla (Stokkhellubryggjan, Sýslubryggjan).
Nausthamarsbryggja myndar bátakví, sem er öruggt lægi handa tugum báta, eins og bátakvíin í Friðarhöfn. — Í vikinu milli Bæjarbryggjunnar og efsta hluta Nausthamarsbryggjunnar (Edinborgarbryggja) er trillubátum Eyjabúa búið öruggt lægi.
Stóru byggingarnar á miðri myndinni við bátakvína er fiskiðjuverið Fiskiðjan. Til vinstri (austan) við Nausthamarsbryggjuna ofanverða stendur Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Sunnan við byggingar Fiskiðjunnar og áfast við þær stendur fjórða fiskiðjuverið í Eyjum, Ísfélag Vestmannaeyja. Í febrúarmánuði s.l. unnu í þessum fjórum fiskiðjuverum og fiskverkunarstöðvum um 850 manns.
Vegurinn, sem blasir við til hægri á myndinni, er Skólavegurinn. Fyrir enda hans, suður á hæðinni, stendur Gagnfræðaskólabyggingin.