Blik 1951/Þáttur nemenda, sögur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1951



Þáttur nemenda


Óli sendisveinn

Óli var sonur ekkjunnar í Mörk. Ungur að aldri missti hann föður sinn. Hann mundi eftir einni kvöldstund, sem faðir hans lifði. Eftir því sem hann lýsti henni fyrir móður sinni, þá var það sama kvöldið, sem faðir hans dó.
Faðir hans hafði komið mikið ölvaður heim þetta kvöld og brotið allt og bramlað, sem fyrir hendi var. Hann heimtaði meira áfengi. Svo er hann sá, að það var hvergi að finna á heimilinu, þá ráfaði hann niður á bryggju. Við bryggjuna lá stót erlent skip. Hann hugsaði með sér, að það hlyti að vera nóg áfengi. Í þessum hugsunum æddi hann beint af auga fram á bryggjubrúnina. Hann stökk upp og ætlaði sér að komast þannig upp í skipið, en svo fór ekki. Hann kom niður í sjóinn mitt á milli bryggjunnar og skipsins. Hann var svo mikið drukkinn, að hann var algerlega ósjálfbjarga. Enginn maður var þarna nálægur, svo að hann lét lífið á þennan ömurlega hátt.
Óli hafði ungur lofað móður sinni því að neyta hvorki tóbaks né áfengis og að kaupa það ekki heldur. Hann var mjög duglegur drengur og hjálpaði móður sinni mikið. Hann tíndi spýtur í eldinn og klauf þær, svo að þær væru hæfilega stórar í eldhólfið á eldavélinni hennar. — Hann var nú orðinn fimmtán ára gamall. Dag nokkurn frétti hann það, að kaupmann í þorpinu vantaði sendisvein. Óli spyr móður sína, hvort hann megi ekki sækja um starfið, og sagði hún honum, að hann skyldi reyna það. Síðan gengur hann áleiðis til verzlunarinnar og að skrifstofudyrum kaupmannsins.
Hann knýr þar á dyr. Kaupmaðurinn kom til dyra. Óli spyr hann, hvort hann vilji taka sig sendisvein í verzlunina. Kaupmanninum leizt mjög vel á Óla og afréð að veita honum starfið. Hann sagði Óla að mæta næsta morgun jafnskjótt sem verzlunin yrði opnuð. Óli mætti á umræddum tíma næsta morgun. Ekki leið á löngu, unz Óli reið á hjólhestinum í sendiferðir um þorpið. Hann var í sífeldum sendiferðum allan daginn. Þannig liðu margir dagar. Öllu starfsfólkinu leizt mjög vel á Óla fyrir það, hvað hann var góður og duglegur drengur.
Svo bar við dag nokkurn, að kaupmaðurinn bað Óla að tala við sig.
Óli fór inn í skrifstofuna, þar sem kaupmaðurinn bað Óla að fara fyrir sig niður í áfengisverzlun og kaupa áfengi. Nú var Óli í mjög miklum vandræðum.
Hann stóð hugsi um stund á miðju gólfinu. Hann var að velta því fyrir sér, hvort hann ætti heldur að neita kaupmanninum eða svíkja loforð við móður sína. Það gat orðið dýrt fyrir hann að neita kaupmanninum, því að hann gat átt það á hættu að vera rekinn úr starfinu. Vissulega gat hann farið í áfengisverzlunina án þess að móðir hans vissi nokkuð af. Hann var að því kominn að taka við peningunum fyrir áfengið, er sú hugsun varð sterkari, að það gæti orðið dýrara að svíkja loforð sitt, heldur en að neita kaupmanninum. Hann sagði síðan kaupmanninum eins og var.
Kaupmaðurinn varð undrandi, sneri sér síðan við með peningana og settist niður og fór að skrifa. Hann bað Óla að bíða örlitla stund. Ekki leið á löngu, unz kaupmaðurinn stóð aftur við borðið. Hann hélt á umslagi í hendinni. Hann sagði Óla að fara með það heim og fá móður sinni það. Jafnskjótt sem hann rétti Óla umslagið, sagði hann honum, að hann þyrfti ekki að koma aftur í dag í verzlunina til þess að vinna.
Óli ráfaði út í þungum þönkum. Nú er hann sennilega búinn að reka mig úr starfinu aðeins fyrir þessa einu neitun, hugsaði Óli. Hvað skyldi vera í umslaginu? Skyldi það vera mér til láns eða óláns? Sennilega er það uppsagnarbréfið og í því segir kaupmaðurinn líklega mömmu, hvað ég sé ósvífinn að neita sér um slíka smámuni. Hann brann í skinninu af forvitni. Hann dauðlangaði til að opna umslagið og sjá, hvað þar væri skrifað. Hann sá þó, hvað það var mikil fjarstæða, því að hann ætti án efa eftir að fá að sjá það heima. Nú var Óli kominn inn í eldhús heima hjá sér. Hann rétti móður sinni umslagið. Hún opnaði það með hægð. Í því voru 500 kr. og bréf. Hún las bréfið, sem var þess efnis, að Óli ætti þessar 500 kr., sem kaupmaðurinn ætlaði að láta hann kaupa áfengið fyrir. Einnig stóð í bréfinu, að Óli ætti frí, það sem eftir væri af deginum, og hann ætti að mæta á venjulegum tíma næsta dag. Það var heitasta ósk kaupmannsins, að hvorki hann né Óli ættu eftir að bragða áfengi nokkru sinni.

Hávarður B. Sigurðsson.
III. bekk.

Sjálfsvirðing

Flestir munu vera sammála um það, að menn virði sjálfa sig bezt með því að koma vel fram við þá, sem menn umgangast og hafa samskipti við, ef menn á annað borð fara að hugsa um, hvað sé fólgið í orðinu sjálfsvirðing. En menn hafa sennilega að ýmsu leyti mismunandi álit á því, hvað sé í raun og veru góð framkoma. Ég ætla nú að benda á nokkur atriði, sem mér finnst, að við ættum að hafa í huga í sambandi við sjálfsvirðingu okkar. Ef okkur finnst, að við höfum gert einhverjum rangt til, viljandi eða óviljandi, þá eigum við að fara til hans og biðja hann fyrirgefningar, jafnvel þótt það kunni að kosta okkur mikla andlega áreynslu í bili. Til þess eru mikil líkindi, a.m.k. í mörgum tilfellum, en auðvitað fer það mest eftir því, hvernig við erum gerð og hve miklum andlegum þroska við erum gædd. Ef við erum sá aðilinn, sem einhver annar biður fyrirgefningar, þá eigum við að kosta kapps um að fyrirgefa honum, ekki aðeins í orði kveðnu, heldur einnig í okkar eigin hugsunum og framkomu okkar við hann. Ef við þurfum að ráða fram úr einhverju vandamáli, þá eigum við að reyna að ráða fram úr því, eins og okkur finnst réttlátast og hafa ekki fremur okkar hag en annara fyrir augum. Ef við spyrjum aðra ráða, eða ef þeir reyna að hafa áhrif á okkur ótilkvaddir, þá eigum við fremur að fara eftir okkar eigin ráðum en þeirra, ef okkur finnst þau réttari, en annars fremur eftir þeirra ráðum. Ef við eigum kost á að hjálpa einhverjum, sem á bágt að einhverju leyti, þá eigum við að hjálpa honum, án þess að krefjast endurgjalds, og á þann hátt, sem við álítum að verði honum fyrir beztu, ef við treystum okkur til að gera það þannig, að hann hafi gagn og gleði af því. Annars er betra að láta það ógert. Ef við fréttum, að einhver hafi gert eitthvað rangt, þá eigum við fremur að leita að orsökum til þess, að hann gerði þetta, heldur en að byrja á því að lítilsvirða hann fyrir verkið, jafnvel þótt við heyrum aðra lasta hann, án þess að þeir hafi hugsað út í, hvernig á þessari breytni hans stóð. Við ættum að temja okkur að geta neitað okkur um eitt eða annað, sem e.t.v. kemur okkur að litlum notum, sérstaklega ef við höfum tæplega efni á að veita okkur það. Þá væri betra að láta þau efni, sem til þess hefðu farið, ganga til einhvers annars þarfara. Ef aðrir reyna að fá okkur til að gera eitthvað, sem okkur finnst skemma mannorð okkar, eða vera okkur til ills að einhverju leyti, og við sjáum ekki, að það sé neinum til góðs, þá eigum við alls ekki að hlýða því, þó að við getum átt von á, að þeir líti niður á okkur fyrir það. Þeir gera það sennilega ekki lengi. Við eigum alltaf að segja satt, jafnvel þó að við höfum gert eitthvað, sem við getum átt von á að fá refsingu fyrir, því að annars getur vel skeð, að sökin lendi á einhverjum öðrum, og það getum við ekki látið viðgangast, ef við viljum halda sjálfsvirðingu okkar. Við eigum að kappkosta að vinna verk okkar vel og leggja okkur öll fram við þau, og hafa æfinlega í huga að vinna þau eins vel fyrir aðra eins og sjálf okkur og fara ekki eftir því, hvort við eigum von á endurgjaldi fyrir verkið eða ekki.
Ég ætlast ekki til, að þessi orð mín séu tekin svo, að ég álíti, að ég fari að öllu leyti eftir því, sem ég nú hef bent á. Ég veit vel, að það er langt frá því, og ég veit líka, að þannig er það með mjög marga fleiri. En ef bæði ég og aðrir hefðum orðið sjálfsvirðing í huga oftar en við gerum, þá gætum við áreiðanlega breytt mörgu í framkomu okkar til betri vegar.

Guðrún Sveinsdóttir.
III. bekk.

Brostnar vonir

— Kirkjuklukkur hljóma og viða blaktir fáni í hálfa stöng í bænum. — Í dag er verið að jarða eitt þjóðskáldið, Gunnar Sigurðsson, eitt mesta ljóðskáld sem þjóðin hefur átt.
Nær því öllum skrifstofum, verzlunum og opinberum stofnunum hefur verið lokað. Og ríkisútvarpið hefur til heiðurs skáldinu látið útvarpa athöfninni, og sjálfur biskupinn yfir Íslandi jarðsyngur.
Í kirkjuna hafa safnazt allir meiri háttar menn þjóðarinnar á veraldlegu og andlegu sviði. Það fá ekki aðrir, en hinir allra tignustu að fara inn í kirkjuna, en almúginn stendur fyrir utan, því að gjallarhorn hafa verið sett upp.
Við eitt húsið stendur dökkklædd fátæk kona nokkuð við aldur. Hún starir sorgbitin og harmþrungin niður fyrir sig og hugsar, hugsar aftur í fortíðina, er hún sem lítil telpa lék sér við hann þarna, sem verið er að jarðsyngja, hann Gunnar.
Þau höfðu átt heima í sama þorpi, verið á líku reki og ávallt verið mjög samrýmd. Í skóla höfðu þau líka verið saman, og þegar Gunnar fór til menntaskólanáms suður til Reykjavíkur, þá hlakkaði hún alltaf til vorsins, þegar hann kæmi aftur.
Fagurt sumarkvöld, er þau gengu út með firðinum heima, þá settust þau niður bak við Óskastein, sem var steinn þarna á leiðinni. Þar hafði Gunnar kveðið til hennar sín fegurstu ástarljóð; hann sagðist hafa gert þau, þegar hann var í skólanum um veturinn og hugsað heim til hennar.
Þetta sumar var yndislegt fyrir þau bæði. Þau voru tvítug og áttu framtíðina fyrir sér.
Næsta ár átti Gunnar að ljúka stúdentsprófi, síðan ætlaði hann að fara utan og leggja stund á bókmenntasögu og náttúrufræði. Oft lýsti hann því fyrir henni, hvað hann ætlaði að verða, — hann ætlaði að kanna og rannsaka hina tignarlegu og fögru náttúru Íslands, og svo ætlaði hann að yrkja hrífandi ættjarðarljóð, feta í fótspor forfeðranna, og vekja þjóðina til dáða í frelsisbaráttu hennar.
Þau ráðgerðu um framtíðina hinar fegurstu fyrirætlanir.
Gunnar fór í skólann um veturinn og skrifaði henni hjartfólgin bréf. Stundum voru þau í ljóðum, og þá líkti hann henni við hið fagra og fullkomna blóm, sem hann myndi hlúa að öll sín æviár.
En svo, er líða tók á veturinn, fóru bréfin að koma strjálar og strjálar, og að lokum kom ekkert. Eitthvað hræðilegt hlaut að hafa komið fyrir.
Um vorið fréttist það, að Gunnar hefði rétt náð prófi og myndi verða áfram í Reykjavík; það fylgdi líka, að hann væri forfallinn í óreglu.
Hræðilegt! Hún mundi vel, hve hún grét, er hún heyrði þetta. Hún var búin að missa Gunnar í vondan félagsskap og drykkjuskap.
Veturinn næsta hafði hann farið utan og ætlað að fullnuma sig í þeim fræðum, sem hann var búinn að ákveða, en komið heim um vorið, félaus og próflaus. Það sama vor hafði hún farið suður í vist, og síðan hafði hún dvalið í Reykjavík af og til.
Gunnar sá hún sjaldan, því að hún fór lítið, en þegar hún sá hann, var hann oftast undir áhrifum áfengis. Hann heilsaði henni alltaf hlýlega og með fjarrænan glampa í augum. Hann hafði ofan af fyrir sér með því, að skrifa greinar í blöð, og hann hafði einnig gefið út tvær ljóðabækur, og í þeirri fyrri voru meðal annars kvæðin, sem hann kvað til hennar, er þau voru ung og í blóma lífsins. En í síðari bókinni var kvæðið ,,Til ástvinu á Íslandi“. Þar lýsir hann því, þegar hann fjarri fósturjörðinni er einn og yfirgefinn í skammdeginu erlendis; hugsar til liðinna daga á Íslandi, er þau játuðust hvort öðru við óskastein, og svo er hann lendir í vondum félagsskap og allar framtíðarvonir hans falla í rústir, lýsir því, þegar hann svíkur stúlkuna, sem hann í raun og veru ann og engri annarri. Og hann biður vindblæinn, sem er á leið til Íslands að bera kveðju til stúlkunnar, sem hann elskar.
Og árin liðu. Hún hafði ofan af fyrir sér og aldraðri móður sinni með matsölu, og stundum hafði hann komið og fengið þar matarbita. Á sumarin ferðaðist hann um landið og orti þá fögur ættjarðarkvæði.
Einn vetur réði hann sig kennara á bernskustöðvar þeirra, og lýðveldishátíðarárið fékk hann 1. verðlaun fyrir bezta kvæðið í tilefni eins mesta dags þjóðarinnar, 17. júní 1944, er sjálfstæðisdraumar hans og fleiri frelsishugsandi manna rættust til fulls. Þó var hann vegsamaður og hylltur af öllum, en eftir hátíðina hafði hann ekki við að sinna heimboðum heldra fólksins, því að allir vildu vera vinir þessa mikla skálds, en það minnkaði, þegar frá leið. Síðan hafði hann haldið til bernskustöðva sinna, og þar dvaldi hann í 2 ár áfram við kennslu.
En þegar hann kom til Reykjavíkur í hinzta sinn, þá hafði hann barið að dyrum hjá henni, og sagðist hafa sofið úti síðastliðna nótt, því að hann hefði hvergi getað fengið inni. — Hann fékk að sofa þar og borða. Hann sagðist nú ætla að byrja nýtt og betra líf.
Og hann taldi þessa daga, sem hann dvaldi hjá henni, vera fegurstu dagana á sinni óhamingjusömu ævi, frá því þau skildust að, og nú var hann að tala um að fara og ná í föggur sínar heima og setjast að þarna.
En svo veiktist hann skyndilega snemma morguns einn daginn, og var þá fluttur á Landspítalann og lézt þar skömmu síðar af heilablóðfalli. — Þá mundu allir eftir honum.
— Hún hafði í eitt skipti fengið að fara inn til hans, þar sem hann lá, og þá sagði hann: ,,Ég unni þér einni, og ég orti vegna þín,“ það var það seinasta, sem hann sagði við hana. Hann lézt skömmu síðar.
Hún gengur upp eftir strætinu heim á leið. Það er byrjað að skyggja, en líkhringingar kirkjuklukknanna hljóma og deyja út í fjarska. Og hún vonar og biður þess, að þær hringi brátt yfir sér, því að þá byrji vorið á ný, og þá hittist þau við Óskasteininn hinum megin, hún og sá, sem hún ann að eilífu.

Guðjón Ármann Eyjólfsson.
III. bekk.

Margt skeður á morgnana

Það var góðviðrismorgun í júlí. Einn af þessum dásamlegu sumarmorgnum með ilm af nýjum degi. Gamall maður er að rölta niður að höfninni. Maður þessi heitir bara Jón og ekkert nema Jón.
Jón gamli hugsaði með sér:
„Já, mikið indælisveður er þetta, — það er ekki alltaf svona gott veður hér í Vestmannaeyjum — nei, ekki alveg. Jæja, það er bezt að fá sér korn í nefið. Og Jón dró tóbakshornið upp úr vasa sínum, fékk sér duglega í nefið og dæsti við.
„Góðan dag, karlinn.“ Það var Sigurður gamli úr Tóftum, sem heilsaði. „Já, sæll og blessaður, heillakallinn, hvað er að frétta?“ „O, — svo sem ekkert sérstakt, nema blessað ekki sen góðviðrið, og — og — svona undir fjögur augu skal ég segja þér, að hún Gudda mín er búin að eignast barn. — Ekki svo að skilja, að ég sé pabbinn, — nei, ég á ekki því láni að fagna. Það er hann Tóti, vinnumaðurinn minn, sem sá fyrir því. — Þú mátt ekki segja nokkrum lifandi manni frá þessu,“ sagði Sigurður. „Nei, nei, nei, sei, sei, nei, ég skal ekki segja nokkurri lifandi sál frá því. Gat ekki horngrýtis kvennaflagarinn látið hana Guddu þína vera? Nú gengur alveg fram af mér. Þú þarft svei mér að hressa þig, góði minn; viltu ekki einn lítinn. Ég er hérna með smávegis á pela,“ sagði Jón og dró vasapela upp úr vasa sínum og rétti að Sigurði. „Ja, eiginlega er ég nú í stúku, en — en, jæja, láttu hann koma,“ sagði Sigurður, setti stútinn að munn sér og teygaði stórum, þangað til Jón sagði: „Drekktu ekki allt, mannfjandi, eitthvað verður að vera eftir handa mér sjálfum. Skyrptu þó að minnsta kosti út úr þér glerinu,“ sagði Jón og eldroðnaði. „Jæja, ég verð þá víst að fá mér ábæti á Apótekinu, vertu blessaður og guðlaun,“ sagði Sigurður.
Jón hélt áfram niður að höllinni, niður á bryggju og hugaði að bát sínum. Sér hann, að allt er í stakasta lagi með hann. „Jæja, þá er bezt að halda heim og fá sér kaffisopa.“ Og Jón hélt heim á leið. Þegar hann kom heim til sín, snýtti hann sér svo hressilega, að húsið skalf og nötraði og Bína hans kipptist við. „Skárri eru það nú bölvuð lætin í slónum á þér,“ sagði hún og brosti. „Ójá,“ sagði Jón gamli stríðinn. „Ég frétti líka að hún Gudda vinkona þín væri búin að ala Tóta vinnumanni dreng. Aldrei hefði ég trúað því, að hún væri svona gráðug í fuglinn, blessuð.“ „Svei attan,“ sagði Bína og strunsaði á braut.

Aðalsteinn Brynjólfsson.
I. bekk

Hulduljósið

Það bar við vetrarkvöld á bæ einum á Norð-Vesturlandi, að fólkinu þar verður litið út í smáeyju, sem er þar örskammt frá ströndinni. Sér það þá, að í kletti einum, sem trú lék á, að í byggi huldufólk, er ljós sem í glugga væri. Fólkinu finnst þetta kynlegt mjög og fer að tala um það sín á milli, hvort farið skuli út í eyjuna og þetta athugað, því að ekki trúðu þar allir á hulduvætti. Á bænum var tvíbýli. Hélt nú fólkið fyrst, að krakkarnir í hinum bænum hefðu farið út í eyju og kveikt þar ljós til að vekja undrun og jafnvel hræðslu. Var nú skroppið í hinn bæinn. Þar var þá allt fólkið að horfa á þetta sama ljós og grunaði krakkana á hinum bænum um græsku. Var nú fastráðið að fara út í eyjuna.
Lögðu nokkrir ungir menn af stað, — þó með hálfum huga, því að þeir trúðu því hálft um hálft, að ljósið stafaði frá huldufólki, þó að trúin á það væri heldur farin að minnka.
Þegar þeir eiga eftir svo sem tvö hundruð metra ófarna að ljósinu, tekur það að dofna. Herða þeir þá ferðina. Brátt stóðu þeir við klettinn og sjá greinilega ljósið uppi í klettinum en ekki, hvernig það myndast eða hvað veldur því. Þegar þeir hafa staðið þar nokkra stund og horft á ljósið, tekur það snögglega að dofna og hverfa smám saman eins og skrúfað sé niður í lampa. Þeir standa orðlausir um stund. Fara síðan upp á klettinn og athuga vel þann stað, sem ljósið sást á, en sjá ekkert athugavert við hann. Fara þeir síðan heim við svo búið sannfærðari en nokkru sinn fyrr í trú sinni á huldufólk.

Reginn Valtýsson.
I.bekk.

Álfabrennan

Það bar við eitt sinn á gamlaárskvöld, einhvern tíma eftir aldamótin síðustu, að stúlka ein í Gerðakoti undir Eyjafjöllum var send út að snúru seint um kvöld til þess að gæta að þvotti. Þvottasnúran var að húsabaki milli tveggja bæjarbursta. Henni varð þá litið upp að Holtsnúp, sem er fjall fyrir norðan og austan Holtsá, sem rennur austan við prestsetrið Holt.
Fyrir neðan Núpinn stóð bærinn Hellnahóll, sem nú er í eyði. Sá stúlkan þá stóra brennu í skriðunni fyrir ofan bæinn. Varð henni starsýnt á brennuna. Bóndinn á Hellnahól var kallaður Lási. Hann kom nokkru síðar að Gerðakoti, og barst þá brennan í tal hjá honum og stúlkunni. Lási var talinn mjög heiðarlegur og sannorður maður. Fullyrti hann, að hvorki hann eða neinn annar af fólkinu í Hellnahól hefði efnt til brennu þetta gamlárskvöld og ekkert þeirra séð neina brennu, hvorki í skriðunni né annars staðar. Hann sór og sárt við lagði, að hann segði satt. Fólkið í Gerðakoti trúði Lása bónda og ályktaði því, að þetta hefði verið álfabrenna.
Konan, sem sagði mér þessa sögu, er stúlkan, sem um getur í henni. Hún er enn á lífi, en vill ekki láta nafns síns getið.

G.Á.E.

Grautarsaga

Eitt sinn var ég að gá að bókinni minni, og mamma sagði mér, að hún væri á borðinu. Ég leitaði þar, en hef víst verið að hugsa um annað, því að ég fann hana ekki. Mamma kom þá inn og fann bókina strax. Þá sagði hún við mig: „Þetta minnir á söguna um hafragrautinn.“ Svo sagði hún mér hana.
Einn morgun, þegar Marteinn kom á fætur, fór hann fram í eldhús og settist að borði, kallaði á konu sína og bað hana að gefa sér grautinn sinn. „Ég er búin að láta graut á disk handa þér, og lét hann á borðið.“ „Ég held nú síður, það er enginn grautur á borðinu,“ sagði hann. „Það hefur einhver komið og tekið hann þá,“ sagði hún. „Já, þess vegna, hann er ekki hér og komdu undir eins með graut handa mér, svo að ég komist nógu snemma í vinnuna.“ „Það er ekki til grautur, ég sauð ekki nema einn disk handa þér, og hann, fór þá svona.“ „þú hefur þá étið hann, og ég verð víst að fara grautarlaus,“ sagði Marteinn um leið og hann fór. Þegar hann kom út á götu, mætti hann Jónasi bróður sínum. Þá sagði Jónas: „Hvað er að sjá þetta, Marteinn, það er grautur aftan á buxunum þínum.“ „Ha,“ sagði Marteinn. „Það er auðvitað grauturinn, sem ég átti að borða í morgun.“

Elísabet Þórarinsdóttir.
I. bekk.

Kænskubragð

Það var fagur haustmorgunn. Sveinn gamli Sveinsson var á leið niður á bryggju. Hann var nýfluttur í bæinn og þekkti fáa. Þegar niður á bryggjuna kom, sá hann, hvar maður einn fremur göslaralegur ásýndum veður um bryggjuna með miklum bægslagangi. Strax þegar Sveinn kemur niður eftir, víkur maðurinn sér að honum og segir, að þetta séu ljótu vandræðin. Hann sé útgerðarmaður í bænum og nú séu trillurnar að moka upp síldinni rétt fyrir utan hafnargarðinn, hann eigi nóg veiðarfæri en vanti bara bát af heppilegri stærð. Sagði Sveinn, að þetta hittist vel á, því hann væri nýfluttur í bæinn og ætti lítinn trillubát. Komu þeir sér nú saman um að fara á veiðar saman. Skyldu þeir hittast þarna á bryggjunni strax eftir hádegið til að laga veiðarfærin. Ætlaði Sveinn nú að flýta sér heim, en þegar hann var kominn hálfa leið upp af bryggjunni, kallaði stórútgerðarmaðurinn á hann og sagði, að svo stæði á, að hann vantaði fáeinar uppistöður á netin en hefði enga peninga á sér. Sveinn kvað það allt í lagi; hann hefði peninga á sér. Taldi maðurinn sig þurfa 60 kr. og fékk Sveinn honum þær. Strax eftir hádegi var Sveinn mættur á bryggjunni en útgerðarmanninn vantaði. Nú leið og beið. Klukkan var orðin þrjú og ekki kom útgerðarmaðurinn. Fór nú Sveinn heim og spurði kunningja sinn, hvort hann vissi nokkur deili á útgerðarmanni þessum. Lýsti hann honum fyrir honum og sagðist hann strax kannast við manninn og hefði hann líklega villzt með peningana í vínverzlunina í staðinn fyrir veiðarfæraverslun, því að þetta væri einn mesti brennivínsbelgur bæjarins og hefði aldrei við útgerð átt.

Guðmundur Karlsson.
I. bekk.

Glyrnurnar

Einhvern tíma á 19. öld var umrenningskarl í hreppi einum austur í Skaftafellssýslu. Þegar sá atburður átti sér stað, sem hér er frá greint, var karl á leið til bæjar nokkurs þar í sveit síðari hluta dags, því að hann flakkaði milli bæja. Það var siður flökkumanna í þann tíð.
Skall þá á óveður. Sökum þess að myrkur var komið, náði karl ekki til bæjarins, en hitti á fjárhús bóndans á bænum. Þau stóðu opin, og hugðist hann að láta fyrirberast þar um nóttina.
Þegar karl kom inn í fjárhúsið, var fyrir honum skánarhlaði, sem bóndinn á bænum átti. Það var eldiviður bóndans.
Það orð lék á, að karlinn væri heldur kjarklítill og myrkfælinn mjög, eins og þá var títt um fólk.
Er karlinn hefur dvalið nokkra stund í fjárhúsinu, heyrir hann undirgang og sér á sama augabragði glóra í glyrnur í dyrunum. Hann verður mjög hræddur við að sjá þetta og heyra. Grípur hann nú til þess ráðs, sem einna snjallast þótti þá gegn draugum og öðru óhreinu, einnig vondum munnsöfnuði, að kasta lambaspörðum að slæðingnum eða hinu óhreina. Þar sem hörð skánin var karli þarna nærtækust fannst honum hún gilda að einu og gera sama gagn og lambaspörð. Tekur karl nú að brjóta skánina niður í hnullungsköggla og kasta þeim á glyrnurnar, sem hann sá í dyrunum. Hverfa þær þá um stund en komu alltaf aftur. Var karl í þessu skítkasti lengst af næturinnar, fram í birtingu um morguninn. Skánin var þá þrotin í kofanum. Honum skildist þá, við hvað hann hafði barizt alla nóttina og hypjaði sig þá hið bráðasta burtu.
Í bítið þennan sama morgun, er veður var orðið allsæmilegt, býr bóndinn, sem skánina átti, sig út með reiðingshesta til þess að flytja skánina heim.
Þegar bóndi kemur að fjárhúsunum, sér hann í læk einum, er rann skammt fyrir neðan þau, alla skánina sundurtætta og blauta og 30 gemlinga dauðrotaða í einum valkesti. Það voru draugarnir, sem karlinn hafði barizt við alla nóttina í æðisgenginni hræðslu. Blessaðar skepnurnar höfðu ætlað að leita sér skjóls í fjárhúsinu fyrir óveðrinu, og fengið þá þessar viðtökur.
Margar tilgátur og sögur spunnust út af þessum atburði, þar til hið sanna kom í ljós hjá karlinum. Þessi saga hvað vera alveg sönn.

G.Á.E.
15 ára.

Þá var gaman að vera Íslendingur

Síðast liðið sumar, hinn 3. og 4. júlí, var háð landskeppni í frjálsum íþróttum milli Dana og Íslendinga. Keppni þessi fór fram á íþróttavellinum í Reykjavík að viðstöddu miklu fjölmenni. Ég fékk leyfi til þess að fara og horfa á þessa fyrstu frjálsíþróttakeppni milli þjóðanna. Ég fór með flugvél til Reykjavíkur hinn 1. júlí í bezta veðri, og hafði mjög gaman af því að fljúga og sjá mitt fagra land úr loftinu. Í Reykjavík var margt fólk, sem komið var til þess að horfa á keppnina, meðal annarra fjölda margir Vestmannaeyingar. Ég fór stundum í sundhöllina, og sá þar marga fræga sundmenn. Ég notaði tímann til þess að skoða mig um í borginni. Að kvöldi 3. júlí fór ég svo á íþróttavöllinn. Þar voru mættir ýmsir forystumenn íþróttahreyfingarinnar, ræður voru fluttar bæði á dönsku og íslenzku og þjóðsöngvarnir voru leiknir. Forseti Íslands var mættur ásamt fleiri leiðandi mönnum. Keppnin fór þannig, að Ísland vann glæsilega. Öllum ber saman um, að dönsku keppendurnir hafi verið drengilegir íþróttamenn og góðir félagar. Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi sleit mótinu með hvatningarræðu til íslenzkra æskumanna og mjög vingjarnlegum orðum til dönsku keppendanna og dönsku þjóðarinnar. Hinn 6. júlí kom ég aftur heim eftir mjög skemmtilega ferð. Það var gaman að vera staddur á íþróttavellinum í Reykjavík 3. og 4. júlí (1950), en mest var þó gaman að vera Íslendingur.

Guðmundur Hörður Þórarinss.
I .bekk.


Snotra varði afa

Þetta sögubrot, sem ég ætla að skrifa, er um afa minn, þegar hann var á mínum aldri, eða um 15 ára.
Hann vann þá fyrir sér með smalamennsku á Hellissandi á Snæfellsnesi.
Eitt haustkvöld, þegar farið var að skyggja, kom afi heim með kindurnar, en þar eð vantaði nokkrar, bað húsbóndinn hann að leita þeirra, ef hann treysti sér. Afi lét eigi á sér standa og fór af stað og hafði með sér tík eina, er Snotra hét. Hún var mjög hænd að honum. Þau lögðu af stað og héldu niður að ósi árinnar, og fann hann kindurnar þar eftir nokkra leit. Þegar hann var á heimleið, byrjaði tíkin að gelta og lét mjög illa, en afi lét sig það engu skipta og hélt áfram ferðinni. En það leið eigi á löngu, þar til tíkin byrjaði að glefsa í hann. Er hann var rétt kominn að bænum, leit hann um öxl og sá ferlíki mikið. Hann flýtti sér svo mikið, að hann hafði ekki rænu á því að setja féð inn. Þegar heim var komið, skreið Snotra strax undir eitt rúmið. Þegar betur var að gætt, var hún dauð. Hún var öll rifin og tætt og hafði látið lífið fyrir afa.
Afi hélt því fram, að ferlíkið hefði komið upp úr síki einu, sem er þar langt inni í víkinni. En seinna héldu menn því fram, að göng væru úr ósnum og upp í síkið. Ég hef verið í sveit hjá ömmu og afa, og hefi ég alltaf verið hálf hrædd, þegar ég hef farið fram hjá síkinu.
Þessa sögu sagði afi mér, þegar ég var í sveitinni hjá honum.

Hervör Karlsdóttir.
III. bekk.

Neistar

Verum á verði, æskumenn!
Móðir mín hefur sagt mér þessa sögu:
„Þegar ég var 16 ára gömul, fór ég og fleiri ungar stúlkur með Steindóri Björnssyni leikfimikennara í stutt skemmtiferðalag. Ferðinni var heitið upp á Esju. Við fórum með mótorbát upp í Kollafjörð, komum þar við á bænum Mógilsá og fengum að geyma farangur okkar þar. Var okkur þá sagt, að hópur ungra manna hefði lagt af stað upp á Esju fyrir svo sem einni klukkustund. Ganga okkar á fjallið gekk vel, því að allar vorum við frískar og léttar í spori.
Þegar við vorum komin nokkuð hátt upp í fjallið, sáum við hvar ungu mennirnir stóðu allir í einum hóp og virtust þeir standa yfir einhverju.
Við urðum forvitin og fórum til þeirra. Þar blasti við ófögur sjón. Þar lá ungur maður á jörðinni og var hann ber niður að mitti. Félagar hans voru að nudda hann. Við spurðum þá, hvað að væri. Þá kom svarið sem ég gleymi aldrei: „Hann er svona þreyttur, af því að hann á bágt með að anda, og stafar þetta af því að hann reykir svo mikið.“
Þegar ég heyrði þetta, fór ég að athuga manninn. Sá ég þá, að brjóstið var gult af tóbakseitri. Fannst mér þetta svo hryllileg sjón, að ég hét því með sjálfri mér, að ég skyldi aldrei reykja, og það hef ég efnt.“
Þetta er fásögn móður minnar, og finnst mér hún býsna athyglisverð. Ég fékk viðbjóð á reykingum, þegar ég heyrði þessa sögu, og hét því með sjálfri mér, að ég skyldi aldrei drekka eða reykja, og vona ég, að eins verði það með ykkur, skólasystkini mín.

Ása Ingibergsdóttir.
III. bekk.

Það er eins og sumum strákum finnist það skortur á hugrekki að drekka ekki og reykja. Þeim finnst það manndómur, að láta undan þeirri freistingu. Þvílíkur regin misskilningur og vanmat á sjálfum sér.
Ég ímynda mér líka, að kvikmyndirnar eigi sinn þátt í aukinni áfengis- og tóbaksneyzlu með æskulýðnum. Í flestöllum eða mjög mörgum kvikmyndum sér maður bæði drekkandi og reykjandi menn. Það er tízka, sem hefur áhrif á sjáendur myndanna og deyfir andlegt mótstöðu þrek þeirra gegn eiturlyfjanautnunum.

Jóhanna Stefánsdóttir.
III. bekk.

Sögu hefi ég heyrt um ungling einn, sem réði sig í vegavinnu. Hann var efnismaður og hagur, svo að af bar. Unglingur þessi var trúgjarn og ístöðulítill. Með honum unnu nokkrir drykkjuvesalingar, sem helltu víni ofan í hann með valdi og varð hann eftir það ofdrykkjumaður.

Einar Þór Jónsson.
III. bekk.

Ég þekki drykkjumannsheimili, sem er gott dæmi um það, hvernig Bakkus getur gjörbreytt lífi manna, breytt hamingju í eymd. Húsið ber vott um vanrækslu, ómálað, ryðgað og meira og minna af göflunum gengið, innan sem utan.
Þá er líðan fjölskyldunnar ekki burðug. Konan niðurbeygð og grátþrútin, tötralega klædd og mögur. Kona og börn búa við skort, því að þessi svokallaði heimilisfaðir eyðir töluverðum hluta tekna sinna eða meginhluta til vínkaupa.
Það er augljóst hverjum einum, sem ekki lokar gjörsamlega augunum fyrir umhverfinu, að bindindisstarfs er mikil þörf, og mörgum hefur verið bjargað úr greipum Bakkusar með bindindisstarfi.

Sveinn Tómasson.
III. bekk.

Allir menn, sem byrja að drekka, halda, að þeir geti drukkið í hófi. Sagan sannar allt annað. Sumir fara að drekka af monti, alveg eins og flestir strákar reykja, af því að þeir halda sig þá meiri menn. Aðrir byrja að drekka af einskærri minnimáttarkennd. Eitt er víst, að brennivín er böl mannsins.
Sumir álíta, að þeir geti aldrei skemmt sér á dansleikjum nema því aðeins, að þeir drekki áfengi. Slíkt er mesti misskilningur.
Mér finnst sárgrætilegt að sjá unglinga blindfulla á dansleikjum. Skemmtilegastir eru þeir dansleikir, þegar enginn er undir áhrifum víns. Ástandið í „Litla salnum“ er stundum hræðilegt. Þar ægir saman öllum verstu rónum, sem hrósa hver öðrum í óðaönn eða slást upp á líf og dauða. Innan um þá er líka stundum ungt fólk hífað, sem kyrjar klámvísur og þykist af sér og sínum háttum. Þvílík menning.

Þórir Óskarsson.
III. bekk.

Mesta virðingarleysi gagnvart sjálfum sér finnst mér vera, þegar unglingar slangra ölvaðir um götur bæjarins með vindling lafandi út úr öðru munnvikinu. Ekki vex sjálfsvirðing unglingsins við það, að hann byrjar að neyta áfengis, hvort sem það er á mannamótum, eða þegar hann er einn og heldur, að enginn hafi vitneskju um það.

Magnús Bjarnason.
III. bekk.

Einu sinni var ég vitni að samtali milli tveggja manna. Annar var ölvaður en hinn ekki. Hinn ölvaði sagði hinum ófulla að fá sér sopa úr flöskunni sinni. Hann vildi það ekki. Þá sagði sá ölvaði: ,,Þú þorir ekki að drekka, h ... þitt“. Þar með skildu þeir.
Daginn eftir var sá fullur, sem ófullur hafði verið daginn áður. Hann þoldi ekki storkunaryrðin, vesalingurinn.

Jón Berg Halldórsson.

Frá alda öðli hefur áfengið verið mesti fjandi mannkynsins. Það hefur lagt fjölda heimila í rústir og tortímt lífi og heilsu fjölmargra manna. .

G.E.G.
III. bekk.

Það var áramótadansleikur.
Eftir að hafa tekið í hendina á flestum, sem ég þekkti og óskað þeim góðs árs, rölti ég upp í „Litla sal“. Það var á þriðja tímanum um nóttina. Þar sá ég hryllilega sjón. Þarna voru flestir meira og minna ölvaðir. Ömurlegast af öllu þessu var þó að sjá unglingana við skál. Það tók út yfir allt.
Í einu horninu voru tveir augafullir menn, sem hnakkrifust út af kvenmanni, sem var engu betur á sig komin en þeir.
Ég hrökklaðist út úr salnum aftur.
Á ganginum rakst ég á jafnaldra minn og gamlan skólabróður úr barnaskóla. Fyrir tveim árum vissi ég ekki annað, en að þessi ungi vinur minn væri hamingjunnar barn, sem lífið brosti við.
Þessi fyrrum glaðværi piltur var nú niðurbeygður. Honum lá eitthvað þungt á hjarta.
„Hvað amar að þér, vinur,“ sagði ég, án þess að láta á nokkru bera. <br „Komdu upp á svalir,“ sagði hann. Við fórum upp, þangað sem „hjónaleysi“ og hinir „dánu“ hafa griðastað.
Þarna tjáði hann mér harma sína. Hann sagði:
„Pabbi kom fullur heim í gær, barði mömmu og var öskuvondur við okkur krakkana. Og nú er hann hér í kvöld, auðvitað út úr fullur. Það verður víst mitt hlutverk að drösla honum heim. Ef hann lendir þá ekki í „steininum“, en það er það versta, sem mamma heyrir. Henni finnst þá, að skuggalegur blettur hafi fallið á heimilið.“
Svona verða þau heimili, þar sem Bakkus ræður ríkjum.

Tryggvi Sveinsson.
III. bekk.

Áfengisneyzla þegnanna er mesta ógæfa hvers þjóðfélags.

M.A.
III. bekk.

Það skeði á heimili hér í bæ skömmu fyrir síðustu jól, að heimilisfaðirinn var daglega undir áhrifum áfengis. Ekkert var til í heimilinu, hvorki til fæðis né klæðis. Þá bjóst konan hans við, að tök yrðu á að fá eitthvað af peningum, þar sem maðurinn vinnur. Hún sendi því börnin sín á vinnustaðinn til þess að reyna að fá peninga, svo að hún og börnin þyrftu ekki að líða skort á sjálfum jólunum. Faðirinn átti þá ekkert inni af kaupi sínu. Hann hafði drukkið það út. Sár urðu vonbrigði barnanna og konunnar, sem urðu fyrir bragðið að fara á mis við allt, sem önnur börn og aðrar konur gátu veitt sér á jólunum og glaðzt við. Það væri óskandi, að hver einasti æskumaður, piltar og stúlkur, settu sér það mark í lífinu, að bragða aldrei áfengi, láta aldrei dropa af því inn fyrir varir sínar.

Vigfús Jónsson.
III. bekk.

Móðirin situr heima með börnin. Það er kalt desemberkvöld, úti er frost og snjókoma. Inni er kalt, eldurinn kulnaður og allt í óreiðu. Börnin kúra kjökrandi í rúmum sínum.
Faðir þeirra hafði komið drukkinn heim, brotið, bölvað og skammazt, svo að þau urðu dauðhrædd. Nú var hann farinn aftur út; sat líklega hjá einhverjum félögum sínum og drakk.
Móðirin leit á klukkuna. Hún var orðin tólf. „Ó, að maðurinn minn leiðist ekki út í áflog eða ryskingar og geri eitthvað af sér,“ hugsar hún.
Hún stendur upp, gengur að glugganum og lítur út. Ekkert sést. Öll umferð var stöðvuð.
Það var svo sem ekkert því líkt, að jólin væru í nánd. Allt í óreiðu og ekkert til, ekki svo mikið sem kolamoli í eldinn. Jú, hún átti reyndar nokkrar krónur, sem hún hafði unnið sér með hreingerningum og ætlað að kaupa eitthvað fyrir til þess að gleðja með börnin um jólin. — Varla mundu þeir aurar duga til matar- og eldiviðarkaupa. Engan afgang hafði heimilisfaðirinn, svo rýr, sem atvinnan var, og mest af tekjum hans fór fyrir áfengi. — Hún settist niður og beið. — Beið eftir hverju? Útúrdrukknum eiginmanni.
Þessi fáu orð eiga að minna á það, hvernig Bakkus getur lagt heimili manna gjörsamlega í rústir, tortímt sæmilegum efnahag og mikilli hamingju. En allra átakanlegast er þó það, þegar móðirin drekkur líka.

Soffía Björnsdóttir.
III. bekk.

Ég þekkti eitt sinn stúlku, sem var á 14. árinu, þegar þetta gerðist. Ég kom einstöku sinnum inn á heimili hennar og fannst mér það eitthvað öðru vísi en ég átti við að búa. Aldrei sá ég neinn mat eða því um líkt þar á boðstólum. Aldrei var þar neitt framreitt nema vín og tóbak. Blessað barnið vildi aldrei vera heima hjá sér, fyrr en hún var komin á unglingaaldurinn. Þá fór hún víst að hafa meira vit á þessu, og var hún heldur þjórandi heima hjá sér, heldur en að leika sér með okkur unglingunum. Pabbi hennar var sjómaður. Þegar hann var úti í sjó, bauð móðir hennar, sem var „fín frú“, nokkrum vinum sínum heim til sín, og það voru útlendingar, því að þetta gerðist á stríðsárunum. Og þessi unga stúlka tók orðið þátt í þessu, hvort sem var á degi eða nóttu. Þetta var orðið sjálfsagt í hennar augum, líkt og þegar fólk gengur til vinnu sinnar.
Svo var þessi stúlka ,,tekin úr umferð“ eins og svo margar þá, og vissi ég aldrei framar, hvað um hana varð.

Ingibjörg Karlsdóttir.
III. bekk.

Prófdagar

Er ekki hægt að kalla alla daga prófdaga? Jú, ég held það. Á hverjum degi er verið að prófa eða reyna okkur öll. Skólabörnin eru prófuð í iðni og ástundunarsemi, vinnandi fólk í samvizkusemi og vandvirkni. Drykkjumaðurinn prófar staðfestu sína, eftir að hafa heitið því hátíðlega að hætta að drekka, þegar hann stendur andspænis flöskunni. Við öll reynum fórnarlund okkar og hjálpfýsi, þegar meðbræðurnir leita til okkar. Það kostar okkur oft dálítil óþægindi að hlaupa undir bagga með öðrum, og þess vegna eru einkunnir í þessu prófi mjög lágar hjá mörgum. Þó mega ístrubelgir í megrunarkúr heldur en ekki vera staðfastir, þegar góður matur er á borðum. Eða húsfreyjurnar? Þær myndu áreiðanlega flestar fá 10, ef próf væru í geðprýði og skapstillingu við rellusama krakka.
Ég fæ oft að heyra sögukorn um próf eða réttara sagt reynslu, sem tilheyrir liðnum kynslóðum. Þegar sögumaðurinn var ungur drengur, í afdal uppi í sveit, var fátæktin mikil á heimili hans og ómegðin eftir því. Fólkið var yfirleitt ánægt, ef það hafði í sig og á, en það gekk oft upp og ofan með það. Það var einu sinni, að veturinn hafði verið óvenju harður, jólin voru komin, en ekki matarbiti til á bænum. Þrjár kýr voru á heimilinu, en ein var geld, og svo óheppilega hafði viljað til, að elzta systirin, sem mjólkaði, rann með fötuna, og öll mjólkin fór niður. En í staðinn fyrir að reka upp grát og gnísta tönnum, létu börnin sem þeim væri sama. En ömurlegt varð matarlaust aðfangadagskvöldið. Þegar börnin háttuðu, kvartaði yngsti drengurinn um svengd, en stóra systir hastaði á hann, og sagði systkinum sínum söguna af fæðingu Jesú. Móðirin var eitthvað að sýsla frammi í eldhúsi, þegar hún fann gamla og myglaða flatköku í kofforti. Hún skóf mygluna af og skipti kökunni milli barnanna, og sjaldan hugsa ég að nokkurt íslenzkt barn hafi fengið kærkomnari jólagjöf.
Þessi litla frásögn er svo fjarlæg allsnægtum okkar, samanborið við þá tíma, að maður getur ekki ímyndað sér, hve þungt próf eða harða raun þessi börn hafa orðið að ganga í gegnum. Þeir eru ekki margir nú á dögum, sem eru líklegir til að standast svona raun, án þess að kvarta, en þó veit maður aldrei, hvað býr í sjálfum sér og öðrum, fyrr en á reynir.

S.Ó.
II. bekk