Blik 1938, 3. tbl./Þegar Vestmannaey fórst
Þegar Vestmannaey fórst
Einhver áhættumesta atvinnugrein Íslendinga eru fiskveiðarnar. Lenda sjómennirnir í margri svaðilförinni við að draga gull úr greipum Ægis. Fer hér á eftir frásögn af einni slíkri svaðilför, þar sem lýst er með ágætum fiskiróðri og ömurlegum endalokum hans. Frásögnin er tekin eftir skýrslu formannsins, Sigurðar Ingimundarsonar, Skjaldbreið hér, til Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja, en skýrslan mun vera samin af Eiríki Hjálmarssyni kennara. Frásögnin er á þessa leið:
„Sunnudaginn 2. maí árið 1909 fór ég undirskrifaður til fiskveiða á vélbátnum Vestmannaey VE 104, ásamt þremur hásetum: Sigfinni Árnasyni vélstjóra, Tómasi Jónssyni, Hjörtþóri Hjörtþórssyni og hinum fjórða Árna Guðlaugi Sigurgíslasyni, sem var hjá mér fiskhirðingardrengur. Lögðum við af stað af Botninum, þegar klukkan var rúmlega fjögur síðdegis og fórum suður fyrir Eyjar, lögðum línuna til suðurs í suðvestur af Geirfuglaskeri. Klukkan var orðin sjö, þegar við vorum búnir að leggja hana. Veður var ágætt, hægur norðan andi, og létum við línuna liggja í tvær klukkustundir eða til klukkan níu og lágum yfir henni við suðurenda.
Þegar klukkan var orðin níu, hvessti allt í einu af háaustri. Fórum við þá að draga inn línu okkar og náðum á þriðja bjóð, áður en hún slitnaði. Lögðum við af stað heimleiðis þá þegar og stefndum sem næst á Súlnasker að við hugðum, en sáum ekki til Eyja í fyrstunni, því þær voru byrgðar af éli, sem létti þó af litlu síðar. Var þá stormur og sjór harðkvikur. Klukkan mun hafa verið á tólftu stundu, er við lögðum af stað, og er við höfðum haldið heimleiðis í nálægt þrjá stundarfjórðunga komu tveir sjóir á stjórnborðskinnung bátsins, sem hentu honum flötum, og varð hann þá strax svo lekur, að sjór tók upp fyrir aftara snúningshjól vélarinnar. Stoppuðum við vélina þegar og snérum bátnum undan vindi og ætluðum að þurrausa hann. Gengum við að báðum dælunum og jusum með tveimur fötum af öllum kröftum í fulla klukkust. og hafði þá sjórinn heldur vaxið. Við reistum þá upp sigluna, kveiktum á lukt og drógum hana upp og ofan á siglutrénu, en eftir lítinn tíma mölbrotnaði hún. Þá „vísuðum við blússi“ og kveiktum á hinni luktinni, en þorðum ekki að draga hana upp í sigluna af ótta fyrir því, að hún mundi brotna og við þá verða ljóslausir.
Héldum við nú að við hefðum „drifið“ af leið allra vélbáta, en við höfðum séð kvöldið áður mörg útlend seglskip í vestur-suðvestur af Geirfuglaskeri, og hugðum að reyna að komast til þeirra. Drógum við því upp fokkuna og sigldum í vestur-suðvestur í von um að hitta eitthvert þeirra. Loks sáum við ljós og stefndum á það og var það botnvörpungsbauja.
Nokkru síðar sáum við botnvörpuskip og héldum að því, og er við komum að framstafni þess, drógum við niður fokkuna. Var þá talsvert farið að birta af degi. Við gáfum botnvörpungnum merki með kúlu og ljósi undir eins og við komum að honum. Einnig kölluðum við til hans og báðum hann að taka okkur. Hann var þá að draga inn botnvörpuna og hugðum við, að hann mundi sinna okkur að því loknu, en í stað þess hélt hann, — strax og hann hafði innbyrt botnvörpuna —, beina leið heim til eyja, án þess að sinna okkur hið minnsta.
Við drógum nú aftur upp fokkuna og sigldum til suðvesturs og eftir lítinn tíma sáum við seglskip koma siglandi af hafi. Héldum við í leið fyrir það og sáum brátt, að þeir höfðu veitt okkur eftirtekt, því skipið breytti stefnu sinni og hélt nær vindi. Tóku þeir saman framseglin og bjuggust til að ná okkur. Við sigldum á vindborða að skipinu, tókum niður fokkuna, þegar við vorum komnir að skipssíðunni, og komust þrír okkar þegar upp í skipið, en óðar dreif það undan og frá bátnum, svo við tveir, sem vorum þá eftir í bátnum, urðum enn að draga upp fokkuna og sigldum þá að skipinu á hléborða og komumst báðir upp í það, en um leið brotnaði siglutré og „rekkverk“ bátsins. Sömuleiðis brotnaði skipsbáturinn og bátshengið á skipinu, sem var frakkneskt, nr. 3 frá Dúnkirkju.
Báturinn maraði aðeins ósokkinn, þegar skipið fór frá honum. Klukkan á frakkneska skipinu var fimm árdegis, þegar við vorum komnir upp í það. Við vorum allir slituppgefnir af þreytu og einn okkar frá með öllu, því allan tímann höfðum við ausið bátinn af ýtrasta megni og gjört allt mögulegt okkur til lífs.“
Frakkneska skútan flutti mennina til Reykjavíkur og fréttist ekkert til þeirra fyrri en ferð féll þaðan, því Vestmannaeyjar voru þá ekki komnar í símasamband við meginlandið.
Vélbáturinn Vestmannaey var 8,60 brúttó smálestir að stærð, með 10 hestafla Danvél og var báturinn smíðaður í Vestmannaeyjum haustið 1906 af Ástgeiri Guðmundssyni bátasmið í Litlabæ.