Auðunn Hafnfjörð Jónsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Auðunn Hafnfjörð Jónsson.

Auðunn Hafnfjörð Jónsson frá Gjögri við Reykjarfjörð, Strandas., sjómaður, matsveinn, kjötvinnslumaður, veitingamaður fæddist þar 24. desember 1936 og lést 9. september 2007.
Foreldrar hans voru Olga Soffía Thorarensen húsfreyja í Jónshúsi á Gjögri, f. á Gjögri 29. mars 1903, d. 24. febrúar 1940, og Jón Sveinsson kaupmaður og bóndi á Gjögri, f. í Hafnarfirði 30. maí 1895, d. 21. október 1967.
Fósturforeldrar Auðuns voru Þorleifur Friðrik Friðriksson bóndi og sjómaður í Þorleifshúsi á Gjögri, f. 8. september 1891 á Kjörvogi við Reykjarfjörð, d. 12. október 1964, og kona hans Hjálmfríður Ragnheiður Sigurbjörg Hjálmarsdóttir húsfreyja, f. 18. mars 1896 á Gjögri, d. 15. júlí 1973.

Börn Hjálmfríðar og Þorleifs í Eyjum voru:
1. Lilja Þorleifsdóttir húsfreyja, f. 17. júní 1922, d. 4. september 2008.
2. Klara Þorleifsdóttir vinnukona, fiskverkakona, starfsmaður á sjúkrahúsi, f. 25. júlí 1926, d. 30. janúar 2011.
3. Hjálmar Þorleifsson rafvirkjameistari, f. 15. desember 1927, d. 22. janúar 2011.

Móðir Auðuns lést, er hann var þriggja ára.
Hann fór í fóstur til Þorleifs og Hjálmfríðar 9 mánaða gamall og ólst upp hjá þeim á Litlanesi í Reykjarfirði.
Hann fór til sjós frá Akranesi 16 ára og starfaði við sjómennsku lengstan hluta ævinnar. Lengst var hann matsveinn, bæði á fiski-, strandferða- og farskipum.
Um skeið fékkst hann við útgerð og veitingarekstur.
Þá vann hann við kjötvinnslu um skeið. Auðunn fluttist til Eyja 1959 og bjó þar til 1969, er hann fluttist til Reykjavíkur, bjó um skeið í Kópavogi og stundaði veitingarekstur í Hrísey.
Þau Guðrún Valgerður giftu sig 1970, eignuðust tvö börn, en skildu.
Sambýliskona Auðuns síðustu 25 árin var Guðrún Friðriksdóttir.

I. Kona Auðuns, (26. desember 1970, skildu), var Guðrún Valgerður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 17. mars 1939 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Sigurður Gunnlaugsson verslunarmaður í Kópavogi, f. 8. maí 1912, d. 6. júlí 1988, og kona hans Ráðhildur Jónsdóttir húsfreyja, f. 18. október 1915, d. 16. maí 2007.
Börn þeirra:
1. Hjálmfríður Þorleif Auðunsdóttir Guðrúnardóttir, f. 6. september 1970.
2. Ráðhildur Guðrún Auðunsdóttir Guðrúnardóttir, f. 20. febrúar 1972.

II. Sambýliskona Auðuns var Guðrún Friðriksdóttir, f. 18. mars 1939 í Laufási í Ketildalahreppi (Dalahreppi) í Arnarfirði. Foreldrar hennar voru Friðrik Jónsson bóndi og oddviti í Neðri-Hvestu í Ketildölum í Arnarfirði, f.. 27. mars 1906 í Hringsdal í Arnarfirði, síðast í Reykjavík, d. 21. maí 1992, og kona hans Sigríður Þórðardóttir húsfreyja, f. 11. júní 1901 í Litlu-Tungu í Holtum, Rang., síðast í Reykjavík, d. 31. október 1975.
Þau voru barnlaus, en Guðrún átti dóttur, Ernu Arndal, f. 20. október 1962..


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.