Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og Runólfur Guðsteinn Þorsteinsson.

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir húsfreyja, verkakona, verkalýðsfrömuður, alþingiskona fæddist 8. ágúst 1921 á Efri-Steinsmýri í Meðallandi og lést 26. apríl 1994 á Vífilsstöðum.
Foreldrar hennar voru Bjarnfreður Jóhann Ingimundarson bóndi, f. 13. september 1889, d. 13. september 1964, og kona hans Ingibjörg Sigurbergsdóttir bónda á Fjósakoti í Meðallandi Einarssonar, húsfreyja, f. 3. nóvember 1893, d. 20. júlí 1945.

Systkini hennar í Eyjum voru:
1. Björn Gísli Bjarnfreðsson verkamaður, síðar bóndi í Ormskoti í Fljótshlíð, f. 24. júlí 1913, d. 30. apríl 1980.
2. Lárus Bjarnfreðsson málari, f. 18. maí 1920, d. 23. desember 1975.
3. Ólöf Bjarnfreðsdóttir verkakona, f. 24. júlí 1924.
4. Ingibjörg Bjarnfreðsdóttir húsfreyja, f. 16. ágúst 1925, d. 10. febrúar 1985.
5. Ármann Bjarnfreðsson bóndi, síðar fiskimatsmaður, f. 20. mars 1928, d. 9. júní 1988.
6. Aðalsteinn Bjarnfreðsson sjómaður, f. 9. júní 1929, d. 9. apríl 2005.
7. Steindór Bjarnfreðsson sjómaður, f. 26. júní 1930, d. 28. september 2014.
8. Valdimar Bjarnfreðsson verkamaður, f. 16. febrúar 1932.
9. Ólafur Bjarnfreðsson, f. 28. desember 1936.
10. Vilmundur Siggeir Bjarnfreðsson verkamaður, f. 3. september 1939, d. 21. nóvember 1964.
11. Þóranna Halla Bjarnfreðsdóttir, f. 7. september 1942, d. 1. febrúar 1982.

Aðalheiður var með foreldrum sínum til ársins 1939, var vinnukona í Reykjavík 1939-1940, var aftur með foreldrum sínum 1940-1944, en fluttist þá til Eyja. Hún giftist Antoni Júlíusi 1944 og ól 5 börn. Þau misstu eitt þeirra á 2. ári.
Þau bjuggu í Brautarholti við fæðingu Ingigerðar 1945, á Brekastíg 31 við fæðingu Steinunnar Birnu 1947 og Hlyns Þórs fyrri 1949.
Aðalheiður tók digran þátt í félagsmálum verkafólks í Eyjum, var m.a. formaður Verkakvennafélagsins Snótar 1945-1949. Þá sat hún í stjórn Sósíalistafélags Vestmannaeyja.
Aðalheiður og Anton veiktust af berklum og voru á Vífilsstöðum um hríð, hún frá 1949 og á annað ár. Þá fluttist hún til Reykjavíkur.
Þau urðu að gefa frá sér eitt barna sinna í veikindum sínum.
Þau Anton voru skilin að borði og sæng 1962.
Í Reykjavík vann Aðalheiður ýmis störf. Hún tók virkan þátt í félagsmálum á þeim árum sínum, var m.a. formaður Starfsstúlknafélagsins Sóknar 1976-1987 og átti sæti í miðstjórn Alþýðusambandsins.
Hún var alþingismaður Reykvíkinga fyrir Borgaraflokkinn 1987-1991, sat í Bankaráði Búnaðarbankans 1990-1993 og í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs 1987-1992.
Aðalheiður fluttist að Köldukinn í Holtum 1963 og bjó þar með Runólfi Guðsteini. Þau giftu sig 1968. Í Köldukinn bjuggu þau til ársins 1974, er þau brugðu búi og fluttust til Reykjavíkur.
Þau Guðsteinn fluttust að Kirkjuhvoli á Hvolsvelli 1991. Aðalheiður lést á Vífilsstöðum 1994 og Guðsteinn 1999.
Ævisaga Aðalheiðar er Lífssaga baráttukonu. Hún var skráð af Ingu Huld Hákonardóttur og gefin út 1985.

Aðlheiður var tvígift.
I. Fyrri maður hennar, (28. júlí 1944), var Anton Júlíus Guðjónsson sjómaður, verkamaður, f. 20. ágúst 1907, d. 15. september 1991.
Börn þeirra:
1. Ingigerður Antonsdóttir húsfreyja í Akurey í Landeyjum, f. 20. júní 1945 í Brautarholti.
2. Steinunn Birna Magnúsdóttir húsfreyja í Tungutúni á Hvanneyri, f. 22. janúar 1947 á Brekastíg 31, d. 21. október 2013. Kjörforeldrar hennar voru Magnús Sigurbergsson og Dagbjört Hjördís Guðmundsdóttir.
3. Hlynur Þór Antonsson, f. 2. maí 1949 á Brekastíg 31, d. 3. janúar 1951.
4. Hlynur Þór Antonsson verkamaður í Reykjavík, f. 10. desember 1952.
5. Guðmundur Bergur Antonsson stýrimaður í Eyjum, f. 24. nóvember 1956.

II. Síðari maður Aðalheiðar, (10. október 1968), var Runólfur Guðsteinn Þorsteinsson bóndi í Köldukinn í Holtum, f. 10. október 1918 í Köldukinn, d. 30. júní 1999.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Holtamannabók I – Holtahreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Rangárþing ytra, Hellu 2006.
  • Íslendingabók.is.
  • Prestþjónustubækur.
  • Vefur Alþingis.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.