1973 Allir í bátana/Ingibergur Óskarsson viðtal

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

STÆRSTA BJÖRGUNIN SKRÁÐ NÁKVÆMLEGA

Ingibergur Óskarsson – Viðtal í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 2023 – Guðni Einarsson

Ingibergur Óskarsson
1973 Allir í bátana logo

Ingibergur Óskarsson rafvirki hefur unnið mikið þrekvirki við að safna upplýsingum um flóttann mikla frá Heimaey 23. janúar 1973. Það var einstakt björgunarafrek á heimsvísu. Hann setti upp vefsíðuna 1973-alliribatana.com og einnig Facebook-síðuna 1973 í bátana til að vekja athygli á verkefninu og safna upplýsingum. Nú er hann búinn að skrá 5.049 manns, 2.630 karla og 2.369. Þar af voru 50 ófædd barn í móðurkviði. Fólkið fór frá Eyjum með 58 bátum og skipum, flugi eða sat um kyrrt þessa nótt. Að auki komu a.m.k. þrír bátar til Eyja um morguninn til að sækja fólk en fóru farþegalausir til baka. Skráð er hvar hver farþegi átti heima, með hvaða báti hann fór og hverjir voru í áhöfn. Einnig hverjir fóru með flugi. Þess má geta að rúm 60% þeirra sem voru í Eyjum um gosnóttina voru enn á lífi um síðustu áramót. „Safnahúsið í Vestmannaeyjum óskaði eftir því árið 2010 að fá sögur frá gosnóttinni. Ég henti til þeirra hugmynd um að fara með þetta á Facebook, “ segir Ingibergur. Hann kannaði stöðu málsins árið 2013 og hafði lítið gerst. Ingibergur hafði samband við Kára Bjarnason forstöðumann Safnahússins og fleiri og bauð fram aðstoð sína. „Þá fór boltinn að rúlla og ég tók þetta að mér. Ég bjó til Facebook-síðuna í janúar 2013. Eitt leiddi af öðru og það var farið að safna upplýsingum um fjölda fólksins í hverjum báti og hvaða bátar fóru með fólk frá Eyjum um gosnóttina.“ Voru dæmi um að gerðar væru farþegaskrár um borð í bátunum? „Fólk var talið í mörgum bátanna og svo var kallað í Loftskeytastöðina sem skráði það niður. Ég hef reynt að fá það skjal eða dagbókina sem það var fært í, en mér hefur ekki orðið ágengt að finna það. Ég hef leitað á söfnum, meðal annars í Vestmannaeyjum og á Þjóðskjalasafninu, og spurst fyrir um þetta en dagbókin eða þetta skjal hefur ekki fundist, “ segir Ingibergur. Á sumum bátum voru menn með í kollinum fjölda fólks sem var þar um borð en 40 árum síðar var farið að fyrnast yfir það. Ingibergur nefnir að mamma hans, Þóra Sigurjónsdóttir, hafi talið að hátt í 70 manns hafi verið um borð i Leó VE 400 en þar er 61 skráður. Ingibergur segir að fyrirliggjandi upplýsingar hafi aðallega fengist frá fólkinu sem var um borð í bátunum. Mögulega hafi einhverjir skipstjórnendur skráð fjöldann í skipsdagbækur, en svo er allur gangur á því hvernig slíkar bækur hafa varðveist.

Margir fóru í Friðarhöfn

Fólk fór niður á bryggju og kom sér fyrir þar sem var pláss um borð. Ljósmynd: Sigurgeir Jónasson

„Þegar fólkið var að fara niður á bryggju í Friðarhöfn beygði stór hópur á milli Vinnslustöðvarinnar og Gúanósins. Við bryggjuna þar fyrir neðan lágu Halkíon, Gjafar, Lundinn, Danski-Pétur og fleiri bátar, “ segir Ingibergur. Hann segir að daginn fyrir gosið hafi verið unnið að því að taka upp vélina í Gjafari. „Guðjón Rögnvaldsson vélstjóri fór um nóttina og kláraði að setja vélina saman. Þegar hann kom upp úr vélarrúminu var báturinn orðinn fullur af fólki.“

Samkvæmt samantekt Ingibergs flutti Gjafar flesta í land þessa örlaganótt og er talið að um borð í þessum rúmlega 200 tonna báti hafi verið um 420 manns en 374 farþegar eru nú skráðir. Til samanburðar má nefna að nýi Herjólfur, sem er 3.270 tonn, má flytja allt að 400 farþega í ferð þegar siglt er á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar að vetri.

„Lundinn var líka vélarvana og var verið að skvera vélina í honum. Engu að síður voru um 200 manns þar um borð og Halkíon dró hann fyrsta spölinn. Þeir komu vélinni í Lundanum í gang á móts við Þrídranga og eftir það sigldi hann fyrir eigin vélarafli, “ segir Ingibergur. Hrönn VE var líka vélarvana og með henni fóru 23. Ingibergi var sagt að Andvari VEh hafi dregið Hrönn VE fyrsta spölinn frá Eyjum, síðan hafi Gullberg VE tekið við og Grindvíkingur GK dregið bátinn öfugan inn í Þorlákshöfn eins og sást á fréttamyndum. Samkvæmt upplýsingum sem Ingibergur hefur aflað komu nokkrir bátar frá Þorlákshöfn til Vestmannaeyja að morgni 23. janúar að sækja fólk, en það var flest farið þegar þeir komu. Einn þeirra var Snætindur ÁR 88 sem tók enga farþega en flutti í land skrokkana af kúnum á Kirkjubæ.

Vinnan hefur tekið áratug

Hvað hefur þessi vinna tekið langan tíma? „Tíu ár, segir Ingibergur og brosir. „Fyrsta árið var mjög erfitt og mikil vinna. Svo hefur maður verið að setja inn leiðréttingar í gegnum tíðina og nýjar upplýsingar hafa smám saman bæst við. Ég er kominn með 4.999 nöfn á einstaklingum sem voru í Eyjum þessa nótt. Svo eru 50 bumbubúar í viðbót við það.“ Hver eru næstu skref? „Það er eftir að finna stað fyrir verkefnið, ákveða hvernig á að skila því og koma því frá sér á sómasamlegan hátt. Það þarf að gera á þessu ári, “ segir Ingibergur. „Það má segja að þetta sé síðasta árið sem mögulega er hægt að fá lokaleiðréttingar á gögnunum. Ég hef verið að fá á þessu ári leiðréttingar á áhöfnum bátanna. Hef birt sögur og annað til að vekja athygli á þessu.“ Ingibergur setur meðal annars efni inn á Facebooksíðu verkefnisins og einnig á síðuna Heimaklett til að vekja athygli og kveikja áhuga. Til dæmis birti hann í vetur myndskeið með viðtali við Unni Guðjónsdóttur leikkonu og spurði í leiðinni hvort einhver vissi með hvaða báti hún fór til Þorlákshafnar? „Unnur sagði í viðtalsþætti í Sjónvarpinu 23. janúar 1988 að hún hafi farið með vinkonu sinni sem átti pels en nefndi ekki nafnið á bátnum, “ segir Ingibergur.

Í upphafi söfnuðu Sagnheimar sögum frá gosnóttinni og héldu utan um þær. Þegar á leið tók Ingibergur við því. „Við Helga Hallbergsdóttir forstöðumaður vorum í ágætis samstarfi og þau á safninu hjálpuðu mér með eitt og annað. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni verði þetta varðveitt á vegum Sagnheima og Vestmannaeyjabæjar sem jafnframt munu sjá um að viðhalda skránni. Það hefur ekki verið endanlega ákveðið hvernig það verður gert,“ segir Ingibergur. Hann reiknar ekki með að gera miklar breytingar á vefnum úr þessu. Ingibergur hefur bætt við frásögnum eftir því sem þær hafa borist. Hann hefur einnig fengið leyfi til að birta ljósmyndir úr gosinu frá nokkrum einstaklingum. Auk þess tók hann saman lista yfir myndskeið af gosinu frá AP fréttastofunni sem eru á YouTube. Upplýsingarnar hafa verið aðgengilegar á netinu til að auðvelda fólki að sjá hvort það hefur verið rétt skráð og getað staðfest að skráningin sé rétt. „Ég mun halda vefsíðunni 1973-alliribatana. com opinni enn um sinn. Svo er spurningin hvað Sagnheimar og Vestmannaeyjabær vilja gera við þetta. Það er eftir að taka þá ákvörðun.“

Eftirminnileg sigling með Leó VE 400

Ingibergur var á tíunda aldursári þegar Heimaeyjargosið hófst. „Mig rámar í þessa nótt. Mamma vakti mig og þegar ég leit út sá ég eldhafið út um gluggann í svefnherberginu. Svo komu móðursystur mínar, Björg og Guðbjörg, sem bjuggu við Faxastíg til okkar á Illugagötu. Við Björg löbbuðum áleiðis upp að Hásteini til að sjá gosið betur,“ segir Ingibergur. Þau fóru síðan öll niður í Friðarhöfn og um borð í Leó VE. „Mamma fékk meðgöngusykursýki þegar hún gekk með mig og þess vegna fæddist ég í Reykjavík 1963. Svo var farið með mig vikugamlan til Þorlákshafnar og Leó VE sótti okkur þangað. Nú vorum við á sömu leið til baka með bátnum rúmlega níu árum síðar. Ég var uppi í stýrishúsi þegar við sigldum út úr höfninni og var fúll út í pabba yfir að ég fékk ekki að vera úti vegna öskufallsins. Lúlla (Lovísa Guðrún Guðmundsdóttir), kona Ingibergs á Sandfelli nafna míns og afabróður, var í skipstjórakojunni. Mamma var líka þarna aftur í. Ég var sjóveikur eins og flestir um borð og kom mér fyrir á bekk sem náði undir kojuna. Lá þar hluta af ferðinni.“

Týndi flugvélarpeningunum

Ingibergur kynnti verkefnið Allir í bátana árið 2016 í Vestmannaeyjum og lenti þá á spjalli við Bjarna Jónasson nágranna þeirra á Illugagötu. Hann fór líka með Leó VE til Þorlákshafnar þessa nótt. „Bjarni sagði mér að hann hafi lagt sig á gólfið í brúnni. Þegar hann kom í bæinn var hann búinn að týna veskinu sínu. Í því voru peningar sem hann ætlaði að nota til að kaupa sér flugvél. Til allrar hamingju fann Ármann Óskarsson veskið og kom því til hans þannig að Bjarni gat keypt flugvélina,“ segir Ingibergur. Þegar Leó VE kom til Þorlákshafnar mátti báturinn ekki fara strax að bryggju. Óskar Matthíasson skipstjóri og faðir Ingibergs hafði oft komið í Þorlákshöfn og var þar staðkunnugur. Hann stalst inn fyrir og lagði bátnum við austustu bryggjuna, en það gaf yfir hana. „Það komu björgunarsveitarmenn sem tóku á móti okkur og fóru með okkur af bryggjunni. Þaðan fórum við með rútu í bæinn,“ segir Ingibergur. Mikil þrengsli voru í höfninni og því þurftu bátarnir að fara út aftur til að teppa ekki legupláss. Konur og börn urðu eftir uppi á landi en eldri bræður Ingibergs og pabbi hans fóru aftur til Eyja. Óskar, pabbi Ingibergs, var tiltölulega nýbúinn að láta byggja Þórunni Sveinsdóttur VE í Garðabæ og hafði keypt íbúð í Sólheimum til að dvelja í meðan á smíðinni stóð. Fjölskyldan safnaðist nú saman í íbúðinni en þar bjuggu þá systradæturnar Þórunn Óskarsdóttir, systir Ingibergs, og Guðríður og Björg Halldórsdætur sem voru við nám uppi á landi.

Vonast eftir „goslokum“ á þessu ári

„Ég vona að það verði goslok hjá mér á þessu ári,” segir Ingibergur eftir að hafa unnið að þessu verkefni í rúman áratug. Hann segist oft hafa hugsað til þess að tíu árum fyrir Heimaeyjargosið gaus Surtsey. „Surtseyjargosið var af og á í hátt í fjögur ár. Um leið og tilkynnt var að eldgosinu í Heimaey væri lokið hópaðist fólkið heim aftur. Eyjahjartað er svo sterkt og mikil löngun að fara aftur heim. En ég skil líka marga sem höfðu búið við Surtseyjargosið, þar sem gaus aftur og aftur, og fóru ekki aftur til Eyja. Þeir kannski treystu því ekki að Heimaeyjargosinu væri endanlega lokið.”

En kom eitthvað á óvart við vinnslu verkefnisins? „Ég get nefnt að mér hefur ekki tekist að finna út með hvaða báti Richard Þorgeirsson og fjölskylda fóru. Rikki var bundinn við hjólastól og hefur því þurft aðstoð við að komast um borð. Ég skil vel að fjölskyldan muni þetta ekki enda ekki tengd sjómennsku á þeim tíma,” segir Ingibergur.

Kasólétt og sjóveik

„Upplifun fólks var mjög misjöfn þótt það hafi farið með sama báti. Stýrimaður eins bátanna talar um að það hafi verið nýbúið að mála lestina og því farið vel um alla, en kona sem var í lestinni talar um að ferðin hafi verið mjög erfið. Hún var einmana vegna þess að hún fór ekki með vinum eða ættingjum og auk þess kasólétt og sjóveik.” En hvað er Ingibergi efst í huga varðandi gosnóttina eftir að hafa rannsakað flóttann mikla og áhrif gossins á íbúana í meira en áratug? „Það hvað þetta fór allt vel. Það eru margir þættir sem spila þar inn í. Veðrið var búið að vera leiðinlegt og bátarnir þar af leiðandi í landi. Þegar gosið kom lá í augum uppi hvað skyldi gera. Fara um borð í bátana og koma sér upp á land. Margir héldu að þetta yrði bara stutt skrepp inn fyrir Eiði og tóku með sér eina niðursuðudós eða eitthvað annað. Þegar komið var upp á land var mikill samhugur í fólki og við vorum sannarlega öll ein þjóð eins og sýndi sig í verki,” segir Ingibergur.

Misstu allt

Hann hefur heyrt að einhverjir hafi ekki ætlað sér að fara frá Heimaey þessa nótt og farið á bíl inn í Herjólfsdal til að bíða þetta af sér þar. Ingibergur segir að flestir hafi sýnt mikið æðruleysi en inn á milli hafi verið fólk sem var skelkað, sem var ósköp eðlilegt í ljósi aðstæðna. Sumir sneru ekki aftur heim Ingibergur telur að það sem hafði áhrif á hvort fólk sneri aftur til Eyja eftir gosið hafi verið efnahagsástand þess tíma, aldur fólksins og hversu austarlega það bjó í bænum fyrir gos. „Ég horfði nýlega á viðtal við fjóra Vestmannaeyinga í Kastljósi frá 1977 og þar kom sterklega fram að verðbólgan var svo mikil á þessum tíma að ef fólk keypti ekki strax húsnæði þá brunnu peningar þess upp. Gömlu húsin voru mjög lágt metin og fékkst lítið fyrir þau sem hafði áhrif á margt eldra fólk. Það réði illa við að fjárfesta í nýju húsnæði,” segir Ingibergur. Þau sem bjuggu austast í bænum misstu ekki aðeins húsin sín, heldur götuna sína, nágrennið og umhverfið sem þau höfðu búið við jafnvel áratugum saman.-



Heimildir