Þórunn Jónsdóttir (Oddsstöðum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Þórunn Jónsdóttir húsfreyja, sýslumannskona á Oddsstöðum fæddist um 1704.
Faðir hennar var Jón lögsagnari launsonur Ólafs sýslumanns á Þykkvabæjarklaustri Einarssonar sýslumanns Þorsteinssonar sýslumanns Magnússonar.
Móðir Ólafs sýslumanns og kona Einars var Auðbjörg (Iðbjörg) húsfreyja Filippusdóttir, lögréttumanns í Langholti í Flóa Teitssonar og konu Filippusar, Kristínar Guðmundsdóttur húsfreyju.

Móðir Þórunnar og kona Jóns lögsagnara var Sesselja húsfreyja frá Brautarholti á Kjalarnesi Pálsdóttir prests á Barði í Fljótum í Skagafirði Jónssonar ,,í guði“ bónda á Siglunesi Guðmundssonar og konu Páls Sveinssonar, Þorbjargar húsfreyju Oddsdóttur annálaritara á Fitjum í Skorradal Eiríkssonar.

Ólafur Einarsson sýslumaður faðir Jóns föður Þórunnar var talinn vera faðir Sigurðar sýslumanns manns Þórunnar.

Sigurður Stefánsson maður Þórunnar var settur sýslumaður í Eyjum (líklega) 1722, fékk veitingu fyrir sýslunni 1727. Þau bjuggu á Oddsstöðum, höfðu hálfa jörðina til ábúðar. Laun þeirra töldust lág, m.a. vegna kröfu um störf, sem Sigurður fékk ekki laun fyrir og jarðarábúðin var leigulaus, en talin þeim til tekna. Meðal starfa, sem hann var skyldaður til að leysa af hendi án viðbótarlauna eftir að hann tók við embætti var eftirlit og mat á vörum, sem kaupmenn fluttu inn og mat á fyrirliggjandi vörubirgðum. Einnig átti hann að taka við leigubátum konungs, Inventarii-bátunum, úr höndum fráfarandi kaupmanns, skoða og meta þá og gefa dönskum yfirvöldum skýrslu um það. Í kröfu sýslumanns 1734 um launahækkun sagðist hann þurfa að vinna sumar sem vetur verkamannavinnu til sjós og lands til að ná endum saman, en hefði mikla ómegð. Fengu þau launahækkun.
Þórunn ól 10 börn, sem upp komust, líklega öll á Oddsstöðum.
Þau fluttust að Smyrlabjörgum í Suðursveit 1738, en Sigurður hafði fengið austurhluta Skaftafellsþings 14. mars á því ári.
Hann gegndi því embætti til ársins 1759, er hann fékk lausn.

Maður Þórunnar var Sigurður Stefánsson sýslumaður, f. um 1698, d. 1765.
Börn þeirra:
1. Ólöf Sigurðardóttir húsfreyja á Hafranesi í Fáskrúðsfirði, f. 1727, á lífi 1801. Maður hennar var Ögmundur Eiríksson eða Árnason, f. 30. júní 1740.
2. Þorleifur Sigurðsson lögréttumaður á Hofi í Öræfum, f. 1729. Kona hans var Sigríður ,,eldri“ Jónsdóttir húsfreyja, f. (1735). Þau eru ættforeldrar Árna Þórarinssonar bónda á Oddsstöðum, afa Johnsen-bræðra og afa Árna Oddssonar föður Burstafellssystkinanna.
3. Jón Sigurðsson bóndi á Felli í Suðursveit, f. 1730, d. 1797. Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Þórdís Jónsdóttir. Síðari kona hans var Guðlaug Runólfsdóttir Narfasonar.
4. Erlendur Sigurðsson, f. 1730, d. ókv. og barnlaus.
5. Ingibjörg Sigurðardóttir húsfreyja á Dyrhólum í Mýrdal, f. 1730. Maður hennar var Jón Snorrason bóndi, f. 1728, d. um 1770.
6. Bergljót Sigurðardóttir húsfreyja á Reynivöllum í Suðursveit, f. 1734, á lífi 1801. Maður hennar var Björn ,,ríki“ Brynjólfsson bóndi, f. 1731, á lifi 1801. 7. Þorleifur ,,yngri“ Sigurðsson bóndi á Hóli í V-Landeyjum, f. (1735). Kona hans var Steinunn Þórarinsdóttir húsfreyja, f. (1758). Espólín, p. 488, segir að kona hans hafi heitið Steinunn Þormóðsdóttir. Þau voru móðurforeldrar Steinunnar Jónsdóttur í Götu.
8. Guðmundur Sigurðsson bóndi á Sævarhólum í Suðursveit, f. um 1735, d. 1786. Kona hans var Sigríður húsfreyja Þórðardóttir frá Borgarhöfn í Suðursveit Ingumundarsonar.
9. Þrúður Sigurðardóttir, f. (1735).
10. Jón ,,yngri“Sigurðsson, f. (1735). Kona hans var Sigríður húsfreyja Sigmundsdóttir Eiríkssonar.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.
  • Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
  • Ættatölubækur Jóns Espólíns, p. 486-489 og p. 939.
  • Ættir Austur-Húnvetninga. Guðmundur Sigurður Jóhannsson og Magnús Björnsson. Mál og mynd 1999.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.