Úr fórum Árna Árnasonar/Bréf Árna eldri til konu sinnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Bréf Árna eldri


Sendibréf Árna Árnasonar eldri, frá Grund (1870-1924) til unnustu sinnar og síðar eiginkonu Jóhönnu Lárusdóttur (1868-1953).
Árni fór vestur um haf til Utah 1891, og Jóhanna fór á eftir honum ári seinna með dóttur þeirra Auðbjörgu Ástrósu, rúmlega ársgamla. Þau giftust vestra þann 29. júní 1893, og ári síðar misstu þau litlu stúlkuna sína, rúmlega þriggja ára gamla.
Þau Árni og Jóhanna fluttu aftur heim til Vestmannaeyja 1898, með son sinn Lárus, sem fæddist í Utah. Þau tóku aldrei mormónatrú, og fundu sig ekki á meðal ættingja Árna innan safnaðarins þarna vestanhafs.

Scofield, Emery Co Utah 9. febr. 1893

Hjartkæra unnusta og dóttir

Bréf þetta á að færa ykkur mínar innilegustu þakkir fyrir kærkomið bréf ykkar, er ég meðtók 14. janúar s.l.
Ég varð innilega glaður að frétta, að ykkur líður vel. Get ég ekki þakkað guði það nógsamlega.
Kysstu litlu Ástrósu fyrir lokkinn, sem hún sendi pabba sínum. Hann mun ég geyma vel, og þegar ég fæ að sjá hana með vorinu, borga henni lokkinn með innilegum föðurkossi.
Ég hef ágæta vinnu og fæ greidda tvo dollara á dag. Vona ég og bið, að þessi vinna haldist og heilsa mín sem lengst.
Ég sendi þér nú 85 dollara og á Þorsteinn læknir að afhenda þér það og svara út á hvern dollar kr. 3.70 og verður þá upphæðin kr. 314.50. Vona ég, að þetta verði nóg. Ég ætla að biðja þig, vina mín, að borga Jóni Guðmundssyni í París fyrir mig 4 kr. og 75 aura, sem mig minnir fastlega, að ég skuldi honum. Þú skalt samt ekki greiða þetta, nema þú sért viss um að hafa næga peninga. Ég sendi honum þá greiðsluna í bréfi með næstu skipsferð, því að ég veit, að hann líður mig um það þangað til, ef þú ert ekki vel peningabyrg.
Þegar þú leggur nú af stað hingað í sumar, þá bið ég þig að ganga vel frá litlu Rósinni, hún er svo lítill ferðalangur. Ég vildi svo gjarna gefa þér góðar upplýsingar um ferðalagið, en ég þekki svo lítið til þessarar línu sem þú ferð með. En Einar og Steinka ætla að skrifa þér fyrir mína hönd eins greinilega og þau geta. Svo fékk ég hjá lagamanni blað, sem ég sendi Einari, sem hann svo sendir þér. Hann segir þér svo í bréfinu, hvernig þú átt að nota blaðið.
Blaðið, sem Jón Evansson sendir þér, átt þú að sýna í New York, er þú kemur þangað, en ekki skaltu samt sýna það, nema þeir ætli að stoppa þig, og ávallt skaltu sýna blaðið, sem Einar sendir þér, á undan hinu.
Ekki skaltu fara að koma með rokkinn þinn, bara selja hann, því að Steinka lánar þér sinn rokk, ef þú þarft hans með. Einnig skaltu selja sængurfötin og þá alveg sérstaklega, ef nýlegt fýlafiður er í nokkru af þeim. Það verður soddan afleit lykt úr þeim, þegar þau koma hingað í hitann. En ekki skaltu selja sængurfötin, ef þau eru með góðu lundafiðri, því að hér eru sængurföt dýr.
Ekki skaltu búa Ástrósu vel út með föt, en koma heldur með fatnaðarefni handa henni ósniðið, því að hér er allt annað klæðasnið en heima. Ekki skaltu heldur koma með mikið af fötum á þig, því að þú brúkar þau ekki nema á leiðinni. En með öll nærföt skaltu koma og nóga sokka. Og það bið ég þig, að koma með sokka og vettlinga handa mér, ef þú getur.
Einnig skaltu koma með leirtau, ef getur og ættir það. En ekki skaltu fara að kaupa það.
Einnig skaltu koma með, ef þú átt ósniðið tau í föt, því að tau er dýrt hér eins og annað.
Ef þú átt einhverja peninga afgangs, þegar þú hefur borgað farbréfið, skaltu hafa þá á leiðinni. Ég vona, að pápi þinn biðji kafteininn fyrir þig, svo að litið verði til ykkar.
Þegar þú kemur til Granton, þá skaltu biðja kafteininn að skipta þeim peningum, sem þú átt í ameríska peninga. Ég veit ekki, hvort matur er innifalinn í farbréfinu, en það gildir ekki nema til Springwell, svo að þú verður þá að kaupa mat eftir það.
Frá Springwell verður þú að kaupa ticket hingað upp eftir. Strax þegar þú kemur til Granton, koma tollþjónar um borð, og skaltu þá ljúka strax upp kofforti þínu og lofa þeim að gá í það, en þá þeir eru búnir að skrifa á það, mátt þú loka því aftur.
Þú skalt hafa léttan handleggspoka og hafðu það uppi við, sem þú þyrftir helst að nota og getur þá náð fljótt í það, ef með þarf. Þú skalt hafa með þér enda og nál, ef það skyldi bila hjá þér. Líka getur skeð að þeir gái í pokann, og þarft þú þá að geta saumað fyrir hann aftur. Það getur skeð, að þú sjáir ekki alltaf dótið þitt og því síður, að þú getur náð í það.
Þér verða fengnar plötur, og aðrar verða látnar á dótið þitt. Þær skaltu geyma vel þangað til að það kemur að því, að tollþjónarnir vilja fá þær, þá færðu aðrar, og mundu mig um að geyma þær mjög vel.
Þegar þú kemur í lestarvagninn færð þú smá miða. Hann skaltu hafa í hendinni og passa hann vel, þangað til það kemur maður með töng í hendinni. Hann setur gat á miðann og svo fær hann þér miðann aftur, og þetta gengur svona lengi. Stundum færðu líka annan miða, en þeir taka þennan götótta í staðinn.
Eitt ætla ég að biðja þig um, að ef þú verður látin einhversstaðar í biðsal eða hús og þeir gefa þér vísbendingu um, að þú eigir að bíða þarna, þá vertu bara róleg og farðu ekkert, þó þér finnist biðin kanske löng. Þú skalt aldrei vera hrædd um, að þú komist ekki, bara vera róleg, þegar þú ferð að ferðast. Línumennirnir vita alveg hvernig allt er og gera allt, sem hægt er til þess að koma þér örugglega á áfangastaðinn.
Þetta fer allt vel, bara ef ekki er búið að banna innflutninginn, sem ekki er fyrirsjáanlegt. Þessi lína, sem þú ferðast með, er ágæt, og þegar þú hefir farbréf, þá verður þú og aðrir sendir eins og bréf til Spanish Fork. Þegar þangað kemur, tekur mamma og Jón Evansson maður hennar á móti þér. Og þar verður þú, þar til ég kem norður eftir. Það skal ekki dragast lengi að ég komi, eftir að þú ert komin þangað.
Ég bið þig að skrifa mér um leið og þú ferð af stað, því að þá kemur bréfið um leið og þú eða kanske rétt á undan þér, og skaltu þá skrifa svona utaná til mín: Árni Á. Árnason Scofield Emery Co. Utah USA.
Ég bið að heilsa öllum heima hjá þér og öllum kunningjunum. Kysstu litlu rósina frá pabba hennar, sem ég vona að sjá sem allra fyrst með mömmu sinni, báðar hraustar og heilbrigðar. Guð blessi ykkur báðar og verndi ykkur á leiðinni hingað og alla tíð.

Þinn þreyjandi unnusti
Árni Á. Árnason
Scofield Emery Co.
Utah, U.S. America

Þú athugar það, að á öllum pappírunum ert þú skrifuð konan mín, og þannig verður það að túlkast til vonar og vara.



Scofield. Emery Co Utah dgs. 9. febr. 1893

Hjartkæra unnusta og dóttir. Nú legg ég bæn fyrir minn herra og föður, guð almáttugan, að þessar línur mínar mættu finna ykkur báðar glaðar og heilbrigðar. Línur þessar eiga að færa ykkur báðum mínar hjartkærustu kveðju og þakkir fyrir bréf það, er ég meðtók 14. janúar. Varð ég svo innilega glaður, að ég get því ekki með orðum lýst, yfir að frétta af þér, mín ástkæra unnusta, hvernig barnsburðurinn gekk, að ykkur líður báðum vel. Lof sé guði fyrir það. Kysstu litlu Rós fyrir hárlokkinn, sem hún sendi pabba sínum og seg henni, að ég muni ábyggilega geyma hann vandlega, og ég skuli sannarlega þakka henni fyrir hann með kossi, ef mér auðnast að fá að sjá hana, sem ég vona að verði inan tíðar. Ó hvað ég hlakka innilega mikið til þegar þið komið.



Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit