Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Útilegan í Súlnaskeri 1923

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Útilegan í Súlnaskeri 1923


Fyrsta og einasta útilegan, sem átt hefir sér stað við súlnatekju í Súlnaskeri, varð 18. ág. 1923.
Þetta er einstæður atburður og þykir því rétt að skrá hann hér í stórum dráttum.

Það var hæglætis sunnan gola morguninn, sem farið var í Skerið, en ekki frítt við hafbrim. Sumir hinna eldri manna töldu vafasamt, að sjór væri dauður við Skerið, en hinir voru í meirihluta, sem töldu fært, og fyrir þeirra áeggjan var farið. Þegar komið var suður að Skerinu, kom í ljós, að töluvert brim var við steðjann, þar sem uppgangan í eyjuna er á austurhlið skersins. Eftir að menn höfðu athugað allar aðstæður, var talið fært að leggja að steðjanum.
Þeir, sem forystuna höfðu, voru engir viðvaningar við úteyjar, sem sé þeir Hannes Jónsson lóðs og Finnbogi Björnsson, Norðurgarði. Með þeim voru svo ágætis menn, þótt ekki sé nú lengur munað, hverjir þeir voru. Þeir, sem upp skyldu fara voru: Einar Jónsson, bóndi í Norðurgarði, elsti maðurinn, nokkuð á sextugsaldri, Sigurður sonur hans, Hjörtur Einarsson, Geithálsi, Gústaf Stefánsson frá Ási, Guðjón Jónsson, Hlíðardal, allir á þrítugsaldri, Jón Guðjónsson, Þorlaugargerði, 19 ára, og Óskar Kárason, Prestshúsum, 18 ára. Eftir honum er frásögn þessi. Jón í Þorlaugargerði hyggur, að göngumenn hafi verið 8, en aðrir telja, að þeir hafi verið 7. Það var að vísu venja, að göngumenn voru 8 og 8 á bátnum, en þar eð ekki verður vitað, hver áttundi göngumaðurinn var, verður að sleppa nafni hans að þessu sinni.
Uppgangan í Skerið gekk vel, og fór Sigurður Einarsson, Norðurgarði, fyrstur upp á steðjann með bandið. Sjór var þó það slæmur, að taka varð lög til uppgöngu, og komust allir göngumenn upp á sama laginu.
Skammt fyrir ofan steðjann er Illugabæli, sem líka er kallað Bænabringur, því að þar lesa göngumenn fjallamannabænina. Svo var og gert í þetta skipti.
Það féll í hlut Sigurðar Einarssonar að fara fyrstur upp, en Einar gamli faðir hans skyldi fara síðastur. Þetta eru taldar virðingarstöður í fjallaferðum. Síðasti maður er nefndur „keppadrellir“, því að hann gætir allra súludrápskeppanna. Á milli fyrsta og síðasta manns liggur liðlegt band, sem menn hafa sér til hjálpar við uppgönguna, en í neðri enda þess er keppunum hnýtt, og verður síðasti maður að draga þá upp.
Að þessu sinni var enginn útlátsmaður, þ.e.a.s. allir höfðu áður farið upp á Súlnasker. Annars var það forn siður, að sá sem kom þangað fyrsta sinni varð að leggja nokkra aura í vörðuna, þ.e. Skerprestinn, og þegar heim kom, að bjóða göngumönnum og jafnvel fleirum upp á kaffi og brennivín.
Vegurinn upp á Súlnasker hefir löngum verið talinn einn örðugasti fjallavegur á Íslandi og mun það trúlegt. Þar sem vegurinn liggur, er Skerið hæst eða 80 metrar.
Um þessar mundir voru sama og engar keðjur, heldur aðeins höggvin spor og boltar þar, sem tæpast var. Það er mikill munur eða nú, þar eð segja má, að keðjur liggi að mestu allan veginn.
Uppferðin á Skerið, að þessu sinni, gekk vel og tók aðeins um klukkutíma. Það bar við, að menn voru miklu lengur, sérstaklega, þegar mikið var af óvaningum til uppgöngu.
Þegar nú upp á Skerið kom, var komin austanbræla, en veður var að öðru leyti þurrt og fremur milt. Byrjað var á því að drepa súluungann. Þegar því var lokið, var fuglinn borinn fram á bjargbrúnina og honum síðan kastað í sjó niður. Ekki var hægt að kasta allri súlunni í einu, enda er það ekki gert, nema í logni og ládeyðu.
Nú var komin stormbræla, og áttu bátsmenn í nokkru stríði við að innbyrða fuglinn, því að, ef miklu var kastað í einu, dreifðist hún fljótt um sjóinn. Þegar búið var að kasta súlunni niður, var tekið til við að drepa fýlsungann. Ekki hafði því verið að fullu lokið, þegar bátsmenn kölluðu og töldu ófært vera orðið við steðjann að austan og við suðurflána, en hins vegar fært að vestan.
Þetta voru ekki gleðifréttir, og þótti sumum undarlegt, að göngumenn skyldu ekki vera kallaðir niður af Skerinu, áður en ófært var orðið, þar eð það eru bátslegumenn, sem eiga að sjá um að kalla Skergöngumennina niður, áður en allt er um seinan vegna veðurs. Að þessu sinni mun hafa brimað mjög snögglega, og hafa bátsmenn ekki séð það fyrir og verða ekki ásakaðir um það, því að allt í einu hvessti að austan. Menn höfðu talið, að veður myndi haldast óbreytt til kvölds.
Uppi var nú haldin ráðstefna um, hvað gera skyldi. Sumir vildu fara vestur af Skerinu. Þar er gamall vegur, og sagðist Einar vita, hvar hann væri. Sagði hann, að þar væru 3 lærvaðir, og 2 boltar væru niðri í berginu. Einar sagðist aldrei hafa farið veg þennan og taldi langt síðan, þar hefði verið farið niður og þess vegna hæpið að treysta á boltana.
Var svo farið að skoða veg þennan ofan af brúninni. Munu menn hafa séð efri boltann, en hinn sást ekki. Þó gat hann vel verið á sínum stað. Var þá ákveðið að freista þess ekki að fara þarna niður vegna óvissu um styrkleika boltanna.
Eins og komið var, var því ekkert um annað að ræða en vera í Skerinu yfir nóttina, eftir að bátsmenn höfðu þverneitað að leggja að Suðurflánni. Eitt er alveg áreiðanlegt, að þeir Hannes og Finnbogi hafa ekki gert það að gamni sínu að taka göngumennina ekki. Þeir kölluðu ekki allt ömmu sína, hvað því viðkom að leggja að úteyjum, svo mjög vont hefir ábyggilega verið við steðjann.
Þá var farið að búa sig undir útileguna í Skerinu. Fyrsta verkið var að fá vatn, prímus og fötu hjá bátsmönnum. Það var dregið upp í ey á svonefndum Helli. Heppnislegt var, hve litlu var búið að kasta niður af fýl, og kom hann nú í góðar þarfir, þareð Einar lagði á þau ráð, að menn svæfu í fýlabingnum yfir nóttina.
Þegar báturinn var farinn, var farið að athuga náttstað. Var valið eitt af giljum þeim, sem skerast inn í Skershrygginn að sunnan. Þar var helst afdrep og skjól fyrir rokinu. Þangað var svo borið það, sem eftir var af fýlnum.
Síðan var farið að hugsa um kvöldmat. Var ákveðið að sjóða lundapysju. Skiptu menn með sér verkum. Sumir fóru að hlaða grjóti og torfi kringum prímusinn, svo að hægt væri að kveikja á honum vegna stormsins. Svo var farið að ná í lundapysjuna, sem var fljótgert, því að nóg er af henni, hvar sem er í lundabyggðinni, þar sem við vorum. Þá var að ná í sjó til að sjóða hana í, og kom fatan þar að góðum notum. Var fjallabandið bundið í hana og henni rennt niður í sjó á Helli. Það gekk vel. Síðan var smeygt kepp undir hölduna og hvíldi hann á prímusbyrginu, sem var opið að ofan. Fatan var eina ílátið, sem til var til þess að sjóða mat í.
Þegar búið var að reyta pysjuna, var hún látin í fötuna, og ekki tók langan tíma að sjóða hana. Einar gamli var fljótastur að reyta, en það var spaugilegt að sjá hann, meðan hann reytti, því að dúnninn fauk allur í skegg hans og festist þar. Einar var með mikið skegg, en það var nú orðið hvítt af dúninum eftir reytinguna, svo að hann var einna líkastur jólasveini. Ekki tók Einar nærri sér, þótt að honum væri nú hlegið og gert grín að útliti hans. Hann var sérlega geðgóður maður og hafði allra lof sem prýðis félagsmaður. Það voru lystugir menn, sem tóku til matar, þegar pysjan var soðin, og minntust menn varla að hafa orðið fegnari mat sínum, sem smakkaðist með ágætum.
Það kólnaði mikið, er á kvöldið leið, og enn var sama rokið. Allir voru þó léttir í skapi, þrátt fyrir það, þótt mörgum væri hrollkalt vegna þess að allir voru léttklæddir, og enginn hafði yfirhöfn með sér. Kom sér því vel, að ekkert rigndi. Svo fóru menn að grafa sig í fýlabinginn. Það var ekki lengi verið að hátta, og ekki var að tala um að þvo sér, áður en gengið var til hvílu. Óskar Kárason sagði, að sér hafi liðið ágætlega, eftir að hafa hreiðrað um sig í glóðvolgum fýlnum. Hann taldi það og mikið lán, að ekkert rigndi, þar eð þá hefði ekki verið gott að gista í fýlahrúgunni. Hann minnist þess, að Einar gamli sagði, eftir að hafa komið sér fyrir í fýlnum: „Það er stór baðstofuglugginn, piltar.“ Óskar sagðist hafa sofnað fljótt og vel og svaf til morguns, að hann var ræstur kl. 08:00.
Var þá komið besta veður, norðan kula og sólskin. Ekki sváfu allir eins vel og hann, sumum var kalt og þá helst á höfðinu. Það var ekki lengi verið að klæða sig, því að vitanlega sváfu allir í fötunum. En allir voru í góðu skapi, því að ekki var á hagstæðara veður kosið. Búist var við því, að báturinn kæmi snemma. Farið var snemma að bera fýlinn niður á Helli, sem varð til þess að hita mönnum. Reynt var að hita vatn, en þá reyndist prímusinn vera stíflaður, svo að ekkert varð úr vatnshitun. Um morguninn var svaðabrim við Skerið, en er líða tók á morguninn, minnkaði það mikið og fór ört batnandi.
Það stóð ekki á, að báturinn kæmi, þar eð kl. 10 sást til ferða hans suður eftir. Niðurferðin á bát gekk ágætlega, svo að kl. 12 voru allir komnir um borð. Var farið suður af Skerinu. Það var svaðabrim við flána, en þeir Hannes og Bogi sýndu það þá, að þeir kunnu að leggja að útey. Var nú ekkert hik á körlum, og ekki stóð á göngumönnunum að stökkva á bát. Er það ábyggilegt, að allir voru forsjóninni þakklátir fyrir það, að þurfa ekki að liggja aðra nótt úti í Súlnaskeri.
Þegar út í vélbátinn kom, var öllum skermönnum fagnað prýðilega. Þar áttu allir góðan bita, sem sendur hafði verið einum og sérhverjum að heiman. Þess utan var svo sjóðandi kaffi á könnunni handa mannskapnum. Í land hrepptu Skersmenn norðan brælu og komu heim kl. um 2 e.h.
Þar með lauk þessari fyrstu og einustu útilegu, sem vitað er til, að átt hafi sér stað í Súlnaskeri við súlna- og fýlatekju. Rétt er að geta þess, að Þjóðhátíðin var að þessu sinni haldin 19. ágúst, svo að þegar, er þeir komu heim úr Skerinu, voru allir farnir í Dalinn. Það kom þess vegna enginn til að sækja fýlinn. Varð það því að samkomulagi að skipta fýlnum milli göngumanna og þeirra, sem á bátnum voru. Þegar öllum skiptum var lokið, fóru menn auðvitað í Dalinn sér til skemmtunar og finnst manni, að þeir hafi verið vel að þeirri skemmtan komnir eftir harða og stranga útivist í Súlnaskeri.

Ofanritað er samkv. frásögn og skráningu Óskars Kárasonar, Sunnuhóli.
P.S. Mótorbáturinn, sem sótti ofannefnda útilegumenn í Súlnasker var mb. Gústaf, og var formaður með hann Gísli Ben. Jónsson.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit