Úr fórum Árna Árnasonar. Verk annarra/Árni Guðmundsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Árni Guðmundsson frá Háeyri í Vestmannaeyjum.


Nokkrar gamanvísur o.fl.



Bílavísur
Ó bifreiðar, sem þjóta um þráðbein stræti
og þreytta sálu mína fylla kæti,
þið flytjið skít og ösku
og fisk og kol og salt
og færið Inga pilsner
og sódavatn og malt.
Bifreiðar, blessun vorra tíma,
bifreiðar, ég tek framyfir síma. - Bifreiðar.
Ó bílstjórar, þið bruggið mest af landa
og byttum vorum hjálpið oft úr vanda.
En vond er þessi veröld
og vanþakkar það títt,
sem okkar ungu kynslóð
fær andans göfgi prýtt.
Bílstjórar, blómgist ykkar hagur,
bílstjórar, sem rósaknappur fagur. - Bílstjórar.
Og Páll við elsku bílinn stoltur stendur
og strýkur blítt um fínar gljáa-rendur,
og Árni er þar – í Túni
og Alfreð Washington
og Óli Gränz á rabbi
við Óskar Þorsteinsson
bílstjórar, bæjar eru prýði.
Bílstjórar, fengu hrós í Víði. - Bílstjórar.
Hann Gísli Wíum skrafar þarna og skrifar
og skemmtilega reiknivélin tifar.
Á bekk og borði situr
nú bílsjóranna val,
og Kristján Kristófersson
er krýndur general.
Bílstjórar, blómarósa draumur.
Bílstjórar, fylgir gleði og glaumur. - Bílstjórar.
Í bíl ég hefi lifað ljúfar stundir,
í laumi kysst á smáar, hvítar mundir,
hlegið, kysst og kitlað
að kvennamanna sið.
Og bílstjórinn hann brosir
og bremsar við og við.
Bílstjórar, bezt þeir kunna að lifa,
bílstjórar, þeir mættu betur skrifa. - Bílstjórar
(1933)


Rómantík og rafmagn.
Ég reikaði um rúntinn mörg skammdegiskvöld,
er rigning frá himni niður streymdi.
Mér fannst sem ég sæi gegnum gluggatjöld
grátnar meyjar, sem um ástir dreymdi.
Þá söng ég um rafmagnið rækilegt hrós
og raulaði um götuljósin kvæði.
Ég blessaði staðinn, sem bænum gaf sitt ljós
og braukaði í gegnum rafmagnsfræði.
En svo þegar máninn sem magnaðast skín
og mjaltastúlkur koma heim úr fjósum,
og ástfangnir kettirnir kveða ljóðin sín
þá krossbölva ég öllum rafmagnsljósum.
Nú, - rafstöðin okkar hún reyndist of smá
og rafmagnið var oft í slæmu standi,
er byggingar risu í bænum til og frá
en blessuð ljósin forða oss frá grandi.
Þeir rifu upp strætið þarna rafstöðina við
- þá rauk út í buskann öll vor kæti,
því elskan hann Leifur kvað það ósköp ljótan sið
að eyðileggja heimsins fegurst stræti.
Já, bölvuð (að vísu) er myrkranna makt
og myrkrið þykir flestum afleit plága,
en útsýnið fagra var alveg eyðilagt
og enginn sér nú framar klettinn háa.
Frá Linnet og lækninum heyrist harmakvein,
því heimsmetið og útsýnið er glatað,
en rafmagnsnefnd fannst ei nægja rómantíkin ein
- og rækilega hefur hún oss platað.


Næturlögreglan.
Hér byggjum vér með lögum land,
þótt löngum verði uppistand.
Lögreglan er landsins hnoss,
sem Linnet hefur gefið oss.
- En þungur er hennar þrautakross.
Hún bíóhúsin vaktar vel,
sem vitanlega rétt ég tel:
Þar kannske er af körlum glás,
sem koma þyrfti undir lás,
- Því margir horfa á Mikkí Más!
Í Bolsahöll er dansað dátt
og drukkið fram á rauðanátt,
- en lögreglan er líka þar
og lætur skína perurnar:
Þeir kæra sig ekki um kvennafar!
Já, mórallinn er mikið hnoss,
- í myrkri sést ei lítill koss.-
Heyrðust orðin mæt og merk
„Við myrkra – líðum engin – verk“.
Úr Gísla mætti gera klerk.
Á strætum úti alls staðar
má alltaf líta hetjurnar,
og víst er þeirra mæða mörg,
um myrkar nætur, ævin körg,
en böllin eru besta björg.
Illt er að hafa ekkert skjól
og afleitt þetta bölvað ról.
En eftir ýmis konar þras
er yndislegt að fá sér glas
og máske einn lítinn “marías“.


Um Hafnarreisu Hannesar.
Nú vísindin eflast um veröldu alla
með vaxandi tækni til sjávar og lands,
og vísindamennirnir mixa og malla,
og margir svo hljóta þeir heiðursins krans.
Ó, lof sé þeim anda, sem leitað´i og fann,
nú lofkvæði vil ég hér flytja um hann.
- - - -
Hannes hann bjó hér með baulunum sínum,
Búnaðarfélagsins skærasta ljós.
Hann afgreiddi mikið af áburði fínum
og uppfann sitt patent í nýtízku fjós.
Og bráðlega flaug út um heiminn sú fregn,
og frægðina hlaut þessi íslenzki þegn.
Svo buðu þeir bóndanum okkar til Hafnar,
beljunum dönsku að kenna sitt fag.
Sem vísindamaður í Danmörku dafnar
og Dönunum kennir sitt íslenzka lag.
Þeir koma með beljur í hópum til hans
og Hannes hann eykur þar frægð okkar lands.
Í Hellerup hafa þeir fínasta fjósið,
sem fínansíerað af ríkinu er.
Þar spara þeir dönsku ei loftið né ljósið,
en lélegt er hreinlætið – því er nú ver.
- En Brimhólapatentið bætir úr því,
svo að beljurnar verða sem ungar á ný!
- - - -
Þér íslenzku þeganr og álfar í fjöllum
og óbornu kynslóðir – hyggið nú að:
Vér framarla stöndum í fjósmálum öllum,
- ja, förin til Danmerkur sýnir oss það,
því að Stauning hann pantaði prívat sinn bás,
þar pínir hann íhaldið dansk´a undir lás.
(1936)
Minni brennukóngsins.
Lag: Ó, Dísa í Dalakofanum.
Er Þjóðhátíðin þokast nær
minn þanki reikar heim.
Nú sé ég vel hinn valinkunna
vin minn, Sigga Reim,
stíga fram á Fjósaklett
og færa að kesti eld.
Án hans væri heldur dauft
í Herjólfsdal í kveld.
Ó, Siggi – Ó, Siggi,
ó, Siggi, hér er þó fjör í kvell.
Ó, Siggi, Ó Siggi,
Er olían ekki allra bezt frá Shell?


Breytileg átt og hægviðri
Þjóðhátíðarlag 1949
Breytileg átt um svalan sæ
og síld er varla nokkur,
en allir vita, að Ási í Bæ
er Íslands bezti kokkur.
Kveð ég um síldarkempurnar,
­ kaldur er norðan svalinn ­
meðan ég svíf með Sigga Mar
sætmjúkur um Dalinn.
Um dalinn allan ólgar líf
og glymur af gleðilátum,
þar er dans og vín og víf
og varðeldar hjá skátum.
­Bregðist ennþá síld úr sjó
og svarri brim á rifi,
glaðir drykkju þreytum þó;
þjóðhátíðin lifi.


Meira fjör
(1940)
Meira fjör, meira fjör,
meira yndi.
Meira fjör, meira fjör,
Jói á Hól.
Út á tjörn, út á tjörn
Einar syndi.
Stattu vakt, stattu vakt,
Stebbi pól.
Hæ, syngjum sveinar
sætasta Geira lag.
Hæ, saman svöllum
syngjandi glaðan dag.
Meira fjör, meira fjör,
meira yndi.
Meira fjör, meira fjör,
Jói á Hól.


Blái borðinn
(1936)
Blái borðinn var smjörlíkistegund.
Fjörefnaríkur er Blái borðinn,
betri en nokkurt smjör.
Útlitið bætir, æskuna kætir,
eykur hreysti og fjör.
Ástin er varla örugg til lengdar,
ölið er freyðandi tál,
en hitt er víst, að vítamínin
verma hug og sál.
Gott er ölið, gleymist bölið,
glaðværðin er býsna mikil orðin.
Og ég sjálfur, orðinn hálfur,
en alltaf er hann beztur blái borðinn.
Söngurinn, ástin og ölið
örva og kæta sál.
Í þúsundatali við þjórum,
Þjóðhátíðarskál.
Gott er ölið, gleymist bölið,
en alltaf er hann bestur Blái borðinn.


Ljómar sumarsól
Þjóðhátíðarkvæði 1941
Ljómar sumarsól
á sundin björt og heit.
Vermir byggð og ból
og blessar þennan reit.
Kveða ljúflingslag
öll loftsins börnin fríð.
Þennan dýrðardag
vér dáum alla tíð.
Og seinna þegar dagsins birta dvín
um dalinn allan ljósadýrðin skín.
Eins og álfahöll
við ævintýrasæ,
gnæfa fögur fjöll
með furðulegum blæ.
Glöð við strengjaslátt
um stjörnubjarta nótt,
söng vorn hefjum hátt,
vor hátíð endar skjótt.


Hátíðarnótt í Herjólfsdal.
Þjóðhátíðarkvæði 1939.
Hittumst bræður í Herjólfsdal,
hátíðakvöld, - æskan á völd.
Fyllum háreistan fjallasal
fagnaðarsöng, nóttin er löng.
Við drekkum glæsta guðaveig,
glaðir tæmum lífsins skál í einum teig.
Vonir rætast við söngvaseið,
sorgir og þraut líða á braut.
Gleðin brosir nú björt og heið.
Bjargfuglahjal ómar í Dal.
Á Fjósakletti brennur bál,
böndum ástar tengir nóttin sál við sál.


Knattspyrnumenn
Sungið á afmælið Týs 20. nóvember 1937
Lag: Isle of Capri.
Vér þekkjum fjölmargan knattspyrnukappann,
sem kann að sýna oss fyrsta flokks spark,
og aldrei gugnar, þótt komist í hann krappann,
en knöttinn rekur af afli í mark.
Vér þekkjum Dibba og Mansa og Múla
og marga fleiri, sem aldrei slá klikk,
„half back Íslands“ heitir eftir Skúla
hefir sýnt oss sín ágætu „trikk“.
Gleymum ekki Gísla og Sjonna,
Guðlaugi og Báta og mér,
Óla, Lalla, Oddi og Jonna,
Ása, Dana, Tryggva og þér.
Þeir eru ekki í löppunum linir,
sem líka aldeilis vera ég læt.
En munið eitt, mínir virðulegu vinir
að vera aldrei í ástum „off side“.
Þeir hafa farið í heilmargar ferðir
í höfuðstaðinn og norður í land.
Slíkt er gagnlegt og heilsuna herðir
og hnýtir oftlega vináttuband.
Á Akureyri var þeim ágætlega tekið,
þótt yrði reyndar að loka vissri búð.
Til gamans var þeim þar ýmislegt ekið,
og öll var framkoma drengjanna prúð.
Að heiman oft er dvölin hættumeiri
í háska oft þeir lenda og þraut
(eins og þegar Múli á Akureyri
eitt af sínum rifbeinum braut).
Þó aftur komu þeir suður með söngvum,
því sigrað höfðu þeir Norðurlands-her.
En af því brothætt er lánið svo löngum,
líftrygging’u hefur Múli fengið sér.


Meistarmótið 1937
Lag: Komdu og skoðaðu...
Þeir fóru í sumar á meistaramótið,
og mjög var það rómað, hve stóðu þeir sig.
Þá vantað´i ei neitt nema Alla í spjótið,
svo allflest þeir hefðu þar meistarastig.
Sleggjan var heima og Fjalli fór ei,
en fékkst hér við einhverja laglega mey.
Þeir stóðu sig samt þarn´a í Víkinni að vonum,
þó væri hann Júlli ei stuðinu í.
Og fjölmörgum ágætum kynntust þeir konum,
já, Knútur og fleiri þeir vissu af því.
Óli á Landa - og jafnvel hann Jón
í jarminu lentu – tvö ástfangin flón!
Ó, þessar reykvísku ungmeyjar allar
íþróttagarpa úr Eyjunum þrá.
Siggi og Júll´i eru svoleiðis kallar,
er sverma þær fyrir og vilja helzt fá.
En aldeilis ófært þeim þótti þó eitt:
- að elskan hann Dani hann kom ekki neitt!


Handboltadömur
Lag: Sig bældi refur etc.
Að horfa á meyjar í handknattleik , - það er draumur,
og allur bærinn þá kemst á kreik, - það er draumur.
Að sjá, hve líða þær létt um völl
og ljúf er framkoma þeirra öll, - já, það er draumur.
Af öllu hjarta þess óskum vér, - ungu dömur,
að áfram handbolta iðkið þér, - ungu dömur.
Því yndisþokka hann eykur mest,
hvað auðveldlega á mótum sést, - ó, ungu dömur.
Og þetta kalla menn „kvennaslag“, - þvílíkt slúður.
Hafið þið vitað slíkt háttalag, - svona slúður.
„Þær gera bæði að bíta og slá“,
- svo blaðra sumir, en það er frá, - og bara slúður.
Þær komu í sumar úr Keflavík, - kátar meyjar,
að kenna piltunum pólitík, - kátar meyjar.
Í boltaleiknum þær fóru flatt,
en fengu sig þó við annað glatt, - kátar meyjar,
kátar meyjar, tra la la la la.


Sundlaugin
Lag: Komdu og skoðaðu ...
Heilsufar prýðilegt blómstrar í bænum
svo börnin þau varla fá kvefhor í nös.
Já, blessunarríkt er að busla í sænum
í blessaðri lauginni, - þar er nú ös.
Og varla er hætt við að drukkni þar drótt,
þó að daglega laugin af kappi sé sótt.
Hér iðkar fólk sundið af ákefð og þrótti,
vort ágæta sundfélag dafnar hér vel.
Til annarra bæja það sigranna sótti
í sumar, - það nýbreytni góða ég tel.
Gott er þess ástand, því Gulli og Björn
gæta þess réttar og eru þess vörn.
Þær Lilja og Erla og Sigga og Svana
á sjóðandi „kroli“ þar æða um sæ.
Fúsi og Hari sig spreyta og spana,
svo spenningarópin þau glymja um bæ.
- Á magann þar stinga sér fínustu frúr
og fleyta þar kerlingar, - herra minn trúr!


Eftirmáli (án gamans)
Lag: Táp og fjör...
Íþróttirnar efla þrótt,
auka lýðum hreystignótt,
skapið gleðja, lengja líf,
læri þær því menn og víf.
Gleym því ei, gum´i og mey,
er glæðir þor um lífsins vor,
eykur krafta, vilja og vit,
veitir fegurð, léttir strit.
Þrótt í geð og mátt í mund
mörgum veitir glím´a og sund.
Hreysti hefur dáðrökk drótt
í djarfa leiki tíðum sótt.
Hlaup og stökk! Þeim sé þökk!
Þeirra hróður auki þjóð.
Kappar sýni lipran leik!
Lýðir allir far´i á kreik!


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit