Ólafur Oddsson (Drangastekk)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Ólafur Oddsson frá Drangastekk í Vopnafirði, útvegsbóndi, síðar verkamaður í Eyjum fæddist 16. ágúst 1871 á Ragnheiðarstöðum í Gaulverjabæjarhreppi og lést 1. mars 1957.
Foreldrar hans voru Oddur Oddsson bóndi, f. 24. apríl 1834, á lífi 1890, og kona hans Hildur Eyvindsdóttir húsfreyja, f. 1831, á lífi 1901.

Ólafur var með foreldrum sínum í æsku, 10 ára hjá þeim á Ragnheiðarstöðum 1890. Samkvæmt Ættum Austfirðinga (númer 7117) var hann í fóstri hjá sr. Páli Sigurðssyni og Margréti Þórðardóttur konu hans í Gaulverjabæ. Sr. Páll lést 1887 og 1890 bjó ekkja hans á Grjótagötu 7 í Reykjavík með börn sín og Þórð föður sinn, sem var fyrrv. sýslumaður í Árnessýslu. Þar var Ólafur 20 ára vinnumaður 1890.
Hann fluttist vinnumaður úr Reykjavík til Vopnafjarðar 1895.
Þau Oddný eignuðust Guðbjörgu 1896 og giftu sig á árinu. Síðan eignuðust þau hvert barnið af öðru og það þrettánda 1916. Þau misstu tvö börn á fyrstu aldursárum þeirra.
Ólafur var með fjölskyldu sína á Drangastekk í Vopnafirði 1901, með Oddnýju konu sína og börnin Sigríði og Ólaf.
Um hann segir Einar Jónsson prófastur á Hofi í Vopnafirði í Ættum Austfirðinga: „Hann kom sem sjómaður á Vopnafjörð, var duglegur sjómaður, ætlaði að reka sjávarútgerð allmikla, en þá brást afli, og fór hann um efnalega“.
Þau fluttust til Eyja 1926, bjuggu á Snæfelli við Hvítingaveg 8 1930 með stóran barnahóp. Í hann vantar nokkur börn og Jónína Ólafsdóttir, sem fluttist til Eyja frá Norðfirði 1923 og var gift Filippusi Árnasyni, bjó með honum í Vatnsdal 1930. Leigjandi þar var Runólfur Ólafsson bróðir hennar, sem fluttist 14 ára til Eyja 1918, en starfaði síðar á Akranesi.
Þau Oddný bjuggu á Hvítingavegi 8, uns þau fluttust að Hvanneyri í skjól barna sinna. Þar voru þau 1945 og Ólafur 1949.
Oddný lést 1947 og Ólafur 1957.

I. Kona Ólafs Oddssonar, (1896), var Oddný Runólfsdóttir húsfreyja, f. 2. mars 1876, d. 27. júní 1947.
Börn Ólafs og Oddnýjar:
1. Guðbjörg Ólafsdóttir húsfreyja í Neskaupstað, f. 6. september 1896, d. 3. febrúar 1952. Maður hennar var Sigurbjörn Arngrímsson bóndi, verkamaður, f. 1883, d. 1970.
2. Sigríður Ólafsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 3. janúar 1898, d. 15. júní 1997. Maður hennar var Nicolai Þorsteinsson f. 30. júní 1897, d. 2. ágúst 1965.
3. Laufey Ólafsdóttir, f. 21. maí 1899, d. 22. maí 1899.
4. Ólafur Ólafsson skipstjóri á hafnarbátunum Brimli og Létti, f. 5. desember 1900 á Drangastekk í Vopnafirði, d. 8. ágúst 1978.
5. Laufey Ólafsdóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 17. maí 1902, d. 9. febrúar 1985.
6. Jónína Ólafsdóttir húsfreyja, ljósmóðir, f. 14. júní 1903 á Drangastekk í Vopnafirði, d. 25. júlí 1971.
7. Runólfur Ólafsson sjómaður, bólstrunarmeistari, húsvörður á Akranesi, f. 24. október 1904, d. 14. febrúar 1991.
8. Þórður Ólafsson sjómaður, vélstjóri, verkamaður, f. 24. maí 1906 á Drangastekk í Vopnafirði, d. 18. maí 1975.
9. Margrét Ólafsdóttir, síðast á Selfossi, f. 10. nóvember 1907, d. 24. ágúst 1985.
10. Ásgerður Theodóra Ólafsdóttir, f. 29. september 1910 á Drangastekk í Vopnafirði, d. 23. desember 1988.
11. Karen Ólafsdóttir, f. 1912, d. 10. ágúst 1913, ,,eins árs“.
12. Ólöf Oddný Ólafsdóttir húsfreyja, f. 29. september 1914 á Drangastekk í Vopnafirði, d. 16. janúar 1986.
13. Valgeir Ólafsson sjómaður, verkamaður, f. 30. september 1916 á Drangastekk í Vopnafirði, d. 9. janúar 1991.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.