Árni Sigurðsson (Presthúsum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Árni Sigurðsson vinnumaður í Presthúsum og Dölum fæddist 11. maí 1825 á Grímsstöðum í Meðallandi og lést 19. apríl 1864.
Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson bóndi á Grímsstöðum í Meðallandi og í Holti í Álftaveri, f. 1795, d. 28. mars 1883, og fyrri kona hans Guðrún Eiríksdóttir húsfreyja, f. 1795, d. 19. júní 1870.

Árni var með foreldrum sínum á Grímsstöðum í æsku, vinnumaður á Eystri-Lyngum 1840, á Ytri-Lyngum 1845 eða fyrr til 1846, í Efri-Ey 1846-1847, á Undirhrauni 1847-1850, á Ljótarstöðum 1854-1856.
Hann kom að Dölum 1858, en var vinnumaður á Vilborgarstöðum síðla árs, var vinnumaður í Presthúsum 1859, vinnumaður í Dölum 1860 og fór þaðan í Álftaver 1861, drukknaði í Mýrdal 1864.
Árni var lýstur faðir Ingimundar Árnasonar í Götu við skírn 1859, en meðal afkomenda Ingimundar var faðir hans talinn vera Andreas August von Kohl sýslumaður.
Sýslumaður var konulaus í Eyjum. Bústýra hans 1854-1859 var Margrét Ólafsdóttir frá Kirkjubæ. Nokkurn hluta árs 1855 var hún í Hólshúsi eftir að hún ól barnið Eggert Guðmund, sem menn töldu sýslumann föður að.
Jón Þorgeirsson bóndi á Oddsstöðum orti um sýslumann:

Danakappi drjúgum hér
drengi flengja þorir.
Ráfar títt í Venus-ver,
vopna-grér það temur sér.
Hann er að kenna hermannssið,
hann er að renna um stræti,
hann er að grenna heill og frið,
hann er að spenna kvenfólkið.

Sýslumaðurinn lést í janúar 1860.

Barnsmóðir Árna samkv. prestþjónustubók var Vilborg Steinmóðsdóttir frá Steinmóðshúsi, f. 27. febrúar 1833, d. 3. júní 1907.
Barn þeirra var
1. Ingimundur Árnason í Götu, f. 18. júlí 1859, d. 1. október 1923.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.