Vilborg Steinmóðsdóttir (Steinmóðshúsi)
Vilborg Steinmóðsdóttir vinnukona frá Steinmóðshúsi, fæddist 27. febrúar 1833 og lést 3. júní 1907.
Foreldrar hennar voru Steinmóður Vigfússon, f. 1775, d. 28. júlí 1846 og kona hans Elín Guðmundsdóttir, f. 27. ágúst 1796, d. 8. júlí 1876.
Vilborg var með ekkjunni móður sinni í Steinmóðshúsi 1850, 17 ára. Hún var 22 ára ógift vinnukona á Miðhúsum 1855.
Árið 1860 var hún komin til móður sinnar með barnið Ingimund Árnason, 2 ára. Þar var hún enn 1870 án barnsins. 1890 var hún vinnukona í Stakkagerði nr. 2, Borg við Stakkagerðistún og þar var einnig barnið Konráð Ingimundarson, 4 ára (sonarbarn hennar). Á manntali 1901 var hún niðursetningur í Dalbæ hjá Þóru Jónsdóttur húsfreyju.
Hún lést á sveit í Stíghúsi 1907.
Vilborg giftist ekki svo kunnugt sé, en átti a.m.k. tvö börn.
I. Hún eignaðist barn, Ingimund Árnason, f. 18. júlí 1859, d. 1. október 1923. Faðir hans var skráður Árni Sigurðsson vinnumaður í Dölum og Presthúsum, f. 11. maí 1825 á Grímsstöðum í Meðallandi, d. 19. apríl 1864, drukknaði. Sagnir í Eyjum og innan fjölskyldu afkomenda herma, að Vilborg hafi um skeið verið bústýra hjá Andreas August von Kohl sýslumanni og hafi hann verið faðir Ingimundar. Sýslumaðurinn var konulaus á Íslandi.
II. Hún átti barn með Sighvati Sigurðssyni, f. 10. júlí 1835, d. 8. júlí 1874.
Barnið var Kristín Sighvatsdóttir, f. 24. maí 1869. Hún var hjá föður sínum á Vilborgarstöðum á fæðingarári sínu, vinnukona í Godthaab 1890, en fór til Vesturheims 1902.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.