Árni Magnússon (Ártúnum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Árni Magnússon vinnumaður í Kornhól, síðar bóndi í Ártúnum á Rangárvöllum fæddist 18. mars 1799 á Velli í Hvolhreppi og lést 2. júní 1863 í Ártúnum.
Foreldrar hans voru Magnús Árnason frá Steinsholti í Gnúpverjahreppi, bóndi á Velli og í Ártúnum á Rangárvöllum, f. 1766, d. 17. maí 1842, og kona hans Hólmfríður Snorradóttir húsfreyja frá Finnshúsum í Fljótshlíð, skírð 29. apríl 1767, d. 14. september 1839.

Árni var með foreldrum sínum á Velli í æsku.
Hann var vinnumaður í Kornhól 1826 og 1827, þá sagður fæddur á Velli í Hvolhreppi, fór að líkindum til Lands 1828, - sagður í Oddasókn við fæðingu Hildar í maí 1829.
Árni var lengi vinnumaður hjá foreldrum sínum í Ártúnum, húsmaður þar 1859-1860, bóndi þar 1860-1863.

I. Barnsmóðir hans var Guðbjörg Þorsteinsdóttir, þá vinnukona í Kornhól, síðar húsfreyja á Fögruvöllum, f. 1803.
Barn þeirra var
1. Hólmfríður Árnadóttir, f. 16. ágúst 1826, d. 21. ágúst 1826 úr ginklofa.

II. Barnsmóðir hans var Guðbjörg Sigurðardóttir, þá vinnukona í Grímshjalli, f. 1803 í Út-Landeyjum.
Barn þeirra var
2. Hildur Árnadóttir, f. 28. maí 1829, d. 5. júní 1829 úr „Barnaveiki“.

III. Kona Árna var Ólöf Sigurðardóttir húsfreyja og bóndi frá Klömbru u. Eyjafjöllum, f. 25. febrúar 1819 í Svaðbæli þar, d. 19. febrúar 1890 í Ártúnum. Hún var bóndi í Ártúnum 1863-1890 eftir lát Magnúsar.
Þau Árni eignuðust 15 lifandi börn og eitt barn andvana.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.