Ágúst Nikulásson (Uppsölum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Ágúst Nikulásson skipstjóri og útgerðarmaður fæddist 21. ágúst 1885 í Uppsölum og lést 18. maí 1955.
Foreldrar hans voru Nikulás Guðmundsson húsmaður í Uppsölum, f. 24. júlí 1850, d. 29. mars 1926, og kona hans Kristín Vigfúsdóttir húsfreyja, f. 9. mars 1861, d. 3. september 1889.

Ágúst var með foreldrum sínum í Uppsölum 1885-1889, en þá lést móðir hans.
Hann var með föður sínum í vinnumennsku hans í Nýjabæ 1890-1895.
Feðgarnir fluttust til Reyðarfjarðar 1896. Þeir voru báðir vinnumenn á Berunesi í Berufirði 1901.
Ágúst fluttist til Reyðarfjarðar 1906, en þeir feðgar voru á Kirkjubæ í Eskifirði 1910. Hann kvæntist Guðlaugu Margréti 1913 á Seyðisfirði. Þau eignuðust 2 börn, Kristin Nikulás 1915 og Guðlaugu Ágústu 1916. Guðlaug Margrét lést hálfum mánuði síðar. Ágúst gaf barnið hjónum á Eskifirði.
Hann kvæntist Steinunni 1917 og 1920 bjó hann með henni og fjölskyldu í ,,Holti (húsi Á. Nikulássonar)“, og Nikulás faðir hans bjó þar hjá þeim. Hann lést 1926.
Þau Steinunn eignuðust 3 börn á Eskifirði og fluttust með þau til Raufarhafnar 1926. Þar var Bergþóra Jensen hjá þeim í fóstri 1930, 3 ára. Ágúst var útgerðarmaður á Keldu 1930.
Steinunn lést 1947 og Ágúst 1955.

Ágúst var tvíkvæntur.
I. Fyrri kona hans, (30. nóvember 1913), var Guðlaug Margrét Benjamínsdóttir, f. 4. september 1887 á Ormsstöðum í Eiðasókn, d. 1. apríl 1916.
Börn þeirra voru:
1. Kristinn Nikulás Ágústsson vélstjóri, vélvirki á Raufarhöfn og Kópaskeri, síðast í Hafnarfirði, f. 21. janúar 1915, d. 12. nóvember 1988. Hann var hjá föður sínum í Holti á Eskifirði 1920 og með fjölskyldunni á Keldum í N-Þing. 1930.
2. Guðlaug Ágústa (Ágústsdóttir) Valdimars tannsmiður í Reykjavík, f. 12. mars 1916, d. 20. júní 2007. Kjörforeldrar hennar voru Valdimar Sigurðsson veitingamaður á Eskifirði, f. 13. maí 1877 og kona hans og frænka Guðlaugar Ágústu, Hildur Jónsdóttir ljósmóðir, f. 30. október 1870, d. 3. febrúar 1936.

II. Síðari kona Ágústs, (1917), var Steinunn Óladóttir húsfreyja, f. 11. júní 1888 í Stóru-Breiðavíkurhjáleigu í Reyðarfirði, d. 27. febrúar 1947. Hún var áður bústýra Guðmundar Eyleifssonar sjómanns í Reykjavík. Foreldrar Steinunnar voru Óli Þorgrímur Finnbogason bóndi, f. 30. júlí 1848 í Hólmasókn, S-Múl., d. 11. júlí 1890, og kona hans Una Kristín Árnadóttir húsfreyja, f. 21. ágúst 1848 á Vöðlum í Vaðlavík, S-Múl., d. 18. október 1931. Steinunn og Sigurbjörg Sigurðardóttir á Burstafelli voru bræðradætur.
Börn þeirra voru:
3. Þórhallur Ágústsson vélstjóri á Raufarhöfn, f. 5. september 1918 á Eskifirði, d. 24. október 1953.
4. Eiríkur Björnsson Ágústsson, f. 19. júní 1921, d. 6. desember 1999. Hann bjó síðast í Hafnarfirði.
5. Ásgeir Júlíus Ágústsson bifvélavirki í Reykjavík, f. 31. janúar 1924 á Eskifirði, d. 19. október 2000.
Fósturbarn þeirra 1930 var
6. Bergþóra Vilhelmsdóttir Jensen leikskólakennari m.m., f. 3. febrúar 1927 á Raufarhöfn, d. 22. nóvember 2013. Hún var barnabarn Steinunnar, dóttir Sigríðar Guðmundsdóttur.

III. Barn Steinunnar og Guðmundar Eyleifssonar sjómanns, f. 8. júní 1883, d. 2. september 1943:
7. Sigríður Guðmundsdóttir, síðar húsfreyja og verslunarkona í Reykjavík, f. 3. nóvember 1908, d. 25. mars 1990. Hún var fósturbarn Ágústs.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Magnús Haraldsson.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur
  • Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.