Ólafur Ísleifsson (Miðgarði)
Ólafur Ísleifsson fæddist 25. mars 1904 og lést 17. september 1972. Hann bjó að Miðgarði, Vestmannabraut 13a.
Ólafur var formaður á mótorbátnum Erlingi I.
Óskar Kárason samdi formannavísu um Ólaf:
- Miðgarðs Óli ötull vel
- aflaföng að draga.
- Traustur leiðir súðar sel
- síla fram á haga.
Heimildir
- Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
Frekari umfjöllun
Ólafur Ísleifsson frá Kirkjubæ, formaður, vélstjóri, verkamaður fæddist þar 25. mars 1904 og lést 17. september 1972.
Foreldrar hans voru Ísleifur Guðnason bóndi, útgerðarmaður og formaður á Kirkjubæ, f. 30. janúar 1862 í Hallgeirseyjarhjáleigu í A-Landeyjum, d. 1. júní 1916, og kona hans
Sigurlaug Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 7. nóvember 1866 á Fossi á Síðu, d. 25. september 1952.
Börn Ísleifs og Sigurlaugar voru:
1. Barn, dáið á 1. ári.
2. Regína Matthildur Ísleifsdóttir, f. 16. febrúar 1898, d. 20. nóvember 1918 úr spænsku veikinni.
3. Matthhildur Ísleifsdóttir húsfreyja í Miðgarði, f. 7. maí 1900, d. 29. ágúst 1945. Maður hennar var Páll Oddgeirsson kaupmaður og útgerðarmaður, f. 5. júní 1888, d. 24. júní 1971.
4. Ólafur Ísleifsson formaður, f. 25. mars 1904, d. 17. september 1972. Kona hans var Una Magnúsína Helgadóttir frá Steinum, f. 16. júní 1901, d. 28. ágúst 1990.
Fósturbarn þeirra var
5. Guðríður Guðmundsdóttir, síðar húsfreyja í Hábæ og víðar, f. 12. maí 1893, d. 24. júní 1984. Foreldrar hennar voru Guðmundur Jesson Thomsen og Kristín Ólafsdóttir frá Litlakoti.
Maður Guðríðar var Stefán
Vilhjálmsson, f. 12. maí 1893, d. 24. júní 1984.
Ólafur var með foreldrum sínum í æsku. Faðir hans lést er Ólafur var 12 ára. Hann var með ekkjunni móður sinni, sem rak bú á Kirkjubæ til 1919, er hún fluttist í nýbyggt hús sitt að Miðgarði. Þar bjó Ólafur með henni 1919 og enn 1923, með ráðskonunni móður sinni á Geirlandi 1924 og enn 1927, bjó með Unu og Sigurlaugu dóttur þeirra í Miðgarði 1930.
Þau bjuggu í Garðinum 1934 og enn 1945, í Miðgarði 1949.
Ólafur tók vélfræðinámskeið Fiskifélagsins 1924 og tók fiskimannapróf í Eyjum 1932.
Hann var formaður á ýmsum bátum frá tvítugsaldri og á annan tug vertíða, t.d. fyrst á Lagarfossi, á Óðni 1935, síðar á Erlingi I.. Hann var skráður vélstjóri 1949.
Eftir að Ólafur hætti formennsku vann hann í frystihúsi og var bræðslumaður hjá Lifrarsamlaginu
Hann lést 1972.
Kona Ólafs, (6. júlí 1941), var Una Magnúsína Helgadóttir frá Steinum, húsfreyja, f. 17. júní 1901, d. 28. ágúst 1990.
Barn þeirra er
1. Þórunn Sigurlaug Ólafsdóttir húsfreyja, f. 6. júní 1929 á Borg.
Fóstursonur Ólafs, barn Unu frá fyrra hjónabandi hennar var
2. Þorsteinn Berent Sigurðsson flugumferðarstjóri, f. 10. júní 1925, d. 27. júlí 2012.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
- Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.