Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987/Sjómannadagurinn 1986

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sjómannadagurinn 1986


Sjómannadagurinn var haldinn að þessu sinni dagana 7. og 8. júní, þar sem stjórnmálamennirnir ákváðu sveitarstjórnarkosningar á hefðbundinni helgi sjómanna þ.e. fyrstu helgina í júní. Þessu háttalagi var mótmælt hressilega af hálfu félagasamtaka sjómanna.
Hátíðarhöldin hófust að venju eftir hádegi á laugardeginum og þrátt fyrir leiðinda veður, var þátttaka góð í dagskráratriðum dagsins. Eyjapeyjar sýndu sprang í Fiskhellanefi og síðan fóru fram hin hefðbundnu atriði við höfnina og fóru úrslit í kappróðri eins og hér greinir:

Sigurvegararnir í einstaklingsgreinum urðu sem hér segir: Í stakkasundi sigraði Smári Harðarson, öðru sinni. Í koddaslag kvenna sigraði Ásta Erlingsdóttir og í koddaslag karla, Páll Pálsson. Meistari tunnuhlaups varð Gísli M. Gíslason og í reiptogi milli bryggja urðu sigurvegarar í þriðja skipti í röð hinir hressu Piparsveinar.
Á laugardagskvöld var svo stiginn dans í fjórum samkomusölum og virtust allir skemmta sér hið besta.

Skilaðu kveðju til Eyja.
Þau hafa skilað sínu.
Það verður að þrífa draslið.

Hátíðarhöld sunnudagsins hófust með setningarávarpi Sigmars Gíslasonar, stýrimanns á Katrínu og að því loknu var gengið í skrúðgöngu til kirkju. Séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson flutti sjómannamessu og að henni lokinni fór fram minningarathöfn við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra. Einar J. Gíslason annaðist þessa athöfn í 29. skiptið og minntist hann sérstaklega hjónanna Rósu Bjarnadóttur og Boga Matthíassonar, sem drukknuðu er bifreið þeirra fór í Friðarhöfn fyrr um daginn.
Eftir kaffi og góðgerðir Eykyndilskvenna hófust útihátíðarhöldin á Stakkagerðistúni með lúðrablæstri og hátíðarræðu, sem Sveinn Tómasson flutti. Hefðbundin heiðrun fór fram undir öruggri stjórn Einars J. Gíslasonar. Frá Verðandi var Emil Andersen heiðraður, Vélstjórafélaginu, Eggert Ólafsson. Þá veitti Óskar J. Sigurðsson, vitavörður, viðtöku viðurkenningu, en 80 ár voru nú liðin frá því fyrst var tendrað ljós á vitanum í Stórhöfða, sjófarendum til liðveislu.
Viðurkenningar fyrir bjarganir hlutu áhafnir Sigurbjargar VE og Gígju fyrir björgun félaga sinna er féllu útbyrðis. Áhöfn Danska Péturs fékk viðurkenningu fyrirað bjarga manni, sem var á sundi í froskbúningi vestan Reynisdranga og náði ekki landi.
Sverrir Guðmundsson, sem bjargaði tveim börnum úr Vestmannaeyjahöfn, fékk viðurkenningu fyrir björgun úr sjávarháska, sem og Jón Ragnarsson, er bjargaði einnig manni úr höfninni.
Viðurkenningar fyrir einstaka sigra í keppnisgreinum laugardagsins hlutu: Sjómannafélagsbikarinn hlaut Verðandi, stýrimaður Stefán Geir Gunnarsson. Tími 2.10.45.'
Áhafnabikarinn hlaut Suðurey, stýrimaður Sigurður Georgsson. Tími 2.03,74.
Stöðvabikar kvenna hlutu valkyrjur úr Fiskiðjunni, stýrimaður Hlöðver Guðnason. Tími 2.18,13.
Stöðvabikar karla hlaut Vinnslustöðin, stýrimaður Helgi Gunnarsson. Tími 2.07,51.
Félagasamtök, þar sigruðu að venju hinir knáu Piparsveinar, sem endalaust virðast ætla að sigra á Sjómannadegi (og kvenfólkinu).
Verðlaun fyrir sigur í einastaklingsgreinum hlutu:
Stakkasund: Smári Harðarson Koddaslagur karla: Páll Pálsson Koddaslagur kvenna: Ásta Erlingsdóttir Tunnuhlaup: Gísli M. Gíslason Reiptog: Piparsveinarnir.
Margt fleira var til skemmtunar á túninu að venju m.a. þeir þremenningar Sigurður Sigurjónsson, Pálmi Gestsson og Örn Árnason. Kvöldskemmtunin hófst svo í Samkomuhúsinu klukkan 20:30 með ávarpi Hermanns Kristjánssonar, formanns Sjómannadagsráðs. Þá voru aflakóngar heiðraðir. Sigurður Georgsson og skipshöfn hans á Suðurey fengu Aflakóngsnafnbótina þriðja árið í röð og Guðmundur Ingi Guðmundsson og áhöfn hans hlaut Fiskikóngsnafnbótina einnig þriðja árið í röð. Skipstjórarnir á Breka, Sævar Brynjólfsson og Hermann Kristjánsson, veittu Vitanum að venju viðtöku fyrir mestan afla togara. Jóel Andersen og áhöfn hans á Danska Pétri fengu viðurkenningu fyrir mestan afla báta undir 200 tonnum.
Ýmis skemmtiatriði voru svo viðhöfð og vakti dansflokkur Ingveldar Gyðu verðskuldaða athygli. Ekki má gleyma stórsöngvaranum Kristni Sigmundssyni og undirleikara hans, Jónasi Ingimundarsyni, sem gerðu stormandi lukku.
Þessum hefðbundnu hátíðarhöldum lauk svo með dansleik í tveim húsum og var að venju dansað langt fram undir morgun og reyndar fram á næsta dag hjá sumum.

Loðnan, silfur hafsins í dag.
Suðurey VE var aflahæst vertíðarbáta 1986 með 1439 tonn. Sigurður Georgsson, skipstjóri, tekur á móti viðurkenningu. Foreldrar og hluti áhafnar í baksýn.
Breki var aflahæstur togbáta yfir 200 tonn 1985, aflaði 4220,426 tonn 80.802.891 kr. Ingibjörg Hafliðadóttir, eiginkona Sævars Brynjólfssonar festir viðurkenningu í barm bónda síns.
Danski Pétur var aflahæsur togbáta undir 200 tonn 1985, aflaði 785,449 tonn 31.075.553 kr. Jóel Andersen tekur á móti viðurkenningu. Í baksýn eiginkona og foreldrar.
Huginn var með mest aflaverðmæti báta 1985, 55.686.952,- kr. Eiginkona Guðmundar Inga, Kristín Pálsdóttir, tekur á móti viðurkenningu.
Tveir heiðursmenn á förnum vegi, Helgi Bergvinsson og Sigurður Kristinsson.