Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Slysið við syðri hafnargarðinn 1923

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search
Slysið við syðri hafnargarðinn 1923

Þegar m.b. Njáll GK 456 fórst

Sigurfinnur Lárusson formaður.
Njáll GK 456
Erlendur Árnason vélamaður

MÓTORBÁTURINN Njáll var byggður í Reykjavík árið 1916. Njáll var 13 tonn að stærð, kantsettur, kútterbyggður, smíðaður úr eik af Ottó Guðmundssyni í Reykjavík, og með 25 ha Skandiavél.
Njáll var keyptur til Vestmannaeyja haustið 1919. Eigendur voru Guðlaugur Br. Jónsson kaupmaður, Jón Hafliðason, Bergsstöðum hér í bæ, og Sæmundur Bjarnason, Eyjarhólum í Mýrdal. Formaður á bátnum fyrstu vertíðina, er hann gekk héðan, vertíðina 1920, var Stefán Björnsson í Skuld. Vertíðina 1921 var Bryngeir Torfason á Búastöðum með bátinn, en vertíðina 1922 hafði Jón Hafliðason á Bergsstöðum formennsku á Njáli. Hætti hann formennsku eftir þá vertíð.

Sigurður Hallvarðsson
Magnús Runólfsson
Guðfinnur Jakobsson

Nú réðst ungur formaður á Njál. Hann hafði róið margar vertíðir héðan frá Vestmannaeyjum og hét Sigurfinnur Lárusson frá Álftagróf í Mýrdal. Hann ræður til sín háseta á Njál, og voru þeir flestir Mýrdælingar. Hóf hann róðra rétt fyrir mánaðamótin janúar og febrúar. Aflabrögðin gengu svipað og hjá öðrum. Þannig líður hver dagurinn af öðrum. Nú rennur upp 16. febrúar. Hér hafði verið vonskuveður alla nóttina af suðaustri, en fór að lygna upp úr birtingu um morguninn, og fóru nokkrir bátar að róa um níuleytið, þar á meðal Njáll. Hann hélt út úr höfninni. Þegar hann var kominn út fyrir suðurhafnargarðinn, stöðvaðist vélin og vaggar báturinn þarna í austan brælu, töluverðan spöl frá landi í fyrstu. Mótorbáturinn Haffrú leggur að Njáli og ætlar að aðstoða hann, en þeir á Njáli skeyta því ekki. Haffrú gerir aðra atrennu, og tekur þá einn af hásetunum á Njáli fangalínu og býr sig til að kasta yfir í Haffrú; fór þá vélin í gang augnablik, og lagði þá hásetinn, sem stóð fram á, fangalíninu niður, en þá þagnar vélin aftur og Njál ber að landi. Njálsmenn heisa þá upp fokkuna, en hún færði Njál nær landi, þar eð báturinn sneri með framendann í suður og upp á Urðirnar. Tóku þeir fokkuna niður aftur, en það var þá um seinan, svo að Njál rak upp í skerið fyrir austan suðurhafnargarðinn. Þar barðist báturinn örskamma stund austan í skerinu og sökk síðan.
Tveir af hásetunum komust í frammastríð og héldu sér þar, þangað til yfir lauk og báturinn sökk. Það voru þeir Sigurður Hallvarðsson (Pétursborg)Sigurður Hallvarðsson og Guðfinnur Jakobsson. Einn af hásetunum var á floti, þar eð loft komst í sjóstakkinn. Það var Magnús Runólfsson frá Skagnesi. M.b. Atlantis bar þarna að, formaður Sigurjón Sigurðsson frá Brekkuhúsi, og náðu skipverjar á Atlantis Magnúsi. Þegar Atlantis kom inn Leiðina, var kallað frá bátnum: „Sækið þið lækni og komið út á skjöktbát“, þar eð Atlantis flaut ekki að bryggju. Var þá strax hrundið fram skjöktbáti og fóru í hann Friðrik Ingimundarson frá Skipholti, Símon Egilsson, Miðey, og Eyjólfur Gíslason, Búastöðum, og fjórði maður, sem gleymt er, hver var. Reru þeir lífróður út að Atlantis og tóku við Magnúsi í skjöktbátinn, lögðu þeir Magnús á grúfu yfir þóftuna í austurrúminu og reru að Edinborgarbryggjunni. Var hann síðan í skyndi fluttur á franska spítalann til lífgunar, en ekki báru þær árangur og vaknaði Magnús ekki til lífs aftur.
Þeir, sem horfðu upp á þetta hörmulega slys, töldu það einn átakanlegasta atburð, sem þeir hefðu séð, en á Skansinum var hópur af fólki.
Þeir, sem fórust, voru:
Sigurfinnur Lárusson formaður. Hann var fæddur í Álftagróf í Mýrdal 9. maí 1894. Voru foreldrar hans Lárus Finnsson og Arnlaug Einarsdóttir. Sigurfinnur fór ungur til sjóróðra til Vestmannaeyja og hafði róið hér fjölda vertíða, lengi á Emanúel VE 103, og síðar á Atlantis VE 222 hjá Sigurði Ingimundarsyni. Sigurfinnur var dugnaðar sjómaður og þetta hans fyrsta vertíð sem formaður.
Erlendur Árnason vélamaður. Hann var fæddur og uppalinn á Borgum í Norðfirði. Foreldrar hans voru Árni Finnbogason og kona hans Guðlaug Torfadóttir. Erlendur byrjaði sjómennsku á útvegi föður síns um fermingaraldur og varð fljótt góður sjómaður og jafnhliða vélamaður eins og þeir bræður allir. Hann var bróðir Valdimars formanns í Vallanesi. Erlendur fór til Vestmannaeyja um 1916 og var þar upp frá því alltaf sem vélamaður á ýmsum bátum, svo sem Lunda I. og Ceres.

Erlingur VE 295 á síldveiðum fyrir Norðurlandi sumarið 1937. Erlingur er 23 rúmtonn brúttó og var smíðaður í Frederiksundi, Danmörku, árið 1931. -Þetta var algengust stærð báta allt fram til 1945. Erlingur hefur verið mikið happaskip í höndum góðra manna og skilað miklum afla á land síðastliðin 40 ár.

Sigurður Hallvarðsson háseti var fra Reynisholti í Mýrum. Hann var fæddur 24. ágúst 1890, og voru foreldrar hans Hallvarður Ketilsson og kona hans Þórunn Sigurðardóttir. Sigurður ólst upp í Pétursey.
Magnús Runólfsson háseti frá Skagnesi í Mýrdal var fæddur 26. apríl 1887. Foreldrar hans voru Runólfur Heiðimannsson bóndi Skagnesi og Sigríður Guðmundsdóttir. Hann stundaði sjómennsku í Vestmannaeyjum, frá því að vélbátarnir komu til Eyja, og var sjómaður á mörgum bátum, svo sem Hrólfi, Jóhönnu og Kapitólu. Var hann á Kapitólu, þegar hún fórst hér austur við Sandahraun. Vélarbilun varð og báturinn á seglum, er hann sigldi sig um. "Enskur togari bjargaði þremur af áhöfninni, sem héldu sér uppi á línubelgjum, en vélamaðurinn, sem var Ísfirðingur, drukknaði. Guðfinnur Jakobsson háseti var fæddur í Skammadal í Mýrdal 1899. Foreldrar hans voru Jakob Þorsteinsson og kona hans Sólveig Brynjólfsdóttir, og hjá þeim ólst hann upp. Þetta var fyrsta vertið hans við sjóróðra í Vestmannaeyjum, og var hann hinn mesti dugnaðarmaður.

Hópur beitumanna 1910.png