Sigurður Kristjánsson (matsveinn)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigurður Kristjánsson.

Sigurður Kristjánsson frá Flatey á Skjálfanda, sjómaður, útgeðarmaður, matsveinn, verkstjóri fæddist 2. maí 1918 á Víðivöllum í Fnjóskadal, S.-Þing. og lést 22. janúar 2000.
Foreldrar hans voru Kristján Rafnsson frá Hóli í Köldukinn, S-Þing., útvegsbóndi í Vík og Nýjabæ í Flatey, f. 6. júní 1882, drukknaði 19. maí 1938, og kona hans Sigríður Sigtryggsdóttir frá Neðribæ í Flatey, f. þar 9. janúar 1894, d. 28. febrúar 1985.

Börn Sigríðar og Kristjáns í Eyjum voru:
1. Sigurður Kristjánsson sjómaður, matsveinn, útgerðarmaður, f. 2. maí 1918, d. 22. janúar 2000. Kona hans Guðrún Sveinsdóttir.
2. Ingibjörg Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 18. nóvember 1919, d. 23. apríl 2004. Maður hennar Sveinbjörn Guðmundsson.
3. Jóhanna Kristín Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 3. nóvember 1921, d. 12. október 1996. Maður hennar Guðlaugur Vigfússon.
4. Rafn Kristjánsson skipstjóri, útgerðarmaður, f. 19. maí 1924, d. 4. desember 1972. Kona hans Pálína Sigurðardóttir.
5. María Kristjánsdóttir starfsmaður á Sjúkrahúsinu, matráðskona, f. 25. október 1931.
6. Elísabet Kristjánsdóttir húsfreyja, f. 20. nóvember 1934, d. 27. janúar 2009. Maður hennar Sigurður Heiðar Stanleysson.

Sigurður var með foreldrum sínum í æsku, á Víðivöllum í Fnjóskadal, í Vík í Flatey á Skjálfanda 1920, síðar í Nýjabæ þar.
Faðir hans lést, er Sigurður var um tvítugt. Sigurður og Rafn réru þá á Hýsi, sem verið hafði bátur föður þeirra, en síðar eignuðust þeir trillu, sem þeir skírðu Gjafar og réru á sumrum. Sigurður sótti jafnframt vertíðir í Eyjum frá 1943, en skráður útvegsbóndi í Flatey 1944. Einnig vann hann um skeið á Keflavíkurflugvelli.
Þeir Sigurður matsveinn, Rafn skipstjóri og Sveinbjörn vélstjóri, mágur þeirra, stofnuðu útgerð með leigu á v.b Nirði 1955, fengu síðan Gjafar VE 300, sem smíðaður var í Hollandi 1956, annan Gjafar fengu þeir 1960 og þann þriðja 1964, 300 tonna stálskip. Það skip lauk ævinni, er það strandaði í febrúar 1973.
Sigurður hætti sjómennsku, þegar gaus í Heimaey 1973 og settist fjölskyldan þá að í Reykjavík. Hann tengdist þó áfram útgerð og fiskvinnslu með setu í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja um skeið. Sigurður hóf þá störf hjá Osta- og smjörsölunni. Hann starfaði þar um árabil, m.a var hann verkstjóri. Síðar hóf hann störf í Prentsmiðjunni Odda og starfaði þar til 77 ára aldurs.
Þau Guðrún giftu sig 1963, eignuðust fjögur börn. Þau byggðu húsið við Búastaðabraut 14, en misstu það í Gosinu 1973.
Þau fluttu til Reykjavíkur, bjuggu síðast í Árskógum 6.
Sigurður lést á árinu 2000 og Guðrún 2023.

I. Kona Sigurðar, (2. júní 1963), var Guðrún Sveinsdóttir frá Núpi u. Eyjafjöllum, húsfreyja, f. þar 14. nóvember 1933, d. 25. desember 2023.
Börn þeirra:
1. Ólöf Sveinbjörg Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur, f. 2. mars 1963 í Eyjum. Maður hennar Hilmar Adolfsson Óskarssonar.
2. Sigurður Sigurðsson rafmagnsiðnfræðingur, f. 13. júní 1964 í Eyjum. Kona hans Hjördís Rósantsdóttir.
3. Sigríður Kristín Sigurðardóttir leikskólakennari, f. 28. september 1967 í Eyjum. Maður hennar Ólafur Valsson.
4. Ingibjörg Sigurlín Sigurðardóttir kennari, f. 9. júní 1972 í Eyjum. Maður hennar Óskar Ólafur Arason.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1972.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 4. febrúar 2000. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.