Guðrún Birna Kjartansdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Guðrún Birna Kjartansdóttir.

Guðrún Birna Kjartansdóttir frá Hólagötu 32, húsfreyja, stjórnmálafræðingur, náms- og félagsráðgjafi fæddist 17. mars 1978 í Eyjum og lést 29. júlí 2017 á Landspítalanum í Kópavogi.
Foreldrar hennar Kjartan Örn Sigurbjörnsson prestur í Eyjum, síðar sjúkrahússprestur, f. 23. október 1948, og kona hans Katrín Guðbjörg Þórlindsdóttir húsfreyja, hjúkrunarfræðingur f. 22. september 1947.

Börn Katrínar og Kjartans:
1. Þórlindur Kjartansson ráðgjafi, aðstoðarmaður ráðherra, f. 7. júlí 1976. Kona hans Ingunn Hafdís Hauksdóttir.
2. Guðrún Birna Kjartansdóttir náms- og starfsráðgjafi, f. 17. mars 1978, d. 29. júlí 2017. Maður hennar Guðmundur Freyr Sveinsson.

Guðrún Birna var með foreldrum sínum í æsku, á Hólagötu í Eyjum, og í Rvk.
Hún varð stúdent í MR 1998, lauk B.A.-prófi í stjórnmálafræði í HÍ 2003 og M.A.-prófi í náms- og félagsráðgjöf í HÍ 2010.
Guðrún Birna vann á auglýsingadeild Morgunblaðsins 2001-2007, var aðstoðarmaður framkvæmdastjóra og síðar verkefnastjóri á Sérfræðisetri í ævilangri náms- og starfsráðgjöf á árunum 2008 til 2012.
Hún var meðhöfundur að ritstýrðum fræðigreinum, sem birtust bæði hér á landi og alþjóðlega.
Guðrún Birna var í forystu fyrir ýmiss konar framþróun á sviði náms- og starfsráðgjafar og sótti ráðstefnur víða og tók þátt í samstarfi Evrópuþjóða á því sviði. Hún var formaður starfshóps um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf, skipuð af menntamálaráðherra. Hún gegndi og starfi náms- og starfsráðgjafa í Flóaskóla og hjá Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi um skeið.
Hún var virk í ýmiskonar félagsstörfum, sat í stjórn Vöku, félagi lýðræðislegra stúdenta veturinn 2000 til 2001 og í Félagi stjórnmálafræðinga 2009 til 2010.
Þau Guðmundur Freyr hófu sambúð árið 2000, giftu sig 2005, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í Rvk og Flóahreppi, bjuggu síðast í Kópavogi .
Guðrún Birna lést 2017.

I. Maður Guðrúnar Birnu, (3. september 2005), er Guðmundur Freyr Sveinsson, stjórnmálafræðingur og með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu, er fyrrverandi skólastjóri, var sérfræðingur hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, f. 19. júlí 1977 á Akureyri. Foreldrar hans Sveinn Jónasson húsasmíðameistari og fyrrverandi kirkjuvörður í Akureyrarkirkju, f. 30. júlí 1948, og Guðný Anna Theodórsdóttir sjúkraliði, f. 24. ágúst 1947.
Börn þeirra:
1. Kjartan Sveinn Guðmundsson, f. 18. júní 2002.
2. Bjarki Freyr Guðmundsson, f. 18. júlí 2006.
3. Anna Katrín Guðmundsdóttir, f. 26. júní 2011.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.