Blik 1973/Jón Sveinbjörnsson kennari, seinni hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



INGIBJÖRG ÓLAFSDÓTTIR FRÁ BÓLSTAÐARHLÍÐ:


Jón Sveinbjörnsson kennari

(seinni hluti)


Frá Grindavík flytur Jón aftur austur undir Eyjafjöll að Ásólfsskála, þar sem hann bjó allan sinn búskap eftir það. — Þeim hjónum varð 7 barna auðið, og eru þau þessi, talin eftir aldursröð:

1. Guðbjörg, sem varð rjómabústýra. Hún fluttist til Reykjavíkur og eignaðist eigið heimili þar.
2. Guðmundur Elías. Hann lézt á unga aldri.
3. Sveinbjörn. Hann gerðist kennari og bjó að Ásólfsskála. Kona hans var Anna Einarsdóttir.
4. Þorvaldur. Hann varð bóndi og bjó í West-Selkirk í Kanada. Kona hans var Ingibjörg Johnsen.
5. Sigurjón, útgerðarmaður í Víðidal í Vestmannaeyjum, kvæntur Guðríði Þóroddsdóttur. Sjá mynd á bls. 180.
6. Guðrún verzlunarmær í Reykjavík. Systurnar Guðbjörg og Guðrún bjuggu saman og ólu upp bróðurdóttur sína frá unga aldri og efldu hana síðan til mennta.
7. Þórný húsfreyja á Reyni í Mýrdal, gift Sveini Einarssyni bónda þar og kennara.

Börn Jóns og Bjargar voru öll vel gefin og gjörvileg, eins og þau áttu ættir til. Þau, sem upp komust, ólust upp á heimili foreldra sinna nema Guðrún. Hún var ung að árum tekin í fóstur að Holti til séra Kjartans prófasts Einarssonar og seinni konu hans, Kristínar Sveinbjörnsdóttur, sem var systir Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds.
Holtsheimilið var rómað fyrir myndarskap, og áttu hjónin miklum vinsældum að fagna í sveit sinni sökum mannkosta sinna.
Nú eru öll þessi systkin frá Ásólfsskála látin nema Þórný, sem var yngst þeirra. Hún er fædd 21. desember 1893. — Hér á eftir rekur hún gamlar minningar frá æskuárum sínum, meðan hún dvaldi heima í foreldrahúsum.

Þórný Jónsdóttir.

„Foreldrar mínir bjuggu fyrstu búskaparár sín í Vesturholtum í Ásólfsskálasókn undir Eyjafjöllum. Þar bjuggu þau í nokkur ár. Þar búnaðist þeim vel. Þau tóku sig þaðan upp og fluttust að Húsatóftum í Grindavík. Þar misstu þau allan sinn fénað og fluttu snauð austur aftur.
Þá var kominn að Holti séra Kjartan Einarsson, mágur föður míns. Fyrri kona hans var Guðbjörg Sveinbjörnsdóttir, systir föður míns. Séra Kjartan missti hana frá þrem ungum börnum. Hann mun hafa útvegað foreldrum mínum ábúðarrétt á Ásólfsskála og lánað þeim jafnframt skák til slægna úr Holtsjörðinni.
Ég fæddist sama árið og þau fluttust austur aftur (1893). Húsakynni voru mjög léleg á jörðinni. En fljótlega tók faðir minn að byggja upp nýjan bæ. Allir veggir voru hlaðnir úr grjóti að þeirra tíðar hætti og baðstofan síðan þiljuð innan með timbri. Hún var vistleg. — Þegar foreldrar mínir höfðu komið sér þar fyrir með innanstokksmuni sína, eins og þeir voru á þeim árum.
Faðir minn átti að ganga menntaveginn og las undir skóla við Latínuskólann í Reykjavík, en varð að hætta þar námi sökum augnsjúkdóms.
Það fyrsta, sem ég man eftir mér frá þeim tíma, er ég var við tveggja ára aldur, en þá veiktist ég hastarlega. Stefán læknir Gíslason í Vík í Mýrdal var sóttur til mín, en hann gat ekki fundið, hvað að mér gekk. Það var að lokum faðir minn, sem fann rétta sjúkdómsgreiningu og gat læknað mig.
Þó að þröngt væri í búi foreldra minna, heyrðist móðir mín aldrei kvarta. Hún gekk ávallt að sínum verkum með sérstakri rósemi. Sama máli gengdi einnig um föður minn. Þau tóku ýmsum örðugleikum lífsins með sérstöku æðruleysi og báru gagnkvæma virðingu hvort fyrir öðru.
Á æskuheimili mínu var byrjað að lesa húslestra á síðasta degi sumarsins og endað á sumardaginn fyrsta.
Foreldrar mínir áttu heima á kirkjustað, og fórum við öll til kirkju, þegar messað var á Ásólfsskála. Aðra sunnudaga var lesinn húslestur heima.
Á messudögum fór móðir mín úr kirkjunni, þegar sunginn var síðasti sálmurinn og fór inn í bæ til þess að hafa tilbúið kaffi handa því fólki, sem kæmi við eftir messuna, en það var oft margt, því að í þá tíð var kirkjan vel sótt.
Þegar jarðarfarir fóru fram að Ásólfsskálakirkju, kom það oft fyrir, að erfidrykkja var haldin í baðstofunni heima, en aðstandendur komu með það, sem veita átti. — Einnig var móðir mín fengin til að standa fyrir veizlum, og var búrkona, eins og það var nefnt á liðinni tíð.
Þó að hún hefði nóg að gera í bænum, saumaði hún stundum fyrir aðra. Og það kom fyrir, að stúlkur kæmu til hennar til þess að fá tilsögn í fatasaumi.
Þegar faðir minn vann að barnakennslu eða við skriftir, var hann oft að heiman lengri eða skemmri tíma. Þá hvíldi umhyggja búsins á móður minni eða börnunum, en það breyttist til batnaðar, eftir því sem þau stálpuðust og tóku meiri þátt í heimilisstörfunum. En allt það sem við kom búverkunum, var unnið í góðu samkomulagi.
Til þess að gefa hugmynd um, hvernig móðir mín var, ætla ég að segja frá atviki, sem ég man eftir. Hún átti góða vinkonu á Mýrarbæjunum. Nú er það einu sinni, að hún segir við Guðbjörgu systur mína: „Ég er að hugsa um að skreppa til hennar vinkonu minnar og gefa henni aðra dagtreyjuna mína.“ „Ég held þú megir ekki missa hana,“ sagði Guðbjörg systir mín. Þá segir mamma: „Ég veit, að þessi kona á enga dagtreyju, en ég á tvær.“ Og hún fór og gaf vinkonu sinni treyjuna.
Ekki var kveikt ljós í bænum, þegar fór að dimma á veturna, því að allt varð að spara, olíu eins og annað, heldur var setið í rökkrinu nokkra stund. Þá var ýmislegt gert sér til gamans, svo sem sett í horn, gefið í skip, farið með gátur til ráðningar og fleira þessu líkt. En mikið og oft var sungið, t.d. falleg kvæði og ættjarðarljóð, og var það mjög vinsælt meðal allra á heimilinu. Þessar rökkurstundir voru svo róandi og höfðu mikil og góð áhrif á heimilisfólkið.
Þegar búið var að kveikja ljósið, settust allir við vinnu sína. Þá voru lesnar góðar bækur. Það gjörði faðir minn. Hann las upphátt fyrir okkur, eða þá Sveinbjörn bróðir minn, eftir því sem á stóð.
Fyrsti pósturinn, sem ég man eftir, var Bréfa-Runki. Mér er í barnsminni, hve allir urðu glaðir, þegar hann kom með bréf og fréttir. — Stundum kom hann líka með vott af kaffi og sykri og sitthvað smávegis. Þetta bar hann á bakinu alla leið frá Reykjavík og jafnvel af Suðurnesjum.
Ég efast um, að fyrirmönnum þeirra tíma hafi verið betur fagnað en blessuðum Runka var, þegar hann kom með þetta í allsleysið, eins og það var almennt þá.
Að lokum vil ég minnast föður míns og rifja upp í fáum dráttum atburði úr ævi hans.
Hann var mikill trúmaður og treysti Guði til hinztu stundar lífs síns, æðrulaus þó að erfiðleikar steðjuðu að og vandaður í orðum sínum svo að ég hygg að fátítt hafi verið. Hann var hagmæltur og honum var létt um að kasta fram stöku. en því miður skrifaði hann ekki hjá sér það, sem hann orti, og mun það nú flest glatað.
Þegar hann frétti lát bónda í sveitinni, sem andaðist frá konu og mörgum börnum, flestum þeirra á unga aldri, orti hann vísur í minningu þessa mæta manns, en þær verða rúmsins vegna ekki skráðar hér, — aðeins fyrsta erindi þeirra:

„Er nú sagður andaður,
Einar Fornusanda;
hann, sem var svo vandaður
vel til munns og handa.“

Faðir minn hafði ríka samúð með öllum þeim, er áttu við margskonar erfiðleika að etja í þjóðfélaginu, en þeir voru margir á þeim árum eins og kunnugt er. Þegar sambýlismaður foreldra minna, Eyjólfur bóndi Ketilsson, og kona hans Ólöf Jónsdóttir, áttu gullbrúðkaup, orti faðir minn kvæði á þessum merkisdegi í lífi þeirra. Þessi hjón bjuggu á Ásólfsskála í áratugi og komu þar upp stórum barnahópi með elju og iðjusemi ¹.
Samsæti var þá haldið í þinghúsinu á Yzta-Skála og þótti þetta mikill viðburður í þann mund. Ég man ennþá, hvað ég skemmti mér þá vel.
Síðasta erindið í kvæðinu endar svona:

„Þið tengdust tryggðarböndum
í trausti á frelsarann;
Þið hélduð saman höndum
með hjástoð kærleikans.
Þið hafið bæði barizt
og búið saman þreytt,
og hverri hættu varizt;
þið hafið verið eitt.“

Þegar foreldrar mínir fluttu að Ásólfsskála, var enginn barnaskóli í sókninni. Faðir minn hafði mikla löngun til að bæta eitthvað úr þeirri vöntun. Eftir marga erfiðleika hafði hann það fram, að hann var ráðinn barnakennari og kenndi í tvo mánuði á vetri hverjum í lítilli stofu, sem hann fékk að láni hjá Þorsteini Sveinbjörnssyni bróður sínum, sem þá bjó í Gerðakoti ².
Leiðina til skólans gekk hann kvölds og morgna. Það var um hálftíma gangur hvora leið. Kennaralaunin voru lág, tíu kr. á mánuði eða svo, að mig minnir. En það var uppörvandi, að börnunum féll vel við hann og tóku góðum framförum í skólanum. Þess vegna voru foreldrar þeirra strax í byrjun ánægðir með kennsluna. Eftir þetta var hann farkennari undir Eyjafjöllum flest ár frá 1894—1917. Þessi ár var hann einnig einkakennari á heimilum, þar sem óskað var eftir frekari menntun nemenda, eða barnaskólinn ekki talinn nógur námstími undir betri undirbúningsmenntun. Þessi ár flest var hann einnig prófdómari, bæði undir Fjöllunum og í Landeyjunum. — Hann var áhugasamur um fræðslumál og fróður um margt, sem laut að þeim efnum. En hann var ekki síður heima í öllum þeim framförum, sem þá bjarmaði fyrir og síðar rættust á opinberum vettvangi þjóðarinnar. Þar sem hann vann á menntasetrum, voru menningarstraumar og áhugamál ofarlega á baugi í samtíð sinni. Hann var maður hugsjóna og bjartsýnis langt fram yfir það, sem þá gerðist almennt í sveitum og bæjum okkar blessaða lands.
Faðir minn vann mikið við skriftir og samdi skýrslugerðir. Hann var hreppsnefndaroddviti í fimm ár og sýslunefndarmaður í fjölda ára.
Þau ár, sem hann starfaði ekki í þessum nefndum sem virkur þátttakandi, samdi hann einnig skýrslur og skrifaði þær fyrir sveitarfélagið.
Þetta voru árlega talsverð störf, sem hann innti af hendi. Þá dvaldist hann í Holti hjá mági sínum séra Kjartani prófasti Einarssyni. Þar unnu saman að áhugamálum sínum og skyldustörfum hreppsnefndir Eyjafjallasveita, bæði Dalsóknar og Ásólfsskálasóknar. Einnig var þar unnið við undirbúning ýmisskonar mála, er síðar voru lögð fyrir sýslunefnd og viðkomu sveitunum og tilheyrðu að lokum sýslumanni og sýslunefnd Rangárvallasýslu til frekari afgreiðslu.
Eftir að faðir minn hætti að kenna, eða milli þess, sem hann vann við barnaskólann og annað því skylt, var hann fenginn til að skrifa um ýmisskonar efni hjá þeim, sem voru frammámenn sveitarinnar. Einnig skrifaði hann mikið fyrir Þorvald Björnsson á Eyri, síðar bónda í Núpakoti, eftir að hann fór að missa sjónina. Aldrei tók hann þóknun fyrir þessi störf sín, þó að þau væru tímafrek.
Faðir minn var fyrstur manna til að vekja máls á því að hlaða þyrfti garð fyrir Holtsá, sem flæddi oft yfir landssvæði í miklum vatnavöxtum, einkum þó túnið í Holti. Það fór á þann veg, að tillaga hans var samþykkt og honum falið að sjá um verkið.
Einnig var faðir minn hvatamaður að því að brúa Miðskálaá og gera gangbrautina, sem lá í brekkunni að ánni, þar sem hún er brúuð, greiðfærari. Einnig studdi hann að ýmsum öðrum málum sveitarinnar, sem til framfara horfðu. En efnahagur almennings og sveitarfélaga var lélegur samanborið við það, sem síðar varð, og hlaut því að haga framkvæmdum eftir efnum og ástæðum.
Yndislegt var að eiga björt og góð æskuár meðal foreldra og systkina. Mér hlýnar alltaf um hjartaræturnar, er ég hugsa til bernskuára minna. Hvað er dásamlegra en að eiga góða foreldra, sem kenna börnum sínum að treysta guði bæði í blíðu og stríðu? Mínir foreldrar voru þannig og fyrir það er ég þeim innilega þakklát....“
Þetta voru minningar Þórnýjar Jónsdóttur húsfreyju á Reyni frá æskuárunum. Þær varpa ljósi yfir ævi og heimilishætti foreldra hennar, þar sem rótgrónar hefðir voru virtar og þjóðlegir siðir í heiðri hafðir, eins og þeir höfðu tíðkazt frá manni til manns og frá einni kynslóð til annarrar.
Fljótlega eftir að foreldrar hennar fluttust aftur austur undir Eyjafjöll og börn þeirra komust upp, blómgaðist efnahagur þeirra aftur. Synir þeirra voru dugmiklir menn. Þeir fóru á vetrarvertíðum til Vestmannaeyja, en unnu aðra árstíma á heimili foreldra sinna.
Árin liðu, og þegar hér er komið sögu og börnin uppkomin, hurfu þau að heiman hvert af öðru og stofnuðu að lokum sín eigin heimili. — Sveinbjörn, elzti sonurinn, og kona hans Anna Einarsdóttir frá Varmahlíð, tóku við búinu af eldri hjónunum, þegar aldurinn færðist yfir og starfskraftarnir fóru þverrandi. Hjá ungu hjónunum leið þeim vel. Þau áttu þar góða daga. Jón vann þá sem fyrr að sínum störfum bæði við barnakennslu og skriftir, en þess á milli við algeng sveitastörf.
Að lokum varpaði dauðinn dimmum skugga á æviskeið Jóns Sveinbjörnssonar. Hinn tryggi og ástfólgni lífsförunautur, konan hans, veiktist af ólæknandi sjúkdómi og andaðist 9. júlímánaðar 1917. (F. 11. nóv. 1851). Eftir lát hennar fluttist Jón alfarinn frá Eyjafjöllum eftir vel unnin og heillarík störf í þágu sveitar sinnar. Þá var hann kominn hátt á sjötugs aldur, nánar til tekið 68 ára að aldri. Þrátt fyrir ástvinamissi og margskonar erfiðleika var hann sæmilega hress. Hann var enn sem fyrr hinn þroskaði og vel gerði maður, æðrulaus og treysti handleiðslu guðs, sem aldrei hafði brugðizt honum í stormum lífsins, en verið hans styrki stafur. Það var í raun og veru eðlilegt, að hugur hans beindist að þeim störfum, sem honum voru töm og hugfólgin.
Þegar hann árið 1917 fluttist frá Ásólfsskála, réðst hann til Björgvins Vigfússonar á Efra-Hvoli og gerðist þá sýsluskrifari hans. Hann var þar síðan þar til starfskraftar hans voru þrotnir eftir átta ára starf. Þá var hann rúmlega hálfáttræður. Hann bar heilsubrest sinn með einstakri rósemi og aldrei heyrðist hann kvarta, en vann störf sín af trúmennsku og skyldurækni.
Þegar Jón Sveinbjörnsson fluttist frá Efra-Hvoli, fór hann til Vestmannaeyja og átti þar heima síðan hjá yngsta syni sínum, Sigurjóni, og konu hans Guðríði Þóroddsdóttur. Sigurjón Jónsson var umsvifamikill útgerðarmaður, og á hinu ágæta heimili þeirra átti Jón gott og friðsælt ævikvöld síðustu ár ævinnar.


ctr


Fjölskyldan í Víðidal.
Efri röð frá vinstri: Björg, Sigríður.
Neðri röð frá vinstri: Guðríður Þóroddsdóttir, Guðbjörg, Þór, Sigurjón Jónsson og Soffías.


Hjónin Guðríður og Sigurjón eignuðust fimm mannvænleg börn, sem öll urðu afa sínum kær. Yngstur þeirra systkina var einkasonurinn Soffías. Hann varð yndi og eftirlæti afa síns.
Fljótlega eftir komu sína á heimilið í Víðidal tók Jón til að skrifa dagbók um ævi sonarsonar síns um dagleg áhugamál hans og andlegan þroska. Líklega eru fá dæmi þess, að dagbók sé haldin um líf svo ungs drengs sem Soffías litli var þá. — Þegar Jón lézt, hafði hann lokið við að skrifa tvær stílabækur. Þar mun að finna hið síðasta, sem Jón Sveinbjörnsson skrifaði fyrir andlát sitt. Geta má þess, að hann hafði næman skilning á sálarlífi yngstu kynslóðarinnar og opinn hug fyrir því, en Soffías var aðeins barn að aldri, er afi hans lézt.
Heilsu Jóns hnignaði einkum síðasta árið, sem hann lifði. Hann lá rúmfastur nokkrar vikur og andaðist á heimili sonar síns og tengdadóttur 25. okt. 1928, þá tæplega áttræður að aldri. Okkur, sem þekktum Jón Sveinbjörnsson mest og bezt, fannst lífið fátæklegra eftir fráfall hans. Hann hafði auðgað líf okkar, meðan leiðir lágu saman. Hann varð fyrstur manna til þess að leiðbeina okkur, meðan við lærðum að skrifa fyrstu orðin og reikna fyrstu dæmin í skóla lífsins. Fyrir það erum við þakklát og fyrir allt annað gott, sem við áttum honum upp að unna. Þessvegna á Jón Sveinbjörnsson veglegan sess í hug og hjarta nemenda sinna og samferðarmanna, „því eftir lifir minning mæt, þó maðurinn falli“.

¹ Þessi hjón voru afi og amma Björns og Tryggva Guðmundssona hér í bæ og þeirra systkina.
² Þorsteinn sá var faðir Guðlaugs Þorsteinssonar, sem á sínum tíma byggði hér húsið Laugaland við Vestmannabraut (nr. 53) og bjó þar um árabil (Þ.Þ.V.).

Til baka



Guðni B. Guðnason kaupfélagsstjóri 45 ára

Oft hafa þeir ljóðað hvor á annan, Guðni kaupfélagsstjóri og Hafsteinn Stefánsson skipstjóri. Stundum hafa vísur þessar verið gamanmál en oft líka kveðnar í vinsemd og vinarhug. Hér koma þrjár vísur Hafsteins, sem hann orti til Guðna, þegar hann fyllti 45 árin, 1. apríl 1971.

Ungur þeysir apríll inn
yfir landið fríða.
Þá er vorsins, vinur minn,
varla langs að bíða.
Í lofti bærast þíðir þá
þúsund radda strengir;
fjóluangar fara á stjá;
fæðast góðir drengir.
Seiðir til þín sunnan blær
sólskinsdaga bjarta.
Verði alltaf, vinur kær,
vor í þínu hjarta.
H.St.