Blik 1973/Jón Sveinbjörnsson kennari

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



INGIBJÖRG ÓLAFSDÓTTIR FRÁ BÓLSTAÐARHLÍÐ:


Jón Sveinbjörnsson kennari


Jón Sveinbjörnsson.

Sú kynslóð, sem nú er að alast upp að síðari hluta tuttugustu aldarinnar, hefur öðlazt aukna menntun á mörgum sviðum, bæði andlegum og tæknilegum. Einnig hefur hún öðlazt betri efnalega afkomu, bætt lífsþægindi ásamt mörgu öðru, sem oflangt yrði upp að telja. Allt þetta er vissulega vert að meta og þakka. Sú var tíðin, að nálega öll þessi lífsins gæði voru sem lokaður heimur fyrir okkur, sem vorum að stíga okkar fyrstu spor í tímanna rás fyrir og eftir síðustu aldamótin, svo að ekki sé farið lengra aftur í tímann. En þá var frelsisbarátta þjóðarinnar mál málanna. Hún var á fyrstu áratugum aldarinnar farsællega til lykta leidd, eins og kunnugt er. En fleiri framfaramál þjóðarinnar voru þá í deiglunni. Þau voru síðar borin fram til sigurs. Þar á meðal var aukin barnafræðsla almennings. Hið mikilvægasta heillaspor stigið.
Sá maður, sem einna fyrstur manna beitti sér fyrir fræðslumálum á alþingi, var Sighvatur Árnason, þingmaður Rangæinga 1865—1867 og 1875—1902. Það var hann, sem bar fram á alþingi 1879 frumvarp um aukna barnafræðslu. Og var það samþykkt, og varð að lögum að greiða kr. 2.500,00 úr landssjóði til þessara mála. — Áður voru það heimilin, sem að flestu leyti sáu um barnafræðsluna. En eftir þetta varð skólaskylda barna að lögum og börnum komið til náms, ef heimakennsla var ekki fullnægjandi.
Það var gæfa þjóðarinnar að eiga marga framámenn í mörgum stéttum þjóðfélagsins, sem börðust fyrir aukinni fræðslu og bættum lífsskilyrðum almennings. Þessir menn og ýmsir fleiri létu ekki erfið lífskjör smækka sig, heldur efldust við hverja þá erfiðleika, sem urðu á vegi þeirra og fórnuðu góðum gjöfum í þágu þjóðar, sem fjötruð var erlendri kúgun og einokunarverzlun og bjó við einangrun og fátækt í harðbýlu landi við hin erfiðustu lífsskilyrði. Þessir framámenn studdu forustumenn þjóðar sinnar, er þeir börðust fyrir hugsjónum sínum og urðu eins og Jón Sigurðsson sverð hennar og skjöldur.
Einn hinna mætu framámanna var Jón Sveinbjörnsson, bóndi og kennari á Ásólfsskála undir Eyjafjöllum. Hann var gáfaður maður og hafði betri og margþættari menntun til brunns að bera en farkennarar höfðu almennt.
Jón Sveinbjörnsson var kennari minn, sem þetta skrifar, þegar ég komst á skólaskyldualdurinn. Síðan er hann mér hugstæðari en flestir aðrir samferðamenn mínir frá þeim árum. Ég sé hann enn ljóslifandi fyrir mér, þar sem hann gekk um í skólastofunni glaðlegur og hress í bragði og gerði sitt bezta til þess, að við nemendur hans legðum fram það, sem við orkuðum við námið, með ljúfu geði. — Kennslan var frábær. Minnisstæðastir eru mér skriftartímarnir. — Rithönd hans var einkar fögur, enda var hann talinn listaskrifari.
Jón Sveinbjörnsson var snillingur í því að laða fram það, sem til þurfti, svo að við gerðum allt af fúsum vilja, sem við orkuðum við námið.
Með alúðlegri framkomu sinni og lipurð varð kennslan lifandi og skemmtileg. — Að enduðu skyldunámi skrifuðu margir af nemendum hans sæmilega og sumir ágætlega miðað við þann stutta tíma, sem kennslan stóð yfir.
Jón var farkennari undir Eyjafjöllum frá 1894—1917. Hann vann að barnakennslunni af heilum hug með því að örva sveitunga sína og glæða áhuga þeirra fyrir aukinni fræðslu barna sinna. Jón var einnig hvatamaður að ýmsum verklegum framkvæmdum, sem hann beitti sér fyrir. Hann örvaði framámenn sveitar sinnar til að láta barnakennsluna ekki falla niður þau ár, sem erfiðast var að halda skólanum starfandi frá ári til árs. Þau urðu því mörg skólabörnin undir Eyjafjöllum, sem nutu undirbúningsmenntunar hans fyrir fermingaraldur, en hann mun hafa verið nær óslitið kennari í 23 ár í sveit sinni.
Öllum nemendum sínum kom hann til nokkurs þroska og flestum þeirra varð kennslan notadrjúg síðar á lífsleiðinni, en það fór auðvitað eftir námshæfileikum þeirra og áhuga við námið, eins og oft vill verða í skólum yfirleitt.
Skólaskyldan var þá frá 10 ára aldri til 14 ára aldurs. — Flest voru börnin þá orðin sæmilega lesandi, þegar þau hófu skólagönguna, en alltaf voru nú undantekningar með það eins og annað, sem viðkemur náminu.
Hin aðlaðandi framkoma kennarans og létta lund átti sinn þátt í því, að hann var hverjum manni skemmtilegri, bæði í umgengni við nemendur sína og samferðamenn. Mér er ennþá í fersku minni, hve einlæg tilhlökkun okkar var, þegar von var á honum heim og skólinn tók til starfa. Það er ánægjulegt að hverfa í huganum aftur í tímann og lifa þar í endurminningunni um þær sólskinsstundir, sem við skólabörnin áttum með Jóni Sveinbjörnssyni, sem hefur ávallt síðan orðið okkur svo minnisstæður. — En hann var annað og meira en kennarinn, sem við virtum og dáðum. Hann var einnig vinur okkar, sem við munum ávallt minnast með hlýhug og þakklæti.
Jón Sveinbjörnsson var kominn af góðum ættum. Foreldrar hans voru séra Sveinbjörn Guðmundsson hreppstjóra Torfasonar í Bæ í Borgarfirði. Móðir Jóns kennara var frú Elín Árnadóttir frá Flensborg í Hafnarfirði.
Áður en lengra er haldið er vert að minnast séra Sveinbjörns og þeirra ritstarfa, sem lengst munu halda á lofti nafni hans. Þau bera vott um frásagnargáfu hans og leikandi léttan stíl, sem fáir af samtíðarmönnum hans voru gæddir í svo ríkum mæli. „Margt er líkt með skyldum“ og ætla má, að Jón hafi líkzt föður sínum fyrir margra hluta sakir, og svo mun einnig vera um ýmsa aðra afkomendur hans. Báðir voru feðgarnir hneigðir til andlegra starfa. Þeir voru ágætir kennarar og unnu mikið við skriftir um lengri eða skemmri tíma. Einnig dvöldust þeir á merkum menntasetrum og komust þannig í snertingu við margskonar menningarmál samtíðar sinnar. Þar kynntust þeir ágætum framámönnum síns tíma, bæði á amtmannssetrinu á Arnarstapa á Snæfellsnesi, þar sem Sveinbjörn dvaldi um fimm ára skeið, en Jón sonur hans var sýsluskrifari hjá Bjarna E. Magnússyni, sýslumanni í Vestmannaeyjum.
Jón sýsluskrifari fluttist síðan með Bjarna sýslumanni norður að Geitaskarði í Húnavatnssýslu árið 1872 og gerðist þar sýsluskrifari. — Síðustu átta ár ævinnar var hann að lokum sýsluskrifari hjá Björgvin Vigfússyni, sýslumanni á Efra-Hvoli í Rangárvallasýslu.
Áður en ég held lengra um ævistörf Jóns Sveinbjörnssonar, get ég ekki látið hjá líða að geta viss þáttar í ævi föður hans, séra Sveinbjörns Guðmundssonar. Hann var hinn ágætasti sagnaritari og lagði mikinn og góðan skerf til íslenzkra bókmennta, meðan hann dvaldist á Arnarstapa á Snæfellsnesi hjá Bjarna amtmanni Thorsteinssyni. Skal nú nánar vikið að því ágæta brautryðjandastarfi, sem hann vann þar.
Sveinbjörn Guðmundsson gerðist amtskrifari á Stapa 25 ára gamall, þá nýbakaður stúdent, og dvaldist hann þar næstu fimm árin. Hann vígðist prestur til Keldnaþinga á Rangárvöllum árið 1847 og bjó á Kirkjubæ. Þar var Jón sonur hans fæddur 1. ágúst 1849. Síðar var séra Sveinbjörn prestur á Móum á Kjalarnesi, Krossi í Landeyjum og loks í Holti undir Eyjafjöllum, þar sem hann lézt 15. maí 1885. (F. 18. apríl 1818).
Séra Sveinbjörn Guðmundsson var hinn merkasti maður og vel látinn af sóknarbörnum sínum. Hann hafði ágæt tök á íslenzku máli, sem hann gæddi skemmtilegum eðlileik. Þegar þeir Jón Árnason, þjóðsagnaritari, og Magnús Grímsson unnu að þjóðsögunum, skráði Sveinbjörn og sendi þeim mörg ævintýri, sem eru meðal hinna beztu í íslenzkum bókmenntum. Meðal hinna skemmtilegustu þeirra er sagan af Valfríði Völufegri, sem flestir Íslendingar, sem á annað borð meta og lesa þjóðsögur Jóns Árnasonar, kannast við. Fleiri markverðar þjóðsögur hans mætti nefna.
Jón Árnason getur Sveinbjörns sérstaklega í formálanum fyrir þjóðsögunum ásamt fleirum, t.d. séra Skúla Gíslasyni á Breiðabólstað og Magnúsi Grímssyni og telur þá fyrirmyndar setjara. „Þessir menn,“ segir hann, „og aðrir fleiri segja söguna í daglegu máli fjörugt og líflega, eins og bezt á við, en þó án allrar viðhafnar í rithætti, orðatiltækjum og setningaskipan.“ Í hinni merku ritgerð um íslenzkar þjóðsögur telur Guðbrandur Vigfússon einnig séra Sveinbjörn meðal þeirra, sem fara bezt með sögu í safni Jóns Árnasonar. Áhugi séra Sveinbjörns á íslenzkum þjóðsögum kom snemma í ljós. Á Stapa færir hann í letur nokkrar sögur, sem Jón Árnason auðkennir með orðunum Vestan af Snæfellsnesi. Ætla má, að þær séu skrifaðar af Sveinbirni Guðmundssyni.
Eins og kunnugt er ólst þjóðskáldið ástsæla Steingrímur Thorsteinsson upp hjá foreldrum sínum á Arnarstapa. Þar mótaðist hann í æsku og naut tilsagnar og ágætrar fræðslu Sveinbjörns sýsluskrifara, sem gjörðist kennari hans þau ár, sem hann dvaldi á heimili foreldra hans. Steingrímur tók ástfóstri við hann og hélzt vinátta þeirra ævilangt. Þeir skrifuðust á um langt árabil, og eru bréf Sveinbjörns sýsluskrifara varðveitt á Landsbókasafninu.
Steingrímur orti góð og hugnæm eftirmæli, er hann frétti lát æskuvinar síns, sem hefjast á þennan hátt:

Bar mér fyrir eyru frá Eyjafjöllum
klukknahljóm — kaldrar feigðar.
Tjáð náfregn, er nísti hjarta
vin minn trúfastan, — vorpinn moldu.

Telja má líklegt, að Jón Sveinbjörnsson hafi orðið fyrir miklum og heillaríkum áhrifum frá föður sínum og æskuheimili, þegar hann var að alast upp og hefja göngu sína út í framtíðina. Þar hefur hann vaxið upp í frjósömum jarðvegi, sem orkað hefur á andlegan þroska hans og hjartalag. Þau áhrif eru hverju barni nauðsynleg og vara lengur en flestir gera sér grein fyrir.
Séra Sveinbjörn taldi þennan vel gefna son sinn hæfan til langskólanáms, og hóf Jón sonur hans lestur undir væntanlega inntöku í Latínuskólann í Reykjavík.
Ekki er mér kunnugt um, hve mörg ár hann dvaldist við námið í Latínuskólanum. En með tímanum kom í ljós, að hann gekk með augnsjúkdóm, sem orsakaði ofþreytu í augum, og varð hann að hætta námi sökum þess. Geta má nærri, hvílík vonbrigði þetta voru bæði honum sjálfum og foreldrum hans, sem tengt höfðu miklar vonir við þennan gáfaða son sinn.
Eftir þetta liggur leið Jóns Sveinbjörnssonar til Vestmannaeyja. Þar gjörðist hann, eins og áður er að vikið, sýsluskrifari hjá Bjarna E. Magnússyni sýslumanni. Heimildir herma, að síðan hafi hann flutt með sýslumanni norður í Húnavatnssýslu (1872) og starfað þar hjá honum áfram. Þegar hann fluttist norður, var hann 23 ára gamall.
Fyrstu árin, sem Jón Sveinbjörnsson var sýsluskrifari á Geitaskarði í Húnavatnssýslu, var Framfarafélagið í Svínavatnshreppi að eflast og mótast, og gerðist Jón strax við komu sína norður virkur félagi þess.
í bókinni „Troðningar og tóftarbrot“, sem Húnvetningafélagið í Reykjavík gaf út árið 1953, er farið mjög lofsamlegum orðum um Jón og störf hans í þágu félagsins. Fróðlega grein um þennan ágæta félagsskap skrifaði Bjarni Jónasson, kennari og bóndi, í ritið. Þar kemst hann m.a. svo að orði:
„Forgöngumenn að stofnun Framfarafélagsins voru ungir menn, synir ýmissa bændahöfðingja sveitarinnar. Þeir voru fæddir á tímabilinu 1844—1855. Eins manns verður enn að geta, því að hann mun hafa átt töluverðan þátt í að móta starfsemi félagsins í fyrstu. Það var skrifari Bjarna E. Magnússonar sýslumanns á Geitaskarði, Jón Sveinbjörnsson, ungur maður, áhugasamur og vel gefinn. Hann tók virkan þátt í þjóðhátíðarhöldunum í Húnavatnssýslu 1874 og vann sér traust og hylli héraðsbúa, ekki sízt unga fólksins.
Þennan mann fengu Húnvetningar sér til aðstoðar við að semja Framfarafélaginu lög, enda mun hann hafa gengið í félagið um leið. — Svo er að sjá í gjörðabókum félagsins, að félagsstörfin séu að mestu leyti verk Jóns Sveinbjörnssonar. En félagið naut ekki lengi starfskrafta hans, því að við andlát Bjarna sýslumanns árið 1876 fluttist Jón suður í átthagana í Rangárvallasýslu.“
Ennfremur segir síðar í grein Bjarna Jónassonar: „Nefnd sú, sem kosin var á aðalfundi í fyrrasumar til að semja nýtt lagafrumvarp fyrir félagið, lauk við þann starfa fyrir haustfund fyrir tilstyrk Jóns Sveinbjörnssonar, sem góðfúslega bauð nefndinni að gera uppkast til laganna, og var það svo ágætlega af hendi leyst, að nefndin fann ekki ástæðu til gera nokkra verulegar breytingar við það.“
Á þessum árum, sem Jón starfaði með félögum sínum, var hann prófdómari, en svo er að sjá, að þar hafi verið starfrækt kennsla í skrift, reikningi og dönsku.
Að lokum getur greinarhöfundur þess, að meginhluti af skjölum þessa merka félags hafi glatazt, og var það óbætanlegt tjón. — En að lokum kemur skýrt í ljós, að verk Jóns Sveinbjörnssonar voru viðurkennd og mikils metin, eins og eftirfarandi greinar Bjarna Jónassonar bera vitni um: „Á þessu ári (1877) hefur félagsmönnum fjölgað stórum þrátt fyrir það, að við höfum orðið að sjá af nokkrum á bak af þeim, sem voru í félaginu í fyrra, og nefni ég einkum herra Jón Sveinbjörnsson, sem félaginu var mikil eftirsjón að. Honum hefur það mikið að þakka þann stutta tíma, sem hann starfaði í því.“
Í annarri grein í sömu bók minntist rithöfundurinn þjóðkunni, Magnús Björnsson frá Syðra-Hóli á Jón Sveinbjörnsson sýsluskrifara. Þar segir: „Jón var vaskur maður og glaðlyndur, greindur vel og skáldmæltur, ótrauður og ósérhlífinn. Hann bjó síðan á Ásólfsskála undir Eyjafjöllum, var barnakennari og þótti mætur maður. — Hér gat hann sér hinn bezta orðstír og var hann hinn vinsælasti. Hann var hægri hönd sýslumanns í starfi hans, fylgdi honum í þingferðum hans og til réttarhalda og var jafnan réttarvitni.“
Þessi frásögn Magnúsar Björnssonar frá Syðra-Hóli er skemmtileg og vel samin, eins og vænta mátti af honum. Hún er ein hin bezta og sannasta mannlýsing af Jóni Sveinbjörnssyni, eins og hann var á sínum beztu starfsárum og vann að sínum hugðarefnum með félögum sínum og vinnuveitanda.
Þótt hér sé aðeins um að ræða fjögur ár úr ævi Jóns, höfum við öðlazt skýra mynd af honum, og hvernig hann kom Norðlendingum fyrir sjónir þann tíma, sem hann var sýsluskrifari á Geitaskarði í Húnavatnssýslu.
Ýmislegt af þeim áhugamálum, sem hann vann að um ævina, mun nú vera horfið í gleymskunnar haf, og er það skaði, sem erfitt mun vera úr að bæta. Hann var um margt á undan samtíð sinni, og þá er hætt við, að hann hafi ekki notið hæfileika sinna eða unnið þau störf á langri ævi, sem honum voru tömust og hugfólgnust.
Það var mikill gæfudagur í lífi Jóns Sveinbjörnssonar, þegar hann gekk að eiga konu sína Björgu Guðbrandsdóttur 13. júlí 1878. Hún var dóttir hjónanna Guðbrands Bjarnasonar og Ingibjargar Árnadóttur. Þau mætu hjón bjuggu að Ási við Hafnarfjörð. Ungu hjónin voru systkinabörn að skyldleika. — Það var alla tíð ástúðlegt milli þeirra hjóna. Þeim fóru ekki mörg styggðaryrðin milli og varð hjónaband þeirra hamingjusamt, svo að þar bar aldrei skugga á, unz dauðinn skyldi þau að. Gagnkvæmt traust og virðing var „á því bjargi byggt, sem buga ekki stormar neinir“, eins og eitt skáldið kemst að orði, þó að margir erfiðleikar steðjuðu að á lífsleiðinni fyrir þessum merku hjónum.
Þau hjónin hófu búskap að Vestur-Holtum undir Eyjafjöllum, þar sem þeim búnaðist vel, og bjuggu þar í nokkur ár. En svo tóku þau sig upp og fluttu að Húsatóftum í Grindavík. Þar hófst erfiðasti þáttur í lífi þeirra. — Árin, sem nú fara í hönd, eru þau hörðustu í sögu þjóðarinnar á 19. öldinni, eins og kunnugt er. Vetrinum 1882 er t.d. viðbrugðið í annálum frá þeim tíma. - Þá var fellisvetur. Á þessum árum flýði fjöldi fólks landið og flutti til Ameríku. Það var mikil blóðtaka fámennri þjóð í fátæku landi, þegar nær fimmtungur þjóðarinnar flýði landið sökum harðinda og aflaleysis á síðustu áratugum aldarinnar. Þetta var yfirleitt kjarnafólk, sem vildi ryðja sér brautir til betri lífsafkomu.
Hér fara á eftir stuttar frásagnir úr lífi þeirra hjóna, sem leituðust við að bæta efnahag sinn með því að hverfa úr sveit sinni og flytjast að sjávarsíðunni á þessum erfiðu árum. Það vill svo vel til, að tengdadóttir þeirra, Guðríður Þóroddsdóttir í Víðidal í Vestmannaeyjum (nr 33 við Vestmannabraut), skráði í endurminningum sínum frásögu Jóns tengdaföður síns. Þessara ára minntist hann með stuttri sögu, sem lýsir á átakanlegan hátt erfiðleikum þeirra hjóna, þegar þau bjuggu á Húsatóftum. Guðríður skrifar frásögu hans á eftirfarandi hátt: „Tengdafaðir minn, Jón Sveinbjörnsson, andaðist á heimili okkar hjónanna 25. október 1928. Hann var trúaður maður og bar lotningu fyrir heilagleika Drottins. Í banalegunni sagði hann mér frá tveim atburðum úr lífi sínu. Þeir gerðust á þeim árum, er hann bjó í Grindavík.
Eitt sinn var hann við fuglaveiðar og hafði klifrað margar mannhæðir upp bergið. Missti hann þá fótfestu undan öðrum fæti og var í dauðans hættu staddur, því að þverhnípt berg var fyrir ofan og dauðinn vís, ef hann hrapaði niður. Þá gafst honum náð til að fela sig Guði af öllu hjarta. Síðan missti hann meðvitund, en þegar hann kom til sjálfs síns aftur, var hann kominn upp á fjallsbrúnina, lá þar og hafði ekki sakað. Þökk sé Guði.
Mikið fiskileysi var í Grindavík og þröngt í búi hjá mörgum. — Kaupmenn höfðu lokað reikningum manna, — einnig tengdaföður míns, og sagðist hann þó ekki hafa skuldað.
Kvöld eitt, er hann lagðist til svefns, var enginn matarbiti til næsta dags handa konu hans og börnum. Þá vakti hann lengi fram á nótt í bæn til Drottins. Hann sagði mér, að hann hefði sagt við Guð sinn: „Þú veizt það, að ég er búinn að gera allt, sem í mínu valdi stendur og get ekki meira gert. Nú verður þú því að taka að þér konu mína og börn.“
Jörð hans fylgdi afmörkuð fjara. Og næsta morgun voru rekin mörg og stór tré á fjöru hans. Þannig hafði Guði þóknazt að svara bæn hans.
Næsta dag kom svo kaupmaðurinn, sem hafði neitað honum um lán, og bað hann að selja sér trén, en hann sagðist hafa neitað. Hann sagði við mig: „Nú sé ég eftir að hafa ekki gjört það.“

Seinni hluti