Blik 1967/Einar Sigurfinnsson, æviágrip, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit Bliks 1967ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


EINAR SIGURFINNSSON


ÆVIÁGRIP
(2. hluti)


Skipsstrand, sem E.S. segir svo frá:


„Fyrri hluta árs 1912 strandaði franskur togari á Þykkvabæjarfjöru. Skipverjar voru um 30 og björguðust allir nema einn. Þeir voru fluttir heim á Landbrotsbæi. Skipið var stórt og gert út til langs tíma, en það hafði ekki hafið veiðar, þegar því hlekktist á. Í því var mikið af veiðarfærum, mat og salti m.m.
Í umboði sýslumanns, Sigurðar Eggerz, hafði Björn hreppstjóri Runólfsson í Holti umsjón með strandi þessu. Í samráði við útgerð skipsins, ábyrgðarfélag o.fl. aðila var afráðið að bjarga lauslegu öllu úr skipinu eftir því sem tök væru á.
Svo var kveðið á, að bjargendur fengju 1/3 söluverðs þess, er á land næðist hvern dag. Gekk nú boð um sveitina, að menn kæmu á strandstaðinn snemma morguns tiltekinn dag.
Margir urðu vel við þessum boðum og komu í fjöruna á tilteknum tíma. Þegar svo var fallið út, að hægt var að komast að skipinu milli sjóa, fóru nokkrir menn um borð og tóku til verka.
Helgi Þórarinsson, bóndi í Þykkvabæ, var settur til að sjá um vinnuna úti á skipinu, en hreppstjóri tók á móti og skrásetti allt, sem á land kom.
Helgi í Þykkvabæ var dugnaðarmaður, verkhygginn og röggsamur, góður bóndi og í mörgu á undan samtíð sinni.
Nú var gengið rösklega að verki og hröð handtök höfð á, því að vel þurfti að nota tímann, meðan lágsjávað var.
Gíslrún kona mín slóst í för með karlmönnunum á strandstaðinn þennan morgun. Hana langaði til að sjá skipið, en hugsaði sér að halda fljótlega heim. Fleiri konur komu þar á strandstaðinn. Þær stóðu ofan við flæðarmálið, þegar varningur ýmiskonar tók að berast á land. Þá kallar Helgi bóndi háum rómi: „Konur, leggið hönd að verki. Nú verða allir að duga vel!“
Þetta varð til þess, að þær unnu allan þennan dag að björguninni og kveinkuðu sín ekki, þótt Ægir sendi þeim skvettu við og við eða löðraði um fætur þeirra.
Margskonar varningur bjargaðist á land þennan dag, sem svo seldist all-háu verði. Urðu því björgunarlaun þessa daga allrífleg samanborið við venjuleg daglaun þess tíma. Þóttumst við hjónin ungu gera góða ferð, þótt blaut værum og þreytt að dagsverki loknu.
Næsta dag var einnig unnið við skipið, en þá var miklu minna bjargað, enda aðstaða lakari.
Ýmiskonar vínföng voru í togaranum, margar flöskur sáust þar í skápum og hillum.
Þá voru bannlög gildandi á landi hér, og sýslumaðurinn, Sigurður Eggerz, lagði þunga áherzlu á það, að ekkert áfengi yrði flutt frá borði. Ýmsir litu þó hýrum augum á þessi glæsilegu glerílát, og nokkrir reyndu að hylja þau innan klæða sinna og komast með þau á land upp. En það var, sem Helgi bóndi hefði auga á hverjum fingri, og hann var skjótur til orða og athafna, ef þurfa þótti. Nokkrar flöskur sá ég hann taka af mönnum, og þá sló hann þeim umsvifalaust við borðstokkinn, svo að sjórinn fékk sína dreypifórn.
Undir káetugólfinu var kjallarakompa. Þar voru m.a. 12 smátunnur eða kútar. Ómengað koníak var í þeim öllum. Í kjallarakompuna var svo safnað öllum flöskum, sem fundust, hleranum síðan lokað og innsigli hreppstjóra sett fyrir. Þessar drykkjarvörur eru þarna djúpt grafnar í sandinn undir öruggri gæzlu Ægis konungs, því að eftir stuttan tíma var skipið sokkið svo, að um vorið sást aðeins á stafn þess og fremri vörpuboga upp úr sandinum.“


ctr


Þessi hópur er nokkur hluti samkomufólks á skemmtisamkomu í Meðallandi í þann tíð, er Einar Sigurfinnsson fluttist þaðan. Frá vinstri: 1. Ingibjörg Sigurðardóttir frá Lyngum, nú húsfrú í Vík í Mýrdal, 2. Þorgerður Runólfsdóttir frá Bakkakoti, nú húsfrú að Bakkakoti, gift nr. 18, 3. Sigríður Runólfsdóttir frá Bakkakoti, lengi húsfrú að Feðgum í Meðallandi, nú í Hveragerði, gift nr. 14, 4. Jón Ingibergsson frá Melhól. Hann var fluttur til Vestmannaeyja. Drukknaði frá Skálum á Langanesi. Var þá unnusti nr. 16, 5. Sigurður Guðmundsson frá Strönd. Bjó um tíma í Vestmannaeyjum. Er nú ritstjóri í Reykjavik, 6. Ásta Jónsdóttir frá Melhól, alltaf vinnukona í Meðallandi. Mun nú dveljast á elliheimilinu í Hveragerði, 7. Gissur Erasmundsson frá Nýjabæ. Vann lengi foreldrum sínum í Nýjabæ. Síðar rafvirki í Reykjavík. Nú látinn. Ókv., 8. Valgerður Sigurbergsdóttir frá Kotey, nú húsfrú að Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi, 9. Einar Sigurðsson frá Söndum, hálfbróðir Einars Sigurfinnssonar. Lézt um tvítugt, 10. Guðjón Bjarnason frá Hóli, bóndi í Meðallandi; nú að Uxahrygg í Rangárvallasýslu, 11. Júlía Sigurbergsdóttir frá Kotey, lengi vinnukona hjá Helga verzlunarstjóra Helgasyni í Reykjavik. Dvelst nú hjá systur sinni, nr. 8, 12. Sigurbergur Sigurbergsson frá Kotey, um hríð bóndi í Ölfusi. Á nú heima í Reykjavík, 13. Bjarni Bjarnason frá Hóli. Hann var um eitt skeið barnakennari í Vestmannaeyjum, síðan í Reykjavík. Nú látinn. Bróðir nr. 10, 14. Elín Sigurbergsdóttir frá Söndum, húsfrú að Leiðvelli í Meðallandi og síðan að Saurbæ í Ölfusi. Býr nú ekkja í Hveragerði. Systir nr. 8, 11 og 12, 15. Sumarliði Sveinsson frá Feðgum. Lengi bóndi að Feðgum í Meðallandi; nú í Hveragerði. Er kvæntur nr. 3, 16. Eyjólfína Sveinsdóttir frá Feðgum, nú húsfrú á Moldnúpi undir Eyjafjöllum. Systir nr. 15 og 19, 17. Þorbergur Bjarnason frá Bakkakoti, bóndi að Hraunbæ í Álftaveri, 18. Runólfur Bjarnason frá Bakkakoti í Meðallandi, bóndi þar, kvæntur nr. 2, 19. Sveinborg Sveinsdóttir frá Feðgum. Dvelst nú í Hveragerði. Óg. Systir nr. 15 og 16, 20. Magnús Sigurðsson frá Kotey. Var lengi bóndi í Kotey. Á nú heima í Kópavogi. Bróðir nr. 9, 21. Markús Bjarnason frá Hóli. Um skeið bóndi að Hóli og svo Rofabæ í Meðallandi. Nú að Kirkjubæjarklaustri, 22. Gísli Tómasson frá Sandaseli, bóndi að Melhóli í Meðallandi. - Nr. 2 og 3 eru systur. Nr. 8, 11, 12 og 14 eru systkin. Nr. 15, 16 og 19 eru systkin. Nr. 9 og 20 eru bræður. Nr. 10, 13,17, 18 og 21 eru bræður.


„Ugadale“strandar á Steinsmýrarfjöru


„Þann 20. jan. 1911 var bjart veður, spakt og frostlítið.
Seint um kvöldið heyrðu menn á Steinsmýrarbæjum, að hátt lét í Eimskipsflautu. Skömmu síðar sást bál mikið í sömu átt. Þóttust menn þá vita, að skip væri strandað eða á einhvern hátt í nauðum statt.
Menn bjuggust fljótt til ferðar, menn af öllum Steinsmýrarbæjum og Efri-Fljótum með hesta og annað, sem með þótti þurfa og til var.
Suður á Eldvatnsbakka var stanzað og kallað á ferju. Strax heyrðist svarað en lítið sást frá sér. Brátt gaf áraglamið til kynna, að Ásbjörn bóndi á Syðri-Fljótum hefði verið við búinn. Hann vissi, hvað um var að vera og bjóst við Steinsmýringum fljótlega.
Ekki tók langan tíma að koma mönnum og hestum yfir Eldvatnið. Þegar var lagt á hestana, þótt sundblautir væru, og riðið til strandar.
Innan stundar var komið að hinu strandaða skipi. Þarna stóð það og sneri stafni að landi. Og ekki var langt milli lands og skips.
Brim var ekki mikið, því að veður var enn stillt. Nóttin var furðubjört, því að heiðskírt var og stjörnuskin.
Bát frá skipinu hafði rekið allslausan og óbrotinn. Ekki sáust nein merki þess, að menn hefðu komizt á land, en greina mátti menn úti á skipinu. Einhver í hópnum kallaði. Strax var svarað á íslenzku: „Bíðum birtunnar.“
Eftir drykklanga stund var bjarghring kastað í sjóinn. Við hann var tengd lína. Þetta sást glöggt frá landi, því að tekið var að birta að degi.
Brimaldan bar hringinn hægt og hægt upp að fjörunni, unz vaðbundinn maður gat náð til hans. Þá var línan dregin í land og svo allgilt tóg, sem í hana var bundið.
Rekabútur var grafinn á endann niður í sandinn. Þar var endi tógsins bundinn traustlega um. Síðan var tógið strengt milli skips og lands. Þó lá nokkur hluti þess eftir yfirborði sjávarins. Þegar þessu var öllu traustlega í kring komið, hófst björgunarstarfið. Einn og einn skipsmaður fikaði sig eftir línunni til lands. Þeir héldu sér við hana með báðum höndum, handlönguðu sig eftir henni. Sumir þeirra notuðu bæði hendur og fætur. Þetta gekk allvel. En ekki var unnt að sporna við því, að mennirnir blotnuðu á leiðinni í land, þó að björgunarmenn reyndu að halda línunni ofan sjávar eftir föngum.
Vaðbundnir menn stóðu í sjó undir hendur til þess að hafa meiri og sneggri tök á að bjarga, ef einhver slitnaði af björgunarlínunni sökum mistaka eða vanmáttar.
Loks voru allir strandmennirnir komnir á þurrt land. Alvotir voru þeir en allir ómeiddir og furðu hressir. Einn strandmannanna mælti á íslenzka tungu, var Íslendingur, Gísli Oddsson, og var 2. stýrimaður á þessu skipi, sem var brezkur togari „Ugadale“ að nafni.
Fljótlega voru skipsmenn settir upp á hesta og haldið með þá til bæja. Stutt var heim að Syðri-Fljótum. Þar voru lítil húsakynni en hjartarúm því meira hjá hjónunum þar, Sigríði og Ásbirni. Þess vegna fann þar enginn til þrengsla, fannst okkur.
Fyrst voru hinir sjóhröktu menn, 12 að tölu, færðir úr blautum fötunum. Allir fengu þeir eitthvað þurrt að fara í. Sumir háttuðu ofan í rúmin í baðstofunni.
Þegar nú öllum strandmönnunum var borgið, voru tveir menn vel ríðandi sendir til hreppstjórans. Heim til hans var all-löng leið. Leið því nokkur stund, þar til hann kom á vettvang. Hreppstjóri Leiðvallahrepps var þá Stefán Ingimundarson bóndi í Rofabæ.
Hreppstjórinn var stór vexti og vel að atgervi búinn, - ekki smáfríður, - ágætur vatnamaður og drengur góður.
Stefán hreppstjóri tók venjulega skýrslu af skipstjóra og gerði aðrar þær ráðstafanir, er nauðsynlegar voru. T.d. sendi hann tvo menn á strandstaðinn, sem skyldu vera þar um nóttina, líta eftir skipinu og bjarga undan sjó, ef eitthvað kynni að reka úr því. Þessir menn voru Loftur hreppsnefndaroddviti Guðmundsson á Strönd og Einar Sigurfinnsson.
Aldimmt var orðið, er þeir lögðu af stað frá Fljótum. Innan stundar voru þeir komnir að hinu strandaða skipi.
Skipsbáturinn, sem áður er minnzt á, hafði verið dreginn upp á kampinn um morguninn og honum hvolft þar. Bátinn notuðu þeir fyrir skýli; rótuðu sandi að honum, svo að ekki næddi undir hann, og höfðu smugu undir hástokkinn á einum stað. Matarbita höfðu þeir með sér, kertisstúf og eldspýtur. Þeir gengu um fjörur, en fundu ekkert. Síðan lögðu þeir sig til svefns. Ekki varð þeim svefnsamt um nóttina, mest sökum kulda.
Næsta dag kom hreppstjórinn á strandstaðinn og nokkrir menn með honum, þ.á.m. yfirmenn skipsins. Um fjöruna tókst að komast út í það. Var þá tekinn í land fatnaður skipverja, eitthvað af matvælum o.fl. Svo var öllu vandlega lokað, svo að sæmilega tryggt væri, að enginn sjór kæmist í skipið að öllu óbreyttu.
Áður en heim var haldið, bætti hreppstjóri við tveim varðmönnum, svo að nú voru fjórir. Þeir höfðust við undir bátnum milli þess, sem þeir litu eftir skipi og skyggndust um strandfjöruna.
Ekki var hreyft neitt við skipinu eða munum þess. Það stóð á réttum kili, að heita mátti. Sandur safnaðist daglega að því, svo að nálega mátti ganga að því þurrum fótum um fjöruna. Skipstjóri, stýrimenn og 1. vélstjóri komu daglega á strandstaðinn ásamt fylgdarmanni, sem stundum var sjálfur hreppstjórinn. Þeir héldu öllu hreinu og fáguðu í skipinu, því að ætlun þeirra var að fá því fleytt aftur á flot. Aðrir skipverjar voru fluttir til Reykjavíkur, svo fljótt, sem því varð við komið.
Íslendingurinn Gísli Oddsson var 2. stýrimaður, eins og áður greinir. Hann reyndist ötull og duglegur og virtist ráða mestu um meðferð skipsins og undirbúning að björgun þess.
Gísli Oddsson gerðist síðar skipstjóri á „Leifi heppna“ og fórst með honum á Halamiðum í mannskaðaveðrinu mikla 1926.
Einn daginn kom björgunarskipið „Geir“ til að athuga allar aðstæður til björgunar. Þetta var danskt björgunarskip með danskri áhöfn. Ekki mun þeim hafa litist á björgunarmöguleikana, því að þeir hurfu frá samdægurs og sáust aldrei meir.
Þegar sjó stækkaði, rótaðist sandurinn frá skipinu, og virtist þá losna um það. Loks var þá gerð tilraun til að koma skipinu á flot. Nokkrum mönnum var safnað saman til hjálpar. Nokkru af kolum var varpað fyrir borð. Vélar settar í gang. Róið á bátum út fyrir blindeyrarnar. Þar var lagt akkeri. Úr því lágu vírar á vindu togarans. Dýpið við ströndina var kannað á ýmsum stöðum o.s.frv.
Loks tók skipið að bifast og mjakast hægt og hægt frá ströndinni. Brátt flaut það laust. Svo stóð það aftur fast á sandrifi nokkru utar. En á því varð einnig sigrast, með því að leggja fyrsta kraft á vélina og vinduna, - og brátt flaut skipið á fríum sjó.
Báturinn kom í land til þess að sækja eitthvað, sem þeir áttu þar. Að því búnu var akkeri dregið upp, flauta skipsins þeytt og haldið frá ströndinni.
Vissulega samfögnuðu Meðallendingar giftu skipsmanna, hversu þetta tókst allt vel.
Mestan og beztan þátt í því að þessi björgun heppnaðist, átti án efa 2. stýrimaður, Gísli Oddsson. Hann var ákveðinn frá upphafi og óþreytandi í björgunarstarfinu. Það var honum mikil hjálp, að hann skildi mál heimamanna og gat því betur sett sig inn í ástæður allar og tekið ráðleggingum, ef gefnar voru.
Ein óveðursnótt hefði getað fleygt skipinu á hliðina, brotið ofan af því og þannig tortímt öllum áætlunum. Og ef svo síðasti sólarhringurinn hefði ekki verið svona veðurspakur og hlýr, sem raun varð á, hefði allt farið öðruvísi og verr.
Eins og getið var, þá voru það aðeins yfirmenn skipsins, sem héldu til í námunda við strandið. Þeir æsktu þess að fá tvo duglega menn með sér, ef skipið næðist út. Til þess gáfu kost á sér Steindór Sigurbergsson í Háu-Kotey og Sigurður Sigurðsson í Lágu-Kotey, - hraustir menn báðir og á bezta aldri.
Þessir 6 menn voru nú innan borðs á þessum brezka togara, þegar hann sigldi frá landi undan Seinsmýrarfjöru í 3. viku þorra árið 1911 eftir 18 daga dvöl uppi í fjörunni.
En ekki voru allar raunir á enda, þótt þetta fallega skip kæmist á rúmsjó, því að veður versnaði mjög, þegar að kvöldi leið.
Fljótt kom talsverður leki til sögunnar, og hann ágerðist, þegar veðrið versnaði. Dælur skipsins urðu óvirkar vegna kolasalla, sem einhvern veginn hindraði starf þeirra. Einnig gekk vélin illa. Þar af leiddi, að skipið hrakti og munaði minnstu, að það strandaði aftur á hættulegum stað.
Loks eftir mjög langt og erfitt strit og starf tókst að hreinsa svo til, að dælurnar unnu hindrunarlaust og vélar gengu sæmilega. Um sama leyti slotaði veðrinu og ferðin hófst vestur með ströndinni.
Í Vestmannaeyjum fengu þeir vistir og vatn og komust svo heilu höldnu til Reykjavíkur.“
---
Margt fleira mætti skrá um strönd og skipreika á fjörum Meðallendinga. Hvert skipsstrand á sína sögu fyrir sig. Ekki hvað minnsti þátturinn í björgunarstarfinu er flutningur á skipbrotsmönnum til Reykjavíkur yfir vötn og margskonar torfærur aðrar í ýmsum veðrum um hávetur. Þeir einir skilja þá erfiðleika, sem farið hafa vetrarferðir með hesta og farangur.
Slík ferðalög heyra nú fortíðinni til, en eru samt ekki ómerkur þáttur í atvinnusögu íslenzku þjóðarinnar.


Hinn 3. des. 1912 fæddist ungu hjónunum, Gíslrúnu og Einari á Steinsmýri, annar sonur. Sá var einnig brátt vatni ausinn og skírður Sigurfinnur, nafni föðurafa síns.
Í strjálbýli þessa lands eru ekki alltaf heimatökin hæg um það að ná í hjálp ljósmóður í tæka tíð eða nægilega snemma. Svo var það hjá ungu hjónunum á Steinsmýri. Þau höfðu eignazt tvö börn. Í hvorugt skiptið hafði sjálf ljósmóðirin verið viðstödd, ekki komin, ekki náðst til hennar í tæka tíð. Ljósmóðirin bjó á Strönd.
Nábýliskonan Jóhanna Einarsdóttir var nærfærin og handlagin. Hún veitti fæðingarhjálpina í bæði skiptin og hjúkraði móður og börnum, þar til hin lærða ljósmóðir kom. Jóhanna húsfreyja var síðan alltaf nefnd ljósa drengjanna.

---

Jólin nálguðust með frið og blessun, - jólin 1912. Ungu hjónin nutu mestu tíðarinnar í trú og auðmýkt, glöð og hress hjá litlu drengjunum sínum. Þannig leið aðfangadagskvöldið og fyrsti jóladagurinn. Þegar útiverkum var lokið þann dag og búverkum, settust ungu hjónin um kyrrt í baðstofukytrunni sinni, sungu jólasálma og nutu hins fagra orðs jólaguðspjallsins og jólalestursins. Í sannleika fannst þeim helgur friður fylla baðstofuna og þau trúðu því, að blessun guðs hvíldi yfir þeim öllum og litla heimilinu þeirra. Þau ræddu um það, að þetta væru unaðslegustu jólin, sem þau hefðu lifað, og friður guðs fyllti hjörtu þeirra í einlægu trúartrausti og tilbeiðslu.


Sviplega syrtir að


A 2. jóladag var smávegis viðbúnaður, því að daginn eftir átti að skíra litla drenginn þeirra. Komið var kvöld og Einar bóndi kominn inn frá gegningum og öðrum útiverkum.
Olíuvél stóð á borði við útvegginn nálægt miðri baðstofu. Á vélinni var lítill pottur með bráðinni feiti. Þar átti að steikja í kleinur.
Litli óskírði drengurinn lá í vöggu sinni innan til í baðstofunni. Eldri drengurinn, Sigurbjörn, var þar líka að leikjum.
Allt í einu logaði upp úr pottinum á olíuvélinni. Í sama vettvangi þrífur Gíslrún húsfreyja pottinn af vélinni, en missti hann úr höndum sér á gólfið. Á augabragði logaði bál á miðju gólfinu og stækkaði.
Bæði börnin voru innan við bálið; - það milli þeirra og dyranna.
Faðirinn hljóp út með Sigurbjörn litla og móðir samstundis með hvítvoðunginn úr vöggunni vafinn í sængufötin. Hún hljóp austur hlaðið að útidyrum sambýlisfólksins. Ekki sá faðirinn annað, en að þeim væri að fullu borgið, - þar væri allt með felldu.
Stór tunna af vatni stóð við útidyrnar og vatnsfata hjá.
Úr tunnunni jós Einar vatninu yfir gólfið og slökkti eldinn brátt.
Síðan gekk hann með Sigurbjörn litla á handleggnum inn til sambýlisfólksins. Þá blasti við eiginmanninum og föðurnum sorgleg sjón. Konan hans stóð þarna á gólfinu. Fötin héngu í tætlum utan á líkama hennar og voðaleg brunasár blöstu við sjónum hans. - Eldurinn hafði komizt í föt hennar, þegar hún hljóp fram baðstofugólfið með barnið. Þegar hún svo skundaði með það á móti golunni til sambýlisfólksins, hafði hann magnazt og læst sig um líkama hennar, svo að skíðlogaði í fötunum, þegar hún kom að austurbæjardyrunum. Þar hafði barnið verið þrifið af henni og síðan ausið yfir hana vatni, svo að eldurinn slokknaði brátt í fötum hennar. Eftir stóðu djúp brunasár á baki og víðar.
Strax var sent eftir lækni, en hans var að vitja að Breiðabólstað á Síðu. Þangað var langur vegur og því tók það langan tíma að sækja hann.
Læknirinn kom loks og kom þá allslaus. Hafði ekkert meðferðis, engar umbúðir, engin lyf. Hann leit á sjúklinginn og sagði: „Þetta grær með tímanum.“ Síðan hvarf hann heim aftur.
Fy1gdarmaður læknisins kom aftur með baðmullarlagð og eitthvað í glasi, - og svo með skipan læknisins auðvitað: „Bera þetta á sárin og vefja síðan með hreinu, gömlu lérefti.“ - Það var gert og rénuðu þjáningarnar þá þegar.
Presturinn kom eins og til stóð og barnið var skírt við sjúkrabeð móðurinnar.
Á öðrum degi var móðirin flutt í eigið hús. Líðan hennar virtist bærilegri. Hún var róleg og öll voru þau vongóð.
Daginn fyrir gamlársdag var Gíslrún húsfreyja með hressara móti. Tengdamóðir hennar kom þá í vitjun og tók heim með sér yngri drenginn.
Síðari hluta næsta dags, gamlársdags, tók sjúklingnum að þyngja fyrir brjósti. Þá var Runólfur smáskammtalæknir (hómópati) í Hólmi sóttur. Hann hlustaði sjúklinginn og lét í té lyf, sem drógu úr slæmri líðan.
Þegar smáskammtalæknirinn fór, átti hann einslegt samtal við eiginmanninn. „Það er þungt að verða að segja þér það, Einar, að hér er ekkert að gera. Lífið er að fjara út. Hjartað gefur sig, þegar minnst varir. Ég segi þér þetta afdráttarlaust, af því að ég þekki þig og þú veizt, hvar huggunar er að leita.“
Á nýársmorgun 1913 fóru gestirnir, móðir Einars bónda með yngri drenginn þeirra hjóna og Sigurður bróðir Einars, sem fylgt hafði móður sinni af bæ. Gíslrún var mjög máttfarin um morguninn. Þó gat hún tekið kveðju þeirra og veitt barninu blessun sína. -
Stutt stund leið. Aftur opnar hún augun og segir veikri röddu: „Bið þú nú fyrir okkur. Jesús er hér inni.“ - Meira skildi ekki eiginmaðurinn. Hann svaraði með nokkrum bænarorðum.
Enn leið nokkur stund. - Andardrátturinn varð sífellt veikari. – Enn opnar hún augun og rennir þeim til. Bros leikur um varir hennar. - Andvörpin. - Síðasti neisti þessa lífs slokknaður. Stríðinu var lokið. Þá var skammt liðið af hádegi.
Tveir bændur í nágrenninu smíðuðu líkkistuna og jarðarförin fór fram frá Langholtskirkju hinn 15. jan., sama mánaðardaginn og þau unnu trúnaðarheit sitt 4 árum áður, Gíslrún og Einar.
Foreldrar Gíslrúnar heitinnar buðu Einari að taka eldri drenginn hans, Sigurbjörn litla, til fósturs „fyrst um sinn“. Það góða og drengilega boð þekktist faðirinn, enda þótt það væri ekki sársaukalaust að láta drenginn frá sér ofan á allt annað. Drengurinn fór því að Háu-Kotey þegar eftir jarðarför móðurinnar, og þar naut hann ástúðar og umönnunar, eins og bezt varð á kosið.
Skömmu síðar fór Einar bóndi að Háu-Kotey með kú sína, sem komin var að burði, og gaf hana tengdaforeldrum sínum sem ofurlitla þóknun fyrir velgjörðir þeirra og drengskap, er þau auðsýndu honum og drengnum í sárum raunum.
Nú bjó Einar Sigurfinnsson einn í bæ sínum á Steinsmýri. Hann hirti um skepnur sínar og veturinn leið. Allir nágrannar og margir aðrir voru honum mjög hjálplegir og sýndu honum alúð.
Stundum tók Einar hest sinn og hnakk og heimsótti frændur og vini á Koteyjarbæjunum. Litlu drengirnir hans döfnuðu vel, enda nutu þeir ástúðar og umhyggju hjá ömmum sínum og öfum og öðru frændfólki.
Ef þú lesari góður óskar að vaxa og þroskast af því að lesa þessa frásögn mína, þá gefðu þér tíma til að hugleiða nú líf Einars Sigurfinnssonar. Hann hefur misst heitt elskaða eiginkonu, sem sannarlega átti alla þá ást skilið. Sú kona hefur vissulega skilið eftir djúpt sár í sálarlífinu. Sökum þessa sára missis hefur hann neyðzt til að láta frá sér drengina sína. Einn er hann eftir í kotinu sína lága.

Nokkrar hugsanir Einars höfðu fallið hjá honum í stef og stuðla á einverustundum vetrarins:

Það heyrist ei andartak, - hljótt er í byggð.
Æ hjartað er nákulda lostið.
Um hádegi sólin er húmdökkva skyggð,
hvarmljósið fegursta brostið.
Þá rósin mín ástkæra er fölnuð svo fljótt
á fegursta ævinnar skeiði.
Nú kringum mig allt er svo kalt og svo hljótt;
mín kærasta von með þér deyði.
Þín elska var hrein eins og hávetrarmjöll
og heit eins og sólríkur dagur.
Með ást þinni veittist mér ununin öll
og auður til minningar fagur.
Nú er allt horfið, en horfið ei þó,
í hjartanu minning ég geymi
um yndið margfalda, sem ást þín mér bjó,
það aflið, sem mest er í heimi.
Ég horfi til þín yfir hverfleikans sjó
með hugraunum djúpum og sárum.
Þann reitinn, sem vonin mér varma sinn bjó,
ég vökva með brennheitum tárum.
Ég þakka þér, elskan mín, ást þína og tryggð
og allt, sem þú starfa hér náðir.
Ég þakka af hjarta' ina tállausu tryggð
og tápmikla stríðið, sem háðir.
Og brosfögru kærleikans blómin vor smá,
er bezt glæða vonina mína,
þau sízt munu gleymast: Hve sælt var að fá
að sofna við armana þína.
Vér gleymum ei hættunnar geigvænu tíð,
er gekkst þú hin síðustu sporin,
með hugprýði þreyttir hið þungbæra stríð,
af þolmagni kærleikans borin.
Nú úti er stríðið og unnin hver þraut,
og öll eru læknuð þín sárin.
Þú fagnandi lifir við frelsarans skaut
í friðsælli ró, - laus við tárin.

Að eggjan séra Sigurbjörns Á. Gíslasonar sótti Einar Sigurfinnsson um styrk úr hinum danska „Carnegis-verðlaunasjóði handa þeim sem hugrekki sýna“ til uppeldis drengjunum hans, þar sem móðirin með hugrekki sínu hafði sannanlega bjargað öðrum drengnum sínum.
Að fengnum öllum skilríkjum, vottorðum og mörgum bréfum „féllst stjórn sjóðsins á að veita Einari kr. 200,00 styrk á ári í 5 ár sökum hugprúðrar framgöngu móðurinnar, sem orsakaði dauða hennar.“
Einar Sigurfinnsson telur síðan séra Sigurbjörn Á. Gíslason einn hinn mesta drengskaparmann, er hann hefur kynnzt á lífsleiðinni og ber jafnan til hans óblandinn þakkarhug.
Ekki undi Einar lengi á Steinsmýri eftir hinn sorglega atburð. Vorið 1913 flutti hann til fólksins síns að Lágu-Kotey og fékk þar nokkrar grasnytjar. Þar byggði hann hús yfir skepnur sínar. Þarna dvaldist hann að nokkru leyti í heimili móður sinnar og stjúpa, og þarna gat hann séð drengina sína daglega.
Vorið 1919 tók Einar Sigurfinnsson Sigurbjörn son sinn til sín. Kristín móðir Einars og amma drengsins taldi það ekki eftir sér að veita honum umönnun ofan á öll önnur móður- og húsmóðurstörf. Hún hafði þá alið 15 börn og voru 8 þeirra á lífi, öll heima að Lágu-Kotey hjá henni.
Nú loks fannst Einari Sigurfinnssyni hann aftur hamingjusamur, eftir því sem hann gat á ný fundið þá tilfinningu innra með sér, með því að nú hafði hann aftur báða drengina sína hjá sér og gat sjálfur annazt uppeldi þeirra.
Sigurbjörn var þá 8 ára og Sigurfinnur 6 1/2 árs. Hann kenndi þeim lestur og önnur atriði undir frekara nám.