Blik 1962/Ofanbyggjarar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



FRIÐFINNUR FINNSSON:


Ofanbyggjarar
á fyrstu árum tuttugustu aldar
—hugsun, störf og strit



HUGLEIÐINGAR OG LÍFSREYNSLA.


Því er víst mjög oft þannig varið, er menn fara að eldast, að minningarnar frá æskuárunum og æskustöðvunum verða áleitnar, og þá gera menn ósjálfrátt samanburð á því, sem var, og því, sem er, um dagleg störf og lífsvenjur. Um þetta tala eldri menn og kunningjar, þegar þeir hittast á förnum vegi. Hjá eldri kynslóðinni geymist samanburðurinn hverju sinni.
Ég hét í sumar ritstjóra þessa rits að segja lesendum þess eilítið frá lífi fólks og heimilisháttum, störfum og lífsbaráttu á bæjunum „fyrir ofan Hraun“, þ.e. Ofanleitisbæjunum, þegar ég var að alast þar upp fyrir 40—50 árum með þeirri kynslóð, sem síðust mun hafa búið við þau frumstæðu lífsskilyrði, sem hér höfðu verið ríkjandi um langa tíð og jafnframt átt sinn þátt í að skjóta styrkum stoðum undir þær miklu framfarir, sem nú hafa átt sér stað með öllum þeim lífsþægindum, sem þeim eru samfara.
Ég vil reyna að draga upp dálitla mynd af daglegu lífi fólksins þarna á bæjunum, eins og ég man það sannast og bezt.
Fyrir hugarsjónum mínum svifa óteljandi myndir, hver annarri fegurri. Ég sé menn og konur líða fram hjá með glöðum svip. Allt eru þetta vinir mínir og velunnarar, samferðamenn um lengri eða skemmri tíma, en nú horfnir bak við tjaldið, sem skilur okkur að.
Það er mér yndi að hlusta og horfa á liðna tíð, sjá bernskuna og unglingsárin líða fyrir sjónir, þegar allt var svo fagurt og heillandi, allt brosti við manni og virtist kleift. Ekki breyttist þetta lífsviðhorf, þó að þroskaárin tækju við. Loftkastalarnir, sem við krakkarnir byggðum, urðu aldrei of háir, þó að þeir hryndu jafnharðan. Ekki þurfti annað en að hefja að nýju byggingu þeirra. Sú hugmyndagerð var alltaf jafn ánægjuleg. Þessir loftkastalar voru líka byggðir í skjóli eldra fólksins, sem hvatti okkur til dugs og dáða. Þeir voru allir tengdir óskum og vonum um að geta orðið til liðs með aldrinum, til styrktar öldnum og óbornum, og fá að lifa í friði með samferðafólkinu í trú á Guð og allt fagurt og gott, eins og uppalendur okkar kenndu okkur. Við lifðum í skjóli og vernd eldra fólksins og undum þar vel hlutskipti okkar, áhyggjulaus og örugg.
Í sannleika veittum við þeirri lífsbaráttu takmarkaða athygli, sem eldra fólkið háði, meðan við nutum hennar. Allt skiljum við það nú betur. Hún var m.a. háð til þess, að okkur börnunum gæti liðið sem bezt.
En tíminn leið þá eins og nú, og eldri samferðamennirnir hurfu smámsaman á braut. Þá minnkaði skjólið, sem þeir höfðu veitt okkur, þar til það hvarf með öllu og alvara lífsins tók við, tók að ná til okkar, sem ung vorum og áttum svo að segja allt lífið framundan. Við urðum nú að skapa okkur eigin skjól með þau heilræði í huga, sem hin hverfandi kynslóð vina og velgerðarmanna hafði kennt okkur og lagt okkur á hjarta: Munið að treysta Guði og biðja hann um vernd, sýnið trúmennsku í starfi, vinnið og verið vinnuglöð. Það er hamingjuleiðin.
Þegar við gengum til prestsins, séra Oddgeirs, til undirbúnings fermingunni, hvatti hann okkur unglingana til dáða og drengskapar og brýndi fyrir okkur að þjóna ávallt hinu góða í lífinu. Þegar mennirnir láta stjórnast af Guði, sagði hann, verða þeir Guðsmenn og skapa guðlegt réttlæti á jörðu. Það er hin fullkomna lausn á öllum vandamálum heimsins, sagði hann. Einnig hvatti prestur okkur til að sækja ætíð kirkjuna okkar og muna að hún ætti ætíð að vera okkar andlega móðir.
Það er sannfæring mín, að öryggið mesta til að koma lífsfleyi sínu heilu í höfn gegnum brim og boðaföll lífsins sé trúin á almáttugan guð. Ekkert af því, sem okkur var kennt í æsku og hér hefir verið drepið á, mun tækni nútímans hafa fellt úr gildi, nema síður sé. Einnig er það sannfæring mín, að hamingja mannanna sé nú sem fyrr fólgin í því að njóta þess eins, sem unnið er fyrir í sveita síns andlitis.

ÁRLEG STÖRF Á OFANLEITISBÆJUM.
1.
ctr


Fiskþvottur á þeim árum, sem grein F.F. greinir frá.


Eftir áramót hófst vertíð eins og nú oftast, en öll var hún þá í smærri stíl. Vélbátaútvegurinn var að hefjast og bátarnir þetta 6—8 smálestir. Flest heimili fyrir ofan hraun stóðu í einhverjum tengslum við útgerðina. Flestir bændurnir áttu hlut í bát, margir 1/6 hluta. Einnig áttu flestir bændurnir fiskkró niðri við Sand, þ.e. niðri í bæ, og gerðu sjálfir að afla sínum þar, en daglegum afla var eins og áður, meðan opnu skipin voru gerð út, skipt á bryggju. Bændur og búaliðar, konur sem karlar, unnu að bátshlutnum. Bændur beittu sjálfir og réru, eða þá útgerðarmenn þeirra, en svo voru vertíðar- eða sjómenn þeirra kallaðir þá, sem réru á þeirra vegum vegna eignarhluta þeirra í bát eða bátum. Mjög algengt var, að kvenfólk ynni að fiskaðgerðinni. Þetta fólk gekk svo götutroðninginn „upp fyrir Hraun“ að verki loknu.
Krakkar höfðu líka sitt hlutverk að inna af hendi. Þeir færðu fólkinu mat og kaffi niður í bæ. Alltaf þurfti að flýta sér í þeim sendiferðum, svo að maturinn eða kaffið kólnaði ekki um of á leiðinni, því að þá voru ekki svo mikil þægindi sem hitaflöskur til að halda kaffinu heitu á.
Það fólk, sem heima var alltaf, svo sem konan og sumir liðléttingar, hugsuðu um og hirtu skepnurnar, meðan vertíð stóð yfir. Áttu bændur 1—2 kýr og 10—20 kindur á fóðrum, og margir 1 hest. Hesturinn var eina farartækið til mann- og vöruflutninga. Á honum var mest allt flutt að og frá heimilinu. En margir báru að og frá heimilinu á sjálfum sér meira og minna. Áhald, sem kallað var burðarskrína, var þá til á hverjum bæ, að ég bezt man, og jafnvel tvær, þar sem margt var heimilisfólkið. Þessar skrínur voru með bandi, sem brugðið var venjulega um hægri öxl. Þær þóttu þægilegar til að bera í soðfisk, sundmaga o.fl. þessháttar. Einnig vöruúttekt úr búð, ef lítil var. Allt stærra var flutt á hestum. Sumir áttu laupa, sem festir voru á klakkinn á reiðingshestunum. Á botni laupsins voru lamir öðru megin og hespa á frambrún botnsins, svo að auðvelt var fyrir liðléttinga að losa burðinn af hestinum, þegar heim var komið.
Á mínum uppvaxtarárum var vetrarríki hér miklu meira en nú. Oft komu þá á veturna harðindakaflar og snjóar svo miklir, að ekki var fært með hesta niður í bæ.
Ekki man ég, hvenær ruddur var vegur fyrir hestvagna upp fyrir Hraun, en mig minnir, að það hafi verið gert á árunum 1912—1914. Það þóttu þá miklar framfarir. Eftir það fóru Ofanbyggjarar að fá sér aktygi og hestvagna, fyrst tveir saman og svo eftir efnum og ástæðum.

2.

Um sumarmál voru lömbin sótt í Smáeyjar, þar sem þau höfðu gengið úti allan veturinn. Lömbin voru þá flutt í Bjarnarey, á þann leigumála, sem hver bóndi hafði þar. Um svipað leyti voru gemsar fluttir í Úteyjar, þeir, sem fóðraðir höfðu verið heima um veturinn.
Eftir vertíðarlokin (11. maí) hófst verkun vertíðaraflans. Þá var saltfiskurinn þveginn og síðan fluttur út á fiskreitina, stakkstæðin. Sá fiskflutningur fór ýmist fram á handvögnum eða hestvögnum, eftir því, hversu langt var að flytja fiskinn, en áður en vagnar komu hér til sögunnar, var fiskurinn fluttur á klakk á stakkstæðin eða borinn á handbörum.
Einn þáttur vorverkanna var að pæla kartöflu- og rófugarðana og sá í þá eða setja niður útsæðið, og svo auðvitað að bera á túnin.
Safnþrær höfðu bændur við öll fjós til þess að nýta áburðinn sem allra bezt. Oft voru líka vanhús bæjanna staðsett á þeim.
Áburðarvinnan hófst með því, að hrært var vel upp í forinni, mykjan hrærð vel saman við vökvann. Forin var síðan borin í stömpum út á túnin. Á forarstampi voru tvær járnlykkjur sitt hvoru megin. Svo voru stamparnir bornir út á túnið með stöngum, sem voru um 2 1/2 metri á lengd. Á hvorri stöng miðri var járnkrókur, sem krækt var í lykkju á stampinum. Þannig báru tveir menn forarstampinn á milli sín á stöngunum út á tún. Þar var síðan höfð fata, sem þeir jusu forinni með út um völlinn. Óuppleystur húsdýraáburður var ýmist borinn út á tún á handbörum eða honum ekið í hjólbörum. Um annan áburð var ekki að ræða í þá daga.
Kvenfólk og unglingar, sem algengt var að ynnu að þessari áburðarvinnslu, voru látin nota svokölluð börubönd. Þau voru þannig, að reiptagl var látið liggja aftan á hálsi og um herðar og lykkju á endum þess smeygt upp á börukjálkana til þess að létta á handleggjunum.
Um allan forarburð að vorinu ríkti mikil samhjálp á milli heimilanna og unnið að henni mikið í skiptivinnu.
Í úteyjar var farið í maímánuði til að setja fé í sumarhaga. Nokkru síðar var farin ein eftirlitsferð þangað, áður en allsherjar-rúningsferðin var farin, en hún var mjög háð veðurfari að vorinu.

Fuglaveiðimenn í Bjarnarey 1922. Þeir eru: Haraldur Eiríksson, Sigurgeir Jónsson, Kristmundur Sæmundsson, Friðfinnur Finnsson og Árni Finnbogason. (Hjálmar Eiríksson tók myndina).

Í sjöundu viku sumars var farið til svartfuglaeggja, bæði í Bjarnareyjar- og Elliðaeyjarleigumála, en Ofanbyggjarar áttu í þeim báðum. Eggjatekjan og það mikla búsílag, sem hún var bændum, fór mikið eftir því, hvort komizt var í úteyjar á réttum tíma sökum brims. Það var mjög undir hælinn lagt. — Eggin voru „gefin niður“ á ýmsum stöðum á eyjunum og þurfti ládeyðu til, ef vel átti að takast.
Bjarnareyjarleigumálann, sem Smáeyjar fylgdu, höfðu þessar jarðir: Ofanleiti, sem er fjórar jarðir og á nytjar af helmingi eyjarinnar, Gvendarhús, Suðurgarður (áður Svaðkot), Draumbær og Brekkhús, sinn áttunda hlutann hver eða samtals helming. Hverri jörð fylgdi 12 kinda beit í eyjunni að vetrinum og 16 að sumrinu.
Í Smáeyjar voru settir á haustin vænir dilkar til útigöngu, — í Hana 7 dilkar, í Hrauney 9, og var nytjum þannig hagað, að prestur beitti Hrauney annan veturinn og bændur á hinum 4 jörðunum hinn, og þannig var það með hina eyna á víxl.

3.

Allir Ofanbyggjarabændur höfðu útgerð í Klauf suður að vorinu og á sumrin. Þaðan var róið alla daga, þegar sjóveður var og ekkert annað sérstakt hindraði. Þaðan gengu 4 árabátar, sem þessir bændur áttu:
Séra Oddgeir Guðmundsen átti einn bátinn, og réri hann oft með sonum sínum o.fl.
Jón Guðmundsson í Suðurgarði, Sigurður Sveinbjörnsson í Brekkhúsi og Sigurður Einarsson í Norðurgarði áttu einn bátinn saman.
Jón Pétursson bóndi í Þórlaugargerði átti bát einn.
Sæmundur Ingimundarson í Draumbæ, Finnbogi Björnsson í Norðurgarði og Einar Jónsson í Norðurgarði (þar var tvíbýli eins og nú) áttu einn bátinn saman.
Það var í þá daga eins og nú, að fiskurinn var bezti „föðurlandsvinurinn“, enda var eftir honum leitað, hvar sem hans var von. Þá voru eingöngu notuð handfæri.
Fljótt hafa fiskveiðimenn veitt því athygli, að ekki var sama, hvar rennt var færi í sjó. Bezt aflaðist við hraunbrúnir eða bríkur, og svo í pollum, þar sem talinn var sandur í botni en hraunklakkar í kring. Þessir fiskisælu blettir voru miðaðir nákvæmlega á tvo vegu og hlutu oft nöfn, sem kennd voru við örnefnin, sem þeir voru miðaðir við. Stundum réði þó annað en hugkvæmni manna nafnavali. Urmull er slíkra fiskimiða við vestanverða Heimaey, sem Ofanbyggjarar notuðu, allt frá Hænuklakki að norðan suður að Súlnaklakki, en það var syðsta miðið, sem sótt var á. Þeir voru býsna glöggir á miðin, gömlu mennirnir. Þetta voru þeirra vísindi, ratarar og fisksjár þeirra tíma.
Með þeim miklu breytingum, sem orðið hafa á allri aðstöðu til sjósóknar síðustu áratugina, hafa hin litlu áraskip horfið gjörsamlega. Þar með fyrnzt yfir nöfn hinna gömlu fiskimiða og sjálf gleymast þau með þeirri kynslóð, sem notaði þau og óðum er að hverfa. En vissulega væri það mikilvægt máli og menningu þjóðarinnar að safna þeim hagalögðum og geyma óbornum kynslóðum. Þeim sjómönnum, sem stunda sjó á opnum vélbátum hér grunnt við Eyjar, gæti orðið fengur að öllum þeim fróðleik.

4.

Ég ætla nú að lýsa einum róðrardegi úr Klauf. Það er ekki neinn sérstakur dagur, en ég hugsa mér hann í september. Annars er hver dagurinn slíkur öðrum líkur.
Ég tek dæmið að haustinu, því að það var oft fengsælasti aflatíminn. Formaðurinn fer á fætur klukkan 4 eða löngu fyrir rismál til þess að skyggnast til veðurs. Nauðsynlegur eiginleiki góðs formanns er að vera veðurglöggur. Og Ofanbyggjarar standa þar vel að vígi, því að víður er þar sjóndeildarhringur, og þar kunnu ýmsir að lesa rétt á hina opnu bók náttúrunnar og draga þar af réttar ályktanir. Það gat varðað mörg mannslíf, að rétt væri úr þeim rúnum lesið.
Litist formanni vel á veðurútlit, fór hann til að vekja hásetana, sem venjulega voru þrír.
Nestið á sjóinn var venjulega svo sem tvær flatkökur á mann. Einnig hafði skipshöfnin með sér trékút og á honum 5—6 lítra af drykkjarvatni, sem formaðurinn sá um. Skinnklæði sín og handfæri báru menn á öxlinni að heiman hvert sinn, er ýtt var úr vör. Skinnklæðin voru skinnbrók og skinnstakkur, hvorttveggja gert úr sútuðum sauðskinnum og saumað heima. Borin var fernisolía í skinnklæðin, til þess að gera þau þéttari. Þau reyndust hlý og góð skjólföt, ef þau voru vel gerð. — Sjóskór fylgdu brókinni. Þeir voru úr erlendu sólaleðri eða vatnsleðri.
Um hálfrar stundar gangur er út í Klauf af Ofanbyggjarabæjunum. Þegar þangað kom, lögðu menn af sér byrðarnar, leystu bátinn, sem var venjulega bundinn í nausti við augabolta, sem festir voru í klappirnar. Hver bátur átti þarna sitt naust. Síðan voru hlunnar teknir fram og raðað aftur undan bátnum, svo að léttara yrði að setja fram til sjávar. Hlunnarnir voru venjulega úr hvalbeini eingöngu eða þá gjörðir úr eik eða öðrum hörðum viði og festur hvalbeinsbútur á þá miðja, svo að betur rynni á þeim. Þegar báturinn hafði verið settur fram í sjávarmál, skinnklæddi skipshöfnin sig og ýtti síðan á flot.
Þegar komið var nokkrar bátslengdir frá vörinni, tók formaður og þá skipshöfnin öll ofan höfuðfatið. Þá las formaður sjóferðarbæn. Hún var svo hljóðandi:
,,Við skulum allir biðja eilífan og almáttugan Guð að vera með okkur í Jesúnafni. Förum við svo okkar leið í ótta Drottins. Guð almáttugur leggi sína verndarblessun yfir okkur bæði á sjó og landi þennan dag og alla aðra. Í Jesúnafni amen.“
Síðan var tekin stefnan suður í námunda við Hellisey, en þangað er um stundar róður. Þar var svo leitað eftir fiski og á öllu svæðinu suður undir Súlnasker. Þetta reyndist oft fiskisælt svæði.
Klukkan að ganga fimm e.h. var farið að halda heimleiðis. Væri kula, var hún vel þegin, svo að hægt væri að létta róðurinn heim í vör.
Aflinn á þessu suðursvæði var að miklu leyti þyrsklingur og keila. Oft fengust þar einnig 1—2 stórar lúður í róðri. Þær þóttu góð uppbót.
Þegar lent var og gott var í sjó, var fiskurinn borinn upp úr bát í eina hrúgu. Að því verki loknu, var bátnum brýnt. Þá drukku menn kaffi, sem fært var að heiman. Það komu jafnan krakkar með ásamt reiðingshesti til þess að flytja aflann heim á. Því næst var báturinn settur í naust og bundinn. Síðan skipti formaður aflanum. Væri skipt í 4 staði, byrjaði hann á að leggja saman 4 fiska sem jafnasta, þar til hann var búinn að skipta upp öllum aflanum í 4 staði. Lúða var rist í tvennt eftir endilöngu og síðan hvorum helming í tvennt. Sá, sem dró lúðuna, fékk hnakkastykkið með hausnum. Það var „premían“ hans.
Næsta verk var að seila fiskinn á þar til gerðar seilanálar, sem voru venjulega um 20 sm á lengd með auga í aftari enda og tvöföldu snæri um 1 m á lengd. Væri um þorska að ræða, voru 4 settir á hverja seil og 4 seilar á hest eða alls 16 þorskar. Það var talinn hæfilegur hestburður. Oft kom það fyrir að fara varð tvær ferðir, þegar vel aflaðist.
Þegar aflinn hafði verið fluttur heim að bæ, var matast. Síðan var farið að gera að aflanum, sem venjulega var saltaður í tunnur eða stóra kassa. Allur smáfiskur var spyrtur og hengdur upp, — soðfiskur. Þar með var þessi dagur á enda.
Alla árabáta þeirra Ofanbyggjara smíðaði Jón Pétursson bóndi í Þórlaugargerði. Hann var einn af þessum eðlisfæddu snillingum, sem allt geta gert. Bátasmíði sína stundaði hann og framkvæmdi við svokallaða Kattarkletta austast í túni sínu, þar sem hann hafði hlaðið axlarháa tóft í kring til skjóls. Á seinni árum sínum smíðaði hann þarna líka marga skjögtbáta, sem svo voru nefndir, en þeir urðu að fylgja hverjum vélbáti, eins og allir vita, meðan þeim var lagt við festar á höfninni.
Fiskurinn var býsna drjúgt búsílag Ofanbyggjurum, þegar vel aflaðist. Þar fengu þeir fyrst og fremst soðfisk til ársins, og svo sendu flest heimili nokkra hestburði til landsins, aðallega undir Eyjafjöll og í Landeyjar, og fengu kindur í staðinn sendar til Eyja. Þessi viðskipti og „vöruskipti“ héldust um áratugi. Ef til vill hafa þau átt sér stað frá upphafi byggðar í Eyjum.
Sá fiskur, sem seldur var í verzlanir í bænum, var þveginn heima og þurrkaður á klöppum í hrauninu. Oft gátu heimilin lagt inn í verzlanir 3—5 skippund árlega (hvert skipd. er 320 pund eða 160 kg).
Aldrei man ég eftir að hafa heyrt því formælt, þó að lítið aflaðist róður og róður. „Við áttum ekki meira hjá skaparanum,“ sögðu gömlu mennirnir.

5.
Efri myndin er af fjársafni bœnda í Bjarnarey. Neðri myndin er af einum þeirra mörgu báta með fœreysku lagi, er Jón Pétursson bóndi i Þórlaugargerði smíðaði handa Eyjamönnum.

Tvisvar var smalað fé fyrri hluta sumars um alla Heimaey, í júnímánuði og svo nokkru síðar eftir ástæðum. Ofanbyggjarar smöluðu Stór-Höfða og Steinstaðaheiði ásamt hrauninu. Allt féð var rekið inn á Eiði og réttað þar í Almenningnum. Í fyrri smölun voru lömbin mörkuð og allt féð athugað, en í seinni rétt var féð rúið.

6.

Í byrjun júlímánaðar eða 11 vikur af sumri hófst lundatíminn. Hann var 4 vikur. Þá lágu fuglaveiðarar við í úteyjum, — Ofanbyggjarar í Bjarnarey og Elliðaey. Veiði var ávallt nokkuð misjöfn frá ári til árs og var hún háð veðráttu og fleiru. Oft nam hlutur manns og jarðar þrem þúsundum lunda yfir veiðitímann. Fuglinn var sóttur út í eyjar tvisvar í viku og um leið færður matur veiðimönnunum. Þetta starf höfðu tveir menn á hendi á árabát og fengu fyrir það 50 lunda í hvert skipti. Bátshluturinn var tveir lundar af hverri lundakippu, en í henni voru 100 lundar.
Þegar lundinn var heim kominn, tóku kvenfólk ok krakkar til að reyta hann. Síðan var hann að miklum hlut saltaður niður í tunnur til vetrarins. Einnig var hann reyktur til matar og borðaður nýr.

7.

Þegar leið fram á sumarið, var tekið til að hirða matjurtagarðana, reytt illgresi og hlúð að jurtunum. Það verk gerðu kvenfólk og krakkar oftast nær eftir því sem kraftar hrukku til.
Um svipað leyti hófst einnig túnaslátturinn. Þá voru annir mjög miklar á öllum heimilum. Oft voru bændur svo fáliðaðir, að þeir gátu ekki notfært sér lundatímann nema til hálfs sökum heyanna.

8.

Upp úr miðjum ágústmánuði hófust fýlaferðir, sem svo voru kallaðar, og stóðu í 3—4 daga. Mest af fýlakjötinu var saltað niður í tunnur. Það var haust- og vetrarforði. Einnig var fýlakjötið reykt og þótti mesta hnossgæti.

9.

Þegar tók að líða fram á sumarið, þurfti að verja tún og garða fyrir ágangi sauðfjár. Voru þá krakkar látnir smala hraunið á hverju kvöldi og reka féð inn á Torfmýri, svo að það færi ekki í tún og garða á nóttunni. Hundar voru á öllum bæjum. Þeir lágu úti jafnan að sumrinu og stugguðu þá fénu frá túni og garði, þegar svo bar undir. A.m.k. hafði féð nokkurn ótta af þeim.

10.

Einn dag haustsins var alltaf farið til sölva. Sölin voru tekin á Sölvaflánni norðan í Stórhöfða. Á Flána var farið á bátum úr Klaufinni, bæði karlar, konur og krakkar. Þótti það góð tilbreyting og upplyfting. Úr Klaufinni voru sölin flutt heim að bæjum á hestum. Síðan voru þau þurrkuð nokkra daga, sett í tunnur og fergð. Þóttu hið mesta sælgæti með harðfiski.

11.

Meðan fjöruþang var notað til eldsneytis, tók það tvo daga að haustinu að afla þess. Þangið var skorið með stórum hnífum af flúðum og steinum á stórstraumsfjöru. Kvenfólk og krakkar inntu það starf mest af hendi. En karlmenn báru þangið í strigapokum upp fyrir sjávarmál, þar sem það var þurrkað nokkra daga, síðan bundið í bagga og flutt heim á hestum. Um þangtökuna var jafnan samvinna milli heimila og því skipt upp eftir hestburðum, þegar búið var að þurrka það. Mest var þangið tekið í Brimurð og nokkuð í Klaufinni. Þangið þótti sæmilega gott eldsneyti, sérstaklega bóluþang. Því var að langmestu leyti brennt í útieldhúsum, sem þá voru á hverjum bæ fyrir ofan Hraun.
Þá var að haustinu oft farið á grasafjöru og tekin fjörugrös til skepnufóðurs. Þau voru reytt af fjörugrjótinu með berum höndum. Algengt var, að menn urðu blóðrisa á höndum eftir það verk. Eins var með þau og þangið: Þau voru pokuð, flutt heim á hestum og þurrkuð á túninu. Síðan voru þau látin í tunnu og fergð. Á vetrum voru þau gefin kúm með fóðurbæti. Þá var hellt á þau heitu vatni. Þau þóttu ágætt fóður.

12.

Þegar á haustið leið, var lítið um alla aðdrætti. Menn dyttuðu að heimilum sínum, bjuggu í haginn fyrir sig svo sem með því að stækka kálgarða sína, gera nýja, fjarlægja nokkrar þúfur í túni sínu eða stækka það. Allt var þetta seinvirkt með þeim tækjum, sem þá voru tiltækileg og notuð, rekan og ristuspaðinn. Tún og garðar stækkuðu samt, þótt hægt færi, bústofn óx að sama skapi og menn undu furðu glaðir við sitt, enda ekki um annað að ræða, engin önnur úrræði.

13.

Þegar kolaskip kom að haustinu, reyndu allir Ofanbyggjarar að birgja sig upp af eldsneyti eftir efnum og ástæðum. Kolin voru auðvitað flutt heim á reiðingshestum eins og annað, tveir pokar á hesti. Það þótti ágætt, ef bóndi gat t.d. keypt 10—12 skippund af kolum til ársins. Það var víst hámarkið. Allir bændur unnu saman að kolaflutningunum. Okkur krökkunum þótti þetta sannir hátíðisdagar að sjá alla Ofanbyggjarahestana í einni lest með kolin og við frjáls, snuddandi í kringum flutningana. Stundum keyptu tveir og tveir bændur saman eina olíutunnu. Hún var flutt upp fyrir Hraun á þennan hátt: Negld var þverspýta á hvorn botn tunnunnar. Síðan rekinn stór nagli í hana miðja hvoru megin og smeygt vírlykkju upp á hann. Síðan var sauðaband bundið í vírlykkjuna og því brugðið um öxl. Þannig veltu menn tunnunni á milli sín upp fyrir Hraun og heim að bæ.
Ofanbyggjarar reyndu að kaupa sem mest matvæli í einu lagi að haustinu og voru þá stundum gerð sameiginleg innkaup. Svo var um hveiti, sykur, rúgmjöl, bankabygg og fleira. Var þá sent sameiginlegt bréf til verzlananna í bænum, en þær voru Garðsverzlunin (Austurbúðin), Tangaverzlunin og Edinborg (Verzl. Gísla J. Johnsen). Þessi sameiginlegu innkaup á matvöru reyndust mun hagstæðari en ella.
Alltaf reyndist bezta tilboðið koma frá Gísla J. Johnsen.
Mig minnir fastlega, að séra Oddgeir sóknarprestur hafi oft haft forgöngu um þessi sameiginlegu vörukaup. Hann var jafnan aðalforsvarsmaður Ofanbyggjara í öllum þeirra velferðarmálum og elskaður og dáður af öllum, sem við hann áttu samskipti, en þeir voru býsna margir, eins og að líkum lætur. Það má fullyrða, að samvinna og samhjálp Ofanbyggjara á þessum árum hafi verið með miklum ágætum og til fyrirmyndar. Allir reiðubúnir að leggja fram bróðurhönd nágranna sínum til hjálpar, ef með þurfti.

14.

Ofanbyggjarar „áttu rekafjöru“ sinn daginn hver. Sumir áttu saman dag í Brimurð, Garðsenda, Vík og Klauf, samkvæmt byggingarbréfum, og alltaf var „gengið á reka“, eins og það var kallað, frá hverjum bæ eftir settum reglum. Þannig var allur reki hirtur og fluttur heim, oftast á hestum. Þegar tré fannst á rekafjöru, var það dregið eða því velt upp fyrir flæðarmál og það svo merkt fangamarki eiganda. Síðan beið heimflutningurinn stundum einhvern tíma eftir ástæðum.

15.

Eins og ráða má af ofanskráðri lýsingu á daglegu lífi fólks fyrir ofan Hraun á þessum árum, þá byggðist hagur heimilanna fyrst og síðast á heimafengnum nytjum, heimafengnum mat og heimaunnum fatnaði. Segja má, að afkoma, líf og velferð fólksins væri fyrst og fremst komin undir dugnaði, elju, fyrirhyggju og framsýni húsbændanna, sparsemi þeirra og nýtni, stjórnsemi og vinnuþreki.

16.

Þjóðhátíðin var þá sem nú aðalhátíð sumarsins, þó að hún væri með öðru sniði en nú. Hana sóttu allir, sem því gátu komið við. Þá var það mikið áhugamál allra, að hún færi sem bezt fram.
Ekki man ég eftir, að neinn Ofanbyggjari ætti tjald á þessum árum, enda voru þau fá á þjóðhátíð í þá daga. Tjalds í stað höfðu margir með sér segl eða strigastykki og tjölduðu með því við kletta eða steina í Dalnum, svo að skjól fengist til hitunar á kaffi o.s.frv. Ekki bar á öðru en að þjóðhátíðargestir skemmtu sér engu síður þá en nú.

17.

Barnaskólinn tók til starfa 1. september. Þá voru börn skólaskyld 10 ára til 14 ára aldurs. Kennsla byrjaði kl. 9 og stóð til kl. 13.
Ofanbyggjarabörnin voru ætíð samferða í skólann á morgnana og heim úr honum á daginn. Við lékum okkur í kennsluhléum eins og nú gerist. Helztu leikir okkar voru Flokkaleikur og Langbolti og svo ýmsir smærri leikir. Stundum kom það fyrir, að eldra fólkið heima varð að skera úr þrætumálum okkar með salomonslegum dómi, þó að þau spryttu upp af litlu tilefni.

18.

Að haustinu og fram að vertíð var gengið hart að tóskaparvinnu og engri stund sleppt. Við krakkarnir vorum látin tæja ull á kvöldvökunni og tvinna á snældu. Í Suðurgarði hjá þeim hjónum Jóni og Ingibjörgu var vefstóll, sem Ofanbyggjarar máttu nota eftir vild og kunnáttu hvers og eins. Þeir, sem kunnu að vefa vaðmál, notuðu hann mikið. Allir sokkar og vettlingar voru prjónaðir heima, og allir notuðu daglega íslenzka skó heimagerða. Húsmóðirin hafði því að mörgu að hyggja. Við krakkarnir vorum snemma vanin á að gera okkar skó sjálf. Það var okkur nokkur metnaður að gera það sem bezt.
Sennilega heyrast ekki oftar hin reglubundnu slög vefstólsins í íslenzkum bæjum. Nú eru einnig rokkarnir þagnaðir og tifið í prjónunum verður ávallt fáheyrðara en áður var.
Þá var á æskuárum mínum talsvert gert að því að mala korn í kvörn, t.d. bankabygg í grauta. Oft fengu nágrannarnir, sem ekki áttu kvarnir, að mala hjá þeim, sem þær áttu. Okkur strákunum þótti fremur erfitt að mala kornið, kvörnin of þung, en það urðum við að gera samt. Tveir vængir af lunda eða svartfugli voru bundnir saman og með þeim var kvarnarstokkurinn sópaður eftir hverja mölun.

19.

Fósturforeldrar mínir, Sigurður Sveinbjörnsson og Sigurbjörg Sigurðardóttir, hjón í Brekkhúsi, voru mjög samhent í því að halda við helgisiðum fyrri tíma, svo að þeir væru í heiðri hafðir. Á hverju kvöldi voru lesnir húslestrar frá veturkomu til sumarmála. Aðra tíma árs á sunnudögum. Allt fólk sótti einnig kirkju, eftir því sem við varð komið. Í æsku minni, held ég, að það hafi verið óskráð lög hjá Ofanbyggjurum, að alltaf færi að minnsta kosti einn frá hverju heimili í kirkju á hverjum sunnudegi.
Á hátíðum var lögð áherzla á að breyta sem mest frá því hversdagslega í mat og drykk, klæðnaði (ný föt) og nákvæmu helgihaldi. Fyrst þegar ég man eftir mér, var hverjum heimilismanni skammtað jólahangikjötið á aðfangadag jóla með fleira góðgæti, og átti sá skammtur að nægja hverjum einum fram yfir jólin.
Margir áttu kistil, sem þeir geymdu þá matarskammtinn sinn í.
Á aðfangadagskvöld jóla fóru allir, sem áttu heimangengt, til kirkju. En eins og áður segir, var þá ekki kominn vegur upp fyrir Hraun. Þar lá aðeins götuslóði. Fólkið sótti eftir að verða sem mest samferða til kirkjunnar, ef ekki var tunglskin. Þá höfðu einn og tveir í hverjum hóp lítið ljósker, svo að betur sæist til að ganga. Ljóskerið var ferstrent með rúðugleri í þrem hliðunum og loki fyrir fjórðu hliðinni. Ljósið var kerti.
Til þess að spara betri skóna, þegar gengið var til kirkju, var það regla Ofanbyggjara að ganga þangað á íslenzkum leðurskóm, en hafa með sér spariskóna. Þeir skiptu um skó við svo nefndan Kirkjustein, áður en gengið var í kirkjuna. Í steini þessum var stór hola, sem fólkið geymdi í skó sína, meðan á messu stóð. Steinn þessi er nú fyrir löngu horfinn. Hann var á að gizka um 100 metra suður af kirkjunni.

20.

Ein var sú skemmtun, sem Ofanbyggjarar iðkuðu mjög á jólaföstunni, og það var að fara í grímubúninga af ýmsu tagi. Fóru þá oft margir saman og gengu á milli húsa. Oft var einnig farið austur að Dölum og alla leið austur á Kirkjubæi. Ætíð var einn maður með í förinni ógrímuklæddur. Drap hann á dyr, þar sem komið var, og spurði, hvort grímumenn mættu ganga í bæinn. Var það jafnan velkomið. Oft varð þá kátt á hjalla. Fyrst var gizkað á, hverjir grímumenn væri. Síðan tóku þeir ofan grímuna og þágu kaffi og meðlæti.
Einnig var mikið gert að því að spila á spil á haustin og tefla. Mest var spiluð sólóvist og púkk. Við krakkarnir stunduðum þá einnig mikið útileiki, þegar við sáum okkur stund frá snúningum og smávikum, sem við urðum að inna af hendi og alltaf urðu að sitja í fyrirrúmi.

F.F.