Blik 1960/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 2. kafli, III. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1960ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum
II. kafli, 1800-1880
(3. hluti)Árið 1861, 18. febrúar, fékk lögfræðingurinn Bjarni Einar Magnússon veitingu fyrir Vestmannaeyjasýslu. Hann tók við sýslunni í júní sama ár.
Bjarni sýslumaður var fæddur og upp alinn í Flatey á Breiðafirði, sonur Magnúsar Gunnlaugssonar smiðs og beykis þar og k.h. Þóru Guðmundsdóttur Schevings, sýslumanns Barðstrendinga og síðar hins mikla athafnamanns í Flatey á Breiðafirði.
Bjarni sýslumaður var tæpra 30 ára, er hann settist að í Vestmannaeyjum (f. 1. des. 1831). Hann var næsta óvenjulegur maður á ýmsa lund. Hann hafði m.a. brennandi áhuga á öllum fræðslu- og öðrum menningarmálum, og tóku Eyjamenn brátt að njóta uppeldis hans og starfsorku í þeim efnum. Hann var, eins og á var drepið, fæddur og alinn upp í Flatey á Breiðafirði, en á þeim stað brunnu skærast blys fróðleiks og menningar á öllu Vesturlandi, svo að ekki sé ofmikið sagt, einmitt á uppvaxtarárum Bjarna Magnússonar sýslumanns. Þá logaði hvað skærast arineldur Framfarastofnunar Flateyjar undir forustu séra Ólafs Sivertsens. Lestrarfélag Flateyinga, sem stofnað var 1833 og er elzta lestrarfélag landsins, óx að bókum, bæði íslenzkum og erlendum ár frá ári og glæddi með ungum og gömlum lestrarlöngun og fróðleiksfýsn við Breiðafjörð. Og enn færðust þeir í aukana, Flateyingarnir. Um það leytið, sem Bjarni Magnússon fór að heiman til náms í Menntaskólann í Rvík, hófu forustumenn Flateyinga útgáfu hins merka ársrits Gests Vestfirðings.
Árið eftir að Bjarni sýslumaður settist að í Vestmannaeyjum, beitti hann sér fyrir stofnun lestrarfélags þar með þeim séra Brynjólfi Jónssyni, sóknarpresti, og J.P.T. Bryde, kaupmanni. (Sjá Blik 1957).
Lestrarfélag Vestmannaeyja efldist furðu fljótt að bókaeign, t.d. gaf ríkisstjórnin félaginu bækur fyrir 200 ríkisdali 1865 fyrir atbeina Bjarna sýslumanns. Hann annaðist sjálfur bókasafn Lestrarfélagsins og sá um útlán og bókakaup. Auðvitað gerði hann það allt endurgjaldslaust. Lestrarfélag Vestmannaeyja átti um 600 bindi af bókum, þegar Bjarni sýslumaður fluttist úr Eyjum árið 1872.
Lestrarfélag Vestmannaeyja glæddi lestrarlöngun og námfýsi æskulýðsins í Eyjum, eins og forustumennirnir ætluðust til, og orkaði til góðs á bæjarlífið í heild. Ungum mönnum skildist það farsælla og þroskavænlegra að njóta bóka félagsins, eyða tómstundum sínum við lestur þeirra, en að hengilmænast í búðunum hverja tómstund og láta þar glepjast og freistast til áfengisneyzlu og annars skaðræðis. Sú tízka reyndist þá og löngum síðar erfiðust viðfangs og torveldust til að uppræta, enda var þessi ómenning tekjulind selstöðukaupmannanna í Eyjum, þar sem lágkúruleg menning fólksins, undirokun, fátækt og skuldabasl fæddi af sér örvænting og deyfð á öllum sviðum.
Tveim árum síðar en þeir þremenningarnir beittu sér fyrír stofnun lestrarfélagsins, gekkst séra Brynjólfur fyrir stofnun bindindisfélags í Vestmannaeyjum. Þar naut hann stuðnings Bjarna sýslumanns og fleiri góðra manna, sem ofbauð það ástand, sem þá ríkti í Eyjum á flestum sviðum þess, sem kallað er menningarlíf. Bindindisfélagi sínu fórnaði séra Brynjólfur mjög miklum tíma og starfsorku, enda varð honum mikið ágengt bæði um það að draga úr áfengisneyzlu drykkjumanna og annarra áfengisneytenda og varna því, að æskulýðurinn félli í sama fenið.
Þegar séra Brynjólfur hafði starfað í 9 ár að þessum bindindismálum skrifaði hann hina frægu sóknarlýsingu sína. Þar minnist hann á bindindisfélagið og árangurinn af starfi þess. Þar segir hann orðrétt:
„Drykkjuskapur hefur til skamms tíma verið hér mjög almennur, en að tiltölu við það, sem áður var, eru hér nú mjög fáir drykkjumenn. Er það án efa því að þakka, að árið 1864 var hér á eyju stofnað Bindindisfélag, og lutu aðalreglur þess að því að bindast fyrir alla nautn áfengra drykkja og styðja sem mest að eflingu bindindis hér á eyju. Félag þetta, sem í fyrstunni var fámennt, hefur ár frá ári farið æ fjölgandi undir umsjón sóknarprests svo sem formanns. Frá því félag þetta var stofnað, hafa alls í það gengið hér um bil 100 manns, en nú eru félagar hér á eyju milli 60 og 70 karlmenn. Þar á meðal auk prests og sýslumanns, flestir hinir helztu bændur og margir yngismenn, og hefur félag þetta að miklu leyti stöðvað drykkjuskap þann, er hér var mjög almennur, og haft bætandi áhrif á marga utanfélagsmenn. Með vaxandi reglusemi hefur og iðjusemi og manndáð aukizt, þó að ekki verði á móti því borið, að sumum verði stöðudrjúgt og þá einnig verkfátt í og nærri kaupmannabúðum, eins og víða hér á landi mun eiga sér stað við verzlunarstaði.“
Þetta voru orð prestsins um árangurinn af starfi hans og bindindisfélagsins. Og þessu bindindisstarfi hélt prestur áfram, meðan kraftar hans entust, öðrum þræði til verndar barnaláni Eyjabúa og mörgum æskumanni þar til varanlegrar gæfu og blessunar.
Ekki hafði Bjarni sýslumaður dvalið nema nokkra mánuði í Eyjum, er hann stofnaði einkaskóla þar handa unglingum, og mun hafa kennt þeim skrift, reikning og sumum dönsku. Eftir því sem bezt er vitað, mun hann hafa innt það kennslustarf af hendi endurgjaldslaust, af einskærum áhuga á því að láta unglinga í Eyjum njóta góðs af getu sinni í þessum efnum og glæða með þeim námshug og trú á gildi þekkingar og bókvits.
Þessi fræðslustarfsemi hans á vetrum var honum ekki nóg. Hann beitti sér fyrir því að komið yrði á stofn föstum barnaskóla í Eyjum, sem kostaður yrði af ríksifé, öðrum þræði að minnsta kosti, eins og orðið var í Reykjavík (1862), þegar fastur, opinber barnaskóli var stofnaður þar og tók til starfa.
Árið 1866, 29. nóv., skrifar Bjarni sýslumaður dómsmálaráðuneytinu bréf, þar sem hann mælist til þess, að það hlutist til um, að stofnaður verði fastur barnaskóli í Vestmannaeyjum. Gerir sýslumaður þar nákvæma áætlun um skólareksturinn. Með því nú að Jóhann Gunnar Ólafsson, bæjarfógeti, hefur þýtt og endursagt útdrátt úr bréfi þessu og birt í æviágripi sýslumanns í sögu Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja, sem út kom árið 1939, leyfi ég mér að fylgja þeirri þýðingu hér:
„Tillögur Bjarna sýslumanns gengu í þá átt, að fæðingarstofnunin, sem P.A. Schleisner læknir hefði látið byggja árið 1847, til afnota við rannsóknir sínar á ginklofanum, yrði gjörð að barnaskóla. Segir Bjarni, að sú bygging sé aðeins notuð fyrir sýsluskrifstofu og sem geymsla fyrir bækur lestrarfélagsins. Getur hann þess síðan, að samkvæmt skýrslu frá sóknarpresti, séu 210 börn í Vestmannaeyjum á aldrinum 1—14 ára gömul, og muni tala barna á þessum aldri fara vaxandi, því að hinum hættulega barnasjúkdómi, ginklofanum, sé útrýmt með öllu. Telur hann líklegt, að mjög margt þessara barna muni fara á mis við kennslu í lestri, skrift og öðrum nauðsynlegum námsgreinum í heimahúsum, en sóknarprestur komist ekki yfir að bæta úr því, og yrði það því ákaflega gagnleg og nauðsynleg ráðstöfun, að stofnaður væri barnaskóli, þar sem börnunum væri ekki aðeins kenndar nauðsynlegar námsgreinar, heldur einnig reglusemi, hlýðni og hreinlæti, sem sé tilgangurinn með stofnun og starfi barnaskólanna. Höfuðerfiðleikarnir við stofnun slíks skóla verði fjáröflun til greiðslu kostnaðarins við skólahaldið, en sá kostnaður verði ekki undir 280 ríkisdölum árlega. Vegna fátæktar almennings verði að setja skólagjöldin mjög lág og jafnvel fella þau niður með öllu, að því er mörg barnanna snerti, en þó telur hann sennilegt, að Eyjaskeggjar geti lagt árlega til skólans 150 ríkisdali og skorti þá 130 ríkisdali á, að nægilegt fé sé fyrir hendi. Ekki kvaðst hann treysta sér til að koma fram með ákveðnar tillögur að svo stöddu, en málið sé þannig vaxið, að ríkisvaldinu beri helg skylda til að bera umhyggju fyrir siðferði og fræðslu barnanna, og væntir hann því, að ráðuneytið leiti álits stiftyfirvaldanna um uppástungu hans um það, hvernig mætti koma henni í framkvæmd.“
Dómsmálaráðuneytið danska skaut þessari hugmynd til Stiftyfirvaldanna yfir Íslandi, eins og lög gerðu ráð fyrir eða venja var og leitaði fræðslu þeirra og álits um málið.
Stiftyfirvöldin skrifuðu síðan Bjarna sýslumanni vinsamlegt bréf varðandi skólamálið í september 1867. Voru þá nær 10 mánuðir liðnir frá því að sýslumaður reifaði málið fyrst í bréfi sínu til dómsmálaráðuneytisins.
Áður en sýslumaður nú svaraði hinu vinsamlega bréfi stiftyfirvaldanna, sem drógu í efa, að 280 ríkisdalir nægðu til þess að reka skóla, þar sem svo mörg börn þyrftu hans með, þótti honum styrkara að geta lagt þar með álit sóknarprestsins, séra Brynjólfs Jónssonar. Hann skrifar honum því bréf, dags. 18. nóvember 1867, svohljóðandi:
Áður en ég sendi Stiftyfirvöldunum erklæring mína í tilefni af innlögðu bréfi þeirra áhrærandi stofnun barnaskóla í Vestmannaeyjum, vildi ég leyfa mér að leita yðar velæruverðuga heita góða álits um atriði þau, sem í bréfi þessu eru fram tekin, mér til stuðnings og leiðbeiningar í svo vandasömu málefni fyrir sveit þessa. Með yðar þóknanlegu svari óskast bréfið endursent.“
Ekki mun séra Brynjólfur hafa látið standa á velviljuðu áliti sínu skólamáli þessu til stuðnings og framdráttar.
Í nóvember sama ár (1867) skrifar síðan sýslumaður stiftyfirvöldunum og svarar þar bréfi þeirra.
Bréf þetta skrifaði sýslumaður á dönsku, eins og sjálfsagt þótti þá, og birtist það hér í þýðingu. Það er svohljóðandi:
„Í velviljuðu og góðu bréfi, dagsettu 17. september s.l. óska hin háu stiftyfirvöld að fá nánari skýringar frá mér á ýmsum smáatriðum varðandi nauðsyn þess, að stofnaður verði barnaskóli í Vestmannaeyjum. Álit mitt og tilmæli um þetta sendi ég ráðuneytinu 29. nóv í fyrra.
Í fyrsta lagi óska ég að láta í ljós ánægju mína yfir því, að hin háu stiftyfirvöld eru sammála mér um nauðsyn þess, að stofnaður verði barnaskóli hér.
Í öðru lagi leyfi ég mér virðingarfyllst að taka það fram, að vonlaust er með öllu, að hreppurinn hér geti staðið straum af nauðsynlegum rekstrarkostnaði þessa hugsanlega barnaskóla sökum fátæktar og þeirra byrða, sem á fátækrasjóði hvíla. Hinsvegar hefi ég í áður áminnztu bréfi mínu til ráðuneytisns látið það í ljós, að gera mætti örugglega ráð fyrir 150 ríkisdala skólagjöldum fyrir þau rúmlega 80 börn, sem hér eru á skólaaldri samkvæmt greinargerð þeirri, sem sóknarpresturinn hér hefur látið mér í té að beiðni minni. Vegalengdir hindra ekki, að þessi börn geti og þeim beri að sækja stöðugt skólann.
Að minni hyggju mundi skólaskylda vera alveg nauðsynleg hér, til þess að slík velgjörðarstofnun kæmi að sem allra fyllstum notum.
Afleiðing hins mikla barnafjölda hér verður sú, að nauðsynlegt er að skipta börnunum til kennslu í nokkrar deildir eða bekki, eins og hin háu stiftyfirvöld benda á. En sú skipan mundi svo útheimta meir en einn kennara. En þar sem gjöldin að minni hyggju mundu vaxa mjög við það, en framlög hér hinsvegar verða að miðast við 150 ríkisdali árlega, verður með tilliti til þess að láta einn kennara nægja. Þó yrði að skipta börnunum í tvær deildir eða bekki. Skyldi svo hvor deild sækja skólann annanhvern dag og nema þar í þrjár stundir, sem ég álít fulla tryggingu fyrir góðri kennslu. Tillaga mín er sú, að skólinn starfi í 8 mánuði árlega, frá miðjum september til miðs maímánaðar. Það mundi henta okkur bezt, og því fremur sem ég er einnig sannfærður um, að bæði sýslumaðurinn hér, svo og læknirinn og sóknarpresturinn, sem segjast hafa áhuga á þessu velferðarmáli, mundu með ánægju skiptast á að aðstoða án endurgjalds hinn fasta kennara við kennsluna og kenna börnunum. A.m.k. hefi ég, síðan ég fluttist hingað, kennt mörgum börnum skrift og reikning endurgjaldslaust að vetrinum.
Þar sem kennari með jafnmörg börn mundi hafa á hendi æðierfitt starf, og ráða þyrfti vel hæfan mann í það, álykta ég að hann yrði að bera úr býtum árlega 300 ríkisdala föst laun fyrir utan ljós og hita og önnur smærri útgjöld, sem árlega mundu nema um 50 ríkisdölum. Þannig mundi allur árlegur kostnaður tæplega nema minna en 350 ríkisdölum.
Þar sem ég áætla svo háan hinn árlega kostnað við rekstur skólans, en skólagjöldin hér hinsvegar næmu aðeins 150 ríkisdölum, samkv. áætlun minni, kemur hér fram árlegur mismunur, sem nemur 200 ríkisdölum, sem ég sé því miður ekki nokkur ráð með að þetta hreppsfélag geti staðið straum af. Þess vegna leyfi ég mér virðingarfyllst að biðja hin háu stiftyfirvöld að beita hinu mikla áhrifavaldi sínu við ríkisstjórnina til stuðnings þessum tilmælum mínum og þessu sérstaka velferðarmáli Vestmannaeyinga, svo að þessi áætlaði árlegi mismunur, 200 ríkisdalir, mættu verða góðfúslega greiddir Vestmannaeyjahreppi til stofnunar barnaskólans og nauðsynlegs reksturs.“
Þegar hér var komið sögu, höfðu 12 undanfarin ár verið hin mestu fiskileysisár í Vestmannaeyjum og nú sumarið 1868 hallæri fyrir dyrum. Það sannar bréf sveitarstjórnar Vestm.eyja til stiftamtmanns dags. 26. júní um sumarið. Þar er sögð yfirvofandi neyð í Eyjum sökum fátæktar og skorts. Voru þá ekki færri en 40 fátæklingar á algjörri framfærslu sveitarinnar eða rúmlega 7 af hundraði Eyjabúa.
Í sama mánuði skrifaði Þorsteinn Jónsson, héraðslæknir í Eyjum, stiftyfirvöldunum bréf og falaðist eftir húsinu, sem Schleisner lét byggja (Stiftelsinu) til kaups, vildi eignast það til íbúðar. Þessi beiðni læknisins fór því illa í bága við tillögu sýslumanns um að gera byggingu þessa að barnaskólahúsi.
Það er því þrennt, sem veldur því, að stiftsyfirvöldin kippa að sér hendinni í barnaskólamálinu og velta vöngum: Í fyrsta lagi hafði sýslumaður áætlað árlegan rekstrarkostnað skólans 280 ríkisdali, síðar 350. Í öðru lagi hafði sýslan beðið um aðstoð hins opinbera til framfærslu hreppnum, sem átti að sjá um rekstur skólans. Í þriðja lagi falaði nú embættismaður ríkisins, læknirinn, sem var í húsnæðishraki í Eyjum, hið fyrirhugaða skólahús til kaups handa sér til íbúðar.
Stiftsyfirvöldin senda nú sýslumanninum bréf læknisins til umsagnar. Bjarni sýslumaður svarar því með bréfi dagsettu 25. júní 1868, og birtist það hér orði til orðs, eins og sýslumaður stílaði það.
„Í háttvirtu bréfi af 6. þ.m. hafið þér, herra stiftamtmaður, í tilefni af hjálögðu bréfi læknisins í Vestmannaeyjum, hvar hann fer þess á leit, að hann fyrir milligöngu yðar Hávelborinheita mætti fá til kaups hús það, er á sínum (tíma) hér á eyju var byggt að mestu leyti á kostnað stjórnarinnar handa barnssængurkonum til varnar hinum hættulega barnasjúkdómi, er nefnist „Ginklofi“, óskar þess, að ég, áður en í því efni væri frekar aðgjört, léti í ljósi álit mitt um þetta erindi héraðslæknisins. Í þessu efni leyfi ég mér nú að geta þess, að þegar ég fyrst í bréfi mínu 29. nóv. 1866 kom fram með uppástungu mína til stjórnarinnar um stofnun barnaskóla hér á eyju, sem er svo einkar nauðsynlegur, gat ég þess um leið, að hin svonefnda fæðingarstiftun, sem nú hefur náð sínu augnamiði, væri mjög hentugt hús fyrir barnaskóla, hvað ennfremur nú má til greina, þar sem nú getur fengizt til kaups hús það, sem snikkari Markússon á, er nú er fluttur héðan til Reykjavíkur, með því bæði hús þessi, sem eru áföst, væru til samans nægilega stór fyrir barnaskólann og til íbúðar ógiftum kennara.
Með því ég nú þykist sannfærður um, að barnaskóli muni geta komizt hér á, ef stjórnin skyldi styrkja stofnun þessa með allt að 200 ríkisdala árlegu framlagi, enda þótt Eyjabúar yfir höfuð séu mjög efnalitlir, og að ég með svo felldu móti mundi geta áunnið það, að hús snikkara Markússons með samskotum efnaðra og héraðinu velviljaðra manna mundi keypt verða, sem þannig í sambandi með fæðingarhúsinu, eins og áður er á minnzt, væri nægilega stórt í téðu augnamiði, vildi ég leyfa mér að ráða frá því, að lækninum að svo komnu máli væri gefinn kostur á því að fá hið svo nefnda fæðingarhús til kaups, því enda þótt héraðslækninum geti verið það áríðandi að fá hér íbúðarhús með vægu verði, er Vestmannaeyjahreppi þó sannarlega meir áríðandi að geta notið þeirra framfara, er barnaskóli getur veitt ungmennum eyjar þessarar.“
Þorsteinn Jónsson læknir hélt því hins vegar fram, að þinghús sveitarinnar yrði heppilegra skólahús en Stiftelsið. Þar mætti gera rúmgóða skólastofu.
Þessari þrætu var síðan skotið til sveitarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum. Skyldi álit hennar um það, hvort hún teldi heppilegra skólahús þinghúsið eða „fæðingarhúsið„ (Landlyst), sent stiftamtmanni, áður en hann tæki endanlega afstöðu í málinu og felldi úrskurð.
Séra Brynjólfur Jónsson mun nú hafa gengið á milli og reynt að miðla málum, og sýslumaður ekki talið það sigurvænlegt skólamálinu að vera í andstöðu við hinn áhrifaríka og velviljaða sóknarprest. Í október um haustið (1868) skrifar sýslumaður stiftamtmanni bréf, þar sem hann tjáir honum, að hann fallist á, að þinghúsið verði valið til skólahaldsins. Sýslumaður segir þar: „Eftir að hafa íhugað mál þetta, get ég eigi annað en verið því samdóma, að þinghúsið mundi verða hæfilegra húsrúm fyrir hinn fyrirhugaða barnaskóla en fæðingarhúsið, bæði hvað rýmindi snertir, og að það mundi eigi verða jafn kostnaðarsamt fyrir sveitina að gjöra í því laglega skólastofu og að öðru leyti að lagfæra það og endurbæta til þeirrar brúkunar, sem að kaupa hús snikkara Marcússons (Landlyst), sem er á boðstólum fyrir 250 ríkisdali, og lagfæra það og endurbæta ásamt fæðingarhúsinu, með því að þinghúsið eftir sem áður gæti notazt sem að undanförnu til þess í því að halda manntalsþing og ýmis önnur sýslustörf, er fyrir koma, eins og líka sveitinni yrði þannig hægara að viðhalda einu húsi en tveimur. Þess vegna samþykkur fyrir mitt leyti, ef stiftamtmaður gæti á það fallizt.“
Samtímis því að bréfin ganga á víxl milli amtmanns annars vegar og sýslumannsins og læknisins hinsvegar um kaupin á Landlyst með viðbyggingunni, fæðingarhúsinu (Stiftelsinu), er bollalagt í skrifstofu amtmanns um það, hvað leggja skuli til í skólamáli Vestmannaeyinga. Niðurstaðan varð sú, að stiftyfirvöldin lögðu til, að leitað yrði til ríkisstjórnarinnar um 100 ríkisdala árlegt framlag til reksturs hinum væntanlega barnaskóla í Vestmannaeyjum, með því skilyrði, að Eyjabúar leggi á ári hverju 250 ríkisdali á móti til hins fyrirhugaða skóla. Í bréfi til séra Brynjólfs Jónssonar (19. ágúst 1868) beina skrifstofur stiftamtmanns og biskups sameiginlega þeirri ósk til prestsins, sem mælt hafði eindregið með skólahugsjón sýslumanns, að hann skýri fyrir háyfirvöldum þessum „grundvallargreinir kennslunnar“ og fátækrastjórnarinnar, um hve mikil tillög sveitin muni geta í té látið, og er prestur beðinn um skýringu og svar fátækrastjórnarinnar í hreppnum.
Fáum mun það dyljast, er þessi mál kynna sér, að með tillögu sinni um 100 ríkisdala-framlagið og beiðnina um skýringar og svör fátækrastjórnarinnar í Vestmannaeyjahreppi, er amtmaður að drepa skólamálinu á dreif, tortíma hugsjóninni, því að hann vissi það allra manna bezt, að hreppurinn var á engan hátt aflögufær um nokkur útgjöld fram yfir það, sem þegar hvíldu á honum, því að sveitarstjórnin hafði einmitt þá um sumarið beðið stiftamtmann um hjálp til að afstýra skorti og neyð í Eyjum, eins og áður er á drepið, vegna margra ára fiskileysis og langvarandi verzlunareinokunar og kúgunar. Vitaskuld sá hreppsforustan enga leið til þess, að sveitarfélagið gæti lagt fram 100 ríkisdali árlega til reksturs barnaskólanum fyrirhugaða auk skólagjaldanna, 150 ríkisdala. Þar með var barnaskólahugsjóninni í Vestmannaeyjum stungið svefnþorn í annað sinn, og svaf hún svo næstu 22 árin.
Meðan Bjarni E. Magnússon var sýslumaður í Vestmannaeyjum, bjó hann í gamla embættismannabústaðnum, Nöjsomhed. Um hús þetta sagði sýslumaður í bréfi til stiftsyfirvaldanna 1866, að það væri naumast íbúðarfært, því að það héldi hvorki vindi né vatni. Þá kvað hann sér þó naumast fært að byggja yfir sig og fjölskyldu sína íbúðarhús sökum fátæktar. Það er freistandi að álykta, að örlög skólahugsjónarinnar og húsnæðisvandræði sýslumannsins hafi valdið því, að þessi ágæti og röggsami embættismaður og fórnfúsi hugsjónamaður hvarf von bráðar úr Eyjum og gerðist sýslumaður Húnvetninga. (d. 25. maí 1876).
Í „Kennaratali á Íslandi“ er það fullyrt, að Páll Pálsson Jökull hafi stundað barnakennslu í Vestmannaeyjum á árunum 1860—1870. Fullvíst er, að síðari hluta þessa áratugs stundaði Páll Jökull nám í Lærðaskólanum í Reykjavík. Sögusagnir herma, að hann hafi rekið barnaskóla sinn í Eyjum í húsinu Jómsborg. Mér hefur ekki lánazt að finna óyggjandi heimildir um þessa barnakennslu Páls Pálssonar á áratugnum 1860—1870. Hins vegar getur þess í kirkjubók, að árið 1874 flytji til Eyja Páll Pálsson barnakennari. Hann var til húsa í Jómsborg. Árið eftir flytur Páll barnakennari aftur frá Eyjum. Mjög miklar líkur eru til, að hér sé um Pál Jökul Pálsson að ræða. Mér eru ekki kunnar neinar sannanir fyrir því, að Páll þessi hafi stundað barnakennslu í Eyjum, nema þá þær, ef sannanir skyldi kalla, að hann er titlaður barnakennari. Sama ár er Páll Pálsson skráður í meðlimaskrá Lestrarfélags Vestmannaeyja.
Haustið 1879 kom fram á Alþingi frumvarp til laga um aukna fræðslu barna í skrift og reikningi. Þetta frumvarp varð að lögum og hlaut staðfestingu 9. jan. 1880.

LÖG um uppfræðing barna í skrift og reikning.
(Lög nr. 2, 9. jan. 1880).
1. gr.

Auk þeirrar uppfræðsluskyldu, sem prestar hafa, skulu þeir sjá um, að öll börn, sem til þess eru hæf að áliti prests og meðhjálpara, læri að skrifa og reikna.

2. gr.

Reikningskennsla skal að minnsta kosti ná yfir samlagning, frádragning, margföldun og deiling í heilum tölum og tugabrotum.

3. gr.

Rita skal prestur árlega í húsvitjunarbókina álit sitt um kunnáttu hvers barns í skrift og reikning, sem og um hæfileika þess til bóknáms, og skal prófastur í skoðanaferðum hafa nákvæmt eftirlit með, að slíkt sé gjört.

4. gr.

Komist prestur að raun um, að unglingar á einhverju heimili njóti ekki fullnægjandi uppfræðingar í þessu tilliti, annaðhvort fyrir hirðuleysi eða mótþróa húsbænda, ber honum í sameiningu við hreppsnefndina eða bæjarstjórnina að gera ráðstafanir til, að þeim verði um svo langan tíma, sem með þarf, komið fyrir á öðru heimili í sókninni eða fyrir utan hana, þar sem þeir geta fengið hina nauðsynlegu tilsögn. Kostnaðinn, sem af þessu leiðir, eru foreldrar eða fósturforeldrar skyldir til að greiða, en borga má hann fyrirfram úr sveitarsjóði og getur hreppsnefndin heimt hann endurgoldinn af þeim, er uppfóstursskyldan hvílir á. Kostnað þennan má taka lögtaki.
Fyrir börn, sem eru á sveit, skal borga kostnaðinn úr sveitarsjóði.
Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur að hegða sér.

Eins og orðalag þessara laga ber með sér, eru þau æði ströng og setja prestana í aukinn vanda. Fullnægðu nú ekki heimilin kröfum laganna um fræðslu barnanna, eins og mörg þeirra höfðu jafnan vanrækt, varð presturinn að taka í taumana án allrar linkindar. Afleiðingarnar gátu orðið þær, að hann yrði að segja sumum sóknarbörnum sínum „stríð á hendur“ vegna vanrækslu á heimiliskennslunni. Það var því ekkert undarlegt, þó að prestar víða um land beittu áhrifaaðstöðu sinni í hreppum og bæjum eða kauptúnum til þess að stofnaðir yrðu barnaskólar og leysa með þeim heimilin af hólmi um fræðslu barnanna.

Og þannig var það í Vestmannaeyjum. Séra Brynjólfur hafði skipað sæti í sýslunefnd Vestmannaeyja, frá því hún var kosin fyrsta sinni eða frá 1872. Hann naut mikils trausts Eyjabúa þar og svo samstarfsmanna sinna. Hann hafði þar einnig nokkra sérstöðu, eftir að Daninn M.M. Aagaard varð sýslumaður í Eyjum (1872) og formaður sýslunefndar lögum samkvæmt. Séra Brynjólfur var þá sá sýslunefndarmaðurinn, sem hafði mest til brunns að bera um menntun alla á innlenda vísu, enda fól oft sýslumaður og sýslunefnd honum að hafa orð í bréfum fyrir nefndinni út á við varðandi ýmis málefni, sem á dagskrá voru hverju sinni. Hins vegar er rétt að taka það fram, að Aagaard sýslumaður öðlaðist furðu gott vald á íslenzku máli, þegar frá leið, og mun hafa numið málið að einhverju leyti hjá presti, en á milli þeirra var hið bezta samstarf, og mátu þeir hvorn annan mikils.
Sumarið 1880 höfðu þeir sýslumaður og prestur samstöðu um það með hreppsnefndinni að boða til almenns fundar í þinghúsi bæjarins til þess þar að ræða við Eyjabúa um stofnun fasts barnaskóla í sveitarfélaginu.
Málaleitan þessi fékk hinar beztu undirtektir hjá Eyjabúum. Jafnframt því að samþykkja, að skólinn tæki þá þegar til starfa í einhverri mynd um haustið, samþykktu Eyjabúar að byggja skyldi nýtt barnaskólahús og hlaða það upp úr höggnu grjóti eins og Austurbúðin þá var byggð um sumarið. Samþykktu Eyjamenn að höggva til grjótið í skólahússveggina í þegnskylduvinnu og flytja það sömuleiðis endurgjaldslaust á byggingarstað.
Eftir fund þennan var séra Brynjólfi sóknarpresti falið að gera áætlun um kostnað við skólabygginguna, timburkaup, kalk og smíðalaun.
Um haustið 1880, 25. sept., tók síðan sýslunefndin byggingarmál skólans fyrir á fundi sínum. Þar lét hún bóka þetta:
„Með því að það hefur verið lagt fyrir almenning hér í Eyjum að koma á stofn barnaskóla, er almenningi og sýslunefndinni þykir mjög nauðsynleg stofnun, einkum sökum þeirrar frekari uppfræðslu í skrift og reikningi, sem samkvæmt lögum 9. jan. þ.á. ber að veita börnum, framlagði sóknarpresturinn áætlun um byggingarkostnað hins áformaða barnaskólahúss að svo miklu leyti, sem útheimtist til timburkaupa, kalks og smíðalauna, en grjót til veggja hefur almenningur undirgengizt að höggva og flytja ókeypis á þann stað, sem húsið yrði byggt.
Samkv. þessari áætlun nemur kostnaðurinn hér um bil 2000 króna. Með því að nefndin gerir ráð fyrir, að 500 krónur af þessari upphæð geti fengizt úr hreppssjóði, álítur hún, að hún mundi geta komizt af með 1500 króna lán, er hún vonar að geta fengið úr landssjóði. En áður en þess væri farið á leit, áleit hún nauðsynlegt að leita álits hreppsnefndarinnar um það, hver endurborgunarkjör henni mundi þykja aðgengileg, þegar tillit er tekið til hags sveitarinnar.“
Undir þessar samþykkt sýslunefndar skrifa þeir sýslunefndarmennirnir M. Aagaard, sýslumaður, séra Brynjólfur Jónsson, Árni Einarsson, bóndi á Vilborgarstöðum, Gísli Stefánsson, bóndi í Hlíðarhúsi og Ingimundur Jónsson, bóndi á Gjábakka, sem var varamaður í sýslunefnd, en aðalmaður var Ingimundur Sigurðsson, bóndi í Draumbæ.
Þetta sama sumar undirbjó hreppsnefnd Vestmannaeyja stofnun og starfrækslu barnaskólans samkvæmt almennri samþykkt Eyjabúa.

Þ.Þ.V.

ctr

Séra Brynjólfur Jónsson, sóknarprestur, skeleggasti hvatamaður að stofnun
barnaskóla í Vestmannaeyjum haustið 1880.

Til baka