Blik 1960/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 2. kafli, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1960ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum
II. kafli, 1800-1880
(2. hluti)Með konunglegri tilskipan 6. júní 1827 var afráðið að stofna sérstakt læknisembætti í Vestmannaeyjum. Með því embætti var ætlunin öðrum þræði sú, að vinna bug á ginklofanum. Nítján ár liðu, og störfuðu fjórir læknar í Eyjum þau árin, án þess að nokkuð drægi úr barnadauðanum af völdum ginklofans.
Árið 1847 sendi stjórnin Schleisner lækni til þess að rannsaka ginklofann og finna ráð við honum. Stjórnin lét byggja sérstakt hús í Eyjum, fyrir sitt eigið fé að mestu leyti am.k., þar sem leggja skyldi inn sængurkonur. Það var kallað „Stiftelsið“. Þegar Schleisner læknir hafði starfað í Eyjum eitt ár, hafði hann fundið orsakir ginklofans. Þetta markverða starf hans hafði mjög víðtæk áhrif jafnvel víða um lönd (Sjá þátt um Schleisner lækni eftir Baldur Johnsen héraðslækni í Bliki 1957).
Til þess að lesendur mínir geti áttað sig á árangrinum af starfi þessa læknis í Eyjum í glímu við ginklofann, óska ég að birta hér tvær skýrslur um fædd börn og fermd í Vestmannaeyjasókn. Önnur skýrslan tekur yfir árin 1840—1866 eða 27 ár. Það eru 8 ár fyrir komu Schleisners til Eyja og svo næstu 18 árin eftir komu hans, meðan tala fermingarbarna þar var að gerast eðlileg. Lesendum mínum til fyllri glöggvunar læt ég skýrslunni fylgja skrá yfir fólksfjöldann í Eyjum hvert ár og fjölgun Eyjabúa á þessum árum.

Ár Fædd
börn
Fermd
börn
Fólks
fjöldi
1839 20 12 341
1840 25 3 354
1841 22 1 366
1842 19 5 357
1843 11 4 357
1844 ? 8 378
1845 ? ? 396
1846 21 9 394
1847 22 9 382
1848 20 9 398
1849 19 6 396
1850 26 4 402
1851 22 5 388
1852 25 0 409
1853 26 4 408
1854 26 0 434
1855 28 3 450
1856 24 4 473
1857 32 4 481
1858 18 4 493
1859 26 9 497
1860 24 6 501
1861 19 0 506
1862 26 7 540
1863 20 6 542
1864 28 7 546
1865 19 7 546
1866 17 8 529

Á þessum 26 árum hafa því samtals fæðzt í Eyjum um 600 börn og er þó eigi vitað glögglega um árin 1844 og 1845. Á sama tímabili fermast þar um 150 börn eða 25% af fæddum.
Síðari skýrslan tekur yfir næstu 14 árin, frá 1867 og til þess tímabils, er þessi kafli fjallar um eða til ársins 1880, að stofnaður er fastur barnaskóli í Vestmannaeyjum.

Ár Fædd
börn
Fermd
börn
Fólks-
fjöldi
1867 16 13 533
1868 20 10 558
1869 13 18 655
1870 17 17 571
1871 10 13 557
1872 25 15 670
1873 19 11 558
1874 13 8 544
1875 17 11 651
1876 13 14 539
1877 16 17 542
1878 15 8 553
1879 15 14 558
1880 14 16 558
Alls 223 185
eða fermd 83%.

Skýrslur þessar taka yfir megin þeirra ára, er þeir störfuðu í Eyjum prestarnir séra Jón Austmann og séra Brynjólfur Jónsson.
Séra Jón Austmann fermdi flest börnin 14 ára gömul en þó nokkur 15 eða 16 ára. Hann mun hafa húsvitjað einu sinni og tvisvar á vetri, kannað þá kunnáttu barnanna og unglinganna og greitt fyrir þeim og foreldrunum og öðrum aðstandendum þeirra um kaup á bókum, sérstaklega guðsorðabókum. Presturinn getur þess stöku sinnum, að sumir unglingarnir hafi notið kennslu foreldra eða fósturforeldra allt að 7 árum fyrir fermingu og fræðslu prestsins í 2—4 ár. Örsjaldan fermdi hann 17 og 18 ára ungmenni í prestskapartíð sinni. Hann lagði ríkt á það við börnin, að þau lærðu hið lögboðna Balles-lærdómskver vel utanað, og Biblíusögur jafnframt bæði úr Nýja- og Gamlatestamentinu. Þær mun hann hafa sagt þeim frá eigin brjósti, því að engar sérstakar Biblíusögur voru til prentaðar á íslenzku í tíð séra Jóns Austmanns. Hins vegar voru dæmi þess, að börn útlendinga (Dana og Norðmanna) lærðu Balles-kverið á dönsku og með þeim Biblíusögur úr báðum testamentunum, líka á dönsku. Balles-lærdómskver „var mjög vel samið á sinni tíð,“ segir séra Jónas Jónasson um það. Við Balles-kverið voru til „spursmál“ tekin saman af íslenzkum presti, lítið notuð.
Ekki er mér kunnugt um heimildir fyrir því, hvaða stafrófskver voru helzt notuð í Eyjum í tíð séra Jóns Austmanns eða fyrir hans preststíð. Hinsvegar þykir mér rétt að geta þeirra stafrófskvera hér, sem til greina gátu komið til að nota við lestrarkennsluna.
Á 18. öld voru gefin út hér á landi þrjú stafrófskver, tvö á Hólum, 1776 og 1779, og eitt í Hrappsey 1782. Síðan kemur út stafrófskver, líklega 1811, og heitir það „Stafrófs-Tafla“. Það mun hafa verið prentað í Leirárgörðum. Árið 1817 kemur út stafrófskverið „Barnagull“ eftir séra Bjarna Arngrímsson. „Stutt stafrófs-Qver, ásamt Lúthers Litlu Fræðum með borðsálmum og Bænum„ kom út í Viðeyjarklaustri 1824. „Lestrarkver handa heldri manna börnum“ kom út 1830. Og 23 árum síðar, 1853 kom út „Nýtt Stafrófskver handa Minni manna börnum“. Ári síðar komu út tvö stafrófskver, annað prentað á Akureyri, en hitt í Kaupmannahöfn⁵.
Hvað af þessum stafrófskverum notuð hafa verið í Vestmannaeyjum á hverjum tíma, er mér ekki kunnugt um, hefi ekki fundið heimildir um það.
Séra Jón Jónsson Austmann andaðist að Ofanleiti 14. ágúst 1858.

Saga Alþýðufræðslunnar á Íslandi eftir Gunnar M. Magnúss, bls. 64—68.


Embættistíð séra Brynjólfs Jónssonar


Með bréfi stiftyfirvaldanna dags. 18. september 1852 var séra Brynjólfur Jónsson prests Bergssonar að Hofi í Álftafirði skipaður aðstoðarprestur séra Jóns J. Austmanns að Ofanleiti. Þá hafði séra Jón verið heilsuveill um skeið, orðinn aldraður og þreyttur með langan starfsferil að baki. Um það bil sem séra Brynjólfur Jónsson fluttist til Vestmannaeyja til þess að gerast ábyrgur kapelán hjá séra Jóni Austmann, var bókaeign Eyjabúa sem hér segir:

Eintök
Biblíur 36
Vídalínspostilla 75
Passíusálmar 27
Vigfúsarhugvekjur 29
Sálmabókin nýja 50
Sturmshugvekjur 28
Flokkabókin (sálmabók 1746) 29
Grallarinn (sálmabók og nótur) 9
Gerhardshugvekjur 14
Nýja testamentið 14
Bænakver 22
Herslebs föstupredikanir 16
Fæðingarhugvekjur 8
Sjöorðabókin 10
Sveinbjarnarhugvekjur
Sveinbj. Hallgrímsson
7
Harmonía evangelíum
(samanburðarguðspjöllin)
4
Miðvikudagspredikanir 5
Gíslapostilla (Gísli Þorláksson biskup) 1
Sigurljóð 1
Píslarþankar 5
Mynsterspredikanir 12
Árnapostilla (Séra Árni próf. Helgason) 3
Bjarnabænir 3
Eintök guðsorðabóka alls 408

Árið 1853 voru 89 heimili í Vestmannaeyjum, og þar bjuggu þá 408 manns. Er þar því eitt eintak bókar á mann. Passíusálmar eru til á þriðja hverju heimili. Biblían er ekki til á öðru hvoru heimili. En yfir 84% heimilanna eiga Vídalínspostillu.
Séra Brynjólfur settist að í Nöjsomhed, hinum gamla konunglega embættismannabústað í Eyjum, í námunda við höfnina. Þar bjó prestur síðan til ársins 1860 að hann var skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjum (3. ágúst um sumarið) og fluttist þá að Ofanleiti.
Á engan er hallað, þó að fullyrt sé, að séra Brynjólfur Jónsson sé einn allra merkasti prestur, sem gegnt hefur prestskap í Vestmannaeyjum fyrr og síðar. Segja má með sanni, að hann fórnaði Eyjabúum og Eyjunum allri starfsorku sinni, og þó sérstaklega síðari hluta þeirra 24 ára, er hann var þar sóknarprestur.
Árið 1918 gaf Fræðafélagið út æviágrip séra Brynjólfs Jónssonar með sóknarlýsingu hans af Vestmannaeyjum, sem Gísli læknir, sonur séra Brynjólfs, kostaði. Í æviágripi þessu er farið nokkrum orðum um menningarástand Eyjabúa, þegar séra Brynjólfur gerðist þar prestur og séra Jón Austmann hafði illa getað að staðið um árabil sökum elli og lasleika. Með því að hið merka bindindisstarf séra Brynjólfs hafði mikil áhrif til góðs hinum uppvaxandi æskulýð í Eyjum á hans tíð, þykir hlýða að tengja það hér öðru fræðslustarfi hans þar, því að menningarástand Eyjabúa var í lakasta lagi, þegar hann fluttist þangað. Agaleysi á flestum sviðum og drykkjuskapurinn og athafnaleysið keyrðu úr hófi fram.
Í nefndu æviágripi segir orðrétt:
„Þegar séra Brynjólfur kom til Eyjanna, var ástandið þar ekki glæsilegt. Að sönnu voru bjargráð ekki slæm hjá eyjabúum, en framtakssemi var lítil, eins og víða vildi brenna við í þá tíð, og bætti það ekki úr, að eyjamenn voru í meira lagi drykkfelldir, enda var áfengið þá mjög ódýrt og greitt aðgöngu við búðarborðið, og mönnum lítt talið til hneisu, þótt þeir fengju sér ærlega í staupinu. En af þessu leiddi, að margir, sem annars hefðu getað verið sjálfbjarga, urðu örsnauðir og öðrum til byrði. Lítið hafði hingað til verið gjört til þess að stemma stigu við ofdrykkjunni, en séra Brynjólfur sá, að þetta ástand var eyjunum til hins mesta hnekkis og lagði sig þá allan fram til þess að fá gjört eyjaskeggja fráhverfa drykkjuskapnum. Hann stofnaði því árið 1862⁶ Bindindisfélag Vestmannaeyja og var forseti þess til æviloka. Sjálfur hafði hann þegar í latínuskóla gengið í bindindi ásamt flestum kennurum skólans og mörgum skólapiltum. Hélt hann það síðan til dauðadags ... Bindindisfélag þetta hafði mikil og farsæl áhrif á eyjaskeggja, og margir, er illt höfðu átt með að gæta hófsins, gengu í félagið og urðu öðrum til fyrirmyndar. Og þannig bættust siðir manna að góðum mun.“

Þetta er skakkt. Séra Brynjólfur stofnaði bindindisfélag sitt 27. nóv. 1864.

Árið eftir að séra Brynjólfur Jónsson fluttist til Vestmannaeyja og gerðist þar aðstoðarprestur, eða 1853, var danskur maður skipaður sýslumaður þar.
Hann hét Andreas August von Kohl. Hann hafði hlotið liðsforingjamenntun og -nafnbót og verið skipaður kapteinn í danska hernum. Kaptein Kohl nefndu Eyjabúar hann í daglegu tali. Þessum danska embættismanni ofbauð menningarástandið í Vestmannaeyjum, þegar hann settist þar að.
Enn hélzt þá við með Eyjabúum óttinn og hræðslan við sjóræningja og hafði haldizt þar við, síðan Tyrkir rændu 1627. Einnig höfðu erlendir sjómenn, er stunduðu fiskveiðar á skipum sínum kringum Eyjar, orðið uppvísir að ránskap, eggjastuldi og sauðaráni í úteyjum.
Þetta hugarástand fólksins og menningarhætti þess hugðist kapteinn Kohl bæta með því að stofna einskonar herskóla í Eyjum. Sjálfur var hann röggsamt yfirvald, sem hreif menn með sér, og vanur liðþjálfi. Stofnun þessari kom sýslumaður á legg og naut til þess velvilja og fyrirgreiðslu góðra manna í Eyjum, m.a. hins unga prests í Nöjsomhed. Kapteinn Kohl skipulagði herflokkinn, sem kallaður var Herfylking Vestmannaeyja, og gerði tvo af forustubændum Eyjanna og tvo skeleggustu verzlunarmennina þar að flokksforingjum. Herfylkingunni voru samdar og settar ákveðnar reglur og markmið. Hún skyldi þjálfa vopnaburð og kenna notkun þeirra. Hún skyldi kenna aga og stjórnsemi, reglusemi og hlýðni, snyrtimennsku og háttprýði. Hinum eldri liðsmönnum hennar var skipt í 4 flokka, en hinum yngstu í tvo. Í unglingadeildunum voru liðsmennirnir 8—16 ára.
Árangurinn af starfsemi herfylkingarinnar kom fljótt í ljós og var undraverður. Mjög dró úr agaleysi því og drykkjuskap, sem einkennt hafði jafnan lífið á vetrarvertíð og í kauptíðinni á vorin. Þrifnaður og reglusemi fór í vöxt. Einnig stundvísi og háttprýði. Mjög dró úr búðardvöl og -stöðum athafnaleysingjanna og hengilmænuhætti. Ungliðarnir, börnin og unglingarnir, fylltust áhuga og sniðu sig eftir beztu háttum hinna eldri, sem urðu þeim til fyrirmyndar og hvatningar. Nýtt líf, nýtt sjónarmið.
Kapteinn Kohl andaðist í jan. 1860. Hafði þá herfylking hans starfað í þrjú ár, og árangurinn í rauninni orðið undraverður. Eftir dauða foringjans lognaðist herfylkingin brátt út af, áhrifin koðnuðu og reglurnar gleymdust. Brátt sótti í sama horfið aftur um menningu alla og manndóm.
Er séra Brynjólfur Jónsson skrifar sóknarlýsingu sína 1873, eða 13 árum eftir dauða kapteins Kohl, minnist prestur hans þar og fer viðurkenningarorðum um þetta ágæta fórnarstarf Kohl í þágu Eyjabúa. Þar segir prestur: „Þess má geta, að í tíð sýslumanns A. Kohls, er vel kunni að hernaðaríþrótt, gengu, að hans áskorun, allt að 70 ungir menn í heræfingafélag, þar sem kennd var regluleg fylkingarskipun og herganga, svo og að bera og beita byssum að hermanna sið. En nú er þetta heræfingafélag að mestu niður fallið, af því að á síðustu árum hefur vantað alla reglulega stjórn, og enginn verulega tekið sig fram um að viðhalda því. Þó er hernaðaríþrótt þessi alls ekki gleymd þeim, er hafa numið hana.“
Ráða má af orðum prestsins, að hann saknar þessa herskóla, áhrifa hans á æskulýðinn og daglegt líf fólksins. Enda var nú röðin komin að prestinum sjálfum. Nú varð hann að taka í taumana og leggja sig sjálfan allan fram í starfið, bæði fræðslustarfið og uppeldisstarf æskulýðsins að öðru leyti. Og fjórum árum eftir dauða A. Kohls (eða 1864) stofnaði hann Bindindisfélag Vestmannaeyja, sem hann var foringi fyrir og bar uppi til dauðadags.
Það er ánægjulegt að skyggnast í kirkjubækur þær, sem séra Brynjólfur færði í prestskapartíð sinni. Þær bera prestinum fagurt vitni. Þær eru mjög læsilegar, nákvæmar og hafa ýmsan fróðleik að geyma, sem er þar dreginn saman lesandanum til glöggvunar og tímasparnaðar.
Þegar séra Brynjólfur gerðist aðstoðarprestur í Vestmannaeyjum (1852), bjuggu þar 409 manns (sjá manntalstöfluna). Þegar hann gerðist þar sóknarprestur (1860) hafði fólkinu fjölgað um tæplega 100 manns. Og hundraðstala hinna ólæsu innan 10—12 ára aldurs fór sífellt hækkandi ár frá ári. Heimilin vanræktu æ meir og meir það kennslustarf, sem þeim lögum samkvæmt bar að inna af hendi. Þessa staðreynd sannar síðasti dálkurinn í eftirfarandi skýrslu. L þýðir þar læsir. Ól., ólæsir.

ár Innan 10 ára
L. - Ól.
Milli 10 og 15 ára
L. - Ól.
Milli 15 og 20 ára
L. - Ól.
Milli 20 og 30 ára
L. - Ól.
Milli 30 og 50 ára
L. - Ól.
Milli 50 og 70 ára
L. - Ól.
Milli 70 og 90 ára
L. - Ól.
Ólæsir af hverju
hundraði íbúa
1854 7 - 78 20 - 3 18 - 0 98 - 0 127 - 0 67 - 0 16 - 0 18,66
1855 7 - 89 27 - 1 13 - 0 103 - 0 126 - 0 70 - 0 12 - 0 20,00
1856 11 - 104 22 - 1 12 - 1 110 - 0 128 - 0 69 - 0 15 - 0 22,40
1857 10 - 112 23 - 1 14 - 1 102 - 0 132 - 0 70 - 0 16 - 0 23,70
1858 8 - 120 23 - 1 19 - 1 93 - 0 141 - 0 73 - 0 14 - 0 24,70
1859 15 - 124 26 - 1 23 - 1 86 - 0 141 - 0 71 - 0 9 - 0 25,40
1860 14 - 137 21 - 2 30 - 1 74 - 0 151 - 0 65 - 0 6 - 0 27,90
1861 11 - 138 31 - 4 26 - 0 76 - 1 147 - 0 65 - 0 7 - 0 28,03
1862 13 - 148 38 - 7 22 - 0 82 - 0 160 - 0 58 - 0 10 - 0 29,00
1863 14 - 148 33 - 13 28 - 1 75 - 1 163 - 0 57 - 0 9 - 0 30,00
1864 20 - 139 42 - 12 24 - 1 46 - 0 169 - 0 56 - 0 7 - 0 27,80
1865 16 - 138 56 - 7 27 - 1 72 - 1 160 - 0 61 - 0 7 - 0 26,90
1866 18 - 126 56 - 12 36 - 1 61 - 0 159 - 0 56 - 0 4 - 0 26,30
1867 12 - 132 55 - 13 42 - 1 61 - 2 151 - 0 56 - 0 8 - 0 27,80
1868 11 - 136 60 - 12 44 - 1 74 - 2 155 - 0 54 - 0 9 - 0 27,00
1869 11 - 37 51 - 13 55 - 2 76 - 1 154 - 0 45 - 0 10 - 0 27,60
1870 8 - 140 56 - 15 59 - 1 75 - 0 162 - 0 38 - 0 17 - 0 27,30
1871 5- 129 55 - 13 62 - 2 71 - 0 164 - 0 38 - 0 18 - 0 25,85
1872 5 - 126 45 - 24 67 - 1 82 - 0 161 - 0 41 - 0 18 - 0 26,50
1873 6 - 122 39 - 26 65 - 2 77 - 0 163 - 0 42 - 0 16 - 0 26,90
1874 6 - 111 43 - 24 58 - 1 79 - 0 161 - 0 42 - 0 19 - 0 25,00
1875 1 - 114 48 - 25 56 - 2 82 - 0 157 - 0 45 - 0 21 - 0 26,10
1876 4 - 111 45 - 20 51 - 2 95 - 0 144 - 0 48 - 0 19 - 0 24,70
1877 5 - 107 41 - 21 51 - 5 98 - 1 141 - 0 55 - 0 17 - 0 24,70
1878 6 - 10 38 - 22 59 - 4 93 - 1 143 - 0 59 - 0 18 - 0 24,80
1879 11 - 110 41 - 17 54 - 3 104 - 1 139 - 0 61 - 0 17 - 0 23,50
1880 14 - 103 38 - 12 68 - 1 108 - 2 129 - 0 63 - 0 20 - 0 21,15
1881 9 - 104 45 - 4 59 - 2 116 - 1 125 - 0 73 - 0 20 - 0 20,00
1882 9 - 86 41 - 10 55 - 1 119 - 3 125 - 0 74 - 0 21 - 0 18,40
1883 8 - 84 32 - 11 57 - 2 114 - 2 115 - 0 82 - 0 18 - 0 18,85
1884 34 - 58 39 - 0 56 - 2 109 - 0 109 - 0 79 - 0 18 - 0 11,90

Skýrsla þessi er tekin saman eftir húsvitjunarbókum Vestmannaeyjasóknar, sem séra Brynjólfur hefur fært. Séra Stefán Thordersen, sem varð sóknarprestur í Eyjum eftir séra Brynjólf, hélt hans upptekna hætti um færslur og nákvæmni kirkjubókanna. En við dauða hans, 1889, var hætt að geta þess í kirkjubókum Landakirkju, hversu margir Eyjabúar væru læsir eða ólæsir á hinum ýmsu aldursskeiðum, enda þá komin breytt viðhorf. M.a. var þar kominn á stofn fastur barnaskóli, fyrir atbeina séra Brynjólfs Jónssonar og fleiri ágætra forustumanna Eyjabúa í efnahags- og menningarmálum. Svo sem skýrslan ber með sér, fór hundraðstala ólæsra í Eyjum innan 15 ára aldurs sífellt hækkandi fram að þeim tíma, er séra Brynjólfur Jónsson varð þar sóknarprestur. Þetta ástand í fræðslumálum Eyjanna gat hann ekki unað við. Hvað var þá til bragðs að taka svo að heimilin gerðu skyldu sína og sæju um það, að börnin lærðu lesturinn, sem var undirstaða allrar annarrar fræðslu, nægilega snemma?
Séra Brynjólfur tók það ráð, að leggja á sjálfan sig mun meira starf til bóta á þessu ástandi en áður hafði verið og nokkur prestur í landinu gerði, svo að vitað væri. Hann afréð að húsvitja og rannsaka kunnáttu og lestrariðkun barnanna ekki sjaldnar en þrisvar á ári. Árangur þessa mikla starfs prestsins kom brátt í ljós, þó að hægt gengi og við raman reip væri að draga. Skýrslan sýnir, að um 1862 er tæpur þriðjungur Eyjaskeggja ekki fulllæs innan 15 ára aldurs. Síðan fer þessi hundraðstala alltaf smálækkandi og er komin niður í 11,9%, árið, sem séra Brynjólfur deyr. Fyrir látlaust starf hans og vakandi ötulleik vannst þetta á. Mjög bráðlega varð prestur var batnandi árangurs af hinu mikla starfi sínu, hinum þrem húsvitjunum. Í gleði sinni yfir árangrinum skrifar hann prófasti, séra Árna Jónssyni í Odda, bréf dagsett 3. júlí 1866 og segir honum frá þessu starfi og árangri þess. Prófastur svarar presti 31. ágúst um sumarið. Þar segir hann:
„... ég get ekki annað, en í alla staði verið ánægður með þá aðferð, sem þér í áminnztu bréfi segizt hafa brúkað við barnauppfræðingu og er yður samdóma í því, að fleiri húsvitjanir mundu ekki betur ná tilgangi sínum, eins og ég ekki heldur hefi heyrt þess getið, að nú nokkurs staðar hér á landi sé tíðkanlegt að húsvitja þrisvar á ári á hverjum bæ.“

Hannes Jónsson, hafnsögumaður, sem var fæddur 1852, glöggur og sannorður, hefur sagt frá því, hvernig barnafræðslan var í æsku hans. Kemur sú frásögn vel heim við það, sem hér hefur áður verið sagt um alla tilhögun barnafræðslunnar. Hannes segir, að heimilin hafi sjálf orðið að sjá börnunum fyrir nauðsynlegri fræðslu, ef þau áttu að verða læs og skrifandi. Reikningskunnátta, segir Hannes, þekktist tæpast hjá öðrum en þeim, sem æðri menntunar höfðu notið. Var margt manna um þetta leyti í Eyjum, segir Hannes, hvorki læst né skrifandi. Margrét, móðir Hannesar, kenndi honum lestur. Hún var fljúgandi læs bæði á gotneskt og latneskt letur, en ekki hafði hún lært að skrifa. Hjá Margréti var þá gömul kona, sem hét Guðný Þorkelsdóttir, og var hún ættuð austan af Síðu. Hún kunni eitthvað að draga til stafs og kenndi Hannesi það. Þetta var öll sú kennsla, sem hann naut í æsku sinni. Guðsorðabækur voru til á flestum heimilum, og varla nokkurt heimili svo snautt bóka, að ekki væri þar til Jónspostilla⁷. Kemur þetta vel heim við það, sem hér er áður haft eftir séra Jóni Austmann, sóknarpresti, um bókaeign Eyjabúa. Næstum á hverju heimili voru lesnir húslestrar, einkum á föstunni og helgum, ef ekki var farið í kirkju.

Sjá greinina Alþýðufræðsla og barnaskólar í Vestmannaeyjum á 18. og 19. öld eftir Jóhann Gunnar Ólafsson í Gamalt og nýtt, 2. árg., 6. hefti, marz 1950.

Árið 1866 var prentað hér á landi nýtt spurningakver. Það var þýtt úr dönsku eins og fyrri spurningakverin. Höfundurinn var Balslev stiftprófastur í Danmörku. Það var þýtt á íslenzku og ruddi sér brátt til rúms og varð bráðlega mjög víða notað við kristindómsfræðsluna hér á landi. Það var mun styttra en Balleskverið og þótti auðskildara eða aðgengilegra fyrir börnin. Nokkur ár var það notað í Eyjum sem annars staðar jöfnum höndum með Balleskverinu, en víða eingöngu, þegar fyrsta kverið, sem íslenzkur maður samdi, kom út 1877 eða 1878. Það var kver Helga Hálfdánarsonar, prestakennara og sálmaskálds, og hét í upphafi „Hinn kristilegi barnalærdómur“.
Á þessum árum höfðu verið gefnar út tvennar Biblíusögur, báðar bækurnar þýddar úr dönsku, Tangs- og Balslevs-biblíusögur. Þær voru notaðar með hinu nýja kveri, Balslevs-kverinu. Prófastur hvatti sóknarprestinn í Eyjum sem aðra presta að nota heldur Balslevs-kverið. Í umboðsbréfi prófasts, dags. 3. júní 1866, segir svo: „Ég get því ekki betur séð, en að bezt sé meðan svona stendur, að við allir, hver í sínu lagi, heldur styðjum að því, að þau börn, sem eru að byrja að læra sinn barnalærdóm, brúki heldur Balslevs- en Balles-kver ... Miklu styttra en hitt ...
Ryður sér til rúms erlendis.“

Yfirleitt eru fermingarbörnin eldri að öllum jafnaði, þegar séra Brynjólfur fermir en séra Jón Austmann. Töluverður hluti þeirra er 15 ára og nokkuð algengur fermingaraldur er þá 16, 17 og 18 ár. Foreldrar, fósturforeldrar eða húsbændur hafa haft fermingarbörnin „í læri“ allt að 8 ár sum, flest 5—7 ár, og þau byrja að ganga til spurninganna hjá presti 10, 11 og 12 ára gömul og þannig gengið til prestsins 3—5 ár fyrir fermingu. En þetta var börnunum ekki nægilegt, ef eftirlit skorti með heimakennslunni eða prestur hlífði sjálfum sér við að rölta á milli heimilanna, „prófa“ börnin og skrá árangur. Ef til vill skapaði skráningin sterkasta aðhaldið, óttinn við bókfærða minnkun, sem af vankunnáttunni og framfaraleysinu hlauzt.
Svo sem kunnugt er, og drepið er á, þá samdi séra Brynjólfur Jónsson „Lýsing Vestmannaeyjasóknar“ árið 1873. Þar getur hann þess, að í Eyjum séu skrifandi 26 af hundraði eða 151 af 570 manns, og því 419 óskrifandi. Þessir 419 manns skiptast þannig: Fyrir innan tvítugt 108 karlkyns og 40 yfir tvítugt, alls 148. Óskrifandi kvenkyns 119 innan tvítugs og 152 yfir tvítugt, alls 271. Þá segir prestur orðrétt: „Það má virðast óþarft að gera nákvæmari greiningu en hér er gert á aldri hinna óskrifandi, en þess skal getið, að innan 10 ára aldurs eru hér um 130, meðal hverra mjög fáir geta, eins og til hagar með almenna uppfræðslu hér á landi, þar sem ei eru barnaskólar, verið skrifandi. Séu því aðeins þeir taldir, sem aldursins vegna gætu verið skrifandi, verða meðal þeirra svo sem 34 af hundraði, er skrifað geta⁸. Þetta er miðað við áramótin 1872.

Sjá Lýsing Vestmannaeyjasóknar eftir Br. Jónsson, prentuð í Kaupmannahöfn 1918.

Árið 1876 tekur séra Brynjólfur Jónsson það fram, að fermingarbörnin hafi ýmist lært Balslevs- eða Balles-kverið. Einnig hafi þau lært „sakramenntisbænir, morgunbænir, bæn um góðan afgang, ferðamannabæn og flestir töluvert af sálmum og versum.“ Árið 1880 er eitt „fermingarbarn“ hans tvítugt að aldri. Það ár hefur aukizt skriftar- og reikningskennslan hjá fermingarbörnunum. Þá tekur prestur að færa einkunn í skrift og reikningi inn í kirkjubækur. Einkunnirnar eru í þessum orðum: góð, allgóð, dágóð, sæmileg og lakleg. En þau orð tíðkuðust þá orðið í einkunnarákvæðum reglugjörða þeirra barnaskóla, sem þá þegar voru stofnaðir og starfræktir í landinu. Enda var nú stofnun barnaskóla í Vestmannaeyjum í undirbúningi og tók hann til starfa haustið 1880.

III. hluti

Til baka