Ólafur Már Sigurðsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Ólafur Már Sigurðsson frá Staðarhóli við Kirkjuveg 57, kaupmaður, deildarstjóri fæddist þar 29. nóvember 1953.
Foreldrar hans voru Sigurður Magnússon verkamaður, verkstjóri, kennari, f. 13. apríl 1909 í Svartahúsi í Seyðisfirði eystri, d. 24. nóvember 2004, og kona hans Guðrún Jóhanna Magnúsdóttir frá Másseli í Jökulsárhlíð í N.-Múl., húsfreyja, f. 1. mars 1917, d. 16. október 2002.

Börn Jóhönnu og Sigurðar:
1. Þórunn Sigurðardóttir húsfreyja, hjúkrunarfræðingur í Garðabæ, f. 22. janúar 1938. Maður hennar Finnur Jónsson, látinn.
2. Magnús Helgi Sigurðsson bifvélavirki, vélsmíðameistari á Seyðisfirði, f. 29. júní 1947. Fyrrum kona hans Sigríður Stefánsdóttir.
3. Ásdís Sigurðardóttir húsfreyja, skrifstofumaður í Reykjavík, f. 27. janúar 1950. Fyrrum maður hennar Sveinn Valgeirsson. Maður hennar Guðjón Einar Guðvarðarson, látinn.
4. Ólafur Már Sigurðsson kaupmaður, bæjarfulltrúi, verslunarstjóri, markaðs- og sölustjóri, deildarstjóri, f. 29. nóvember 1953. Fyrrum kona hans María Ólafsdóttir. Fyrrum kona hans Sigrún Kristín Ægisdóttir.

Ólafur Már var með foreldrum sínum til átján ára aldurs.
Hann lauk námi í Gagnfræðaskólanum, lauk iðnskólanámi á Seyðisfirði.
Ólafur starfaði við netagerð. Þau María hófu verslunarrekstur á Seyðisfirði, keyptu og ráku verslunina Brattahlíð, kjöt- og nýlenduvöruverslun frá 1974 til 1985, en þá seldu þau hana og Ólafur flutti til Reykjavíkur.
Hann var einn af stofnendum Kaupmannafélags Austfjarða, formaður Sjálfstæðisfélagsin Skjaldar á Seyðisfirði og sat í bæjarstjórn 1982-1985, formaður hafnarnefndar.
Ólafur lék knattspyrnu með Huginn á Seyðisfirði 1972-1985 og var formaður knattspyrnudeildar lengst af þeim tíma, tók auk þess þátt í starfsemi ÚÍA.
Hann lék með hljómsveitinni Einsdæmi og sumir meðlimir hennar mynduðu síðar Þokkabót í Reykjavík.
Eftir flutning til Rvk 1985 varð hann verslunarstjóri hjá Bræðrunum Ormsson, vann þar í tvö ár. Hann varð markaðs- og sölustjóri hjá Málningarverksmiðjunni Hörpu (nú Flügger) í 12 ár, kom aftur að Bræðrunum Ormsson 1999 og hefur unnið þar síðan, verið deildarstjóri í heimilis- og innréttingadeild.
Ólafur hefur tekið virkan þátt í starfsemi Knattspyrnufélagsins Vals og sat í stjórn þess í 13 ár og var einn af stofnendum Valskórsins árið 1992 og söng með kórnum í 13 ár.
Þau María Vigdís giftu sig, eignuðust þrjú börn, en skildu.
Þau Sigrún Kristín giftu sig, eignuðust tvö börn, en skildu.

I. Kona Ólafs Más, skildu, er María Vigdís Ólafsdóttir, bankastarfsmaður, f. 23. nóvember 1955 á Seyðisfirði. Foreldrar hennar Elísabet Hlín Nielsen húsfreyja, f. 7. desember 1924 á Seyðisfirði, d. 10. október 2008, og maður hennar Ólafur Marel Ólafsson útgerðarmaður, f. 30. apríl 1925, d. 4. janúar 2009.
Börn þeirra:
1. Ólafur Marel Ólafsson, f. 27. október 1972 á Seyðisfirði, d. 5. mars 1979.
2. Hildur Ólafsdóttir húsfreyja, f. 13. ágúst 1975 á Seyðisfirði, býr í Mosfellsbæ. Maður hennar Einar Páll Kjærnested.
3. Stella Hrönn Ólafsdóttir viðskiptafræðingur, viðskiptastjóri, f. 15. maí 1981 á Seyðisfirði, býr í Mosfellsbæ. Maður hennar Gunnar Gunnarsson.

II. Kona Ólafs Más, skildu, er Sigrún Kristín Ægisdóttir húsfreyja, hárgreiðslumeistari, f. 31. ágúst 1961. Foreldrar hennar Ægir Ólason, f. 27. janúar 1938, og Jónína Þóra Rannveig Einarsdóttir, f. 5. september 1941.
Börn þeirra:
4. Bjarki Már Ólafsson umboðsmaður knattspyrnumanna, búsettur í Belgíu, f. 26. september 1994. Kona hans Estefania Betancur frá Columbiu.
5. Ólafur Ægir Ólafsson rekstrarstjóri, handboltamaður, f. 28. október 1995. Sambúðarkona hans Ragnhildur Eir Stefánsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.