Saga Vestmannaeyja I./ VI. Heilbrigðismál og læknar, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


VI. Heilbrigðismál og læknar
(Fyrri hluti)


Læknar voru fyrst skipaðir hér á landi eftir miðja 18. öld, landlæknir og skömmu síðar fjórðungslæknar. Í Vestmannaeyjum var enginn læknir fyrr en á næstliðinni öld. Lítið gætti þó fyrir Vestmannaeyinga læknaskipunarinnar á landi sökum hinnar erfiðu aðstöðu þeirra til að vitja læknis héðan á Seltjarnarnes eða austur á land, þótt nokkuð bætti úr, er læknir kom í Vík í Mýrdal. Komið var fram á 3. tug 19. aldar er læknir fyrst var settur í eyjar. Gera má ráð fyrir því, að útlendir bartskerar hafi komið stundum til eyja með kaupmönnum á sumrum og gefið sig að lækningum og jafnvel að þeir hafi haft þar vetrarsetu. Eftir að lagt var bann við vetrarsetu útlendinga hér, var þó gerð undanþága með bartskera, ef þeir vildu græða fólk, sbr. alþingissamþykkt 30. júní 1545 og endurtekið síðar.¹)
Úr læknisleysinu hefir verið reynt að bæta á ýmsan hátt og hér sem annars staðar; munu það einkum hafa verið prestarnir, sem kröfur hafa verið gerðar til í þessum efnum. Öfluðu þeir sér þekkingar á lækningum eftir útlendum lækningabókum og voru sumir vel að sér í því, er lækningar snerti.²) Þannig mun hafa verið um suma eyjapresta, þótt eigi sé kunnugt um það sérstaklega, fyrr en á 19. öld um séra Jón Austmann, er hafði umboð Sveins Pálssonar læknis í Vík til þess að taka blóð, bólusetja og viðhafa einföldustu meðul. Veita mátti mönnum, sem eigi voru læknar, en höfðu aflað sér góðrar þekkingar í læknisfræði, leyfi til að stunda lækningar innan héraðs, sbr. tilskipun 5. sept. 1794.
Á kynja- og skottulæknum mun eigi hafa verið hörgull, og að litlu komið ákvæði, sem sett voru í lögum til að vara alþýðu við þeim.
Hér í eyjunum hafa verið notaðar algengustu læknisaðgerðir, er þekktust hér á landi og einkum voru fólgnar í blóðtökum og blóðhornasetningu. Þetta eru æfagamlar læknisaðgerðir, er rekja mun mega til fyrstu byggingar landsins, að minnsta kosti blóðhornin. Á Norðurlöndum var hvort tveggja tíðkað lengi fram eftir öldum. Blóðtökumennirnir áttu að þekkja æðarnar og taka rétt blóð eftir því, sem stóð á tungli. Til leiðbeiningar höfðu þeir á síðari tímum lítið kver, er hét æðamaðurinn. Þar voru sýndir blóðtökustaðirnir og skýrt frá, hvernig ætti að taka blóð við hverjum sjúkdómi. Eftir að læknir var skipaður í Vestmannaeyjum, hættu blóðtökur þar að vera eins algengar, en mörgum varð það samt til, er þeir fengu einhvern kvilla, að reyna fyrst blóðtöku áður en reglulegs læknis var leitað, og viðhéldust blóðtökur langt fram eftir 19. öld. Sú trú var hér nokkuð algeng, þó að eigi hafi verið framfylgt, nema ef til vill af einstöku mönnum, að mjög væri það vænlegt til að viðhalda líkamsheilbrigði sinni, að láta taka sér blóð einu sinni eða tvisvar á ári. Blóðtökuverkfærið var eins og kunnugt er bíldur, er slegið var eða höggvið á æðina með verkfæri eða notuð slagfjöður. Ungu fólki skyldi taka blóð með vaxandi tungli, en eldra fólki með minnkandi tungli. Þá var og lögð áherzla á, í hvaða merki tungl gekk, er taka átti blóð.
Blóðhorn eða koppar var notað aðallega við takstingjum og gigt, til að draga út vessa. Blóðhornin mátti setja á flesta líkamshluti, höfuð, enni, höku, hnakka, á lærin, bakið, eftir því sem við þótti eiga. Hornið var búið til af stiklinum af nautshorni, tálgað framan af og gert svolítið gat í gegn. Þegar horn voru sett, var rist fyrir með beittum hníf, aðeins sært, og horninu hvolft yfir, loftið sogið úr því og skæni vafið um endann á horninu. Þessi læknisaðgerð, er var algeng mjög fyrrum á Norðurlöndum, lagðist þar niður löngu fyrr en hér á landi. Notaðir voru og þurrir koppar og sogskálar.
Svitalyf ýmis konar voru algeng húsmeðul, kamfóra, terpentínuolía, anísolía, hoffmannsdropar. Plástrar voru hafðir við ýmsa kvilla, spanskfluguplástur og aðrir brunaplástrar við tannpínu og gigt.
Allmikið notaði fólk hér lengi heimatilbúin smyrsli, jurtir og jurtameðul gegn sjúkdómum og kvillum. Krabbafeiti var í miklu uppáhaldi sem læknislyf í Vestmannaeyjum á fyrri hluta 19. aldar³) og fram undir lok aldarinnar, og mun notkun þessa heimaunna lyfs vera mjög gömul. — Aðferðin við að búa til krabbasmyrslin var tvenns konar. Önnur var sú, að krabbinn var mulinn, helzt lifandi, og búið til úr honum mauk, er var notað við útvortis meinum og þótti m.a. afbragð að rjóða því á bólgu og gegn brjóstameinum. Hin aðferðin við tilbúning lyfs úr krabba var, að tekið var úr honum sumt af innvolsi, a.m.k. gallið, og krabbinn síðan mulinn mjög smátt og mulningurinn síðan soðinn í leirpotti yfir hægum eldi alllengi og vökvinn síaður frá, smjör stundum látið saman við. Þetta var talið gott meðal við ýmsum kvillum, bæði innvortis og útvortis, magaveiki, höfuðverk, brunasárum, augnveiki og jafnvel við holdsveiki.
Konan Evlalía Nikulásdóttir í Móhúsum, dáin á Oddsstöðum skömmu eftir 1900, mun síðust hér í eyjum hafa stundað að sjóða og vinna krabbasmyrsli, en við það hafði hún fengizt lengi. Gekk hún um fjörur og hirti krabba, helzt lifandi. Bjó hún með holdsveikum manni í Móhúsum, er var húsmannsbýli í suðurjaðrinum á Kirkjubæjartúni.
Þorskalýsi var notað einkum við brjóstþyngslum. Gott þótti við kvefi og hæsi að væta ullarflóka í lýsi og leggja við brjóstholið, svipað gagn við nefstíflu gerði tólg. Andanefjulýsi var notað sem gigtaráburður og tekið inn við garnaflækju. Dæmi voru til þess, að menn gleyptu lifandi marflær gegn gulu. Við ígerðum hafði fólk ýms húsráð, svo sem að leggja við fýlungafyllu, hráar kartöflur, blautan arfa, rúgbrauð og eirþynnur. Notaðir voru alls konar plástrar við gigt, tannpínu og innvortis meinum.
Notkun jurta og grasa til lækninga hefir verið hér algeng fyrrum, og fram eftir 19. öldinni var það ennþá alltítt hjá alþýðu manna að viðhafa jurtameðul til heilsustyrkingar og gegn útvortis- og innvortiskvillum, og notað seyði af jurtum, grautar, smyrsli og plástrar eða jurtin sjálf lögð við bera húðina.
Skulu talin helztu jurtameðul, er hér tíðkuðust á seinni tímum:
Heimulurótarvatn, helzt soðið saman við hófrót, þótti gott við innvortismeinum og mjög styrkjandi fyrir taugarnar. Mjaðarjurt var talin eyða verkjum og drepi og græða sár, og seyði af þessari jurt var gott að drekka til að koma óhollum svita út úr líkamanum. Sama mátti segja um muruna. Vallhumalsseyði mýkti og græddi ýms innvortismein og bætti matarlyst. Af þessari jurt voru og búin til smyrsli til að græða sár. Blöð af græðisúru voru lögð við sár, ytra eða innra borð jurtarinnar lagt að eftir því, hvort ná átti út vessum eða græða. Svipuð var notkun á ljónslöpp. Helluhnoðri eyddi rotnun í sárum, hann þótti og góður gegn nýrnasteinum og óhreinum maga. Arfi var lagður við bólgu. Blóðbergste var talið að hreinsaði blóðið og styrkti hjartað. Hvannarótarvatn var notað við brjóstþyngslum. Í staðinn fyrir kaffi var drukkið seyði af vallhumal og blóðbergi. Hvönn og hvannarætur var notað til manneldis. Skarfakál, sem mikið er af í Vestmannaeyjum, í giljum og skorum uppi í fjöllum, sbr. Skarfakálshvamma norðan í Stóra-Klifi, var haft við skyrbjúg og þótti reynast vel. Útlend fiskiskip lögðu stundum að eyjum til að fá skarfakál. Seyði af lyfjagrasi notuðu konur til að viðhalda góðri rækt í hári.
Í ferðabók þeirra Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er þess getið, að tíðkazt hafi hér á landi að nota surtarbrand til að eyða bólgu, einkum brjóstabólgu hjá sængurkonum. Í Vestmannaeyjum var surtarbrandur notaður til hins sama á síðari hluta 19. aldar og fram yfir aldamótin síðustu. Átti kona hér gamla surtarbrandsflögu, er lengi hafði verið í ætt konunnar, er flutti hingað af Austurlandi. Var mikil trú á því, að surtarbrandsflagan læknaði bólgu, svo að flestar sængurkonur, er fengu brjóstabólgu eða illt í brjóstin, fengu flöguna til þess að leggja hana við brjóstið, og þótti það oftast koma að góðu liði. Vatn úr sérstökum brunni í Kirkjubæ þótti hollt handa sængurkonum. Sáldið, er brýnist af brýni eða freikju, var talið gott til að bera á bólgu.⁴)
Aðgerðir yfirsetukvenna hér höfðu verið gamaldags og úreltar, eins og kom fljótt í ljós, er læknar tóku að starfa hér. Meðferð ungbarna var mjög ábótavant á ýmsum sviðum og kreddukennd, sem annars staðar hér á landi. Úfskurður tíðkaðist þar til læknar komu til sögunnar. Var talið nauðsynlegt að skera úfinn úr börnum, með því að af honum stöfuðu margs konar veikindi í börnum. Var það afarforn trú, framan úr heiðni, að eitur drypi úr úfnum, og næði hann að drjúpa í þriðja sinni, þá væri dauðinn vís. Forn er frásögnin í Knytlingasögu um dauða Eiríks jarls af úfskurði í Englandi á 11. öld. Úfajárn voru notuð til að skera úr úfinn. Fram til síðustu tíma veittu konur því jafnan athygli hér, ef börn veiktust, hvort bólginn væri í þeim úfurinn.
Konur höfðu eigi börn sín á brjósti á öndverðri 19. öld, heldur var börnum þegar gefin óblönduð kúamjólk eða jafnvel soð af nýjum fiski og mjög snemma var farið að tyggja í börnin alls konar mat, brauð, fisk og kjöt. Í dúsunum er sagt, að stundum hafi verið tuggin fisklifur og heilagfiski.
Klæðnaður ungbarna um miðja 19. öld var lítil skyrta, er náði niður fyrir nafla, léreftsdúkur um lendar og læri, og ullarflóki síðan vafinn utan um kroppinn. Oft var ullarflókinn vættur í lýsi um brjóstið.
Barnadauði var mikill hér á landi fyrrum. Í Vestmannaeyjum þó lengi allra mestur, sökum skæðrar barnaveiki, er þar var landlæg lengi. Veiki þessi, er kölluð var ginklofi, deyddi þar flest ungbörn, svo að mjög fátt komst þar upp af ungmennum, að minnsta kosti á síðari hluta 18. og fyrri hluta 19. aldar, og hefir að líkindum verið svo lengi. Ginklofaveikina er hægt að rekja frá öndverðri 17. öld, og virðist hún hafa verið allútbreidd þá, svo að líklega á hún sér miklu lengri aldur. Gæti jafnvel verið, að veikin hefði borizt hingað með enskum eða írskum sjómönnum eða kaupsýslumönnum þegar á 15. öld. Þess er getið, að oft hafi sóttir borizt til Vestmannaeyja með útlendum skipum. Í bréfi frá prestinum í Kirkjubæ 1630 til biskups er getið dauða 4 kvenna hér af völdum ginklofa. Einnig segir svo þar, að af 37 börnum, er fæðzt hafi eftir Tyrkjaránið, lifi ekki utan ... en af orðalaginu virðist mega ætla, að barnadauðinn hafi þá verið næsta mikill.
Í ferðabók Daníels Streyc, er talið er að muni hafa komið til Íslands 1613—14, segir m.a., að í Vestmannaeyjum geti barnshafandi konur eigi orðið léttari, og fari því til meginlandsins til þess að ala þar börn sín. Með þessu mun vera átt við það sama, er síðar var nokkuð títt, að þungaðar konur færu úr eyjum til lands til þess að fæða börnin þar, svo að þau síður yrðu ginklofanum að bráð.
Séra Gissur Pétursson nefnir ginklofaveikina og barnadauðann í Vestmannaeyjum í sóknarlýsingu sinni 1703. Segir hann ginklofann „líkan sinadrætti, er afmyndar og teygir og togar sundur limina og gerir holdið blásvart.“ Getið er og um ginklofaveikina í Vestmannaeyjum í eftirmælum 18. aldar (Magnús Stephensen) og kennt um fisk- og sjófuglaáti. Í annál 19. aldarinnar getur veikinnar og.
Ginklofaveikin, er landlæg hefir verið lengi í Vestmannaeyjum, hefir magnazt eftir því, sem tímar liðu og ekkert var aðgert til varnar, nema að reyna skottulækningar og ýms ráð, er fólk sjálft viðhafði og að litlu gagni hafa komið hjá fjöldanum. Orðið ginklofaveiki telur Schleisner muni dregið af danska orðinu „Mundklemme“, og þykir rangnefni. Þessi tilgáta mun vera röng; nafnið ginklofi er gamalt hér.
Læknar vissu lengi eigi af hverju ginklofinn (trismus neonatorum) stafaði. Var bæði af læknum og öðrum, er um þessi mál fjölluðu, talið sem ginklofaveikin eigi þekktist nema í Vestmannaeyjum, og eigi annars staðar, hvorki utanlands né innan. Seinna upplýstist þetta betur af læknum í Kaupmannahöfn, er var kunnugt um veiki þessa á Írlandi. Og danski læknirinn P. A. Schleisner, er ferðaðist hér um landið 1847, taldi veikina að vísu mesta í Vestmannaeyjum, en annars útbreidda um flesta hluta landsins.
Það, sem rætt var um orsakir til veiki þessarar, var aðallega miðað við staðhætti í Vestmannaeyjum, mataræði fólks þar, einkum fuglaátið, aðbúnað o.fl. Urðu menn að finna eitthvað til, og helzt talið, að veikin stafaði af óhollu fæði fólks, sérstaklega af ofneyzlu á fuglakjöti, lunda, súlu og fýlunga. Sjálfsagt hefir þessi fæða, er mun hafa verið tuggin í dúsur barna, verið þeim of megn, þótt holl væri stálpuðum börnum og fullorðnum, eins og seinna var viðurkennt af öllum. Þá var og kennt um óhollustu af fuglafiðri (fýlungafiðri) í sængum, er barnsmæður lægju við. Var þetta m.a. skoðun Sveins læknis Pálssonar í Vík, er rannsakaði veikina. Sveinn kenndi og neyzluvatni eyjamanna um veikina. Sveinn Pálsson fór að tilhlutun stjórnarinnar til Vestmannaeyja árið 1799 til að athuga ginklofann þar, sbr. kansellíbréf 16. júlí 1803. Sveinn nefnir nú veikina latnesku nafni, opistotonus.
Það er mjög skiljanlegt, að aðkomumaður veitti fljótt athygli óþef þeim og stækju, er leggur af sængurfötum, þar sem fýlungafiður er í rúmum, og setti það í samband við veikina. En margt af fátækara fólki í eyjum mun þá hafa notað fýlungafiður í sængur í stað lundafiðurs, sem gekk við háu verði í verzlanir og viðurkennt er sem hreinasta og bezta fiður, næst æðardún. Hjá þrifnaðarfólki og betur megandi hefir fýlungafiður samt ekki verið notað í sængurföt, en lítt var það seljanlegt í verzlanir, en oft selt til landsins í vöruskiptum.
Þá er og eigi heldur furða, þótt neyzluvatnið vekti athygli læknisins. Margir sóttu það, að minnsta kosti þar sem eigi voru heimabrunnar eða þegar þeir þornuðu, í brunntjörn (Vilpu), sem aðrennsli var mikið að og vatn eigi sem hreinast, gripum og brynnt við tjörnina, og hið eina, sem hamla átti upp á móti öllum óþverranum, voru eldgömul munnmæli, um að úr vatninu úr Vilpu skyldi engum verða meint, hversu illa sem það liti út. En sama má segja um vatnið úr Vilpu sjálfri, að á þrifaheimilum var það eigi notað sem neyzluvatn, nema úr brunni litlum þar við. Sveinn læknir Pálsson hafði að vísu eigi betri bifur á brunnunum, er voru við marga bæi hér í eyjunum. Voru þeir flestir opnir og safnaðist þar rigningarvatn. Luktir, steinlímdir brunnar koma eigi til sögunnar fyrr en síðast á 19. öld. Læknirinn lagði til að menn byrgðu brunnana og notuðu til neyzluvatns eingöngu vatnið úr Lindinni í Herjólfsdal og af bergruna í Klettshelli og Undir Löngu.
P.A. Schleisner talar í riti sínu um hin þröngu híbýli fólks, einkum sé þröngt um á vertíðinni, svo að heilsufari manna stafi hætta af. Á vertíðinni bætist 250 manns við þau 400, er fyrir væru, svo að loftrýmið i íbúðarhúsunum, sem sé 99 kúbikfet á mann, fari niður í 66,8 kúbikfet á mann. Sveinn Pálsson telur húsakynni víða í eyjunum slæm og loftill og standi daunn af slæmum eldivið, fuglahömsum o.fl., skinnklæði hangi uppi í íbúðarhúsum og skemmi loftið.
Vestmannaeyingar áttu læknis að vitja á Austurland eða að Nesi við Seltjörn, eins og áður getur, er fyrst voru skipaðir læknar hér á landi. Nýtt héraðslæknisembætti var stofnað í Suðuramtinu árið 1799, sbr. Rskr. 4. okt. 1799.⁵) Þetta nýja læknishérað náði yfir vesturhluta Skaftafellssýslu, Rangárvalla- og Árnessýslur og Vestmannaeyjar. Meðal ástæðna fyrir stofnun þessa læknishéraðs voru tilfærðar þær, að nauðsyn bæri til að koma í veg fyrir hinar miklu kynja- og skottulækningar, sem fólk temdi sér, svo og að heilsuveila væri meðal fólks í Skaftafellssýslu, er eimdi eftir af síðan eldarnir gengu þar, en fólki þaðan nær ókleyft að vitja fjórðungslæknisins á Austurlandi. Um Vestmannaeyjar er þess getið, að þar komi oft upp sóttir með útlendum skipum, svo að ærin þörf væri þar fyrir lækni nær, og þótti nú mikil bót ráðin á fyrir eyjamenn að þurfa ekki að sækja lækni lengra en í nærsveitirnar á landi. Aðsetur þessa nýja læknis varð í Vík í Mýrdal.
Þótt læknismálunum væri þannig komið í betra horf, virðist samt sem ginklofaveikin hafi eigi minnkað, heldur jafnvel aukizt fyrstu áratugi 19. aldarinnar, enda engin lækning ennþá komin fram gegn þessari veiki og sjálfsagt mun lítið hafa verið um læknissókn til lands vegna veikinnar, sem og endranær, og læknirinn í þessum efnum látið nægja að gefa þau góðu ráð og leiðbeiningar um meiri þrifnað og bættan aðbúnað, er að framan getur. Samkvæmt skýrslu frá prestunum í Vestmannaeyjum til Geirs biskups Vídalíns, sbr. kansellíbréf 13. des. 1800, höfðu af 113 börnum, er fæddust á árunum 1790—1799, dáið 79 af völdum ginklofa. Athugunum um mál þessi var að vísu haldið áfram, sbr. kansellíbréf 16. júlí 1803, en ekkert verulegt aðhafzt annað en það, að stjórnin gaf út fyrirskipun til amtmannsins í Vesturamtinu um, að hann sæi um það, að sýslumenn brýndu það fyrir konum að hafa börn sín á brjósti, og ætlazt til að prestar læsu þennan boðskap upp við kirkjur, en nú var af mörgum talið, að barnadauðinn stafaði af því að konur hefðu eigi börnin á brjósti. Að öðru leyti var ekkert aðhafzt til að stemma stigu við barnadauðanum.
Árið 1820 hófust eyjamenn handa á ný undir forustu Magnúsar Bergmanns verzlunarstjóra, en hann var og þá einnig lögsagnari hér. Sendu eyjamenn stiftamtmanni til fyrirgreiðslu með bréfi 11. ág. 1820 beiðni til konungs um að konungur hjálpaði eyjamönnum um duglegan lækni, er tæki sér bólfestu í eyjunum um að minnsta kosti þriggja ára tíma, og hefði nauðsynleg meðul og læknistæki. Lofuðu eyjamenn að taka af fremsta megni þátt í kostnaðinum, er af þessu hlytist. Er um þetta kansellíbréf frá 7. apríl 1821.
Bæði landlæknir og amtmaður mældu eindregið með því, að læknir væri sendur til eyjanna, sbr. bréf 2. sept. og 30. ág. 1820, svo að það varð loks úr, að stjórnin sendi lækni til Vestmannaeyja til að rannsaka ginklofann, sbr. rentuk. br. 5. maí 1821 og konungsúrskurð 28. marz s.á. Var í nefndu rentukammerbréfi svo ákveðið, að landfógeti greiddi til bráðabirgða kostnaðinn við sendingu læknisins gegn endurgreiðslu úr jarðabókarsjóði, en þar stóð inni fé fátækrasjóðs Vestmannaeyja.
Læknirinn, er sendur var til eyjanna, var Ólafur Thorarensen læknakandídat, er var nýlega útskrifaður af háskólanum í Kaupmannahöfn. Hann dvaldi hér stuttan tíma. Samt var svo talið, að dregið hefði úr veikinni við komu læknisins, svo að nú lifði hvert 8. eða 9. barn, er hér fæddist.
Ólafur Thorarensen vildi eigi gegna lengur læknisstörfum, og varð við burtför hans aftur læknislaust hér. Var nú sótt fast af eyjamönnum að fá aftur lækni, og helzt, að stofnað væri hér sérstakt læknisembætti. Var þetta stutt mjög af þáverandi landlækni, Jóni Thorsteinsen, sbr. rentukammertillögur 29. maí 1827. Var með kgl. tilskipun 6. júní 1827 og 8. sept. s.á.⁶) ákveðið, að héraðslæknir skyldi skipaður í Vestmannaeyjar, en þó eigi lengur en til 6 ára í senn og með fyrirheiti um betra hérað eftir þann tíma. Bjóst stjórnin við að eftir þann tíma mundi læknis eigi þurfa lengur við og þá mundi vera búið að kveða niður ginklofann. Um veikindi í fullorðnum er aldrei talað né um þörf á lækni þeirra vegna, og er því svo að sjá sem heilbrigði hjá fullorðnu fólki hafi verið allgóð hér á öndverðri 19. öld, er fiskveiðarnar tóku aftur að glæðast. En fyrir og eftir aldamótin 1800 hafði verið mikið um skyrbjúg í fólki og mikið bar á holdsveiki. Alltaf var mikið um ígerðir og handarmein á vertíð. Í eyjalýsingunni frá 1749 er talinn algengastur sjúkdómur, að menn fái á vertíð sár og bletti á handleggi og fingur með nokkrum verkjum og grói seint. Séra Gissur segir í sóknarlýsingu sinni frá 1703, „að sóttferli falli hér eigi, nema almennileg, utan vatnsbjúgur og ginklofi.“ Í harðærinu um 1800 var hér kvillasamt, fyrir utan skyrbjúg og holdsveiki er og talað um horlopasótt.


Tilvísanir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:

1) Um sótt þá hina miklu, er kom hingað til landsins 1494, var sagt, að hún hefði komið úr bláu klæði og segja sumir, að það hafi skeð í Hafnarfirði hjá Eingelskum, er þar lágu enn við Fornubúðir á hinu stóra skipi sínu, en sumir greina, að það hafi skeð í Vestmannaeyjum. (Safn t.s. Ísl. I, bls. 43.)
2) Ísl. Þjóðh. J.J.
3) P.A. Schleisner.
4) Sjá og J.J.: Ísl. þjóðhættir.
5) Norske Tegn 45, 505 og 543, Lovs. VI. 6) Lovs. IX, 193 og 210.


Síðari hluti


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit