Ritverk Árna Árnasonar/Villur vegar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. október 2013 kl. 17:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. október 2013 kl. 17:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ritverk Árna Árnasonar/Villur vegar“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Villur vegar


Árni hét maður Árnason bróðir Theódóru þeirrar, er gift var Sigurhans sál. Ólafssyni. Hann var vinnumaður í Kornhól hjá Lárusi hreppstjóra Jónssyni.
Árna þessum þótti mjög gaman að spila á spil og sat öllum stundum, er hann mátti við koma í skammdeginu við spil og þá helst í Sjólyst, þar sem hann var vel kunnugur og kom þá að öllu jöfnu seint heim á kvöldin.
Svo bar við eitt kvöld seint um haustið, að Árni fór óvenju snemma heim á leið, þar sem klukkan var rúmlega 10. Þoka var úti og rigningarsúld eins og stundum kemur fyrir í Vestmannaeyjum, en jörð auð. Árni fer nú sem leið liggur austur Strandveg og austur úr Porti, tekur þaðan stefnu á kálgarðinn, sem lá að húsinu að vestanverðu.
Gengur hann nú all legi, en finnur hvergi garðinn fyrir og þykir furðu sæta, en heldur þó áfram um hríð. En er hann hefir gengið enn um hríð, sér hann að enginn vafi getur á því leikið að hann muni villtur vera. Snýr hann þá til baka og ætlar að koma að bænum austanverðum, en það fer sem fyrr, að honum þykir gangurinn vera langur, því að hann finnur heldur ekki Skansinn.
Þykir honum nú sinn hagur ekki sem glæsilegastur, en heldur þó áfram um hríð, en allt kemur fyrir ekki. Loks þykir honum nóg komið og heldur því aftur til baka og fer að hafa hraðann á því.
Honum finnst sér seint ganga og illa sækjast róðurinn. Þannig gengur hann og hleypur til skiptis um langa hríð og það litla, sem hann getur greint í koldimmu næturmyrkrinu, virðist honum æ ókunnuglegra. Hæðir og dældir verða fyrir honum, sem hann vissi, að hvergi var að finna í nánd við Kornhól, og stórir steinar voru hér og hvar í vegi hans og urðu þeir honum hreinasta ráðgáta. Og að lokum eftir að hafa gengið óraveg í angist og óvissu, sem þeir einir þekkja, sem villst hafa af alfaraleið í glóruleysi haustnæturinnar, varð fyrir honum snarbrött brekka, en þar settist hann niður og hugðist ekki halda lengra áfram, því að ella mundi hann fara sér að skaða.
En að sitja einn hundvotur í rigningu, myrkri og kulda, villtur vegar er annað en gaman. Hann stóð því upp og fór að berja sér og ganga fram og aftur til þess að reyna að halda á sér hitanum, þess á milli tók hann í nefið, því að hann var tóbaksmaður mikill, og varð honum hugfróun nokkur. Var nú ekki annað fyrir en bíða hér morguns og það gerði hann, en það var löng og ömurleg nótt í vosbúð, hungri og kulda.
Loks reis dagur í hægð og rólyndi, og betur og betur skynjaði Árni nú umhverfið. Hann var eins og áður er sagt staddur í brekku, en hún var snarbrött og fyrir neðan mátti nú grilla í ólgandi sjóinn. Nú var ekki um annað að ræða en að koma sér upp úr þessari óláns brekku. Og þegar hann stirður af kulda loksins náði takmarki sínu, að komast upp á sléttlendið fyrir ofan, gefur að líta Helgafell og er það í norður að sjá. Gengur hann því upp í Fellið til að átta sig betur.
Þegar komið var á fætur í Kornhól um morguninn til að hita kaffið, brá mönnum heldur en ekki, þegar Árni var ekki í rúmi sínu, og hafði auðsjáanlega heldur ekki verið þar. En þegar út er komið sjá menn, hvar maður kemur austan við Fellið og stikar allstórum. Er þetta Árni og segir hann sínar farir ekki sléttar, að hann hafi villst og orðið að gista úti um nóttina, en ekkert vissi hann þó, hvar hann hafði haldið kyrru fyrir, eða hvar sú brekka væri, sem hann lengst hafði orðið að dvelja.
Þegar eftir að hann var búinn að fá sér mat og hressing ætlaði hann af gömlum vana að fá sér í nefið, en fann þá baukinn hvergi. Saknaði Árni bauksins mjög eins og að líkindum lætur, en sagðist þó vera viss um það, að ekki hefði hann tapast á heimleiðinni, heldur væri hann í brekkunni sælu.
Og það kom seinna á daginn, að í þessu hafði Árni haft rétt fyrir sér, því að um vorið, í smalamennsku, fann strákur baukinn í Lambaskorum og þótti það þá fullsannað, að þar hefði Árni hafst við í útilegu sinni.
Ýmsu kenndu menn útivist Árna. Sumir sögðu að Akurdraugurinn mundi í þessu einhvern þátt eiga, en aðrir vildu kenna það draug, sem við Skansinn hafði aðsetur, og hefði villt Árna sýn svo herfilega. Og svo sagði sitt hver, en ekki hefi ég heyrt að menn hafi komist að neinni ákveðinni niðurstöðu...


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit