Blik 1969/Jakob Biskupsstöð og bátasmíð hans í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Revision as of 22:09, 24 September 2010 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Jakob Biskupsstöð, bátasmíðameistari,
og bátasmíð hans í Vestmannaeyjum


Á síðari hluta 19. aldar tóku Færeyingar að stunda sjó á Austfjörðum 3—4 mánuði sumarsins. Þeir réru þar með línu og færi á hinum léttu og rennilegu árabátum sínum. Yfirleitt fór mætavel á með þeim og Austfirðingum.
Margir Vestmannaeyingar stunduðu sjó að sumrinu á Austfjörðum á þessum árum og kynntust m.a. færeysku árabátunum, sem höfðu ýmsa kosti fram yfir íslenzku áraskipin, t.d. léttleikann.
Þessi kynni Eyjasjómanna af fleytum þessum urðu þess valdandi, að upp úr aldamótunum kappkosta Eyjamenn að eignast færeyska árabáta, og svo stærri árabáta en notaðir voru eða þekktust á Austfjörðum. Þessar færeysku fiskifleytur mynda einskonar tengilið milli íslenzku áraskipanna og dönsku vélbátanna, sem hingað voru keyptir á fyrsta áratug aldarinnar eða þá smíðaðir hér heima.
Enn minntust menn hér fyrir 40 árum stærstu færeysku áraskipanna, sem gerð voru út hér úr höfn eftir aldamótin og fram að þeim tíma, að vélbátarnir ruddu sér til rúms. Þá hurfu þau smám saman eins og þau höfðu útrýmt íslenzku áraskipunum og julunum á sínum tíma.

Jakob Biskupsstöð á efri árum.

Vorið 1968 gaf kunningi minn mér færeyska bók, Útróður 1845—1945 eftir Robert Joensen, kunnan færeyskan höfund. Í bók þessari er kafli um bátasmíðameistarann Jakob Biskupsstöð, sem smíðaði hér í Vestmannaeyjum stærstu áraskipin með færeyska laginu, svo sem Fálkann, Olgu o.fl. Ég tek mér það bessaleyfi að endursegja þann kafla bókarinnar, sem fjallar um bátasmíðar færeyska meistarans í Vestmannaeyjum, því að hann er eilítill þáttur úr útgerðarsögu bæjarins.
Jakob bátasmíðameistari fæddist 1867 að Myrkjaneyrarbæ í Færeyjum. Foreldrar hans voru Hans bóndi á Biskupsstöð í Klakksvík og kona hans, Katrine Fredrikke Óladóttir bónda á Toftanesi í Leirvík.
Jakob Biskupsstöð var á ýmsa lund merkur maður. Bæði var hann sjómaður góður og merkur bóndi, en nafnkunnastur þó fyrir bátasmíðar sínar.
Á 15. árinu hóf Jakob vinnu við bátasmíðar. Þá vann hann að þeim heilan vetur (1881—82) með Jakobi á Kirkju. Þennan vetur smíðuðu þeir saman 6 árabáta fyrir útgerðarfélag í Danmörku. Félag þetta gerði út skip á Íslandsmið, og skyldu bátarnir notaðir við þær veiðar.
Kunnur bátasmiður á Myrkjaneyri, þar sem Jakob Biskupsstöð fæddist, var Götu-Jóhann Pétur. Hann var 8 árum eldri en Jakob Biskupsstöð. Hjá þessum bátasmíðameistara hóf Jakob smíðanámið og fullyrti síðan, að enginn hefði veitt honum gagnlegri fræðslu af mikilli þekkingu og kunnáttu í bátasmíðum en Götu-Jóhann, en hann lézt á ungum aldri.
Þegar Jakob Biskupsstöð var 18 ára, greip hann löngun til að smíða bát á eigin spýtur. Þá báðu tveir Færeyingar hann að smíða fyrir sig bát. Þetta framkvæmdi Jakob með aðstoð föður síns. Öll mál á þessum nýja báti voru tekin af gömlum báti, sem nafni hans í Gerðum átti. Þann bát hafði Simon í Nornastofu í Mikladal smíðað fyrir löngu.
Á árunum 1880—1890 var engin hafskipabryggja í Klakksvík, enda þótt staðurinn væri mikilvæg verzlunarmiðstöð. Öllum vörum var þar skipað upp á áttæringum.
J.C. Djurhus, verzlunarstjóri, bað Jakob Biskupsstöð að smíða fyrir verzlunina stóran uppskipunarbát. Það gerði hann. Jakob smíðaði 7 smálesta uppskipunarbát fyrir verzlunina, og líkaði hann mjög vel. Þá var Jakob rúmlega tvítugur að aldri. Þessi uppskipunarbátur var stærsta fleyta, sem smíðuð hafði verið þar í byggð. Og bátasmíði þessi leiddi til þess, að Jakob áræddi síðar að smíða þilfarsbáta, sem settar voru vélar í.
Jakob Biskupsstöð kvæntist árið 1895. Þá hafði hann dvalizt hluta úr 5 árum á Íslandi. Fyrst fór hann til Íslands árið 1889 og dvaldist þá á Seyðisfirði. Þau ár, er Jakob stundaði sjóróðra á Íslandi að sumrinu, smíðaði hann nokkra árabáta heima hjá sér að vetrinum að beiðni Austfirðinga.
Sunnlendingar, sem stunduðu sjóróðra á Austfjörðum að sumrinu fyrir og um aldamótin, kynntust bátum þessum og vildu gjarnan eignast slíkar fleytur.
Ekki er loku fyrir það skotið, að einhver Færeyingur hafi smíðað árabáta fyrir Íslendinga á undan Jakob Biskupsstöð. Hvernig sem því er varið, þá er það víst, að Pól á Hamri af Tóftum smíðaði báta handa Íslendingum eða fyrir þá.


ctr


Þessi mynd er úr bók Robert Joensen og er sögð fyrirmynd að bátum þeim, er Jakob Biskupsstöð smíðaði fyrir Vestmannaeyinga.


Maður nokkur í Vestmannaeyjum hafði stundað róðra á Austfjörðum og kynnzt bátum Jakobs Biskupsstöð þar. Þessi Vestmannaeyingur mun hafa komið því til leiðar, að Jakob hóf bátasmíðar fyrir Eyjamenn. Þessi Eyjaskeggi var vinnumaður hjá héraðslækninum í Vestmannaeyjum (Þorsteini Jónssyni). Læknirinn bað skipstjórann á e/s Lauru, sem þá gekk á milli Færeyja og Íslands, fyrir þau skilaboð til Jakobs Biskupsstöð í Klakksvík, að hann smíðaði fyrir hann sexmannafar.
Strax og Eyjamenn sáu þennan bát og kynntust honum, vildu þeir umfram allt eignast færeyska báta og beiðnir um þá streymdu að Jakob Biskupsstöð. Hann sendi iðulega 3 báta í einni ferð til Vestmannaeyja. Svo mjög sóttu Eyjamenn eftir því að fá báta frá Jakob, að þeir sendu oft í bréfi andvirði bátanna með beiðninni um smíði á þeim, og báðu hann þá að senda þá hið skjótasta. Fjögurra manna far kostaði þá í Færeyjum 80 krónur, og átta manna far kostaði 100 krónur. Íslendingar buðu jafnan meira í bátana.


ctr.


Áttæringurinn Olga, einn af fyrstu bátum, sem Jakob Biskupsstöð smíðaði hér. Berið saman færeysku seglin við loggortuseglin á síðunni: Blik 1969, Fjallamenn í verzlunarferð til Vestmannaeyja.


Smám saman bárust Jakob Biskupsstöð beiðnir frá Vestmannaeyjum um stærri báta, t.d. einn 15 álna langan. Vissulega gat Jakob smíðað svo stóran bát, en þegar á reyndi, neitaði millilandaskipið að flytja svo stóran bát til Íslands. Þar með var loku skotið fyrir þá smíði í Færeyjum. Þetta tilkynnti Jakob Vestmannaeyingum. Þetta fékk þann endi, að Jakob bauðst til þess að dveljast í Eyjum við bátasmíðar. Eyjabúar buðu honum ókeypis ferðir báðar leiðir og full laun frá því að hann færi að heiman frá Biskupsstöð og þar til hann kæmi aftur heim til sín. Þetta gerðist sumarið 1901. Þann 9. september um haustið lagði Jakob Biskupsstöð af stað frá Færeyjum til Vestmannaeyja með e/s Vestu. Fyrst kom skipið til Seyðisfjarðar. Þaðan fór það svo til Vestmannaeyja.
Svo mikilvægt atriði telja Íslendingar þessar bátasmíðar Jakobs Biskupsstöð í útgerðarsögu sinni, að þeirra er getið í bók Lúðvíks Kristjánssonar: Fiskveiði Íslendinga 1874—1940.
Jakob vann kappsamlega að bátasmíðunum í Vestmannaeyjum 1901 langt fram á haustið og fór heim með síðustu skipsferð í nóvember. Áður en hann hvarf heim, réðu Eyjamenn hann til bátasmíða næsta sumar (1902).
Í maímánuði 1902 fór svo Jakob aftur til Vestmannaeyja og smíðaði þar þá nokkra báta 15 álna langa og einn 17 álna langan. Á stærsta bátnum réru 18 menn með línu og færi.
Þessir stóru færeysku bátar höfðu 4 segl, klýfir, fokku, stórsegl og aftursegl.
Sumarið 1903 dvaldist Jakob Biskupsstöð enn í Vestmannaeyjum við bátasmíðar.
Færeysku bátarnir þar voru síðan notaðir, þar til vélbátarnir voru teknir í notkun 1907, og margir notuðu þá, réru á þeim miklu lengur.

Jakob Biskupsstöð á gamals aldri.

Þessi Fœreyingur á sinn kafla í atvinnusögu Vestmannaeyja. Hann andaðist 14. febrúar 1964, 96 ára gamall. Hann var fœddur erfingi konungsjarðarinnar á Biskupsstöð í Klakksvík. Langafi hans var sjálfur Nolseyjar-Páll, sem var bátasmiður, sjómaður og bóndi eins og afkomandinn Jakob Biskupsstöð, sem smíðaði samtals 1000 báta, smœrri og stærri, á sinni óvenjulöngu œvi. Eftir að Jakob Biskupsstöð náði 80 ára aldri, smíðaði hann 76 stœrri og smœrri báta.
Það var kaupmaður í Vestmannaeyjum, Magnús Þórðarson að nafni, sem bað Jakob Biskupsstöð fyrst að koma til Eyja og smíða þar stóran fiskibát. Fyrsta bátinn þar smíðaði hann með gamla, fœreyska laginu. En brátt uppgötvaði bátasmíðameistarinn, að þetta bátalag væri ekki hið rétta til þess að þola veður og sjólag við Vestmannaeyjar. Hann breytti því bátalagi sínu, þegar hann tók til að smíða stœrri báta en færeyska sexæringinn. Sniðinu á seglunum á færeyska áttæringnum réð Jakob sjálfur.
Árið 1905 smíðaði Jakob bátasmíðameistari fyrsta vélbátinn heima á bæ sínum Biskupsstöð. Fleiri fóru þar á eftir. „Teir liva ið lond byggja.“
Heimild: Fœreyska blaðið „Norðlýsið“, 21. febrúar 1964.


               ———————————————
Það vorar
Veðurblíðan vermir hlíð,
vöxtinn má á flestu sjá:
Brjóta hýði blómin fríð,
burðarsmáir fara á stjá.
Brynj. Einarsson.