Blik 1963/Kennaratal: Ágúst Árnason

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1963ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


KENNARATAL
frá 1904-1937


Ágúst Árnason,
barnakennari í Vestmannaeyjum
1907-1937.


(F. 18. ágúst 1871, d. 2. apríl 1957)Ágúst Árnason, kennari.

Ágúst Árnason var Eyfellingur, f. 18. ágúst 1871, sonur hjónanna Árna bónda Árnasonar frá Seljalandi og k.h. Margrétar Engilbertsdóttur frá Syðstu-Mörk. Foreldrar Ágústs Árnasonar bjuggu á Mið-Mörk, er hann fæddist þeim. — Snemma bar á gáfum þessa unga Eyfellings. Einnig kom brátt í ljós, að flest verk léku í höndum hans. Hann vandist flestum daglegum störfum á heimili og í búskap foreldra sinna, þar sem hann dvaldist fram yfir fermingaraldur. Á gelgjuskeiðinu var Ágúst Árnason settur til sjóróðra undan Eyjafjöllum. Hann þótti dugmikill, kappsfullur og nokkuð skapharður. Hann vann sér traust og álit samskipsmanna sinna og formanna.
Jafnframt dugnaði Ágústs Árnasonar og atorku til sjós og lands brann hann af námfýsi og fróðleiksþrá.
Tvítugur að aldri kleif hann þrítugan hamarinn og hóf nám í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði, enda þótt efnin væru af skornum skammti. Hann lauk gagnfræðaprófi þaðan vorið 1893 eða eftir tveggja ára nám.
Að því námi loknu leitaði hugur Ágústs austur til átthaganna.
Á ungum aldri vaknaði með honum sú hugsjón að verða farkennari í sveit sinni. Þessu marki náði hann. Hann var farkennari í Eyjafjallahreppi veturna 1893-1896, en það haust réðst hann farkennari í Fljótshlíð. Þar dvaldist Ágúst Árnason við farkennsluna veturinn 1896-1897. En þá breytti hann til og gerðist heimiliskennari hjá Þorvaldi Björnssyni bónda á Þorvaldseyri (áður Svaðbæli) undir Eyjafjöllum. Þorvaldur bóndi rak útgerð mikla frá Eyjafjallasandi. Vissa er fyrir því, að Ágúst Árnason, kennari, var formaður á skipi bóndans á Þorvaldseyri a.m.k. eina vertíð og þótti farast vel úr hendi formennskan. (Sjá greinina Fiskiróður hér í ritinu).
Eftir jarðskjálftasumarið mikla 1896, er bóndabæir og kvikfénaður búa á Suðurlandi hrundi í rústir í hundraðatali, var mikil þörf á smiðum og öðrum lagtækum mönnum víða um sveitirnar til að byggja upp aftur bæi og önnur hús. Enda þótt jarðskjálftarnir yfirleitt gerðu ekki annan eins skaða á húsum undir Eyjafjöllum eins og í Árnes- og Rangárvallasýslu, þá skemmdust Merkurbæirnir mikið, og varð að byggja þá upp bæði að bæjarhúsum og útihúsum. Þá var það sem Ágúst Árnason hóf smíðar og gekk úr skugga um, að það starf lék í höndum hans. Eftir jarðskjálftahaustið (1896) glæddist sú hugsjón með Ágústi Árnasyni að verða smiður og öðlast meistararéttindi, þá tímar liðu.
Þegar Ágúst Árnason flutti til Vestmannaeyja veturinn eða vorið 1900 var hann nær 29 ára og hafði lagt ýmislegt á gjörva hönd. Hann hafði verið farkennari um árabil, heimiliskennari, háseti á opnu skipi frá Eyjafjallasandi, formaður þar, hygginn og gætinn, og réttindalaus húsasmiður, atorkusamur og afkastamikill. Nú setti hann sig niður í nýju umhverfi, þó að frændur hans og vinir, fyrri nágrannar og félagar fyndust þar furðu margir, þar sem fólksflutningar til Eyja voru svo tíðir undan Eyjafjöllum í þá daga bæði í atvinnuleit og til búsetu.
Í Eyjum tók Ágúst þegar að stunda húsasmíðar og sjómennsku jöfnum höndum. Annar kunnur húsasmiður hafði lokið sveinsprófi í Vestmannaeyjum árið 1902. Það var Magnús Ísleifsson frá Kanastöðum. Hann mun tæpum tveim árum síðar hafa dæmt sveinssmíði Ágústs Árnasonar, en það var skrifborð. Það var ekki lítill fengur byggðarlaginu í Eyjum og happ, að þessir trésmíðameistarar og afkastasmiðir, Ágúst og Magnús, voru búsettir þar, þegar hin mikla byggingaralda hófst í Eyjum á fyrsta tugi aldarinnar, sem hin örtvaxandi vélbátaútgerð blés lífi í og glæddi¹.
Svo sem greint er frá á öðrum stað hér í ritinu (sjá 4. kafla af Sögu barnafræðslunnar), afréð hreppsnefnd Vestmannaeyja veturinn 1904 að byggja nýtt barnaskólahús í hreppnum. Það var byggt úr timbri og var Ágúst Árnason ráðinn yfirsmiður við bygginguna. Hjá honum og undir hans stjórn unnu þar trésmíðameistararnir Magnús Ísleifsson og Sigurður Ísleifsson. Þeir þrír byggðu hið nýja skólahús. Þeir juku að mestu leyti við byggingu þessa síðla sumars 1904, svo að barnaskólinn gat tekið þar til starfa það haust með byrjun septembermánaðar. Sama sumarið hófst Ágúst Árnason handa um að byggja sjálfum sér íbúðarhús. Það byggði hann í félagi við sveitunga sinn, sem þá var nýfluttur til Eyja, Högna Sigurðsson frá Seljalandi. Lokið var smíði þess húss árið eftir (1905), enda þótt lóðin sé þeim byggð frá fardögum 1909.
Ágúst Árnason var yfirsmiður að þó nokkrum þessarra húsa.
Næstu 3 árin eftir að Ágúst hafði lokið við að smíða skólahúsið, stundaði hann öðrum þræði sjósókn með húsasmíðunum. Hann var t.d. um skeið háseti á hinum ,,10-róna“ áttæringi Ísak með Magnúsi Þórðarsyni í Dal. Einnig mun hann hafa verið formaður í Eyjum á vor- eða sumarvertíðum.

¹ Þykkibærinn reis syðst og austast í Nýjatúni, húsin Garðar, Múli, Landamót, Baldurshagi, Laugardalur, Sandprýði, Fell og Framnes á árunum 1904—1909. Og svo á víð og dreif: Sólheimar (1907), Gilsbakki (1907), Stakkahlíð (1908) (= Lyfjabúðin), Breiðablik (1908), Brautarholt (1908), Skjaldbreið (1908), Strönd (1908), Skuld (1908), Lundur (1908), Hóll (1908), Sandfell (1909), Látur 1909), Sjávargata (1909), Lögberg (1910), Kirkjuhvoll (1910), Vestri-Strönd (1908) og svo 30-40 hús á árunum 1911 og 1912. Allt timburhús. Hér er byggt á ársetningu byggingarbréfanna um ártölin.

—————

Árið 1907 hafði fjölgað mjög skólabörnum í Eyjum sökum sívaxandi aðstreymis fólks og búsetu þar með hraðvaxandi vélbátaútgerð. Þá reyndist þörf á fleiri kennurum við barnaskólann þar. Þá réði skólanefnd Ágúst Árnason kennara að skólanum til eins árs. Eftir það var hann kennari við barnaskóla Vestmannaeyja í 30 ár — eða til ársins 1937.
Flest eða öll árin, sem Ágúst Árnason var kennari í Eyjum, stundaði hann húsasmíðar á sumrum og hafði smíðaverkstæði í kjallara íbúðarhúss síns, Baldurshaga (Vesturvegur 5 A).
Eftir að vélbátarnir komu til sögunnar, eignaðist Ágúst hlut í vélbát. Það var 1907. Þá keypti hann 1/5 í v/b Dagmar, VE 100, 8,82 smálestir með 8 hestafla Hoffmannsvél. (Heimild: Aldahvörf í Eyjum eftir Þ.J.). Formaður var Magnús K. Sigurðsson frá Seljalandi. Sá bátur varð skammær. Tveim árum síðar (1909) eignaðist Ágúst 1/6 í öðrum vélbát, Farsæl, VE 134, 8,48 smálestir með 10 hestafla Dan-vél. Formaður var Helgi Jónsson frá Þorlákshöfn, sem átti 1/6 í bátnum. Þessi bátur fórst 1911. Þá hætti Ágúst þátttöku í útgerð.
Ágúst Árnason var í rauninni fyrsti byggingarfulltrúi Vestmannaeyjahrepps og síðar kaupstaðarins (1919). Um margra ára skeið eða þar til Sveinbjörn Gíslason gerðist byggingarfulltrúi Vestmannaeyjakaupstaðar, mældi Ágúst út flestar eða allar húslóðir fyrir jarðaumboð ríkisins í Eyjum og staðsetti íbúðarhúsin þar. — Einnig þótti Ágúst sjálfsagður matsmaður í þágu hins opinbera og einstaklinga. Mörg fyrstu starfsár Brunabótafélags Íslands var Ágúst virðingarmaður þess og trúnaðarmaður. Ágúst hafði einnig á hendi virðingar- og matsstörf fyrir samábyrgð vélbátanna um margra ára skeið.
Í fasteignamatsnefnd sat Ágúst í nærfellt 30 ár (1916-1945). Á árunum 1908-1911 skipaði hann sæti í skólanefnd Vestmannaeyja. Einnig var hann í bókasafnsnefnd (1924-1927) og bókavörður bæjarfélagsins var hann hlut úr ári, en þá var starfinn veittur öðrum af pólitískum ástæðum, þrátt fyrir einlægar óskir og vonir Ágústs að fá að una efri árunum við bækur sýslubókasafnsins eftir 30 ára dyggð og trúnað í mikilvægu, opinberu starfi, því að Ágúst kennari elskaði bækur og átti mikið og gott bókasafn sjálfur. Bækur voru þessum aldraða kennara augnayndi og andansgjafi í orðsins fyllsta skilningi. Fagrar bókmenntir voru honum annar heimur.
Öll störf sín vann Ágúst Árnason af stakri samvizkusemi og nákvæmni, hvort sem þau voru unnin í þágu einstaklinga, félags eða hins opinbera aðila. Hvergi og aldrei skeikaði í þeim efnum, svo að að yrði fundið. Hjá þessum manni fannst hvergi veila í skapgerð eða starfi. Það vitum við bezt, sem þekktum hann bezt.

—————

Árið 1904 kom út til Eyja tvítug heimasæta frá Hlíðarendakoti í Fljótshlíð. Hún kom ekki erindisleysu til Eyja, þessi gerðarlega og mennilega heimasæta úr faðmi hinnar fögru sveitar, þar sem Ágúst Árnason hafði verið farkennari fyrir fáum árum. Þorsteinn skáld Erlingsson og heimasætan voru bræðrabörn og hann hafði að nokkru leyti alizt upp með henni í Hlíðarendakoti og glætt henni ást á fögrum ljóðum og öðrum lifandi bókmenntum. Þessi bóndadóttir, Ólöf Ólafsdóttir bónda Pálssonar í Hlíðarendakoti og k.h. Guðrúnar Árnadóttur, reyndist vera heitbundin Ágústi Árnasyni, húsasmið og sjómanni í Eyjum, „realstúdent“ frá Flensborg í Hafnarfirði og fyrrverandi farkennara. Þau giftust árla næsta vors, eða 22. apríl 1905. Þau bjuggu síðan í Eyjum í 40 ár, áttu þar hlýtt og vinamargt heimili, sem orð fór af fyrir gestrisni, vinsemd, hlýhug og bókmenntablæ, því að húsbóndinn átti stórt bókasafn, sem setti svip sinn á heimili þeirra hjóna í Baldurshaga.

Börn Ólafar og Ágústs:

1. Sigríður, f. 26. apríl 1906, d. 9. maí s.á.
2. Guðrún, f. 21. júlí 1907.
3. Sigríður, f. 13. okt. 1910.
4. Margrét, f. 1. júní 1914.
5. Lóa, f. 13. okt. 1920.

Tvö fósturbörn ólu þau hjón upp. — Á fyrstu hjúskaparárum sínum tóku þau til fósturs stúlku að nafni Þuríður Vigfúsdóttir (f. 20. marz 1900). Í fyllingu tímans eða knapplega það eignaðist hún dreng, sem skírður var Óskar (Guðjónsson). Þuríður lézt frá drengnum kornungum. Þá tóku hjónin, Ágúst og Ólöf, fósturforeldrar Þuríðar, Óskar Guðjónsson í fóstur og ólu hann upp.
Árið 1945 fluttust hjónin frá Eyjum og settust að á Seltjarnarnesi. Þar byggðu þau sér íbúðarhús (Nesvegur 47).
Ágúst Árnason lézt 2. apríl 1957. Ólöf Ólafsdóttir, ekkja hans, er enn lífs, — 78 ára, þegar þetta er skrifað. Blik sendir henni kærar kveðjur og alúðarfyllstu árnaðaróskir, svo liðið sem orðið er á starfsdaginn.

Þ.Þ.V.Líkan af 10-æringnum Auroru. Þetta líkan smíðaði Ágúst Árnason.
Eigandi: Þjóðminjasafnið.


Þannig voru Eyjaskipin um 1900. Sexæringurinn Ísak 1898. Var með barkaróðri, þ.e. áttróinn. Skábyrðingur að lagi til.
Líkan af 8-æringnum Ísak. Ágúst Árnason gerði líkanið.
Eigandi: Byggðarsafn Vestmannaeyja.