Blik 1963/Frá Gagnfræðaskólanum

From Heimaslóð
Revision as of 20:43, 7 September 2010 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1963Frá GagnfræðaskólanumBoð Rótarý-klúbbsins.
Fimmtudaginn 13. des. s.l. hélt Rótarý-klúbbur Vestmannaeyja nemendum gagnfræðadeildar hóf í Akógessalnum við Hilmisgötu eins og undanfarin ár. Þetta var 5. árið, sem Rótarý-klúbburinn bauð nemendum til kaffidrykkju og kynningar. Með þeim hefur skólastjóri alltaf verið og svo yfirkennari skólans síðustu tvö árin.
Martin Tómasson, kaupmaður, forseti Rótarý-klúbbsins að þessu sinni, hafði orð fyrir félagsskapnum og bauð hina ungu gesti velkomna. Rut Óskarsdóttir, nemandi í 4. bekk, færði Rótarý-félögunum beztu þakkir skólans og nemendanna fyrir hið veglega og ánægjulega samsæti, en einhvern úr sínum hópi hafa nemendur ávallt verið látnir velja til þess.
Í hófinu kynnti Sigurður Ólason störf og markmið Rótarý-klúbbsins og flutti í tilefni þessa afbragðs snjalla ræðu, sem Hannes J. Magnússon, skólastjóri á Akureyri, hafði samið og flutt um mark og mið Rótarý-klúbbanna, þar sem þeir eru starfandi. Síðast sagði skólastjóri Gagnfræðaskólans nokkur orð.
Gagnfræðaskólinn færir Rótarý-klúbbnum alúðarfyllstu þakkir fyrir alla vinsemd og hugarhlýju frá fyrstu tíð. Boð Klúbbsins er jafnan viðburður í starfi skólans og nemendanna, sem það þiggja hverju sinni.

Sumarferðalag Gagnfræðaskólans.
Miðskólanemendur Gagnfræðaskólans efndu til skemmtiferðalags að loknum prófum í lok maí-mánaðar eins og svo mörg undanfarin ár. Ferðazt var til Þorlákshafnar með „Lóðsinum“ og þaðan um Suð-Vesturlandið til Stykkishólms. Þessir staðir voru heimsóttir: Hvanneyri í Borgarfirði, Borgarnes, Búðir í Staðarsveit, Ólafsvík, þaðan var ekið fyrir Búlandshöfða fram hjá Kistufelli í Grafarnes. Þaðan áfram til Stykkishólms. Gengið var á Helgafell eftir settum reglum með innilegar óskir sínar og hugsjónir, og undruðust unglingarnir sjálfir, hversu þeir lögðu svo sem eins og ósjálfrátt mikla alvöru í fjallferð þá. Einnig var gengið á Drápuhlíðarfjall.
Gistingarstaðir voru í Borgarnesi og Stykkishólmi og fengið inni í barnaskólabyggingunum þar.
Foringjar farar þessarar voru þeir Sigfús J. Johnsen, yfirkennari skólans, og séra Þorsteinn L. Jónsson, sóknarprestur, sem verið hefur tímakennari skólans, síðan hann gerðist hér prestur fyrir tveim árum. Áður var hann sóknarprestur í Miklaholtsprestakalli og því þaulkunnugur þeim landshluta, sem ferðazt var um. Presturinn lá heldur ekki á kunnugleik sínum í ferðalaginu heldur fræddi hann nemendur mikið um sögustaði og aðra markverða staði á leið þeirra.
Þegar skólahópurinn kom aftur til Reykjavíkur, brá hann sér til skemmtunar í Lidó og svo í Þjóðleikhúsið. Þar sá hópurinn „My fair Lady“. Ritari ferðalagsins var Sædís Hansen, sem fullyrðir, að ferðahópur þessi, sem fyllti tvo langferðabíla, hafi skemmt sér konunglega, eins og hún orðar það, og auðgazt af þekkingu og yfirsýn um þennan hluta föðurlandsins.
Að loknu þessu ferðalagi barst skólastjóra svofellt bréf frá bifreiðastjórum þeim, sem óku nemendahópnum:
„Við undirritaðir bifreiðastjórar í hópferð á vegum Skemmtiferða s.f. með 3. bekk skólans viljum með þessum línum þakka sérstaklega góða framkomu nemendanna og hegðun í ferð þessari, sem staðið hefur í 4 daga.“
Bifreiðastjórarnir voru Ragnar Sigfússon og Geir Björgvinsson, en sá síðarnefndi er eigandi að þessum góðu og glæsilegu bifreiðum, sem notaðar voru og við leyfum okkur öll að mæla með. Sanngjörn og drengileg viðskipti.
Skólinn sér ástæðu til að þakka nemendum sínum fyrir þann góða orðstír, sem þeir hafa getið honum með hinni fáguðu og mennilegu framkomu sinni í ferðalaginu. Svona á ungt fólk að ferðast og haga sér. Ekki er það síður foreldrum og heimilum þessa glæsilega unglingahóps orðstír og ánægjuefni.
Skólinn þakkar fararstjórunum skelegga og örugga forustu.

Pétur Gautur.
Um 30 ára skeið hafa auðskildustu kaflarnir í sjónleiknum Pétri Gaut og léttustu aflestrar verið lesnir fyrir nemendum Gagnfræðaskólans og skýrðir til þess að auka þeim lífssýn og hugarþroska. Síðan gagnfræðadeildin var stofnuð við skólann samkv. fræðslulögunum 1946, þá hefur sjónleikurínn verið lesinn upp fyrir 4. bekkjardeildum einungis, efnið skýrt og svarað spurningum varðandi efnið í kennslustundum. Með gagnfræðaprófi í ísl. bókmenntum hefur síðan fylgt ein spurning sálarlegs efnis um Pétur Gaut, persónuna, manngerðina.
Eftir að skólastjóri hafði lokið upplestri sínum á sjónleiknum s.l. vetur, hóf Þjóðleikhúsið að sýna sjónleikinn. Var þá þegar rætt um að efna til hópferðar og sjá leikinn á sviði.
Fimmtudaginn 10. janúar sl. flaug 53 manna hópur til Reykjavíkur úr Gagnfræðaskólanum til þess að sjá sjónleikinn, þar af 7 kennarar. Þetta fólk okkar sá sjónleikinn laugardaginn 12. jan. og kom heim eftir þá helgi heilu og höldnu. Skólinn var lokaður 8 daga vegna ferðalagsins og nemendum þeim, sem heima sátu, beint að atvinnulífinu, um 240 manns, en síldveiðarnar voru þá í algleymingi og alls staðar þörf á vinnuafli hjá vinnustöðvunum. Flestallir þeir nemendur, sem suður fóru, voru nemendur gagnfræðadeildar. Fararstjórinn var yfirkennari skólans S.J.J.

Miðsvetrarprófin.
Þau hófust í skólanum mánudaginn 21. jan. Þeim lauk öllum 1. febrúar.

Gagnfræðaprófið.
Það hófst mánudaginn 21. jan. eins og miðsvetrarprófið í öðrum deildum skólans. Gagnfræðaprófi lauk 4. febrúar og gagnfræðadeild slitið 10. febr.
Gagnfræðaprófinu var flýtt nokkuð sökum þess, hve fólksekla var mikil við framleiðslustörfin á vertíðinni og þarna bundinn vinnandi hópur, 40—50 manns, sem atvinnulífið þurfti mjög á að halda.
Gagnfræðadeildinni var slitið með hófi í skólabyggingunni eins og að undanförnu. Samdrykkju þá sátu 43 gagnfræðingar, sem brottskráðust, 29 úr bóknámsdeild og 14 úr verknámsdeild, ásamt kennurum og nokkrum gestum.
Meðal þeirra, sem hófið sátu, voru gestir frá Kaupmannafélagi Vestmannaeyja og Rótarýklúbb Vestmannaeyja. Jóhann Friðfinnsson, settur bæjarstjóri, hafði orð fyrir samtökum kaupmanna og færði þeim nemanda, sem hæstu einkunn hafði hlotið í vélritun og bókfærslu, fagran bikar að verðlaunum. Verðlaun þau hlaut Gísli Valtýsson að Kirkjuvegi 70 hér í bæ.
Fyrir Rótarýsamtökunum hafði Martin Tómasson kaupmaður orð. Hann færði þeim nemanda, sem hæstu einkunn hafði hlotið í íslenzku máli við gagnfræðapróf, fagra bók að gjöf frá Rótarýklúbbnum. Þau verðlaun hlaut Lovísa Sigfúsdóttir frá Búastöðum.
Aðalkveðjuræðuna til nemenda flutti séra Jóhann Hlíðar, sóknarprestur, að þessu sinni. Einnig flutti hinn sóknarpresturinn, séra Þorsteinn Lúther Jónsson, kveðjuorð, og svo skólastjóri. Nemendur þessir hurfu burt frá námi í skólanum við góðan orðstír um alla framkomu en misjöfn námsafrek eins og gengur.