Blik 1946. Ársrit/Þáttur skáta

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. október 2009 kl. 19:25 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. október 2009 kl. 19:25 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Þáttur skáta

Herra skólastjóri Þ. Þ. V. hefur sýnt skátafélaginu Faxa þann velvilja, að bjóða því nokkurt rúm í skólablaðinu „Bliki“.
Fyrir þetta og allt, er Þorsteinn hefur gert félaginu til viðgangs, vill stjórn félagsins færa honum sínar beztu þakkir.


Tildrögin að stofnun skátafélagsins Faxa

22. febr. s.l. voru 8 ár liðin frá stofnun skátafélagsins Faxa.
Það virðist því engin firra, að rifjuð séu upp tildrögin að því, að félagshugmyndin varð að veruleika, sem nú um rúmlega 8 ára skeið hefur verið starfandi innan þessa bæjarfélags, og ekki hefur getað farið fram hjá mönnun er hér hafa verið búsettir. Það kann sumum að finnast, að félagssamtök hálfþroskaðra unglinga séu lítils megandi og áhrifa þeirra gæta lítils. Skoðanir eru vissulega sundurleitar, eins og gerist og gengur um þetta sem annað.
En hugur okkar, sem stóðum að stofnun félagsins, var allur á einn veg. Við fundum, að okkur vantaði eitthvað það, er verða mátti okkur til meira gagns og gleði en það, er við þegar höfðum komizt í kynni við. Eitthvað heillandi og þroskavænlegt, er gæti beint hugum okkar fram á við, en jafnframt skemmtilegt og aðlaðandi, svo að annað næði ekki til að tvístra okkur. Við höfðum heyrt getið um skátafélög víða á landinu, en þó einkum í Reykjavík, enda eðlilegast, því að þar stendur vagga íslenzkrar skátahreyfingar.
Í fyrstu gerðum við okkur ekki ljóst, hvað það var, sem hugir svo margra drengja um heim allan höfðu orðið svo hugfangnir af. En það skýrðist, þegar félagsstofnunin var um garð gengin, og við fórum að kynnast þeim markmiðum og hugsjónum, sem hreyfingin býr yfir. Við vorum allir á því reki, sem talið er varhugaverðast í uppvextinum — ómótaðir, næmir fyrir öllu, bæði góðu og illu.
Tómstundir okkar notuðum við í marklaust rangl, sjálfum okkur að vissu leyti til gamans, en ógagns. Við höfðum heyrt getið um skátahreyfinguna, eins og að framan greinir, sem fór sigurför um lönd æskunnar víða um heim.
Við höfðum heyrt, hvaða upphefð það var fyrir hvern og einn að teljast til skátafélagsskaparins. Í dagblöðum og tímaritum fundum við hinn hlýja yl, sem lagði til skáta, hvar sem var.
Þarna var eitthvað það á ferðinni, er var þess vert að athuga, og við vorum sannfærðir um að þarna myndi úrlausnin vera, að stofna skátafélag. Ekki voru erfiðleikarnir yfirbugaðir með því. Ekki vissum við, hvernig við skyldum bera okkur að við stofnunina. Mitt í þessu hugarvafstri okkar leystist þetta á mjög svo einfaldan og hægan hátt. Jón Oddgeir Jónsson erindreki var einmitt á ferð hér í Eyjum um þetta leyti á vegum Slysavarnafélagsins, og við vissum af afspurn, að hann var einn af leiðandi mönnum innan ísl. skátahreyfingar. Við fórum til hans, og brást hann mjög vel við málaleitun okkar. Skátafélagið var stofnað eftir lítinn tíma. Þegar í fyrstu kom í ljós, að hér var félagsskapur, er uppfyllti vonir og þrár okkar. Nú vantaði hentugt og táknrænt nafn. Páll heitinn Bjarnason skólastjóri gaf okkur nafnið, og var það Faxi. Þótti það fara vel í eyra og vel við eigandi, þar sem Faxaklettur var tekinn sem nafngift. Þótti hér vel hafa tekizt með nafnið, þar sem vænta mætti að ýmsar holskeflur erliðleika myndu herja á félagið. Það hefur farið eins og til var stofnað. Skátafélagið Faxi hefir staðið af sér allar bárur andstreymis og illra áhrifa, ekki síður en Faxaklettur hefur staðið keikur og hnarreistur móti Ægisdætrum í blíðu sem stríðu. Skátafélagið stendur nú með þeim blóma, að til sóma er fyrir byggðarlagið. Við, sem stóðum að stofnuninni fyrir nær átta árum, horfum vonglaðir fram á leið og vitum, að skátafélagið á eftir að verða æskunni í Eyjum til blessunar og heilbrigðrar þróunar um ókominn tíma.

Einn af stofnendunum.