Þórunn Jónsdóttir (ljósmóðir)

From Heimaslóð
Revision as of 21:10, 28 January 2016 by Viglundur (talk | contribs) (Verndaði „Þórunn Jónsdóttir (ljósmóðir)“ (‎[edit=sysop] (ótiltekinn)))
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search
Þórunn Jónsdóttir ljósmóðir frá Reynishólum Mýrdal, með foreldrum sínum og systkinum

Þórunn Jónsdóttir ljósmóðir fæddist 8. júní 1889 að Reynishólum í Mýrdal og lézt 13. marz 1979 í Reykjavík.

Ætt og uppruni

Foreldrar hennar voru Jón bóndi í Reynishólum, f. 5. febr. 1851, d. 10. maí 1922, Jóns bónda í Skammadal þar Þórðarsonar og konu Jóns í Skammadal, Guðrúnar Jakobsdóttur. Móðir Þórunnar og kona Jóns í Reynishólum var Sigríður húsfreyja, f. 21. marz 1849, d. 4. maí 1939, Einars bónda í Engigarði og víðar, síðast í Reynishólum, Einarssonar og konu Einars í Engigarði, Ingibjargar Sveinsdóttur læknis í Vík Pálssonar.

Lífsferill

Þórunn ólst upp hjá foreldrum sínum í Reynishólum. Fulltíða lærði hún fatasaum í Reykjavík.
Hún flutti til Eyja 1918 og stundaði þar iðn sína, saumaði aðallega karlmannaföt. Hugur hennar stóð til ljósmóðurnáms.
Í taugaveikifaraldri í Eyjum 1923 var hún ráðin hjúkrunarkona, en um haustið hóf hún nám í ljósmóðurfræðum við Ljósmæðraskólann í Reykjavík og lauk prófi 3. apríl 1924; framhaldsnám stundaði hún við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn í 6 mánuði 1928.
Hún var skipuð ljósmóðir í Eyjum 16. apríl 1924 og gegndi því starfi til 30. sept. 1934 að undanskilinni námsdvölinni erlendis. Þegar Þórunn var skipuð hafði Jóna Kristinsdóttir ljósmóðir starfað í Eyjum frá 1921 og Stefanía Hannesdóttir ljósmóðir var þar búsett og sinnti fæðandi konum.
Þingeyrarumdæmi í Dýrafirði fékk Þórunn 1. október 1934 og gegndi því til 15. sept. 1943, en lét þá af starfinu vegna heilsubrests. Þá flutti hún til Reykjavíkur, þar sem hún starfaði við heimahjúkrun og sem vökukona á sjúkrahúsum; var einnig ráðskona á einkaheimili um skeið.
Til Eyja réðst hún ráðskona um 1955, en hóf hjúkrunarstörf á Elliheimili Vestmannaeyja að Skálholti 1956.
Hún var vistuð á Sjúkrahúsinu frá því um 1962, var flutt ásamt öðrum sjúklingum til Reykjavíkur í gosinu 1973 og var vistuð á Borgarspítalanum, en dvaldi allra síðustu árin á sjúkradeild Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík.

Þórunn giftist ekki og átti ekki börn.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.