Úr fórum Árna Árnasonar. Ókunnur höfundur/Trollmannaríma

From Heimaslóð
Revision as of 22:15, 5 September 2013 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Trollmannaríma


1. ríma
Málið vanda mönnum ber,
málið blandað ljóðum er.
Ef að andinn í mig fer,
oft má fjandinn gá að sér.
Ég í líma legg mig við
ljóða-glímu farganið.
Sóa tíma og sálarfrið,
syng nú rímu og hljóðs mér bið.
2. ríma
Gamalt rann ég götuskeið,
gamlan fann ég hjörvameið.
Ingvar í Mandal mín þar beið,
mælti hann á þessa leið:
,,Mikið berjast mennirnir,
mikið verjast Rússarnir.
Okkur merja mör-vambir
magnast herjans glæpirnir.
Búkum föllnum byrgist láð,
blóðs á völl er mönnum stráð.
Fjandinn öll að eignast ráð
eins og tröllin hafa spáð.
Er að spillast árferði,
er að villast þjóðerni.
Svo er að tryllast siðferði
að sumir fyllast viðbjóði.
Skrílnum handa í Höllinni
hefir fjandinn verkefni.
Sínu að granda siðgæði
og sötra landa á nóttinni.
Þangað flykkjast forhertar
fransós-bykkjur málaðar.
Hrokagikkir gera þar
glæpaskikki allskonar.
Hyski þjóra þetta kann,
þörf er stór að senda mann
bæjarstjóra, og hengja hann
Hallarmóra og Fógetann.
Nú er öldin, sem þú sérð.
Svona er fjöldans menning gerð.
Yfirvöldin afhróps-verð,
aukast gjöld og skatta-mergð“.
3. ríma
„Hvað er sjó að frétta frá?“
Með fisk í kló ég Ingvar sá.
„Er hann nógan nú að fá?“
Nöldurs-kjóann, spurði ég þá.
„Þetta eina þykir verst,
þaðan seinast hefir frést.
Varla bein úr sjónum sést.
Samt kvað reynast trollið best.
Á þeim fleytum flest er lið
fjandi eitur harðsnúið,
er það leitar út á mið
eða sveitist trollið við.
Fram þeir brjótast bölvandi,
botnsins grjótið mölvandi,
bræði-ljótir lemjandi,
last og blótið fremjandi.
Mála sannast er það enn,
allir kannast við það senn.
Hafa manna-tilþrif tvenn
troll-bátanna stýrimenn.
Safna pyngjur seðlabing.
Sú er dyngjan ekki ring,
skál, ég klingi, - og Skaftfelling
skrafs á þingi lofið syng.
4. ríma
Þó að víða væri leitað
vaskra manna hér um kring.
Mestar geta hetjur heitað
,,Hilmi” á og ,,Skaftfelling”.
Köldum höndum kast`a og hífa
kempur þessar dag og nótt.
Sína túla sundur-rífa
sér í kokið vítt og ljótt.
Þessa orkan afla-meli
ufsi og langa sækir heim.
Skoltagleiða skötuseli
skrattinn líka sendir þeim.
Þeir fá karfa, þorsk og ýsu,
þara, grjót og steinbítinn,
lúðu, kola, háf og hnísu,
hausa, slor og marhnútinn.
Drepa, trufla, fæla, flengja
fiska og hvalakynið þeir.
Tundurduflin tæta, sprengja,
trolli smala hraun og leir.
Makráð þjóð á morgni heiðum
móka þiggur grútarleg.
Trylltir menn á vörpuveiðum
vaka meir en þú og ég.
5. ríma
Ísland meðan á sér hrafn
uppi Héðins verður nafn.
Hann er veðurhana jafn.
Honum kveð ég ljóðasafn.
Sést ei netið sundurtætt
svo ei geti Héðinn bætt.
Efst ég set hann ótvírætt,
ef að betri manni er gætt.
Leiftur-hraður notar nál,
nógu kvað hans liðugt mál.
Mesta aða er við skál,
oftast glaða hefir sál.
Eins og kýr af kálfum ber
kappinn dýr af öðrum er.
Splæsir víra, skötu sker,
Skafta stýrimaður er.
Þorsk og lúðu hafs úr hyl
hífir snúðugt borðsins til.
Skjálfa súðir, skröltir spil,
skakast rúður, dekk og þil.
Ef að bræðin í hann fer,
engra gæða vænta ber.
Tryllt fram æðið treður sér
túlinn hræðilegur er.
Innan hafnar sá ei seinn,
sést í stafni hár og beinn.
Við hann jafnast aðeins einn
á hann nafnið Sigursteinn.
Best þeir una vosbúð við,
véladrunur, súlu-klið.
Botnvörpuna, brimrótið,
breiðan munn og afvikið.
(síðasta hending eitthvað brengluð. Á.Á.).
6. ríma
Út um Horns- og Halamiðin
hefur margar krónur grætt.
Ríga-þorska rist á kviðinn,
rifin trollin líka bætt.
Hvar sem hann á fleytu flýtur,
fremstur er í hverri raun.
Járnkaldur á jaxlinn bítur
Jökul við og Selvogshraun.
Höfuð yfir aðra flesta
aula ber til sjós og lands.
Þessi jötunn þykir mesta
þarfasmíði skaparans.
Aldrei krafta virðist vanta,
vitið nóg er honum léð.
Næstum á við níu fanta
nál og spíru vinnur með.
Á hann kjaft, sem enginn reyni
upp að hafa móti sér.
Sannarlega Sigursteini
saman ekki fisjað er.
Hvar sem sést hinn heljarstóri
hákarls-skrokkur þessa manns,
flýgur oss í minni Móri,
er mændi yfir sauða krans.
7. ríma
Hann var alinn upp í sveit,
át sem hvalur slátrin feit.
Kynntist halur hrossa beit,
hænsnagali og sauðaleit.
Verki farinn fullvel, sá
fantur var að raka og slá.
Torfið skar og færði frá,
forir bar og veitti á.
Rakaði gærur risti mó,
rúði ær og tamdi ,,dróg”.
Sótti færafisk að sjó,
fléttaði snæri, gerði skó.
Kindur elti, kláfa braut,
kúnum hélt hann undir naut,
keitu hellti, hrærði graut,
hrúta gelti, kálfa skaut.
Sætti, breiddi, brýndi, sló,
batt og reiddi hey og mó,
skatta greiddi, gripi fló,
glatt hann veiddi, ef komst á sjó.
Hann með pál og kekkjakrók
kúm úr stáli heyið tók.
Yfir sál var ekkert mók.
Ört var mál og hyggjan klók.
8. ríma
Hann fór þá að hugsa um sjó,
hafið bláa þankann dróg.
Koti frá í ferð sig bjó
fötin á og nýja skó.
Ýmsum döllum á hann var,
eins og tröll af dvergum þar
hann af öllum öðrum bar,
afbragðs köllum hverskonar.
Hugur stefndi hærra þó.
Hann það nefndi oft á sjó,
sem hann efndi og á sig sló,
aukna fremd það honum bjó.
Pældi kort og kompásinn
kergjusnortinn, ákveðinn.
Hvergi skorti skilninginn, -
skársta sort var pungurinn.
Tók hann stöðu stýrimanns,
stjórnaði gröðum djöflafans.
Loks var böðuls-lendum hans
lyft í söðul skipstjórans.
Einstök var hann aflakló,
út á mar hann fyrstur dróg.
Undir þar var náma nóg,
netin, hvar sem lagði í sjó.
Síðan tók við trollið ást,
tíðum klókur undi skárst.
Gríðarhrókur kunni að kljást,
kvíðamók þar ekki sást.
————
Hetjur þessar hafa náð
heiðurssessi í lengd og bráð.
Mun þeim blessun mæld og ljáð
meiri en skessan hefir spáð.
Burt er skíma bráðlega,
breytast tímar óðfluga.
Andinn hímir úrvinda,
endar ríma trollmanna“.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit