Benedikt Hannesson (Kastala)
Benedikt Hannesson sjómaður í Kastala fæddist 13. júli 1818 að Hellishólum í Fljótshlíð og lést í september 1860 í Omaha í Nebraska í Bandaríkjunum.
Faðir hans var Hannes bóndi á Hellishólum, f. 27. febr. 1788 í Auraseli í Fljótshlíð, d. 22. febr. 1863 í Vestra-Fíflholti, Páls Nikulássonar frá Hlíð u. Eyjafjöllum, Jónssonar og konu Páls, Guðrúnar húsmóður, f. 1748, Þorsteinsdóttur, Þorvaldssonar.
Móðir Benedikts og kona Hannesar var Björg húsfreyja, f. 17. ágúst 1795 að Króki í Garði í Gull., d. 27. des. 1874 í Fljótshlíð, Andrésar, f. 1757 að Útskálum, d. 9. okt. 1815 að Króki, Egilssonar og konu Andrésar, Valgerðar húsfreyju, f. 1757 í Fuglavík í Hvalsnessókn, Gull., d. 16. ágúst 1820 að Króki, Þorgeirsdóttur, Markússonar.
Benedikt var tökupiltur í Auraseli í Fljótshlíð 1835, vinnumaður þar 1840.
Hann var kominn til Eyja 1845, var þá ókvæntur sjómaður í Götu. Þar var einnig Ragnhildur, síðar kona hans og barn þeirra María, nýfædd.
Þau bjuggu síðar í Hólshúsi og voru í húsmennsku í Kastala (Gamla-Kastala).
Þau Benedikt voru þau fyrstu, sem skírð voru til mormónatrúar á Íslandi og það veitti Þórarinn Hafliðason. Þau voru skírð í Beinasundi, líklega sjávarlóni niðri í Sandi.
Þau fóru til Kaupmannahafnar 1852, eignuðust þar barn, töfðust þar, líklega vegna barneignar Ragnhildar, og fóru síðar þaðan til Utah.
Benedikt lézt 1860 á leiðinni, í fylkinu Nebraska. Ragnhildur ól stúlkubarn 1. júlí 1859 í Omaha í Nebraska og var því gefið nafnið María. Það barn varð langlíft í Utah og talin merk kona. Mary Hanna Sara Hanson Sherwood hét hún þar í borginni Levan. Hún kom fram við hátíðahöld í Spanish Fork 1. ágúst 1938, þegar minnisvarði var afhjúpaður um íslenzku landnemana og var þá eini Íslendingurinn, sem var lifandi af þeim 16, sem áttu nöfn sín skráð á minnuisvarðann. Nafnið Hanson var nafn, sem Benedikt hafði líklega tekið upp í Danmörku.
I. Kona Benedikts, (11. nóv. 1846), var Ragnhildur Stefánsdóttir, f. 24. okt. 1817, d. 15. apríl 1874 í Salt Lake City í Utah.
Börn þeirra voru:
1. María Kristín Benediktsdóttir, f. 7. ágúst 1845 í Götu, d. 25. júlí 1851 „af Barnaveikleika“.
2. Benedikt Benediktsson, f. 25. sept. 1847 í Hólshúsi, dó úr barnaveiki 25. júlí 1851.
3. Jóhanna Benediktsdóttir, f. 31. okt. 1849 í Hólshúsi, d. 13. nóv. 1849 „af Barnaveikin“.
4. Andvana fætt sveinbarn í Kastala 26. marz 1852.
5. Ephriam Christen Benedikt Benediktsson Hanson, f. 6. nóv. 1853 í Kaupmannahöfn, d. 21. sept. 1878.
6. María Benediktsdóttir Hanson, f. 1. júlí 1859 í Omaha í Nebraska, Bandaríkjunum, dó undir nafninu Mary Hanna Sara Hanson Sherwood 23. nóv. 1945 í Salt Lake City, Utah.. Maður hennar, (16. nóv. 1879), var William Sherwood, f. 12. jan. 1852, d. 21. marz 1923. Þau eignuðust 10 börn.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Blik 1961: Fyrstu mormónarnir, sem skírðir voru á Íslandi. Sigfús M. Johnsen.
- FamilySearch - Community Tree.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
- Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.