Ólafur Ólafsson (Sólheimum)
Ólafur Ólafsson fæddist 8. ágúst 1873 og lést 8. apríl 1956. Hann ólst upp við venjuleg sveitastörf undir Eyjafjöllum. Hann reyndist allra mesti hreystigarpur, hugrakkur og slyngur fjallamaður. Hann kleif fjöll og fýlabyggðir Eyjafjalla betur og öruggar en flestir aðrir og þótti á ýmsum öðrum sviðum snjall í hetjudáðum.
Snemma tók hann að stunda sjóinn. Á vetrarvertíðum í Vestmannaeyjum og svo frá Eyjafjallasandi þegar svo bar undir.
Ólafur kvæntist Steinunni Jónsdóttur árið 1905 og eignaðist með henni þrjá syni. Þegar Steinunn lést árið 1919 flutti Ólafur til Vestmannaeyja, keypti sér verslunarleyfi og tók að reka verslun í bænum sem hann rak til dauðadags. Fyrst rak hann verslun sína í húsinu Reyni við Bárustíg en lengst af í Sólheimum við Njarðarstíg, íbúðarhúsinu, sem hann keypti árið 1931. Var verslun hans ævinlega kölluð Verslun Óla Hóla. Ólafur þótti mjög sérstæður persónuleiki og eru sum tilsvör hans í minnum höfð. Sem kaupmaður þótti hann aðgætinn og sagði ævinlega, áður en hann afhenti vöruna yfir borðið: -Aurinn fyrst!
Árið 1923 eignaðist Ólafur dóttur með Jóhönnu Sigurðardóttur frá Hlíð undir Eyjafjöllum, Sigurbjörgu Ólafsdóttur kaupkonu í Eyjum, sem giftist síðar Magnúsi Kristjánssyni verslunarstjóra og kaupmanni við Bárustíg. Sigurbjörg var ætíð kennd við heimili sitt, Sólheima og kölluð Sigga sól. Svo þegar hún giftist Magnúsi fékk hann einnig viðurnefni, Maggi máni.
Jóhanna fluttist til Ólafs árið 1928 og varð lífsförunautur hans til hinstu stundar.
Heimildir
- Þorsteinn Þ. Víglundsson. Blik, ársrit Vestmannaeyja. Maí 1973.