Saga Vestmannaeyja I./ XIII. Herfylking Vestmannaeyja, 5. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. nóvember 2014 kl. 12:11 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. nóvember 2014 kl. 12:11 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Herfylking Vestmannaeyja 1859.


Haustið 1859 var Herfylkingarmönnum raðað niður í sveitir eins og að undanförnu. Þetta var síðasta árið, sem kapteinn Kohl lifði.
Yfirfylkingarstjóri: kapteinn A. Aug. v. Kohl sýslumaður.
Yfirliðsforingi: J.P.T. Bryde kaupmaður.
Liðsforingi: Pétur Bjarnasen verzlunarstjóri.
Yfirflokksstjóri: Kristján Magnússon verzlunarstjóri.
Fánaberi: Ingimundur Jónsson bóndi á Gjábakka.
1. trumbuslagari: Lars Tranberg hafnsögumaður.
2. trumbuslagari: C. Roed gestgjafi.
Drengir: Bjarni Helgason, Árni Árnason, Jes Abel, Jón Eiríksson og Jóhann Johnsen.

1. flokkur
Flokksforingi Jón Salómonsen
1. deild 2. deild
1. Brynjólfur Halldórsson 6. Guðmundur Pétursson
2. Bjarni Bjarnason 7. Sigurður Erlendsson
3. Jón Steinmóðsson 8. Guðni Guðmundsson
4. Guðmundur Ólafsson 9. Enginn
5. Sæmundur Ólafsson 10. Jón Þorkelsson


3. deild
11. Sveinn Þórðarson undirforingi
12. Guðmundur Guðmundsson
13. Ísak Jónsson
14. Guðmundur Árnason
15. Jónas Sæmundsson


Varaliðsmenn: Þórður Sveinbjörnsson, Stefán Austmann og Vigfús Jónsson.

2. flokkur
Flokksforingi: Árni Diðriksson.
1. deild 2. deild
1. Þórður Einarsson undirforingi 6. Sigurður Jónsson
2. Sigurður Jónsson 7. Guðmundur Þorkelsson
3. Eyjólfur Hjaltason 8. Jón Jónsson
4. Árni Sigurðsson 9. Magnús Magnússon
5. Ísleifur Árnason 10. Ólafur Ólafsson


3. deild
11. Hreinn Jónsson
12. Guðmundur Guðmundsson
13. Þorsteinn Jónsson
14. Erlendur Sigurðsson
15. Ólafur Ólafsson


Varaliðsmenn: Jón Pétursson, Hannes Gíslason, Eiríkur Eiríksson og Magnús Oddsson.

3. flokkur
Flokksforingi: Gísli Bjarnasen
1. deild 2. deild
1. Guðbrandur Guðbrandsson undirforingi 6. Jón Jónsson
2. Jón Þorkelsson 7. Sæmundur Guðmundsson
3. Bergur Magnússon 8. Ingvar Ólafsson
4. Magnús Pálsson 9. Guðmundur Ögmundsson
5. Jón Magnússon 10. Runólfur Eiríksson


3. deild
11. Magnús Eyjólfsson
12. Davíð Ólafsson
13. Pétur Halldórsson
14. Magnús Diðriksson
15. Ólafur Magnússon


Varaliðsmenn: Jón Ásgrímsson, Jón Jónsson í Gvendarhúsi og Björn Sigurðsson.

4. flokkur.
Flokksforingi: Árni Einarsson.
1. deild 2. deild
1. Sighvatur Sigurðsson 6. Jón Árnason undirforingi
2. Ólafur Benediktsson 7. Tíli Oddsson
3. Guðni Guðnason 8. Erlendur Ingjaldsson
4. Jón Austmann 9. Þorleifur Sigurðsson
5. Eyjólfur Jónsson 10. Páll Einarsson.


3. deild
11. Bjarni Ólafsson undirforingi
12. Guðlaugur Diðriksson
13. Guðmundur Erlendsson
14. Árni Níelsson
15. Ellert Schram Þorkelsson


Varaliðsmenn: Brynjólfur Brynjólfsson, Ólafur Einarsson og Finnur Árnason.

Drengjasveitin.
Flokksforingi: Árni Helgason.
1. deild 2. deild
1. Guðmundur Guðmundsson, 12 ára 8. Jónas Helgason, 8 ára
2. Jósef Sveinsson, 12 ára 9. Oddur Þórarinsson, 8 ára
3. Björn Runólfsson, 11 ára 10. Einar Árnason, 7 ára
4. Jón Gíslason, 11 ára 11. Sigurður Magnússon, 8 ára
5. Magnús Jónsson, 11 ára 12. Sigurður Sigurðsson, 8 ára
6. Brynjólfur Einarsson, 8 ára 13. Hannes Jónsson, 8 ára
7. Rósenkranz Eiríksson, 14 ára 14. Runólfur Runólfsson, 8 ára


Alls voru í Herfylkingunni, að meðtalinni drengjasveitinni, umgetið ár 103.
Breytingar á 1. flokki:
Þórður Sveinbjörnsson er nú varaliðsmaður, en í hans stað í flokknum er Jón Þorkelsson, er áður var varaliðsmaður. — Í stað Ingimundar Jónssonar, sem nú er fánaberi, Eyjólfs Guðmundssonar, er drukknaði á vertíðinni 1859, og Magnúsar Gíslasonar, sem nú er eigi í fylkingunni, hafa komið Guðni Guðmundsson og Jónas Sæmundsson.
Guðni Guðmundsson snikkari drukknaði með tengdaföður sínum, Eiríki Hanssyni bónda á Gjábakka, á skipinu Blíð 26. febrúar 1869. Sonur Guðna og Málfríðar Eiríksdóttur frá Gjábakka var Kristján, er fór til Ameríku með móður sinni. Kristján kvæntist vestra Ágústu Sigurðardóttur, ekkju Tómasar Ingjaldssonar úr Engey. Þau munu hafa búið í Alberta í Kanada. Með Eiríki Hanssyni á Gjábakka drukknaði og annar tengdasonur hans, Jón Jónsson á Vilborgarstöðum, maður Veigalínar Eiríksdóttur, og tveir synir. Veigalín átti síðar Jón bónda Guðmundsson á Gjábakka. Fór hann til Ameríku, þá gamall, og fjögur uppkomin börn hans.
Við 2. flokk eru þessar breytingar:
Í stað Sveins Sveinssonar bónda í Háagarði, er drukknaði á vertíð 1869, er kominn Jón Jónsson, er var í 2. fl. 1857.
Í 3. flokki er nýliði Sæmundur Guðmundsson í stað Jóns Sverrissonar, er deyði vorið 1859, og varaliðsmaður Jón Ásgrímsson.
Sæmundur Guðmundsson vinnumaður hjá séra Brynjólfi Jónssyni, seinna bóndi á Vilborgarstöðum, d. 1890, kv. Guðbjörgu Árnadóttur, barnlaus. Synir Sæmundar voru: Kristján Sæmundsson áðurnefndur, fór til Ameríku, og Elís Sæmundsson áðurnefndur í Björgvin.
Jón Ásgrímsson fyrirvinna í Háagarði, seinna þurrabúðarmaður í Fagurlyst, d. 1866.
Við 4. flokk var engin breyting.
Við drengjasveitina:
Brynjólfur Einarsson frá Dölum, seinna vinnumaður í Jónshúsi, drukknaði af sexæringnum Gauk 13. marz 1874.

Um árslokin 1859 hafði Kohl sýslumaður fengið loforð frá stjórninni um embætti í Danmörku á næsta ári, og með því að hann hugði þá bráðlega að flytja frá Vestmannaeyjum, setti hann Pétur Bjarnasen verzlunarstjóra, er lengi hafði gegnt liðsforingjastöðu við hersveitina, til þess skömmu fyrir áramótin að hafa á hendi yfirstjórn Herfylkingarinnar að því er æfingu og þjálfun liðsins snerti og stjórna flokksforingjunum og undirflokksforingjunum í þessu efni, en sjálfir framkvæmdu þeir æfingarnar hver með sinni liðssveit.
Það kom eigi til að Kohl sýslumaður fengi tekið embætti í Danmörku, svo sem áformað var. Hann andaðist skyndilega í Vestmannaeyjum úr slagi 22. janúar 1860.
Eftir lát A. Aug. v. Kohl var J.P.T. Bryde kaupmaður kosinn formaður Herfylkingarinnar eða yfirfylkingarstjóri, en Bryde var þá erlendis og var Pétri Bjarnasen falið að gegna starfi yfirfylkingarstjóra í fjarveru Bryde.
Greftrunardag Herfylkingarstjórans, kapteins A. v. Kohl, er var 31. jan. 1860, var Herfylkingarmönnum boðið að safnast saman um morguninn við þinghúsið, og þaðan gengið undir alvæpni til kirkjunnar. Liðsmenn skiptust á að bera kistuna alla leið til kirkju. Herfylkingarmenn önnuðust útförina. Var gefin út herflokkstilskipun hér um 27. janúar og undirrituðu hana Pétur Bjarnasen sem æðsti maður Herfylkingarinnar og með honum Kristján Magnússon, Jón Salómonsen, Árni Diðriksson, Árni Einarsson og Guðbrandur Guðbrandsson.
Eyjamenn reistu minnisvarða á leiði A. von Kohl sýslumanns í þakklætis- og virðingarskyni, og í lifanda lífi hafði Kohl verið sýnd ýmis konar sæmd af eyjabúum, þannig hafði honum verið afhentur til eignar veglegur silfurbikar með áletruðu nafni í almennu samsæti, er honum var haldið hér.
Yfirflokksforinginn og flokksforingjarnir, er kjósa skyldu forstöðumann Herfylkingarinnar í stað hins látna Herfylkingarstjóra, höfðu komið sér saman um að kjósa J.P.T. Bryde, eins og áður segir, en Bryde var mestan tíma ársins erlendis og kom nú mestöll stjórn Herfylkingarinnar til að hvíla á Pétri Bjarnasen verzlunarstjóra, þótt Bryde væri yfirfylkingarstjórinn, sem hann að vísu var, að minnsta kosti fram á árið 1862. Pétur Bjarnasen stjórnaði heræfingum og brátt var honum falin yfirstjórn Herfylkingarinnar. Pétur Bjarnasen þótti vel til foringja fallinn, sökum áhuga og skörungsskapar.
Árið 1860 komst til framkvæmda stofnun Herfylkingarsjóðs með mánaðarlegum tillögum frá Herfylkingarmönnum og gjöfum. Skyldi verja úr sjóðnum, eftir ákvörðun flokksforingjanna, til að standa straum af kostnaði við hirðingu og endurnýjun vopnanna, sem og til hinna árlegu hátíðahalda, er Herfylkingin gekkst fyrir, á veturna um jólaleytið og á sumrum um hvítasunnu. Gjaldkeri sjóðsins var Kristján Magnússon. Reglur um sjóð þennan, Stríðssjóð, eru frá 17. maí 1860. Hið nauðsynlegasta fé náðist inn með þessu móti, þótt alla jafna væri þröngt í búi hjá hersveitinni. Brátt sótti í sama horfið aftur, margir tregðuðust við að greiða tillög sín, og fljótt fór að bera á því eftir dauða v. Kohl, að samheldni vantaði og kom meira los á. Gerðist nú Herfylkingin fáliðaðri. Til þess að ráða bót á þessu, varð að fá hið opinbera til að standa straum af kostnaði við Herfylkinguna, því að fyrirsjáanlegt virtist, að Herfylkingin myndi ella brátt úr sögunni, en til þess máttu Vestmannaeyingar eigi hugsa að verða að sjá á bak Herfylkingu sinni. Forvígismennirnir sendu nú beiðni um hendur amtmanns til stjórnarinnar í Kaupmannahöfn og fóru þeir þess á leit, hvorki meira né minna, en að stjórnin lögbyði skyldu fyrir hvern einasta vopnfæran mann í Vestmannaeyjum, á vissum aldri, til að vera meðlimur Herfylkingar Vestmannaeyja. Jafnframt fóru þeir þess á leit, að allur kostnaður við Herfylkinguna yrði greiddur af almannafé. Minna mátti eigi duga, og vonuðu menn, að framtíð Herfylkingarinnar væri tryggð.
Hvernig voru nú undirtektirnar? Það er fljótsagt. Amtmaður lagði fremur á móti málinu í bréfi til dómsmálaráðuneytisins 1. sept. 1866, og taldi skylt að leita álits Alþingis um málið. Samt kom ekki til þess, því að amtið taldi hins vegar fært að veita nokkurn styrk til Herfylkingarinnar, ef menn vildu láta sér nægja þá úrlausn. Og varð það úr, að stjórnin lofaði að veita Herfylkingu Vestmannaeyja árlega 20 rd. styrk til verðlauna fyrir skotfimi og fræknleik, gegn jafnmiklu tillagi frá Herfylkingunni. Var nú og ákveðið að semja skyldi nýjar reglur fyrir Herfylkinguna.²⁰) Fullnaðarákvörðun fékkst eigi ennþá hjá stjórninni um fjárveitingu þá, 20 rd., til Herfylkingarinnar, er stjórnin hafði gefið vilyrði um. Skrifaði þá Bjarni Magnússon sýslumaður Vestmannaeyinga dómsmálaráðuneytinu í Kaupmannahöfn 1868, og skýrði það, að eyjamenn hefðu sjálfir ákveðið að veita 30 rd. árlega til Herfylkingarinnar, og hafði J.P.T. Bryde kaupmaður, er ennþá var yfirfylkingarstjóri, lofað að ábyrgjast þessa greiðslu. Vísaði Bjarni sýslumaður til bréfs stjórnarinnar 8. nóv. 1866, og fer fram á, að stjórnin veiti árlega 20—30 rd. til Herfylkingarinnar. Ákvað nú stjórnin loks að verða við þessum tilmælum og samþykkti 20 rd. styrkveitingu, og skyldi upphæðin greiðast samkvæmt 20. gr. VI, C-lið fjárlaganna, sbr. bréf dómsmálaráðuneytisins 4. sept. 1868.
Þrátt fyrir þennan fjárhagslega árangur, er fenginn var, reyndist allerfitt að halda uppi Herfylkingunni og heræfingunum með jafnmiklum áhuga og áður. Fylkingarnar gerðust nú stöðugt þunnskipaðri. Olli þar um allmikið mannskaðar þeir á sjó, er hér urðu milli 1860 og 1870, er þilskipin Helga og Hansína fórust með allri áhöfn, og manntjónið í útilegunni svokallaðri. Foringjarnir sýndu samt mikinn áhuga og viðleitni í starfi sínu og reyndu að fylla í skörðin. Reynt var og að blása lífi í Herfylkinguna með því að fá aðkomumenn og sjómenn á vertíðinni til að taka þátt í æfingum, en að litlu haldi kom samt þetta. Með fráfalli Péturs Bjarnasens verzlunarstjóra, er verið hafði lífið og sálin í öllu, er að störfum Herfylkingarinnar laut, mátti segja, að Herfylkingin væri sem næst því úr sögunni. Með Pétri Bjarnasen mun og hafa starfað mágur hans, Torfi Magnússon, er átti systur Péturs, Jóhönnu Bjarnasen, og voru þau hjón þá nýgift og bjuggu hér í Vestmannaeyjum. Fluttu síðar til Reykjavíkur. Meðal barna þeirra voru séra Ríkarður Torfason, Magnús Torfason sýslumaður og Guðrún Torfadóttir kona Helga Jónssonar kaupfélagsstjóra á Stokkseyri. Pétur Bjarnasen lézt 1. maí 1869 og var greftraður sunnudaginn 7. maí. Bjarni sýslumaður Magnússon kallaði þá saman alla liðsmenn Herfylkingarinnar, og gaf út um það skriflega tilskipun um að þeir mættu allir við jarðarförina til að sýna foringja sínum hinn hinzta sóma. Þetta mun hafa verið með því síðasta, er Herfylkingin kom saman skipulögð og undir vopnum.
Bjarni sýslumaður Magnússon, er Vestmannaeyjasýslu tók eftir A. v. Kohl, var kvæntur Hildi, dóttur Bjarna Thorarensens amtmanns og skálds og konu hans Hildar Bogadóttur Benediktsens frá Staðarfelli. Þeirra synir: Brynjólfur bóndi í Þverárdal í Húnaþingi, Guðmundur héraðslæknir og Páll Vídalín sýslumaður í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu.
Gísli Bjarnasen tók við forustu Herfylkingarinnar eftir Pétur Bjarnasen bróður sinn. Svo tók við um tíma V. Thomsen, sonur Edwards Thomsens kaupmanns, er átti Miðbúðarverzlunina hér. Sonur Edwards Thomsens kaupmanns var og Lárus Sveinbjörnsson háyfirdómari við landsyfirréttinn í Reykjavík. Loks tók Fr. Sörensen verzlunarstjóri við forustunni. Tókst nú eigi að halda Herfylkingunni uppi mikið lengur, og hættu smám saman hinar sameiginlegu æfingar og vígbúnaður og þótti nú mörgum heldur hljóðna um torg. Samt reyndu ýmsir, einkum unglingar, að halda uppi æfingum með smáflokkum. Skotæfingum var og haldið nokkuð uppi, og lengi áttu eyjarnar þaulæfða skotmenn, sela- og hnýsuskyttur. Byssurnar og vopnabúnaðurinn, er tilheyrði Herfylkingunni, var eign þess opinbera. Margir keyptu síðar byssur þær, er þeir höfðu notað. Það, sem ekki seldist, ryðgaði og eyðilagðist á geymsluloftum. Leðurhulstrin voru að síðustu notuð í sjóskó.
Herfylkingin hafði starfað hér 15—20 ár, og með hvarfi hennar, íþrótta- og heræfinganna, urðu mikil svipskipti fyrst í stað. En áhrifin, sem Herfylkingin og starf hennar hafði hér þennan stutta tíma, sem hún starfaði, voru víðtæk og mikil. Það er einróma álit kunnugra manna, að einmitt fyrir hennar áhrif hafi í Vestmannaeyjum fyrst og fremst aukizt stórum þrifnaður og reglusemi, og yfir höfuð færði starfsemi Herfylkingarinnar með sér margs konar menningarbrag og betra skipulag á ýmsum sviðum. Og í sambandi við þann félagsanda, sem hér ríkti, og þá vakningu, er komin var á stað, gerðust og ýmsar þarflegar framkvæmdir, bæði að því er útveginn snerti og framfarir í húsagerð. Eyjafólk minntist lengi Herfylkingarinnar og þess svips, er hún setti á héraðið og þjóðlíf eyjabúa. Þess má minnast, að hér var stigið fyrsta verulega sporið til bindindisstarfsemi hér í eyjunum. Eins og áður er lýst, var margt gert til þess að eyða drykkjuskap. Menn urðu að undirgangast bindindisheit til þess að geta verið í Herfylkingunni. Sparaði v. Kohl ekki leynt og ljóst að eggja menn lögeggjan, að forðast drykkjuskap og óreglu. Enginn drykkjumaður var talinn liðfær, og drykkjumaður var eigi talinn til drengskaparmanna. Hver, sem gerðist sekur um ítrekaðan drykkjuskap, var liðrækur úr Herfylkingunni. Margir þeirra, er vínhneigðastir voru, komu undir sérstaka umsjá og reynt að hafa sem bezt áhrif á þá. Fram til þessa hafði mikið orð farið af drykkjuskap og drabbi manna hér, einkum á vertíð. En gagnger breyting var talin að vera orðin hér á þegar á fyrstu árum Herfylkingarinnar. Mátti og þakka þetta því, að komið var upp veitingahúsi hér, að tilhlutun v. Kohl, undir ágætri forustu, þar sem í stað vínveitinga voru aðallega kaffi- og matarveitingar með ódýru verði, og slæpingjar voru nú hættir að liggja undir vínkrananum í sölubúðunum. Ummæli aðkomumanna, er höfðu kynnt sér ástandið hér og hag manna á fyrstu árunum eftir að Herfylkingin var stofnuð, hníga í þá átt, að óvíða hafi orðið slíkar framfarir sem hér á mörgum sviðum. Þá segir og, að drykkjuskapar verði nú ekki vart hér. Í öndvegi sitji iðjusemi og atorka, og velmegun eflist stórum. Tómstundirnar notfæri menn sér og vinni sameiginlega og með frjálsum samtökum ýmis konar þarfleg verk í þarfir héraðs síns ókeypis, svo sem vegalagningar. Þetta sé mest að þakka hinum óþreytandi áhuga og kostgæfni sýslumanns v. Kohl.²¹) Ekki má heldur gleyma því, að líkamsiðkanir voru einn þátturinn í starfsemi Herfylkingarinnar, og að hér er á ferðinni einhver fyrsta skipulagða starfsemin til íþróttalegra athafna. Í drengjasveitinni voru piltarnir þjálfaðir og að sumu leyti mætti heimfæra starfsemi þeirra til skátanna nú, og sýnir það hve langt Vestmannaeyingar voru þarna á undan samtíð sinni.
Útlendir ferðamenn, sem til Vestmannaeyja komu um þessar mundir og fengu að sjá Herfylkinguna undir vopnum, sögðu frá því aftur, að Herfylkingin í Vestmannaeyjum stæði ekki að baki öðrum bæja- eða héraðaherfylkingum, er þeir höfðu kynni af erlendis, hvað vaskleik liðsmanna og vopnfimi snerti.
Eigi kom til þess, að Herfylkingin þyrfti nokkru sinni að eiga í höggi við útlenda sjómenn, en fyllilega hafði þó verið gert ráð fyrir því við stofnun Herfylkingarinnar. Vakandi auga var haft með öllum skipum, er nálguðust eyjarnar. Heyrðist nú lítt kvartað undan ágengni útlendinga við fiskimið eða að þeir spilltu veiðarfærum. Var það þakkað Herfylkingunni, að erlendir sjómenn héldu sér nú meira í skefjum hér. Frá því er sagt, að einu sinni hafi sézt hér fyrir austan skip, er þótti eitthvað grunsamlegt við. Var Herfylkingin í skyndi kölluð saman og fylkt liði með reistum byssustingjum á Skanzinum, og skipverjar manaðir með flöggum.
En skip þetta, er verið hafði kaupskip á leið til Reykjavíkur, sigldi áfram leiðar sinnar og kom eigi hér við. En skipsmennirnir höfðu látið í ljós undrun sína yfir því, að æft herlið og vígbúnaður væri í Vestmannaeyjum.
Eyjamenn voru töluvert upp með sér af Herfylkingu sinni. Eggjuðu þeir Reykvíkinga að koma sér upp herliði og buðu 1857 að lána þeim einn af flokksforingjum sínum til þess að kenna Reykvíkingum heræfingar og vopnaburð. Kváðu eyjamenn, eins og rétt var, að eigi væri minni ástæða til fyrir höfuðstað landsins að hafa hjá sér heræft vopnalið. Jón Guðmundsson ritstjóri Þjóðólfs virðist hafa orðið hrifinn af þessari hugmynd, að koma upp hernvarnarliði í Reykjavík. Segir svo í ritstjórnargrein í blaðinu Þjóðólfi 1857,²²) „að ástæða sé til þess, að bæði yfirvöld bæjarins og bæjarstjórn rói að því öllum árum, að hvorki hafi Vestmannaeyingar eða aðrir tilefni til að hælast um við Reykvíkinga fyrir, að þeir láti mörg ár enn líða áður en þeir komi sér upp vel skipuðu og vopnbúnu varnarliði, með því og, að hörmung sé til þess að vita, að hver hleypiskúta, sem hingað vildi skjótast með illum hug, skuli eiga við oss allskosta“. Í Reykjavík komst stofnun hervarnarliðs ekki til framkvæmda.²³)
Hér er nú lokið að segja frá Herfylkingu Vestmannaeyja. Eins og lýst er hér að framan, gætti áhrifa stofnanda Herfylkingarinnar, v. Kohl sýslumanns, og á ýmsum öðrum sviðum. Hann var fyrsti bindindisfrömuðurinn hér. Hlaut hann fyrir afskipti sín af bindindismálunum mikið þakklæti stiftyfirvaldanna, sbr. bréf stiftamtmanns 12. júlí 1857. Blöðin Þjóðólfur í Reykjavík og Norðri á Akureyri fara lofsamlegum orðum um bindindisstarfsemi v. Kohl. Tveim árum eftir dauða Kohl var hér stofnað bindindis- eða Goodtemplarafélag af séra Brynjólfi Jónssyni sóknarpresti Vestmannaeyinga.
Skipdrætti eyjanna lét v. Kohl bæta og störfuðu menn að því ókeypis og sameiginlega. Vegabætur voru nú hafnar. Ruddur vagnfær vegur inn í Herjólfsdal og endurbættar brautirnar upp fyrir Hraun og að Vilborgarstöðum. Um þetta leyti kom og fyrsti vagninn til eyjanna og átti v. Kohl hann. Framfarirnar í Vestmannaeyjum voru umtalsefni manna í nærsveitunum. Eitt af skáldum Mýrdælinga kvað lofkvæði til Kohl. Í mörgu var Kohl sýslumaður á undan sínum tíma. Hann vildi gera breytingar á fátækramálum eyjanna og taka upp almenna niðurjöfnun útsvara. Kohl kom og með tillögur um stofnun svokallaðrar velferðarnefndar fyrir Vestmannaeyjar, er svipaði til bæjarstjórnar. Nefndina skyldu skipa sjö menn: sóknarpresturinn, er var formaður, hreppstjórarnir báðir, einn maður kosinn af kaupmönnum, tveir af jarðarbændum og einn af tómthúsmönnum. Nefndinni bar að halda fundi einu sinni á mánuði í þinghúsinu. Í greinargerð Kohl fyrir tillögunni um stofnun velferðarnefndarinnar segir, að nefndinni sé ætlað að vinna að framgangi alls þess, er eyjunum megi að gagni koma og íbúum þeirra til farsældar. Nefndarskipun þessi komst eigi til framkvæmda, lézt Kohl og skömmu síðar. Til hinnar margþættu framfaraviðleitni Kohl sýslumanns mun og mega rekja drögin til stofnunar Skipaábyrgðarfélags Vestmannaeyja, er stofnað var 2 árum eftir dauða hans af eftirmanni hans, Bjarna Magnússyni sýslumanni.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
Bréf dómsmálaráðuneytisins í nóv. 1866, Ísl. kopíub. 1866, nr. 991, Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands II, 333, Lovs. XIX, 570—571.
21) Blaðið Norðri V, bls. 131—132.
22) Viðaukablað við nr. IX, nr. 18, bls. 2, 1857.
23) Skotfélag (Skytteforening for Reykjavík) var stofnuð 1871 og var mestmegnis í höndum kaupmannastéttarinnar. Endurnýjað 1871, sbr. Love for Reykjaviks Skytteforening 1871. Sjá ísl. gátur, þulur og skemmtanir, J.Á. og Ó.D., 1887, I, bls. 96 og 97.

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit