Ritverk Árna Árnasonar/Slys í Elliðaey. Af séra Tómasi Sigurðssyni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. september 2013 kl. 21:51 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. september 2013 kl. 21:51 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <br> <br> <center> Úr fórum Árna Árnasonar</center> <big><center>Slys í Elliðaey</center><br> <center>Af séra Tómasi Sigurðssyni</center></big> Nokkrir menn hafa hra...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Slys í Elliðaey


Af séra Tómasi Sigurðssyni


Nokkrir menn hafa hrapað í úteyjum, sem þó hafa komist af á undraverðan hátt. Sem dæmi um það mætti setja hér eftirfarandi:
Séra Tómas Sigurðsson, er síðar varð prestur í Flatey og Garpsdal var sonur Sigurðar „skugga“ sýslumanns í Vestmannaeyjum.
Þegar Tómas var drengur í Eyjum fékk hann einu sinni að fara með mönnum í Elliðaey.
Um morguninn, sem hann fór austur í ey, klæddi móðir hans hann í svellþykka og nýja peysu, sem var hin besta og níðsterk flík. Meðan mennirnir, er í eyna fóru, voru að sinna störfum sínum, labbaði Tumi litli upp bratta brekkuna, allt upp í Hábarð.
Eitthvað fór hann að tildrast þarna, en svo fór, að hann hrapaði nær efst úr Hábarði, og virtist nú dauðinn vís, þar sem um hengiflug í sjó niður er að ræða. En svo einkennilega vildi til, að í fallinu festist hann í steinnibbu, og var það hin umrædda nýja peysa, sem festist. Hékk Tumi nú þarna hátt uppi í berginu í Hábarði og gínandi hafið og ógnarlegt bergið fyrir neðan hann og til beggja hliða, uppi yfir honum og allt í sjó niður.
Leit alls ekki vel út með það, að honum yrði bjargað úr þessum voða. Steinnibban gat brotnað og peysan góða bilað. Tumi kallaði án afláts á hjálp og loks heyrðu menn til hans, er sendir höfðu verið til þess að leita hans. Var þá maður sendur í vað niður til Tuma með lausan vað, sem hann svo batt um Tuma. Má segja að þetta hafi verið á síðustu stundu, að honum var bjargað og það á undraverðan hátt frá bráðum dauða. En allt fór vel og Tumi litli náðist upp heill á húfi.
Tómas þessi lærði síðar til prests, en fremur gekk honum illa að læra. Er sagt að biskup hafi, er hann var að spyrja hann út úr fræðunum, orðið að hætta þeirri yfirheyrslu, því að Tómas kunni lítt sem ekkert. En þegar svo biskup fór að spyrja hann um fjöllin í Vestmannaeyjum, hve há þau væru, hvað þau hétu og fleira, t.d. um nöfn á eyjunum kringum Heimaey, þá varð Tuma hvergi svara vant og kunni þau fræði reiprennandi.
Er þá sagt, að biskup hafi gert það góðverk að láta Tuma fá próf út á þessi fræði, þareð þá var Tumi búinn að vera lengi í skóla. Tómas var afburða sterkur maður, gat verið góður ræðumaður, ef því var að skipta. Hann hefir ábyggilega verið fjallaferðum hér vel kunnur og sennilega bjargmaður góður.
Sjá einnig: Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum: SJÁLFSÆVISAGA SÉRA TÓMASAR FRÁ ODDSSTÖÐUM (Heimaslóð).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit