Ritverk Árna Árnasonar/Hrakningar mb. Síðuhalls 1929

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. ágúst 2013 kl. 20:26 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. ágúst 2013 kl. 20:26 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <br> <br> <center>Úr fórum Árna Árnasonar</center> <big><big><center>Hrakningar mb. Síðuhalls 1929</center></big></big> Hin síðari árin hefir...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Hrakningar mb. Síðuhalls 1929


Hin síðari árin hefir verið tekinn upp sá sjálfsagði háttur að skrá og birta almenningi ýmisskonar sjóferðasögur, hrakningasögur á sjó og landi, frásagnir af slysum og af björgunarstarfsemi frá landi, lofti og legi. Í þessum frásögnum framkoma oftast furðuleg afrek, þróttur og karlmennska íslenzkra sjómanna, björgunarskipa og -sveita, sem er mjög eftirsótt lestrarefni, enda kynnast menn þar mörgum afreksmönnum fyrr og síðar og hetjudáðum þeirra til sjós og lands.
Mig hefir ávallt undrað, hve fáar slíkar frásögur hafa birzt héðan frá Vestmannaeyjum. Hér virðist þó vera af nógu að taka í því efni, þar eð hér hefir alla tíð verið háð þrotlaus barátta við úthafið á mjög misjöfnum skipakosti á hinum ýmsu tímum og á þeim tíma árs, sem helzt er von allra veðra.
Hér hafa orðið mörg stórslys, framkvæmd frækileg björgunarafrek, hinar mestu glæfraferðir farnar til sjós og fjalla, en aðeins örlítið af þessu hefir enn verið skráð og birt almenningi. Afrekin og atburðirnir hafa þess vegna flest fallið í gleymsku með horfnum kynslóðum frásagnarlaust, utan óglöggar og fáorðar upplýsingar í kirkjubókum og annálum þar um.
Vegna þessa fádæma hirðuleysis okkar Eyjamanna um skráningu slíkra frásagna, hefir glatazt snar þáttur úr sögu Eyjanna, meginstoðirnar frá þróunarsögu fiskveiðanna að miklu leyti og stór þáttur úr sögu sjómannastéttarinnar, sem verður ekki aftur fengið.
Fyrir nokkrum árum komst ég yfir nokkrar sjóhrakningasögur héðan, sem mér fannst rétt að bjarga frá gleymsku, gerðar eftir beztu heimildum, þ.e.a.s. skýrslum viðkomandi skipstjóra. Tvær þeirra hafa þegar birzt í Eyjablöðum, hrakningar m.b. Vestmannaeyjar VE-104, skipstjóri Sigurður Ingimundarson, Skjaldbreið, 2. maí 1909 og hrakningar m.b. Kap VE-272, skipstjóri Runólfur Sigfússon, á leið frá Reykjavík til Vestmannaeyja 15. des. 1924.
Frásagnir nefndra skipstjóra gefa góðar hugmyndir um sjódugnað og baráttuna við æst náttúruöflin, björgunarstörf og aðstæður o.fl., enda þótt þær halli allverulega réttu máli hvað þeirra eigin störf snertir. Um þau segja þeir fátt og lítið, en lofa því meir dugnað háseta sinna. Menn verða því að lesa á milli línanna hinn alþekkta dugnað þeirra skipstjóranna og afburða sjómannshæfileika.
Í tilefni sjómannadagsins birti ég hér með, samkv. beiðni, eina sjóhrakningasögu. Er hún gerð eftir skýrslu skipstjórans strax eftir sjóferðina, skýr og skilmerkileg frásögn, en þó með sama marki og hinar tvær fyrrnefndu, að lofa meir störf háseta sinna en sín eigin, svo menn verða að lesa mikið í málið.

Þriðjudaginn 12. febrúar 1929 réru allflestir Eyjabátar og var lagt af stað kl. 04.30 í dágóðu veðri. Héldu bátarnir á ýmis fiskimið kringum Eyjar, en þó flestir vestur fyrir svo sem 2ja til 3ja tíma keyrslu úr höfn.
Laust fyrir hádegi fór að hvessa á SA og það svo fljótt að um kl. eitt var komið aftaka veður og haugabrim svo að Leiðin varð strax mjög aðgæzluverð og nær ófær. Austur á Skans safnaðist að vanda, er á daginn leið og undir slíkum kringumstæðum, fjöldi fólks er horfði með eftirvæntingu eftir hverju ljósi, er nálgaðist Leiðina austan úr Flóa. Voru menn fullir kvíða um afdrif bátanna og störðu ýmist á þessi litlu ljós eða brimið, sem æddi í nær óslitnum hvítfyssandi holskeflum inn yfir hafnargarðana og teygði sig í gosstrókum langt upp eftir bergi Heimakletts.
Þegar leið á kvöldið sást ekkert fyrir myrkri og sjóroki utan eitt og eitt bátsljós annað slagið, er nálgaðist innsiglinguna austan frá með mestu varhygð. Alltaf fækkaði þeim, er ókomnir voru, og um kl. 9 voru aðeins tveir bátar eftir þeir m.b. Hilmir og m.b. Síðuhallur.
Um það bil var leiðin orðin skarp ófær. Menn biðu milli vonar og ótta eftir fregnum af þessum tveim bátum og bjuggust ekki við neinu góðu, því að veður var orðið afskaplegt og sjórinn mjög hrikalegur í Flóanum, að sögn þeirra er síðast komust inn í höfnina.
Menn voru sendir bæði vestur á Hamar og inn á Eiði til þess að skyggnast um eftir þeim eða einhverju, er bent gæti til þess, að þeir væru komnir upp undir, en allt kom fyrir ekki. Ekkert sást og ekkert fréttist af þeim.
Björgunarskipið Þór hafði haft mikið að gera þennan eftirmiðdag við Eyjar, að leita minnstu bátanna, fylgjast með þeim heim og aðstoða, en ekkert hafði hann séð til ferða þeirra Hilmis og Síðuhalls. Að aflokinni einni vesturferðinni, skömmu fyrir miðnætti, komu loks þær fregnir frá Þór, að Hilmir væri kominn upp undir Eiði, og lægi undir Kambinum og skipverjum liði öllum vel eftir aðstæðum. Þetta þóttu að vonum gleðifréttir. Þá vantaði aðeins einn bát. Það var Síðuhallur.
Á honum var þessi skipshöfn:
1. Skipstjóri Auðunn á Sólheimum Oddsson frá Þykkvabæjarklaustri, harðduglegur maður og kraftajöfur hinn mesti.
2. Vélstjóri Björn Sigurhansson í Bræðraborg Ólafssonar,
3. Óskar Ingvarsson frá Neðradal Eyjafjöllum,
4. Óskar Ólafsson (núverandi pípulagningameistari) Sigurðssonar og
5. Anton nokkur frá Norðurlandi (Húnavatnssýslu).
Allt voru þetta harðduglegir menn, er ekki létu hlut sinn að óreyndu. Báturinn var og álitinn góður og vel að öllu búinn.
Þór var nú beðinn að fara á nýjan leik vestur eftir og leita Síðuhalls, eftir þeim upplýsingum er fyrir lágu um hann frá öðrum bátum. Settu menn allar vonir sínar á þetta góða skip og skipshöfn þess, sem svo oft áður, og hélt það vestur eftir um kl. 23.30 í aftaka veðurofsa.
En af Síðuhalli er þetta að segja með hliðsjón af skýrslu skipstjóra.
Þeir réru vestur á Hraun (Einidrangshraun) og lögðu þar línuna, sem var 15 stampar og létu hana liggja tvo og hálfan tíma. Þá var byrjað að hvessa allmikið af SA og kominn töluverður sjór.
Þegar þeir voru rétt byrjaðir að draga, slitnaði línan og færðu þeir sig þá að miðduflinu. Þegar þangað kom var komið skafningsrok, bylur og veðurútlit orðið mjög ljótt. Um hádegið höfðu þeir náð fimm bjóðum af línunni og fengið 200 fiska, en er þeir komu að miðduflinu aftur og ætluðu að draga hinn enda línunnar, bilaði vél bátsins. Hafði hún brætt úr sér krumtappalegur. Í bátnum voru varalegur, sem komnar voru beint frá verksmiðjunni, en af eðlilegum ástæðum ekki yfirfarnar, þar sem búast varð við að þær væru í lagi.
Bjuggust þeir til að setja þessar legur í og gera við smurolíuleiðsluna, sem stíflazt hafði, settu út drifakkeri og bjuggust um sem bezt mátti verða. Fór þá erlendur togari fram hjá þeim og gáfu þeir á Síðuhalli honum hjálparmerki, en hann sinnti því ekkert og hélt leiðar sinnar. Voru það mikil vonbrigði í aðsteðjandi erfiðleikum, sem þó enginn skipverja lét á sér sjá eða heyra. Bátur frá Eyjum var rétt hjá Síðuhalli er vél hans bilaði, en sá bátur gat enga hjálp í té látið, þar eð hann átti full erfitt að hjálpa sjálfum sér í veðurofsanum, sem kominn var og sjórinn ógnarlegur.
Þeir fóru nú að fást við vélina í Síðuhalli og voru að því til klukkan fjögur, en þegar setja skyldi hinar nýju legur í, reyndust þær ónothæfar, þ.e.a.s. óskafnar og órenndar.
Meðan á þessu vélarbasli stóð, höfðu þeir hrakið um 8-10 mílur vestur fyrir ,,Eindrang“. Veðrið herti alltaf, blindhríð nær óslitin, sjórinn ærið stórskorinn og sópaði hann flestu lausu burtu og braut margt naglfast. Leizt þeim hálfilla á þetta allt saman, en enginn æðraðist og allt var gert, sem að gagni mætti verða fyrir þá. Tók skipstjóri það ráð að binda 4 beitustampa í klyverbómuna, batt kaðli í allt saman, og hleypti fyrir borð og lét reka fyrir því ásamt drifakkerinu, en það hafði reynzt algjörlega ónóg eitt saman. Á þennan hátt gátu þeir að mestu varið bátinn áföllum. Þó fengu þeir um kvöldið eftir þessar aðgerðir einn sjóhnút, sem sópaði öllu, sem eftir var á dekkinu bundnu og óbundnu fyrir borð og braut nokkuð bátinn, þótt ekki reyndist það mjög alvarlegt.
Þegar leið fram á kvöldið stækkaði sjó enn mikið og vind herti að mun, svo að þá var komið óviðráðanlegt veður, sem hélzt úr því, en til öryggis sér gátu þeir nú ekkert frekar gert. Taldi skipstjóri líka, að með þessum driftarútbúnaði myndi þeim óhætt, þar til birti og þeir sæju land, en þá var ákveðið og ekkert annað að gera en koma upp segli og reyna að ná fyrir Reykjanes. Ekki gat gengið að láta sig reka, því að þá mundi bátinn bera upp að ströndinni einhversstaðar nálægt Grindavík og það verða þeirra bani.
Skipstjóri áleit líka að óhætt mundi vera að leggja bátnum í ,,Röstina“, þó vond hlyti að vera, því að svo vel hafði báturinn varið sig alla nóttina, ef siglt væri gætilega og fyrir Reykjanes þóttist hann fullviss að ná. Báturinn var þess utan góður, vel traustur og bezta sjóskip, vel útbúinn að öllu leyti og síðast en ekki sízt dugandi og afbragðs góðir hásetar.
Það mundi nú máske einhver segja, að heimska hafi verið að setja ekki upp segl strax, þegar vélin bilaði. En þar til er því að svara, að skipverjar treystu allir á björgunarstarfið í landi, loftskeytastöðina og bjargvætt eyjabátanna, gamla góða Þór, fljótt og gott samstarf þessara aðila og örugga hjálp. Þeir hlutu að geta fengið vitneskju um, hvert Síðuhallur hefði róið, og svo reiknað út drift bátsins eftir vindi og sjó. Ef þeir líka sigldu Síðuhalli mjög afvega, ættu þeir á hættu að ,,Þór“ fyndi þá ekki þó að vel væri leitað eftir fengnum upplýsingum. Að öllu þessu athuguðu ákváðu þeir að láta drífa með þegar gerðum útbúnaði og sjá, hvað skipaðist með birtunni. Um þetta voru allir sammála, enda varð það þeim til lífs.
Miðvikudagsmorguninn þann 13. febrúar um kl. 06.00 fann Þór bátinn vestur undir Þorlákshöfn. Var allt í sæmilegu lagi eftir aðstæðum og líðan allra um borð í bátnum góð. Varð þarna mesti fagnaðarfundur, því að talið höfðu menn litlar líkur til að finna bátinn, og að hann hefði afborið veðurofsann. Var strax gengið í að koma fyrir sleftógum í bátinn, og gekk það greiðlega og svo haldið heimleiðis. Eftir 9 klukkutíma komu þeir upp undir Eiði, og hafði heimferðin gengið allvel. Ekki var hægt að taka bátinn austur fyrir, þegar heim kom vegna veðurs og sjávargangs, svo að mannskapur Síðuhalls fór yfir í Þór og voru þar í bezta yfirlæti um nóttina, en komu svo í höfn á fimmtudagsmorgun 14. febr. kl. rúmlega 9, vel hressir eftir volkið.
Þannig fór með sjóferð þá, vel og giftusamlega. Hún er ekkert einstæð í sögu fiskveiðanna hér. Þessu líkir hrakningar áttu sér oft stað, meðan bátarnir voru litlir og svo til öryggistækjalausir í hinni djörfu sókn sinni á fjarlæg fiskimið.
Nú er aðstaðan öll betri til sóknar og varnar í starfi sjómannsins og er það að maklegleikum. Á nýjum bátum, stórum og traustum, útbúnum margskonar nýtízku björgunar- og öryggistækjum, sækja Eyjamenn nú á yztu mið af landskunnri djörfung og þreyta tíðum sigursælir snörp fangbrögð við reiðan sjó og risháan.
Tækni mannsandans hefir beizlað allverulega hættur úthafsins með sívaxandi öryggi og lagt taumana í hendur sjómannsins. Er það ósk mín og von, að honum megi auðnast að halda þeim stjórnartaumum með vaxandi farsæld og festu um ókomin ár, svo að slysa- og hrakningasögur heyri aðeins fortíðinni til.

Árni Árnason, símritari


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit