Ritverk Árna Árnasonar/Ormur auðgi og bær hans Ormsstaðir í Eyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. ágúst 2013 kl. 12:50 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. ágúst 2013 kl. 12:50 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: <br> <br> <br> <big><big><center>Ormur auðgi og bær hans Ormsstaðir í Eyjum</center></big></big> <big><center>Hugdreifar</center><big> Talið er að Vestmannaeyjar hafi bygg...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit




Ormur auðgi og bær hans Ormsstaðir í Eyjum


Hugdreifar


Talið er að Vestmannaeyjar hafi byggst seint á landnámsöld eða um 930, og fyrsti landnámsmaðurinn hafi verið Herjólfur Bárðarson. Fyrir þann tíma er talið, að hér væri einungis veiðistöð, en engra manna veturseta, að því er greinir í Landnámabók Hauks Erlendssonar. Hinsvegar segir Landnáma Sturlu Þórðarsonar, að hér hafi verið lítil veturseta eða engin.
Það er vafalaust, að áður en Heimaey byggðist hafa nærsveitamenn meginlandsins stundað hér veiðar vor og sumar, og hefir í þann tíma verið hér gnægð fugls og fiskjar. Miklir flutningar hafa þegar í heiðni átt sér stað milli lands og Eyja eftir lagaákvæðum Grágásar að dæma. Fugl og fiskmeti hefir verið flutt héðan til neyslu á heimilum þeirra, er veiðarnar stunduðu og til vöruskifpa í sveitunum eins og síðar tíðkaðist.
Frásögn um veru Landeyinga og Eyfellinga hér að veiðum er t.d. að finna í sögu Holta-Þóris. Sú veiðiferð er all söguleg eins og eflaust margar fleiri, en hún hefir átt að eiga sér stað á síðustu tugum 10. aldarinnar. Í sögunni segir, að það væri siður sumra að fara til Eyja á vorin til fugla, eggja og fiskifanga, því að þá voru þær lítt byggðar. Þeir bræður frá Holti, Þorgeir, síðar nefndur Skorargeir, og Þorleifur krákur voru lengstum í Holti, þótt bú ættu þeir að Skógum. Þeir fóru eitt vor til Eyja sem oftar og voru 10 saman á skipi. Þá fóru og á sama tíma Landeyingar, en fyrir þeim var maður sem Egill hét og annar Sveinn að nafni.
Er þeir Landeyingar komu til Eyjanna, voru þeir Holtsbræður þar fyrir. Hittust þeir vestur á Heimaey. Vildu Landeyingar, að þeir Holtsbræður legðu í félag við sig, en ekki urðu þeir sammála þar um. Sló þá þegar í bardaga millum þeirra, er Landeyingar, sem voru 19 saman, vildu taka hlut Holtsbræðra. Þótt liðsmunur væri mikill fóru Landeyingar brátt halloka í viðureigninni fyrir þeim Holtsbræðrum, sem eltu þá allt til sjávar niður og víðar um og drápu þá á flóttanum. Sumir Landeyinganna hrökkluðust til fjalla og þar niður í skoru eina eða gil mjög bratt allt í sjó niður. Þorgeir lét þá sækja festi og fór niður í skoruna. Lauk viðskiptum hans við Landeyingana þar niðri á þann veg, að hann drap þá alla. Þar af er sagt, að Þorgeir hafi hlotið viðurnefnið sitt, Skorargeir.
Ekki verður vitað með neinni vissu, hvar atburður þessi hefir gerst, en þareð fram er tekið, að þeir hafi hist vestur á eyjunni, er líklegast, að þeir hafi verið til eggja í Miðtagstó eða vestur á Dalfjalli. Skora þessi gæti þessvegna hafa verið, þar sem nú er nefnt Sauðatorfa, gilskorningur mjög brattur og þarna ekki langt frá, þar sem farið er niður í torfu þessa. Gilskorning þennan hafa eldri menn hér í Eyjum talið, að þar væru líkastir staðhættir og sagan greinir frá. Annars eru heimildir um þetta og annað viðkomandi Eyjum harla fátæklegar frá fyrri öldum eða allt til 1300, að þær fara að koma við sögu lands og þjóðar.
Það er með landnám hér, sem margt annað, að heimildum þar um ber ekki saman. Sú réttasta er talin vera yngsta handrit af Landnámabók, þ.e.a.s. Landnámabók Hauks Erlendssonar lögmanns, en hún mun skrifuð um 1300. Þar segir svo: “Sonur Herjólfs Bárðarsonar var Ormur auðgi, er bjó á Ormsstöðum við Hamar niðri þar sem nú er blásið allt, og átti hann allar Eyjarnar. Kona Orms var Þorgerður dóttir Odds kaldmunns. Dóttir þeirra var Halldóra er átti Eilíf Valla-Brandsson.“ Þessa frásögn Hauksbókar er sagt að telja verði réttasta, enda er hún nákvæm og góðs kunnugleika gætir í henni. Haukur var mikið í siglingum milli landa, svo að vel gæti verið, að hann hefði komið hér við í ferðum sínum og að einhverju leyti farið eftir munnlegum heimildum. En séu bornar saman hans frásagnir og frásagnir Sturlubókar um landnám hér, eru yfirburðir frásagnar Hauks auðsæjar. Hann t.d. getur landnámsmannsins með nafni Orms Herjólfssonar, nefnir örnefni: „við Hamar niðri“, getur afdrifa býla þeirra Herjólfs og Orms og bendir á rök fyrir auknefni Orms „hinn auðgi“, – en „hann átti einn allar Eyjarnar“.
Í Sturlubók er Ormur hinsvegar nefndur „hinn ánauðgi“. Ef það auknefni hefði við einhver rök að styðjast, bæri sennilega að skilja nafngiftina þannig, að Ormur hafi verið leiguliði á Ormsstöðum eða hann leigt Eyjarnar? Það getur þó ekki staðist, þareð vitað er, að Eyjarnar voru ávallt bændaeign fram á tólftu öldina miðja. Manni skilst líka eðlilegast, að Ormur hafi eignast Eyjarnar eftir föður sinn og þaraf verið talinn hinn auðgi. Líka er mjög ósennilegt, að Eyjarnar hafi gengið undan Ormi, þareð föng voru hér mikil og eflaust góð og ekki hefir verið neinn skortur á landrými til reksturs stórbús.
Til skamms tíma var nokkuð á huldu, hvar bær Herjólfs stóð í Herjólfsdal.
Hauksbók segir, að hann hafi verið „fyrir innan Ægisdyr“. Það örnefni þekkist nú ekki lengur og er sennilega glatað fyrir mörgum öldum síðan. Hvar þær hafa verið, er þessvegna enn óráðin gáta. Ólíklegt er hinsvegar ekki að telja, að þær hafi verið vestur af svonefndri Torfmýri eða þar, sem við nú til dags köllum Kaplagjótu. Árni Magnússon segir, að Eyjamenn hafi sagt sér 1704, að höfnin væri Ægisdyr. Þetta fær þó ekki staðist, þareð bær Herjólfs stóð í Herjólfsdal, en ekki undir Klifinu, Skiphellum, undir Hánni eða í Botninum.
Eru engar missagnir um bæ Herjólfs, síðan rústir bæjar hans voru uppgrafnar í minni Herjólfsdals nokkuð fyrir austan Kaplagjótu. Þar þykir sannað, að bærinn hafi verið. Gat það verið nefnt „fyrir innan Ægisdyr“ og meint þá það, er við nú segjum, t.d. austan við Kaplagjótu, innan við Kaplagjótu etc. Efalaust hefir orðið mjög mikið landsig vestur á Torfmýri og stórfelldar breytingar orðið þar á landinu frá fyrstu tíð, sbr. landhrun þar síðan um síðustu aldamót. Er þess vegna alls ekki ósennilegt, að Ægisdyr væru t.d. horfnar í sjó fyrir mjög löngu síðan. En sem sagt, þó gætu Ægisdyr verið Kaplagjóta, sem nú er eða fyrr heitnar Ægisdyr, verið þar í grennd.
En nú skulu athugaðar hugmyndir manna um bæ Orms hins auðga Herjólfssonar, spjalla ekki meira um Herjólf föður hans og Herjólfsdal, staðhætti þar o.fl., sem fleira mætti um segja. Vitanlega geri ég þessu efni engin viðunandi skil, heldur ræði hér einvörðungu um tilgátur annarra manna sem leikmaður og með öllu ólærður í fornfræðigrúski.
Ekki er kunnugt, að Herjólfur hafi átt fleiri börn en Orm auðga, enda bendir allt til þess, að hann hafi verið einbirni, t.d. það, að hann átti einn allar Eyjarnar. Frá því verður að álykta, að hann hafi verið einbirni. Seint munu menn sammála um það, hvar bær Orms Herjólfssonar hafi verið staðsettur. Hafa komið fram margar tilgátur um það og menn bent á ýmiss rök máli sínu til stuðnings, tilgátur, sem gaman er að rabba dálítið um hér á eftir. Verður að sjálfsögðu hver að hallast að tilgátu þeirri, sem honum finnst sennileg.
Ekki hefir Ormsbær verið lengi í byggð fremur en Herjólfsbær, því að þegar Landnámabók er skrifuð, er þar blásið allt, sem bærinn stóð. Mun hann þessvegna vart hafa staðið lengur en til 1200 eða nálægt því. Hér eru nú orðið aðeins tveir staðir, sem bera örnefni, er benda til hamars og til greina koma, þ.e. Ofanleitishamar og Nausthamar. Í daglegu tali er Ofanleitishamar ávallt nefndur aðeins Hamar, að fara vestur á Hamar, fara út á Hamar o.fl. Hvað Nausthamri viðkemur, eru mjög litlar líkur fyrir því, að þar hafi Ormsstaðir verið.
Nausthamar hefir trúlegast aldrei verið annað en fremur lágur hraunhóll, sem náð hefir skammt eitt upp úr jörð og þess vegna aldrei verið sem raunverulegur hamar, síðan hann varð til í þeirri merkingu, sem nafnið bendir til, og við leggjum í það orð. Fyrrum hefir Nausthamar líklega verið eitthvað hærri en hann var í okkar tíð, sem munum hann vel. Var hann þá og allhár, t.d. um há-fjöru, er sjór féll alveg frá honum að austan. En fyrr á öldum hefir ef til vill verið lagður annar skilningur í orðið hamar hér í Eyjum en t.d. á meginlandinum. Á slíkt sér greinilega stað um fjölmörg örnefni hér, t.d. þareð smáhvilftir eða lautardrög eru nefnd dalir Vatnsdalur, Helgafellsdalur, Hafursdalur o.fl. Sennilegast er nafngiftin Nausthamar komin frá bátauppsátri, þ.e. Naust, sem hefir orðið til eftir landbrotið utanfrá. Er mér og næst að halda, að Nausthamar hafi aldrei verið neinn raunverulegur hamar. Bendir líka margt til þess, að hann hafi jafnvel alls ekki verið til um landnámstíð og ekki fyrr en land lækkaði í nágrenni hans af völdum sjávar og uppblásturs. Talið er fullvíst, að landið hafi lækkað utan frá Hörgaeyri og allt inn að Hlíðarbrekkum um 6 til 8 metra. Skulum við víkja síðar að þessu.
Við Ofanleitishamar hafa Ormsstaðir því aðeins getað verið, að þar hafi verið landrými, sem nú er löngu sokkið í sæ eða afbrotið af völdum sjávargangs og jarðhræringa. Margt bendir og ótvírætt til, að einmitt á vesturströnd Heimaeyjar hafi mjög miklar landbreytingar átt sér stað, og að þar hafi verið sæmileg lending og útræði. Hitt skal svo ósagt látið, hvort þarna hefir verið svo víðfemt land að Ormsstaðir hafi getað verið þar. Nú er sem sagt ekkert nema nafnið, sem bendir til staðarins, þ.e. við hamar niðri.
Séu ummæli Hauksbókar „við hamar niðri“ miðuð við Herjólfsdal, sem líklegt er, þá kemur það vel heim við það, að þegar Árni Magnússon var hér í Eyjum og grennslaðist fyrir, hvar Ormsstaðir hefðu staðið, sögðu Eyjamenn, að Ormsstaðir hefðu staðið við Ofanleitishamar. Á því töldu þeir engan vafa. Hitt er svo staðreynd, að mjög varhugavert er að treysta fullkomlega á sögusagnir, jafnvel um atriði, sem skemmra er frá liðið. Má þar til benda á sagnirnar um bæ Herjólfs. Af skiljanlegum ástæðum verður þessvegna ekkert hægt að segja um eða álykta með neinni vissu, hvar Ormsstaðir hafi verið staðsettir, þótt ýmislegt bendi t.d. til, að þeir hafi verið við Ofanleitishamar.
En til eru enn fleiri tilgátur um Ormsstaði. Því hefir t.d. verið haldið fram, að Ormsstaðir hafi staðið hjá svonefndum Sandskörðum, þ.e.a.s. skammt suðaustur af Hánni. Þar hefir allt blásið upp og ábyggilega gert margoft síðan á landnámsöld. Á seinni árum hefir séra Jes A. Gíslason fært sterk rök að því, að einmitt þarna hafi Ormsstaðir verið. Hafa fundist þarna bæjarrústir allmiklar og fornlegar og í þeim og í námunda við þær ýmsir munir og aðrar leifar byggðar. Meðal annars fundust þar eldbrunnir hlóðarsteinar, steinkerabrot frá landnámstíð og fornlegur skipanagli. Þessutan fundust beinaleifar úr sauðfé, hrossum, selum, svínum og fuglum, t.d. Geirfuglum. Þarna mun þessvegna hafa verið byggð nokkuð lengi. Allt fram til síðustu ára hafa sést þarna leifar túngarða, sem rekja mátti alla leið niður að Skildingafjöru. Ekki er heldur langt síðan, að í ljós kom tvíhlaðinn túngarður undan sandbrekkunni neðan við Náttmálaskarð, skammt norðan við Skiphella.
Árið 1960, þegar verið var að dæla vatninu úr skurðinum, sem grafinn var vegna vatnsleitar norður af Skiphellum neðan Náttmálaskarðs og þar í grennd, og niður í Friðarhöfnina, kom upp tvíhlaðinn grjótgarður. Var hann hlaðinn úr blágrýti, móbergi og hraungrjóti, um tveggja feta breiður. Var hann undir allt að því 2-1/2 til 3 metra þykku sandlagi og hafði stefnu upp að brekkunni neðan Náttmálaskarðs. Kom hleðslan í ljós, er hið rennandi vatn gróf sig niður í sandinn. Að þarna hafi verið um túngarð að ræða, tel ég engan vafa á. Gæti það auðveldlega hafa verið girðingin á norðurmörkum túnsins á Ormsstöðum, sem þá hefur verið mjög stórt. Er það ekkert ósennilegt, því að meira en nægilegt landrými hefir verið, þareð Ormur var einn eigandi Heimaeyjar. Þótt engin sönnun sé fyrir því, að þarna hafi Ormsstaðir verið, þá hefir þar verið einhver bær til forna. Hefir þarna verið ágætt túnstæði, ef dæma skal eftir landslagi í austur og norður, áður en það var niðurbrotið í garða, og áður en síðustu flatirnar og rofin hurfu í uppblástur og sandauðn. Hinsvegar er ekki kunnugt, að þar hafi nokkurntíma staðið bær, og ekki fara sögur af neinum öðrum jörðum hér í Eyjum, sem vafi leikur á, hvar verið hafi nema einmitt Ormsstaðir.
Bæjarstæði hefur verið þar heldur slæmt vegna þess, hve veðrasamt þar er og því hætt við uppblæstri, eins og líka hefir raun á orðið. Hvað vatnið snertir, þá hefir verið all löng leið eftir því inn í Herjólfsdal, hafi ekki verið um annað að ræða. En skeð gæti að á fyrstu byggðarárum Eyjanna hafi menn notað vatnið inni í Botni. Þá var stutt frá Hánni að sækja vatn. Um og eftir 1800 sáust enn mjög fornar brunnleifar inni á Flötum er nefndar voru „Andresbrunnar“. Ekki verður það nafn skýrt til hlítar, en bent gæti það til kaþólsks siðar. Hitt virðist augljóst, að ekki hafi verið hægt að reisa bæ nær Herjólfsdal meðan hraunið var ný til orðið eða svo.
Það er mjög vafasamt, að Háin hafi nokkurntíma verið kölluð Hamar. Þó getur þetta hafa verið á annan hátt hér heldur en uppi á fasta landinu, sbr. Nausthamar. Mörg fleiri hamarsheiti hér í Eyjum benda öll á staðhætti í náinni líkingu við Ofanleitishamar, Rauðhamar í Brandinum, Rauðhamar í Stórhöfða, Búðarhamar í Álsey, Réttarhamar, Steðjahamar í Elliðaey og Suðurhamar, o.fl. Eru þetta ýmist brunagrjóts-, blágrýtis- eða móbergshillur og bekkir, allháar með grastætlum eða syllum hér og hvar og slæmt yfirferðar vegna lausgrýtis, sumsstaðar þverhnípt eins og t.d. á austurbrún Heimaeyjar, þ.e. Flugin. Öll benda þessi hamarsheiti á staðhætti líka og í Ofanleitishamri og styrkir þá skoðun, að þar í grennd hafi Ormsstaðir verið. Einn hamar sannar máske best hamarsheitin til Ofanleitishamars. Það er Lambhilluhamar í Stórhöfða að sunnan. Hann er svo líkur Ofanleitishamri að mjög auðvelt er að ímynda sér, að verið sé að klifa í honum þegar farið er upp og ofan Lambhilluhamar eða þegar staðið er neðan undir honum. Sama mætti og segja um Grásteinshamar í Stórhöfða. Öll þessi hamarsheiti styðja þessvegna fastlega, að við “hamar niðri“ hafi Ormsstaðir staðið, og slík heiti beri aðeins staðhættir, sem hér hafa verið nefndir, en ekki t.d. Háin. En það nægir ekki til þess að sanna staðsetningu Ormsstaða við Ofanleitishamar. Nafngiftirnar gátu verið annarsvegar hér en á meginlandinu.
Um Ormsstaði hafa komið fram fleiri tilgátur, sem einnig hafa verið færð nokkur rök að, t.d. því að bærinn hafi staðið í Stóru-Löngu. Hafa allmargir aðhyllst þá tilgátu. Mikil líkindi eru fyrir því að á landnámsöld hafi verið samfellt land, þar sem nú er innrihöfnin, þ.e. bátalegan, allt frá Hlíðarbrekkum austur að Hörgaeyri og Hafnareyri. Í fyrstu hefir verið aðeins lítill vogur inn milli eyranna, sem nefndur hefir verið „Lækur“, sem er fornt örnefni. Árni Magnússon getur þess örnefnis í greinum sínum þanni: „Þvottapollur meinast að vera þar sem nú kallast Lækur. Það er innanvert við Skansinn þar sem skipin lenda.“ Nafnið Botn bendir einnig á land áður, komið af Botnar.
Fleira styrkir þá skoðun, að land hafi þarna verið. Árið 1936 var allstórt svæði í innanverðri höfninni dýpkað um ca 3 metra. Undir 50 til 100 cm sandlagi var þá komið niður á jarðlag, sem var 2 m. á þykkt, en þar undir var móhella eða hraunlag. Komu þarna upp miklar gróðurleifar og mómyndun, sem jarðfræðingar telja, að hafi verið fyrr á tjarnarbotni. Af dýpt þessa jarðlags var ætlað, að síðan gróður þessi þróaðist hafi landsig orðið þarna mikið eða minnst 8 metrar. Aldur gróðursins varð þó ekki ákveðinn, en engin fjarstæða væri til að ætla, að hann hafi myndast á landnámsöldinni.
Vissa er fyrir því, að árið 1000 var Hörgaeyri svo hátt úr sjó að þeim Hjalta Skeggjasyni og Gissuri hvíta þótti gerlegt að byggja þar kirkju, en þar stóðu, fyrir þann tíma, hof og hörgar, er brotin voru niður, þegar kirkjan var byggð.
Það var venja landnámsmanna að reisa hof sín og hörga í námunda við bæi sína, þótt ekki hafi það verið algild regla. Ekki hafa sést þess nein merki eða heimildir fyrir því, að Herjólfur Bárðarson hafi byggt hof eða hörga í dalnum sínum. Það gæti hafa komið til af þeirri ástæðu, hve stuttan tíma hann hefir búið þar. Þessutan gæti og skeð, að hann hafa verið kristinn maður sem margir landnámsmenn voru, er komu frá Englandi, og einmitt þaðan er talið, að Herjólfur hafi verið. Fyrir því eru þó enn ekki fundnar óyggjandi heimildir, þ.e. hvaðan hann kom til Íslands.
Allt öðru máli gegnir um Orm Herjólfsson, því að allflestir synir hinna kristnu landnámsmanna köstuðu þeirri trú og er talið, að Ísland væri nær því heiðið um eitthundrað ára bil. Þess vegna er mjög líklegt, að Ormur hafi reist hörgana og blótin í námunda við bæ sinn í Stóru-Löngu, þar sem þeir Hjalti og Gissur byggðu kirkjuna árið 1000. Leifar kirkjugarðsins hafa og fundist í Litlu-Löngu og þar fundist hreint ekki svo fáar beinagrindur manna og einstök bein, nær því allt til síðustu ára.
Bæjarstæði hefur verið fagurt í Stóru-Löngu og skammt í útræði. Vatn hefir verið mjög nærtækt og nægilegt úr Heimakletti, bergvatn, og er svo enn. Neðri-Kleifna bergið er mikill hamar og allhár og er ekkert ósennilegt að einmitt Neðri-Kleifar hafi í fyrndinni verið nefndar Hamar og Ormsstaðir staðið þar, þ.e. við Hamar niðri.
Ekkert er líklegra en landið utan við Hörgaeyri og Hafnareyri inn að Hlíðarbrekkum að vestan, suður að hæðardraginu í línu frá Skansinum og vestureftir allt að Sjóbúðarhól, en breikkað þar enn meir til suðurs allt suður að Brimhólum og norður að Eiðinu, sem nú er, en þá hefir verið aðeins sandur mót norðri, en grasflatneskja til suðurs, - hafi verið hið eiginlega undirlendi Heimaeyjar. Sést þetta greinilega, ef dæma skal eftir landslaginu fram af Skiphellum, Hánni og Stóra og Litla-Klifi. Virðist landið hafa verið slétt flatlendi, og hefir Ormur auðgi þessvegna haft góð tún og mikil.
Í Kristnisögu segir, að varpað var hlutkesti um, hvoru megin vogsins kirkjan skyldi standa, er þeir Hjalti og Gissur byggðu, og hlaust fyrir norðan voginn. Styrkir það ekki einnig, að bær hafi verið þar nálægt? Og er þá ekki trúlegt, að það hafi einmitt verið Ormsstaðir? Sunnanmegin vogsins stóð Höfn, þar sem Skansinn stendur nú. Þetta eru þá tilgátur manna um staðseting Ormsstaða. Af þeim verður þó aldrei ráðið og úr skorið, hvar þetta fornfræga býli hefir verið...
Af framansögðu um hið eiginlega undirlendi Heimaeyjar að norðan, þ.e. frá Hörgaeyri og inn í Botn vogsins, sést, að frásögnin um það, að Ingólfur Arnarson hafi drepið þræla Hjörleifs fóstubróður síns á Eiðinu milli Stóra-Klifs og Heimakletts, sem síðan hafi heitið Þrælaeiði, getur alls ekki verið rétt. Eiðið, sem slíkt, hefir þá ekki verið til. Sunnan að því hafa þá verið blómlegar gróðursléttur og flatneskja, en að norðan hefir þar sennilega verið malarsandur, ægissandur. Þar gátu þrælarnir hafa lent bát sínum og þar gat Ingólfur hafa séð til ferða þeirra og síðan drepið víðsvegar um nágrennið, t.d. Dufþak í Dufþaksskor, Mána í Mánaskoru í Klifinu o.s.frv.
Nafnið Eiði eða þrælaeiði hefir þess vegna orðið til einhvern tíma seinna og þá í sambandi við löngu liðinn atburð. Sandurinn að norðan gat t.d. hafa heitið Þrælasandur og Eiðið, eftir að það myndaðist, þá hafa verið nefnt eftir sandinum og þrælunum og nefnt þrælaeiði. Hin sögnin er fráleit alveg eins og sögnin um, að Ingólfur hafi séð Eyjarnar af Hjörleifshöfða. Það fær heldur ekki staðist. Dyrhólaey og fleiri fjöll hljóta að hafa varnað slíks útsýnis af Hjörleifshöfða.
Hér að framan hefir oft komið fyrir eitt fornt örnefni, sem lítill gaumur hefir verið gefinn sem og hitt, að menn hafa sennilega lítið hugsað um uppruna þess. Það eru Hlíðarbrekkur, en svo eru brekkurnar neðan Stóra-Klifs nefndar, allt sunnan frá sandbrekkunni neðan Náttmálaskarðs norður að sjónum, þ.e.a.s. norður að Skönsum. Hlíðarbrekkur er einkennileg nafngift á fjallshlíð, grasi gróinni brekku, þareð nöfnin hlíð og brekka eru svo náskyld orð að þau rauverulega þýða það sama. Hvað veldur þá nafngiftinni?
Sem fyrr segir, kom í ljós tvíhlaðinn túngarður í sandbrekkunni neðan Náttmálaskarðs, sem fróðir menn töldu vera norðurtakmörk túnstæðis Ormsstaða, ef þeir hefðu staðið suðaustur af Hánni. En hvað var þá fyrir norðan þessa garðhleðslu? Voru það ekki tún líka, sem tilheyrt hafa býli, er nefnt hefir verið Hlíð og þá sennilega staðið neðan Stóra-Klifs neðan við brekkurnar, sem svo hafa hlotið nafn sitt af bæjarheitinu og verið nefndar Hlíðarbrekkur? Ekki fyndist mér þetta ósennilegt, þótt ég hafi aldrei heyrt getið býlis þarna í grennd, eða aðrir, sem ég hefi átt tal við um þetta. Séra Jes A. Gíslasyni fannst þetta mjög sennileg tilgáta viðvíkjandi brekkunum, þótt hann hefði heldur aldrei heyrt talað um býlið Hlíð á þessum slóðum. Það afsannar hinsvegar ekki hugsaðan uppruna örnefnisins og styður þá hugsun, að vafi leiki á um fleiri forn býli í Eyjum, staðsetningu þeirra og fleira en Ormsstaði. Hinn tvíhlaðni grjótgarður, sem kom upp í flæðarmálinu þegar vatninu var dælt úr skurðinum neðan Náttmálaskarðs og gróf sig þar niður á allstóru svæði, hafði stefnu úr innsta botni Friðarhafnar rétt syðst á brekkuna neðan Litla-Klifs. Það gat vel verið suðurmörk túnsins í býlinu Hlíð eða garður milli túna „Hlíðar“ og „Ormsstaða“?
Að lokum er hér enn ein röksemdafærsla fyrir því, að Ormsstaðir hafi verið við Hamar niðri og tilveru sléttlends grasgróðurs, þar sem síðar varð skipalegan. Rof eitt var sunnan Almenningsréttarinnar á Eiðinu. Það var rúmir 2 metrar á hæð og bersýnilega leifar hins upprunalega láglendis. Hæð þess ofan sjávarmáls var 4 metrar. Í Neðri-Kleifum er Skrúðabyrgi, en þar er sagt, að skrúði kirkjunnar hafi verið geymdur síðast. Nú er byrgið svo hátt uppi í berginu að ekki verður í það farið nema síga í það ofanfrá. Lengi frameftir og allt til síðustu ára, mátti ganga þurrum fótum fyrir neðan Neðri-Kleifar inn undir Stóru-Löngu um fjöru sjávar. Fyrrnefnt rof sunnan Almennings var 2 metrum hærra en flóð sjávar. Nausthamarskollurinn var jafnhár rofi þessu, og var hann með allþykkt moldarlag á kollinum, grasi gróinn allt fram á síðustu tilveruár sín. Innst á Hörgaeyri var einnig allþykkt moldarlag grasi gróið, a.m.k. litlu eftir aldamótin síðustu. Innan Botna voru mörg rof og stór, austan Skiphella og nokkuð norðureftir. Þau voru mjög nálægt því að vera 2 metrar á hæð og líklega mjög nálægt því að vera 2 metra ofan við flóð sjávar. Ef maður væri staddur á miðpunkti bátalegunnar þá væri rofið vestan eða sunnan við réttina í útnorður, Hörgaeyri í landnorður, Nausthamar í landsuður og rofin austan Skiphella í útsuður. Hápunkutur nefndra staða var grasigróinn og jafnhár. Það sannar, að öll höfnin hefir verið einn grasflötur, og hæð hans verið að jöfnu við nefndar línur. Það er talið, að kirkjan hafi verið flutt af Hörgaeyri inn undir Stóru-Löngu, þegar ágangur sjávarins tók að aukast eftir myndun vogsins inn milli eyranna Hörga- og Hafnareyrar. Þá hefir fyrrnefnt byrgi í Neðri-Kleifum verið notað til geymslu skrúða kirkjunnar og fengið þaraf nafngift sína Skrúðabyrgi, en kirkjugarðurinn var sem áður sagt undir Litlu Löngu. Um þetta leyti hefir Nausthamar ekki verið til – verið undir grasi og þá hefir Ormur búið búi sínu að Ormsstöðum undir Stóru-Löngu eða við Hamar niðri.
Þegar þeir Hjalti og Gissur komu með kirkjuviðinn, lentu þeir skipi sínu við Hörgaeyri að austan. Þar hefir verið bestur lendingarstaður. Þar hefir og Ingólfur Arnarson lent skipi sínu, er hann kom að leita að þrælum Hjörleifs. Þá hafa skerin, sem syðri hafnargarðurinn er byggður á, verið undir jarðlagi og m.fl., því að margt hefir breyst á 9 öldum eða síðan kirkjan var byggð á Hörgaeyri.
Austan-sjórinn og rokið hefir ekki verið aðgerðarlaust, en smátt og smátt brotist inn voginn, jarðvegurinn hefir blásið upp og þar við rutt sjónum leið inneftir landinu, sem aðeins skildi eftir hæstu hraundrangana, t.d. Nausthamar og skerin sunnan megin, utar og innar. Þannig hefði þetta enn haldið áfram, alla leið upp að Hlíðarbrekkum, hefði ekki verið lagt í að hækka sandkambinn þar fyrir nokkrum árum. Uppblásturinn hefir verið mjög mikill, svo að ekki hefir verið mikið erfiði fyrir Ægi að ryðja sér braut inneftir landinu og kaffæra það undir sjó. Þar við myndaðist svo bátalegan. Öll rofin, fyrir sunnan Almenningsréttina, neðan við Hlíðarbrekkur, innaf Gamla Pósti, austan Skiphella og Háar, voru vissulega síðustu leifarnar af hinum slétta jarðvegi, sem náð hefir frá Eiðinu upp að Briðmhólum og austur og út að Hörgaeyri.
Þetta virðist alveg auðsætt og sanna í margra augum, hvernig hér var umhorfs fyrir og um daga þeirra feðganna Herjólfs Bárðarsonar og Orms Herjólfssonar, sem nefndur var hinn auðgi, því að hann átti einn allar Eyjarnar og bjó á Ormsstöðum við Hamar niðri, sem nú enginn veit með neinni vissu, hvar hefir verið staðsettur.
Persónulega hallast ég helst að þeirri skoðun, að Herjólfur hafi búið í mynni Herjólfsdals, þar sem bæjarrústirnar fundust og voru uppgrafnar árið 1924. Voru það allstórar hústóftir, en höfðu að áliti sérfróðra manna, verið stutt í íbúð. Það sannaði hin þunna gólfskán. Aðalhúsið hefir ekki verið nein smásmíði, þareð það var 25 m á lengd og nær 5 m á breidd við norðurgaflinn. Í þeim hlutanum hefir líklega verið eldúsið – eldhúsið eða aðalíveruhús karla. Veggjaleifarnar voru hlaðnar úr blágrýtissteinum úr skriðunni neðan Blátinds.
Rétt vestan við þessa tóft fannst önnur, sem var nálægt 6-1/2 sinnum 3 m að stærð. Þarna fyrir vestan var svo þriðja tóftin, sem var 9-1/2 sinnum 3-1/2 m að stærð.
Matthías Þórðarson fornminjavörður taldi allar rústir þesar mjög fornar, þó einkum langhústóftina. Með þessum uppgreftri var það álitið full sannað, að þar hefði Herjólfsbær verið, og aðalhúsið hefði verið langhúsið.
Þess má og geta, að fleiri rústir fundust þarna skammt sunnar, sem einnig voru rannsakaðar og voru álitnar vera mjög fornar. Fundust þar miklar beinaleifar dýra, heinarbútur og járnleifar. Enn sunnar fundust svo leifar býlis á hól, þar sem nokkuð var af aðfluttu grjóti. Hafa þarna þá sennilega verið hinar fornu verbúðir, sem sagðar hafa verið inni í Dalveri. Máske hafa og þarna verið Mýrarhús, sem umgetur í jarðabókinni 1587, og byrjar Torfmýri þar rétt vestan við hólinn. Þar voru og húsmannahúsin úti í Gjótu.
Þar er og talið, að útræði hafi verið frá Torfmýri, frá svonefndum Ægisdyrum, örnefni, sem sagt ekki er nú til lengur, en trúlegast hefir verið vestur af Torfmýrinni, áður en land braut þar, sem efalaust hefir skeð í all stórum stíl.
Enn í dag þykir Herjólfsdalur einn af fegurstu stöðum Heimaeyjar. Ekki hefir fegurð hans verið minni, er Herjólfur byggði bæ sinn þar, ákaflega fagurt bæjarstæði og á margan hátt hentugt, t.d. skammt til vatns frá nærliggjandi fjöllum, nærtæk fuglatekja og trúlega stutt til fiskjar, dalurinn grösugur og grasnytjar sennilega miklar þarna um vestanverða eyjuna, áður en uppblástur fór að segja til sín á landinu. Þá hefir vitanlega þrengst um býlið í Dalnum. Mun það og ef til vill hafa orðið ein orsökin til þess, að Ormur son Herjólfs byggir Ormsstaði við Hamar niðri. Þar hafa þá líka verið víðfeðm graslendi og mörg önnur hliðstæð hlunnindi viðkomandi býli og var í Herjólfsdal. Þá hefir og bær Herjólfs lagst niður, er Ormur byggði nýbýli sitt. Fullkomin sönnun fyrir hinni suttu íbúð í bæ Herjólfs er hin þunna gólfskán, sem í ljós kom við uppgröftinn 1924, þ.e. aðeins 1 cm á þykkt.
Þótt Ormi muni eflaust hafa þótt fagurt í Herjólfsdal, hefir hann af nefndum ástæðum (eflaust) verið tilneyddur að fara þaðan og byggja við hamar niðri nýbýli sitt. Þar hefir brýn nauðsyn orðið fegurðinni yfirsterkari. Mætti eflaust leggja Ormi í munn eftirfarandi, sem enn og alltaf er sígilt um Herjólfsdal:

Hér er lífið svo hlýtt,
ó, hve landið er frítt,
er hið litauðga skraut, sem við auganu hlær,
faðmar ljósríkust sól
eins um lautu og hól,
og er líður um Eyjuna kyrrlátur blær.


Nú er glatt inn í Dal,
það er glymur í sal,
því að gull-lúður þeytir í hamrinum dís.
Það er fagurt að sjá
eins og fagni hvert strá,
þegar fuglinn með söngum úr berginu rís.
Ofan háfjallsins brún,
niður hlíðar og tún,
upp um hamrana bröttu í fuglanna ból,
Yfir hraun, yfir bæ,
út um hyldjúpan sæ
líður himneskur ylur frá geislandi sól.

En hvað svo um Ormstaði? Mér finnst sennilegast að þeir hafi staðið undir Stóru-Löngu undir Heimakletti, við Hamar niðri. Allt virðist benda til þessarar staðsetningar á Ormsbæ. Fer ég ekki að rekja hér aftur það, sem ég hef um þetta sagt hér að framan, framyfir það, að þar hefir verið eitt hið fegursta bæjarstæði í Eyjum, meðan land þar var allt óblásið og óbrotið, rennisléttar grasflatir á alla vegu, nærtækt vatn, stutt til fiskjar og fugls. Tún hafa því eflaust verið mjög stór hjá Ormi bónda og hlunnindi hans mikil til lands og sjávar.
Hér læt ég svo útrætt um þetta hugþekka mál, sem menn verða víst aldrei á eitt sáttir um, hvernig leysa beri á þann hátt, að allir geti orðið sammála um, hvar býli Orms hins auðga Herjólfssonar hafi verið staðsett á Heimaey.

Mynd, sem vantar. (Heimaslóð): Mynd þessi sýnir síðustu leifar hins forna jarðlags fyrir Botninn, austan Háarinnar, Skiphella, og Stóra-Klifs. Rof þessi voru all stór og slétt vel að ofan, allt að tveggja metra há og náðu sunnan frá Há og norður á Eiði. Eins og myndir sýnir glögglega er ekki langt frá sjávarkampinum upp að fremstu rofunum. Ofan við rofin sér sandinn, sem efalaust hefir fyrrmeir verið grasflatir eins og rofin hafa verið, hið slétta undirlendi, sem náð hefir allt út að Hörgaeyri.
Eftir bátafjöldanum að dæma mun mynd þessi vera frá árunum 1908/09.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit